22.02.1979
Sameinað þing: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2735 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

18. mál, gjald á veiðileyfi útlendinga sem veiða í íslenskum ám

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er rétt, að hér er um að ræða 18. mál þingsins. Það virðist því vera kominn tími til að skila þessari till. af sér til n., svo að hún fái venjulega þinglega meðferð. Það má vel vera að þeir, sem voru á mælendaskrá, séu farnir að týna tölunni, því að síðast mun þessi till. hafa verið rædd á aðventu fyrra árs. En þar sem ég hafði lofað að koma nokkrum aths. á framfæri ætla ég að nota tækifærið og segja örfá orð um till. áður en hún fer sina þinglegu leið.

Þegar málið var hér síðast á dagskrá var það rætt almennt frá ýmsum sjónarmiðum, bæði veiðiréttareigenda og veiðimanna, og komu fram ýmis viðhorf. Ég ræddi málið þá stuttlega frá sjónarmiði veiðiréttareigenda, en seinna hafa nokkrir forustumenn íslenskra stangveiðimanna komið að máli við mig. Þeim þótti nokkuð á sig eða sinn málstað hallað í ræðum sumra þeirra er töluðu um málið á síðasta ári. Það er reyndar fjarri lagi að gera þessa till. eða umr. um hana að nokkru árásarefni á íslenska stangveiðimenn, því að það er auðvitað fríður flokkur manna og yfirleitt ágætismenn, þó að oft sé misjafn sauður í mörgu fé. Þau orð, sem ég hef um þessa till. hér á eftir, verða því aðallega töluð frá sjónarmiði íslenskra stangveiðimanna og þeirra annarra sem vilja njóta návistar við íslenska náttúru og hafa af því nautn og yndi.

Þeir hafa fyrst látið þess getið, að Landssamband ísl. stangveiðimanna var stofnað 1950. Það kom fram í máli manna, að um væri að ræða allt að 33 þús. stangveiðidögum á ári, af þeim hefðu Íslendingar um 19 þús., útlendingar um 5 þús., en um 8900 dagar væru óseldir. Þá hafa sumir viljað segja sem svo: Hvað eru íslenskir stangveiðimenn að kvarta? Hvers vegna kaupa þeir ekki upp þessa 8900 daga? — Þá hefur verið tekið fram að þessir veiðidagar séu yfirleitt hinir lélegustu, þeir séu í bæjarlækjum og smálækjarsprænum þar sem lítil sé veiðivon. Bent hefur verið á að útlendingar hafi yfirleitt besta tímann og bestu árnar. Í því sambandi hafa verið nefndar margar ágætar veiðiár og þarf raunar naumast annað en nefna þau nöfn sum til þess að mönnum standi ljóslega fyrir hugskotssjónum að þar er um girnilegar veiðiár að ræða. Ég nefni nokkur þeirra nafna: Það eru Laxá í Kjós, Laxá í Leirársveit, Grímsá, Kjarrá og Þverá, Langá, Hítará, Haffjarðará, Straumfjarðará, Laxá í Dölum, Víðidalsá, Vatnsdalsá, Laxá í Aðaldal, Deildará, Hölkná og Hafralónsá, Hofsá og jafnvel sjálft Sogið. Þannig mætti ræða lengi frá þessu sjónarmiði.

Bent var á það hér í umr., að íslenskir stangveiðimenn ættu ekki að segja margt því að stundum hefðu þeir yfirboðið útlendinga. Því svara íslenskir stangveiðimenn á þann veg, að jafnvel þótt slíkt hafi komið fyrir hafi útlendingar hreppt viðkomandi ár.

Það liggja svo að sjálfsögðu fyrir tölur um laxveiði eða hve margir laxar hafi veiðst á tilteknu árabili. Er t.d. bent á að árið 1935 hafi veiðst um 35 þús. laxar, árið 1945 hafi sú tala verið komin niður fyrir 10 þús., en síðan einmitt um 1950 og á árum þar á eftir hafi þessi tala farið stöðugt hækkandi: 1950 16 649 veiddir laxar, 1955 23 486, 1960 32 974, 1965 35 707, 1970 55 971 og árið 1975 hafi tala veiddra laxa verið komin upp í um 70 þús. Það má svo auðvitað endalaust um það deila, hverjum þetta er að þakka, hverjir hafi ræktað upp árnar, hvaðan peningarnir hafi komið til þeirra framkvæmda o.s.frv. En þar hygg ég að báðir aðilar hafi nokkuð mikið til síns máls, bæði veiðimennirnir og veiðiréttareigendurnir.

