22.02.1979
Sameinað þing: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2733 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

60. mál, innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa stuðningi mínum við þá till. sem hér liggur fyrir til umr., á þskj. 66, um innkaup opinherra aðila á íslenskum iðnaðarvörum. Ég vil líka svara hv. 4. þm. Vesturl. þegar hann segir að kenningar Sjálfstfl. um frjálsa samkeppni standist ekki. Það er alrangt og hann ætti að kynna sér betur hvernig hin frjálsa samkeppni var studd í innkaupum Reykjavíkurborgar meðan Sjálfstfl. réð þar ríkjum. Þar hefði hann séð í fullum gangi þá kenningu sem hann telur í hættu.

Till., sem nú er til umr., gerir ráð fyrir að það verði kannað í samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga eftir hvaða leiðum er unnt að auka verulega innkaup ríkis og sveitarfélaga á því sem þessir aðilar þurfa að kaupa inn. Það er tiltölulega nýafstaðið íslenskt iðnkynningarár, eins og fram kemur í grg. Á þessu iðnkynningarári gekk það eins og rauður þráður í gegnum allt þjóðfélagið, að nú skyldi kaupa íslenskt, auka neyslu innanlands á íslenskum framleiðsluvörum. Það hafði einhver áhrif, en tvímælalaust minni áhrif en efni stóðu til og ekki eins mikil áhrif og það fjármagn, sem sett var í þetta iðnkynningarár, gaf ástæðu til að vona fyrir fram. Til þess eru ýmsar ástæður.

Ég verð að segja að sú iðnkynning, sem átti sér stað hér á Reykjavíkursvæðinu, opnaði augu mín fyrir því, hvað íslenskur iðnaður er fjölbreyttur, hvað margt er framleitt, hvað varan er vönduð og hve lítil ástæða er til að kaupa erlent þar sem íslensk hönd og hugvit kemur nálægt. En því miður, og það er það sem gefur þessari till. hvað mest gildi, eru það oft opinberir aðilar, ríkið og sveitarfélög, sem koma í veg fyrir að íslenskur iðnaður komist að í samkeppni við erlendan á okkar innlenda markaði. Ætla ég að nefna dæmi um það.

Elsta dæmið, sem ég veit um, er að Rafha í Hafnarfirði var komin með sérstaka deild þar sem fjöldi manns, ég held milli 15 og 20 manns, vann að framleiðslu á straumbreytum sem mikið eru notaðir um land allt, — ég held ég fari rétt með þegar ég tiltek þessa vörutegund: straumbreyta, og hafði þá búið sig undir að þjóna íslenskum rafveitum, bæði sveitarfélögum og ríkinu. En innlendir opinberir aðilar biðu með útboðslýsingar sínar þangað til á vörunni þurfti að halda og buðu þá út það magn og með það stuttum afgreiðslutíma að Rafha stóð hvorki undir fjármögnun á hráefni til framleiðslunnar né heldur gat hún keppt með sínum tiltölulega fáu mönnum, sem að þessu unnu og höfðu sérþekkingu, við erlendar stórar verksmiðjur. Þessi framleiðsla Rafha hefur nú lagst niður og þekkingin er að hverfa, því að mennirnir, sem störfuðu að þessari framleiðslu og höfðu áunnið sér reynslu og þekkingu við framleiðsluna, eru hættir í verksmiðjunni og komnir í önnur störf eingöngu vegna þess að pantanir eða útboð frá opinberum íslenskum aðilum voru of stór til að verksmiðjan réði við framleiðsluna með þeim afgreiðslutíma sem hún þurfti að standa við. Þarna hafa íslenskir opinberir aðilar hreinlega orðið til þess að drepa niður íslenskan iðnað í staðinn fyrir að það hefði verið hægt að gera langtímaáætlun um hvað mörg stykki af þessum straumbreytum, — ef ég má nota það orð, ég er ekki alveg viss um að það hafi verið straumbreytar, en mig minnir það,— hefði þurft að nota dreift yfir ákveðið langt tímabil, eitt ár eða fleiri ár, í stað þess að bíða þangað til á miklu magni vörunnar þurfti að halda.

