26.02.1979
Efri deild: 59. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2747 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

Umræður utan dagskrár

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég á von á því, að hæstv. fjmrh. sé nú að koma hingað inn, svo að ég ætla aðeins að hinkra. — Hæstv. fjmrh. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár vegna þess uggs sem gripið hefur um sig meðal fjölda manna í þessu landi út af verðhækkunum á bensíni og olíu og þeim spám sem fram hafa komið um verð á þessum vörum á þessu ári. Á tiltölulega stuttum tíma hefur bensín meira en tvöfaldast í verði, og samkv. nýjustu fréttum er líklegt að um næstu áramót verði bensínverð komið upp í 350–400 kr. lítrinn ef fylgt verður núgildandi verðákvörðunarreglum. Síðast nú í hádegisfréttunum var verið að tilkynna um olíuverðshækkanir úti í heimi, og allt virðist benda til að áframhald verði á þessari uggvænlegu þróun.

Nú kann að verða sagt að það sé ekki á okkar valdi hvernig verðlagningu í Rotterdam eða annars staðar úti í löndum sé háttað. En það er nú svo, að 58–60% af útsöluverði bensíns hér eru opinber skattlagning og þess vegna er það ekki síður á valdi hæstv. fjmrh. og annarra þeirra, er að skattlagningu vinna, en þeirra í Rotterdam að kveða á um bensínverð til neytenda.

Á svæðum, þar sem þúsundir launþega verða að aka hvern vinnudag 10–30 km leið að og frá vinnu, er augljóst að með sama áframhaldi verður bensínkostnaður vegna vinnu líklega orðinn jafnstór eða stærri liður í framfærslunni heldur en húsnæðið, sem hingað til hefur þó verið hæst og hefur haft algjöra sérstöðu á þessu sviði. Einkabíllinn er orðinn okkar þarfasti þjónn hvað umferð varðar og því verður ekki breytt á skömmum tíma. Um hvað því valdi má m.a. lesa í grg. sem komið hefur frá Orkustofnun, með leyfi forseta, og hljóðar þannig:

„Það, sem stuðlar að aukinni bifreiðaeign, er: 1) Aukin velmegun. 2) Dreifing byggða og auknar vegalengdir milli heimilis, vinnustaðar og þjónustu. 3) Fleiri sem hafa bílpróf en áður. 4) Auknar frístundir og aukið útilíf. 6) Betri vegir. 7) Hnignun almenningssamgangna með aukinni notkun einkabíla.“

Það, sem hér hefur verið nefnt, á mjög vel við hjá okkur. Margt af því hefur einmitt gerst á undanförnum árum. Velmegun okkar hefur aukist, dreifing byggða í kringum höfuðborgina vaxið, það eru fleiri en áður sem hafa bílpróf og þátttaka kvenna í atvinnulífinu hefur aukist stórlega. Allt á þetta vel við einmitt hér hjá okkur. Ef við ætlum að breyta þessu ástandi í hið gamla horf, þá held ég að verði hvorki vilji til þess né möguleiki nema á mjög löngum tíma. Enn fremur er það svo, að í okkar rysjóttu veðráttu er mjög erfitt að bíða við biðskýli langtímum saman. Ég held því að það sé augljóst að við höldum áfram að auka okkar einkabílanotkun og þar með kostnaðinn við að aka. Því er það að ég hef beðið um upplýsingar um verðlagningu bensíns.

Það er ekki síst einmitt núna sem kemur sér vel fyrir almenning að fá að vita um framtíðina í þessu efni, vegna þess að nú hefur fjöldi fólks þungar áhyggjur vegna stórhækkandi fasteignaskatta, vegna stórhækkandi skatta af eigin húsnæði og vegna þess að mörg launaumslög eru nú létt vegna aukinnar fyrirframgreiðslu skatta. Jafnframt væri örugglega nokkur léttir að fá nú upplýsingar um það, hvort ekki væri hægt að breyta eitthvað þeirri verðlagningu sem nú er á bensíni. Því spyr ég hæstv. fjmrh., hvort hann geti ekki glatt okkur með því að gefa okkur til kynna að verða muni breyting á þeim reglum um álagningu á bensín sem nú gilda, t.d. í þá átt að tollur af bensíni verði ekki lengur tekinn hlutfallslega, heldur magntollur, eins og er yfirleitt af öðrum olíum, og enn fremur að söluskattur verði ekki innheimtur af bensíni frekar en af ýmsum öðrum olíutegundum. Sú aðstaða, sem skapast af ástandi úti í löndum, hefur gjörbreytt viðhorfi í þessum málum, og mér sýnist, ef svo fer sem horfir, að þá mundu tekjur ríkisins af bensínsölu vaxa um mjög marga milljarða á þessu ári og komast e.t.v. upp í 15–17 mill jarða á næsta ári ef bensínið verður þá komið upp í 400 kr. lítrinn. Af slíku yrði mjög mikil rýrnun á kjörum fólks í landinu. Þess vegna langar mig til að vita hvort ekki standi til að breyta eitthvað þessum reglum.