22.02.1979
Sameinað þing: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2737 í B-deild Alþingistíðinda. (2156)

18. mál, gjald á veiðileyfi útlendinga sem veiða í íslenskum ám

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Þá vona ég að sé að ljúka kostulegri ferð þessa máls í gegnum þingið og það fái þá þinglegu meðferð að komast til nefndar. Ég verð að segja að ég er í býsna skemmtilegri aðstöðu til að eiga orðastað við hv. síðasta ræðumann, sem nú er kominn í forsetastól. Ég vænti þess, að varaforseti fari að hverfa á braut svo hann eigi ekki möguleika á því að koma hér á eftir þegar ég hef talað.

Ég ætla ekki að hefja á ný umr. um þau deiluatriði sem fram hafa komið í þessu máli. Ég vil aðeins legg ja áherslu á nokkur atriði sem ég tel mikilvæg.

Í fyrsta lagi er kjarninn í þessari till. sá, að Íslendingar njóti jafnréttis á við útlendinga í eigin landi. Þetta er rauði þráðurinn í þeirri till. sem ég hef hér borið fram, ásamt með því að sú gjaldtaka, sem hér um ræðir, renni til þess að efla fiskrækt á Íslandi sem ekki er í nógu góðu lagi og þarf að batna að mun, og þá á ég einkum og sér í lagi við þann fiskibúskap sem íslenskir bændur gætu ástundað og haft af mjög verulegar tekjur.

Ég held að öllum mönnum hljóti að vera ljóst að á meðan sú þróun, sem nú er, á sér stað í nágrannalöndum okkar, m.a. vegna mengunar, muni ásókn í íslenskar laxveiðiár aukast til muna á næstu árum. Ég vil að við reynum að sporna við þeirri þróun sem ég tel fyrirsjáanlega, að útlendir auðmenn nái tökum á fleiri og fleiri íslenskum laxveiðiám þar sem Íslendingar geta ekki keppt við þá um leiguna.

Það er skemmst frá því að segja, að frá því að þessi þáltill. var lögð fram hefur margt gerst í sambandi við samningagerð um íslenskar laxveiðiár við útlendinga, sem sannar það mál sem ég hef verið að flytja. Menn hafa tekið til höndunum og undirritað samninga um dýrmætar, fallegar íslenskar laxveiðiár — samninga við útlendinga sem hafa greitt fyrir þær miklum mun hærra verð en Íslendingar hafa getað borgað.

Þessum þáttum málsins vil ég að þm. geri sér ljósa grein fyrir. Mengun í ám á meginlandi Evrópu og á Bretlandseyjum hefur stöðugt farið vaxandi. Lax hefur horfið úr þessum ám og í heiminum má nánast telja á fingrum annarrar handar verulega góðar laxveiðiár, þar sem menn geta sótt þær í byggðum löndum. Þetta hefur haft þau áhrif á síðustu árum að ásóknin í íslenskar laxveiðiár hefur aukist. Sagan um laxveiðina á Íslandi, um þessar perlur íslenskrar náttúru, hefur borist út um allan heim og það eru stöðugt auðugri og auðugri menn sem gera tilkall til íslenskra laxveiðiáa.

Ég vænti þess eindregið, að a.m.k. sú umr., sem hér hefur farið fram, muni verða til þess að laxveiðilöggjöfinni verði breytt, hún verði endurskoðuð og henni verði breytt, það verði m.a. komið í veg fyrir að útlendingar geti alfarið tekið á leigu íslenskar ár og haft þær á leigu og ekki leyft Íslendingum að veiða þar. Ég vil endurtaka dæmið um Laxá í Dölum, sem ég nefndi í upphafsorðum mínum þegar þetta mál kom fyrst á dagskrá, þar sem útlendingar hafa ána alfarið á leigu og banna Íslendingum veiðar. Það er ljótt dæmi að mínu mati. Þetta er nákvæmlega það sama og að flytja hlunnindi úr landinu til annars lands. Þessa þróun vil ég að menn sjái að þarf að stöðva.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira. Þetta er fjórða lotan við umr. málsins og nú fyrst er okkur að takast að koma þessu máli til n. Ég held að einmitt þetta sýni að hér er á ferðinni mál sem við verðum að huga vandlega að og taka afstöðu til. Og ég vænti þess eindregið að hv. þm., hvort sem þeir renna fyrir lax eða eiga laxveiðiár eða hluta af laxveiðiám, hugsi þetta mál nú vandlega, en ekki eingöngu út frá einhverjum hagsmunasjónarmiðum sem erfitt er að henda reiður á þegar rætt er um peninga.