Annað dæmi er mér minnistætt frá iðnkynningarsýningunni hér í Reykjavík, afhyglisvert dæmi um við hvaða skilyrði íslenskur iðnaður verður að búa. Við sáum á þessari sýningu smáa hluti og stóra hluti sem ekki voru flóknir í framleiðslu. Við sáum líka flókna hluti, tölvur o.fl., sem íslenskir aðilar bjuggu til, byggðu upp innlendis. Mér er sérstaklega minnistæður einn sýningarbás, þar var íslenskt litsjónvarp. Þar voru ungir menn sem voru með íslenskt sjónvarp. Og í næsta bás við var íslensk tölvutækni til sýnis. Hvorugur þessara aðila gat framleitt í neinu magni vegna þess að þeir þurftu að standa skil á svo háum opinberum gjöldum að þau væru sambærileg við þær tolltekjur sem ríkið hefur af þessum sömu tækjum erlendis frá. Ég veit ekki hvort þessir ungu íslensku iðnaðarmenn og hugvitsmenn hafa haldið áfram framleiðslu sinni að einhverju óverulegu marki, kannske bara til þess að halda þekkingunni við, en a.m.k. töldu þeir sig ekki geta framleitt á tíðkanlegu verði, vegna þess að þeim fannst það of dýrt eða of lítið, sem þeir fengju að halda eftir, til þess að það borgaði sig.

Ég held að það sé full ástæða til að þáltill. þessari, sem hv. þm. Eggert Haukdal flytur verði flýtt og þeirri athugun, sem hann óskar eftir að fram fari, verði einnig flýtt.

Við skulum taka annað dæmi, vegna þess að Coca- Cola hefur komið hér til umr. Coca-Cola og sú mikla útbreiðsla, sem Coca-Cola hefur notið hérlendis og annars staðar, hefur ekki bara verið til bölvunar. Coca-Cola hefur orðið til þess, að íslenskur aðili, bændasamtökin eða Mjólkursamsalan í Reykjavík, hefur tekið upp þá nýjung að hafa í boði nýjar tegundir af svaladrykkjum sem eru í beinni samkeppni við þá hefðbundnu svaladrykki sem hafa verið hér á markaðnum árum og áratugum saman og að sjálfsögðu hafa náð hámarki með því geysilega magni sem selt er af Coca-Cola. Við verðum að vona að þessi framleiðsla Mjólkursamsölunnar breyti drykkjuvenjum á svaladrykkjum á Íslandi þannig, að sú tilraunastarfsemi beri þann árangur að Íslendingar drekki meira af því sem framleitt er innanlands úr innlendum svaladrykkjaefnum.

Ég ætla ekki að segja miklu meira um þetta mál. En ég vil leggja áherslu á það, að Reykjavíkurborg undir forustu Sjálfstfl. tók upp þá stefnu að kaupa innlendar framleiðsluvörur jafnvel þó mismunur færi fram úr 15% hærra verði á erlendum sambærilegum vörum. Við höfum í sumum tilfellum, þegar starfsgrein hefur verið í hættu, eins og t.d. þegar smíði yfirbygginga á strætisvagna var ákveðin innanlands, greitt 30% hærra verð til þess að reyna að halda í landinu þessari framleiðslu og þeirri þekkingu sem það fyrirtæki hafði, þ.e. Bílasmiðjan. En því miður fór það svo, að þessi framleiðsla lagðist niður þrátt fyrir viðleitni borgarinnar.

Ég vil líka segja það, að 15% munur er enginn munur, hann er ekki íslenskum iðnaði í hag. Ef við tökum það verð, sem boðið er erlendis, frá og svo verð á sambærilegum íslenskum iðnaðarvörum og drögum frá því verði öll þau opinberu gjöld, sem hvíla á framleiðslunni, og öll þau opinberu gjöld, sem tekin eru af þeim íslensku höndum sem vinna við framleiðsluna, allt það sem þessir aðilar greiða í opinber gjöld, og drögum það frá verðinu, þá eru í 5% ekki nóg. Það má hafa þessa upphæð miklu hærri til þess að gera hana sambærilega, því að erlendir aðilar, sem bjóða framleiðslu sína á íslenskum markaði, standa okkur ekki skil á neinum opinberum gjöldum. Erlenda tilboðið er nettótala sem fer til útlanda. Ég vil því ljúka þessum orðum mínum með því að lýsa yfir fyllsta stuðningi við fram komna till. hv, þm. Eggerts Haukdals og vona að sá skilningur ríki hér, að hún sé nauðsynleg og þar af leiðandi verði allt gert til að greiða götu þessarar till. í gegnum þing og nefnd og að hún komist sem fyrst til framkvæmda. Okkur ber skylda til að styðja við bakið á íslenskum iðnaði sem mest við megum. Það er þjóðarhagur.