26.02.1979
Efri deild: 59. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2751 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Aðeins viðbót við það sem ég sagði áður um þetta mál sem svar við sumum af þeim spurningum sem hv. 4. þm. Reykn. bar hér fram.

Það er alveg rétt, sem kom fram í ræðu hv. þm. Jóns Sólness, að við erum berskjaldaðir í þessum efnum. Það eru aðallega tvær ástæður fyrir því, að miklar verðhækkanir hafa orðið á olíuvörum nú skyndilega. Það eru annars vegar innanlandsátökin í Íran og hins vegar miklir kuldar í Vestur-Evrópu, óvæntir og miklir kuldar, meiri vetur en verið hefur um áratugi. Þetta sáum við e.t.v. ekki fyrir. Hins vegar vil ég taka undir það sem kom fram hjá hv. þm., að það væri vissulega ástæða til þess fyrir Íslendinga að eiga meiri forða af olíuvörum en þeir eiga nú. Það er hreinlega vegna þess að olíuverðið virðist vera á uppleið, þó að þessi sveifla kunni að jafna sig eitthvað. Við skulum vona að hún geri það þegar veturinn gengur yfir og friður kemst á og kyrrð í Íran, þannig að þeir geti hafið framleiðslu af fullum krafti á nýjan leik.

Varðandi skattamálin og olíumálin sérstaklega, bifreiðarnar, er þess náttúrlega að geta, að þegar rætt er um skattamálin kemur alltaf að fjárhag ríkissjóðs. Það er að sjálfsögðu álitamál, hvernig haga skuli skattheimtu. En það er ekkert álitamál, að það á að haga skattheimtu og ríkisútgjöldum þannig að ríkissjóður beri sig. Það er ekkert álitamál. Þess vegna er það auðvitað, að ef menn vilja tilfærslur þurfa menn að gera sér grein fyrir, hvernig þær eigi að vera, þegar menn ákveða að þær eigi sér stað.

Það hefur verið rætt um skattamál. Ég ætlaði ekki að hefja umr. um skattamál, en ég vil aðeins geta þess, vegna þess að það er margt um þau rætt og ritað, að þær hækkanir, sem orðið hafa á sköttum Íslendinga á þessu ári umfram það sem orðið hefði ef lög hefðu verið óbreytt, nema 3 910 millj. kr. samtals samkv. úttekt sem Þjóðhagsstofnun hefur gert. Í því efni vil ég enn fremur taka það fram, að nýr útgjaldaliður á fjárlögunum, þar sem eru greiðslur afborgana og vaxta af Kröfluvirkjun, alveg ný útgjöld, nemur 2 380 millj. kr. Sú viðbót til hækkunar, sem orðið hefur þegar á heildina er litið vegna skattabreytinga, er ekki nema 1500–1800 millj. kr. þegar útgjöldin vegna Kröfluvirkjunar eru dregin frá. Hitt er svo miklu meira mál, hverjar tilfærslur hafa orðið í þessum efnum. Þar hefur verið fært til eins og kunnugt er og margrætt hefur verið hér á Alþingi.

Hv. þm. Alexander Stefánsson kom svo inn á ýmisleg svið sem einmitt koma til álita þegar þessi mikla verðhækkunaralda á olíuvörum skellur yfir. Hann minntist fyrst á húsahitun. Það er auðvitað stóralvarlegt mál. Í raun og veru er málið þegar alvarlegt. Það er þegar þannig, að fjölskyldur, sem búa við upphitun húsa með olíu, hafa stórkostlega miklu meiri útgjöld til upphitunar heldur en þeir sem búa við hitaveitur, eins og kunnugt er. Mjög háar og óhugnanlegar tölur heyrast nefndar í þessu sambandi nú þegar. Til viðbótar koma svo miklar verðhækkanir, svo miklar að það er óhjákvæmilegt að mínu mati að taka á þeim málum.

Í öðru lagi er útgerðin. Nú er að vænta ráðstafana í sambandi við útgerðina, og koma væntanlega fyrir Alþ. innan skamms frv. þar að lútandi. Skal ég ekki ræða það nánar á þessu stigi málsins.

Ég er þeirrar skoðunar og hef sagt það áður opinberlega, að það sé mjög nauðsynlegt að taka olíumálin og þær miklu verðhækkanir, sem nú eru að verða á olíuvörum og bensíni með sérstökum hætti og láta þær ekki grassera í hagkerfinu eins og ekkert sé. Ég held að það mál þurfi að fá sérmeðferð og þurfi að reyna að skapa breiða samstöðu og samvinnu um að það mál fái sérstaka meðferð. Á ég þá m.a. við áhrif á vísitöluna, svo að dæmi sé tekið, og margt fleira í því sambandi.