Þá hafa íslenskir stangveiðimenn bent á að þeir hafi hvað eftir annað sýnt mikinn áhuga á því að rækta upp eða leggja sitt af mörkum til þess að rækta upp góðar veiðiár, t.d. hafi þeir borið fram þá tillögu 1957 að stofna fiskræktarsjóð, þeir hafi verið stuðningsmenn þeirrar tillögu, sem ekki náði þó fram að ganga fyrr en síðar. Þá hafi þeir barist fyrir því og lagt mikla áherslu á að erlend veiðitæki, sem hingað berast til lands, séu sótthreinsuð þannig að ekki stafi hætta af því að með þeim berist sóttkveikjur í íslensk veiðivötn. Svo mætti lengi telja.

Af því, sem hér hefur verið rakið, má ljóst vera að margs er að gæta í þessu máli. Hagsmunir eru miklir í húfi, málin viðkvæm og sjónarmið ólík, eins og oft vill verða. Alkunn er þessi gamla vísa:

Sé ég eftir sauðunum,

sem að koma af fjöllunum

og étnir eru í útlöndum.

Hún lýsir viðhorfi íslenskra alþýðumanna meðan svo var lært í landi að menn urðu að hafa sig alla við til að hafa í sig og á. Og hinn landskunni talsháttur: „Það er fallegt á Hvítárvöllum þegar vel veiðist“ — ber einnig nokkurn keim af þessu hugarfari. Nú hafa landsmenn, sem betur fer, nægilegt að borða, nóg að bíta og brenna. En þá hafa þeir jafnframt betri fjárráð, betri tíma og tækifæri til að njóta yndis í eigin landi.

Ég man það, að vorið 1975 heimsótti ég íslenskan lækni í Lundi í Svíþjóð. Hann var búinn að vera 13 ár samfellt erlendis, á Norðurlöndum, bæði við nám og starf, og var nýbúinn að taka doktorsgráðu með sæmd í æðaskurðlækningum. Þessi maður féllst á að koma frá hinni ríku Svíþjóð og gerast læknir vestur á landi. Það er Halldór Jóhannsson læknir, sem varð sjúkrahúslæknir í Stykkishólmi, hinn mætasti maður á allan hátt og ágætur sérfræðingur. Ég spurði hann að gamni mínu, hvort hann væri ekki nokkuð kvíðinn að flytja frá þessu landi allsnægtanna, þar sem heita mátti að grónir akrar og engi væru allt um kring, og gerast læknir á vesturströnd Íslands. Hann átti myndarlega fjölskyldu, eigið íbúðarhús og hvað eina í Svíþjóð. Hann svaraði spurningu minni þannig, að fyrir utan það, að Ísland togaði í sig eins og marga góða Íslendinga fyrr og síðar, væri ein aðalástæðan fyrir því, að hann vildi umfram allt flytja til Íslands, sú að þá gæti hann notið útivistar í íslenskri náttúru, gengið á vit íslenskra veiðivatna, fjalla og fegurðar í frístundum sínum.

Þetta sjónarmið verðum við að meta mikils. Ég tel að eitt það besta, sem við getum gert fyrir æsku landsins, fyrir unga fólkið í landinu, sé að kenna því að lesa í bók íslenskrar náttúru. Í því sambandi koma mér í hug orð þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar, sem var einn mesti náttúruskoðari og elskhugi íslenskrar náttúru fyrr og síðar. Hann kveður svo á sumardaginn fyrsta 1842:

Leyfðu nú, drottinn, enn að una

eitt sumar mér við náttúruna.

Kallirðu þá, ég glaður get

gengið til þín hið dimma fet.

Þannig má ræða þetta mál fram og aftur og blanda það bæði alvöru og gamni.

Þess vegna er það leið þróun, ef íslenskir stangveiðimenn verða útilokaðir frá mörgum bestu laxveiðiám landsins. Hvort samþykkt þeirrar till., sem hér er rædd, leysir vanda þeirra að þessu leyti er allt annað mál. Ég tel að svo sé ekki. Á hinn bóginn þarf að athuga málin í heild frá öllum sjónarmiðum. M.a. þarf að endurskoða gildandi löggjöf um lax- og silungsveiði og ná þjóðarsátt í þessum málum sem öðrum.