26.02.1979
Efri deild: 59. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2752 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

Umræður utan dagskrár

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir hans ágætu svör og fyrir þann áhuga, sem hann hefur sýnt á þessu máli, og vona reyndar að við fáum frekari upplýsingar um þetta þegar þær liggja fyrir.

Mér þykir vænt um að heyra að þetta er í athugun hjá Þjóðhagsstofnun, vegna þess að hér er um geysilega veigamikið mál að ræða fyrir framfærslu flestra fjölskyldna í landinu.

Það var ekki tilviljun að ég lagði megináherslu á bensínið og bílana í mínu upphaflega máli. Það var vegna þess að þeir eru færri sem sinna þeim þætti málsins. Það er alveg öruggt bæði hvað snertir útgerðina og jafnvel olíu til heimilisnotkunar, að þar mun verða hlaupið undir hagga og gerðar ráðstafanir. Það er ekki vafi á því. En það er allt erfiðara þegar kemur að bensínnotkun einstaklingsins. Við höfum reynslu af því, að meira að segja et það í fjölda tilfella sem alls ekki tekst að fá þau útgjöld dregin frá skatti enda þótt hægt sé að sanna að þau séu vegna vinnu.

Þá vil ég vekja athygli á einu í þessu sambandi sem mér finnst ekki spá beinlínis góðu um það sem hæstv. forseti okkar deildar ræddi um og hv. þm. Alexander Stefánsson. Það er sú tilkynning sem kom nýlega um að borar Orkustofnunar skyldu verða aðgerðalausir í ár. Ef nokkur ráðstöfun er vafasöm, þá held ég að sú ráðstöfun hljóti að vera það. Ég efast ekkert um að með fullri notkun slíkra tækja megi lækka hinn óheyrilega upphitunarkostnað húsa mjög verulega á skemmri tíma en með nokkru öðru.

Í öðru lagi vil ég leggja áherslu á það, að að sjálfsögðu hvetja þessar verðhækkanir okkur til áframhaldandi orkuframleiðslu og að auka okkar orkuframleiðslu bæði á sviði hitaveitna og einnig rafmagns. Ég tek undir það með síðasta ræðumanni, að það er ótækt í sjálfu sér að söluskattur skuli vera tekinn af olíu til rafmagnsframleiðslu og af rafmagni. Rafmagnið er svo mikil nauðsyn að ekki er hægt að una við það til lengdar að það sé svo dýrt sem við verðum nú víða við að búa. Þó kemst ég ekki hjá því, að hitt er mjög mikið mál, hvað fjöldinn af launþegum, sem býr, eins og ég sagði áðan, í þetta frá 5 og upp í 15–20 km fjarlægð frá sínum vinnustað, verður að leggja í gífurlega mikinn kostnað við að komast að og frá vinnu. Það er á aðra millj. kr. á ári eftir því verðlagi sem við verðum að búast við á næsta ári. Og verði ekki farið að breyta einhverju og gera einhverjar ráðstafanir til að kippa því í lag, þá er ég hræddur um að framfærslukostnaður okkar hækki meira en við getum sætt okkur við með góðu móti.

Við getum t.d. minnst á það, að ríkið styrkir 300–400 öryrkja á hverju ári til þess að kaupa bíla, að verulegu leyti til þess að geta stundað sína vinnu. En það fer nú að verða allörðugt fyrir þetta fólk, sem býr við takmörkuð efni, þó það fái sæmilegan afslátt í innkaupum bílsins, að borga 300–400 kr. fyrir hvern bensínlítra sem það kaupir.

Ég vil líka geta þess í sambandi við þessa álagningu á bensínið sérstaklega, að það er ótækt ef einhverju skipafélagi dettur allt í einu í hug að hækka fragtina á bensíninu, þá hækki tekjur ríkissjóðs beinlínis við það–ekki reyndar af gasolíunni. Það er öðruvísi, það er magntollur af henni, en bensíntollurinn er prósentutollur. Þess vegna er það, að ef einhverjum millilið, hvar sem hann er, dettur í hug að hækka verðið á bensíninu, ef skipafélagi dettur í hug að hækka fragtina, þá hækka tekjur ríkissjóðs og útgjöld neytenda.

Það eru þessi atriði sem mér finnst sérstaklega nauðsynlegt að verði rækilega athuguð, enn fremur að leitað sé annarra leiða til þess að stuðla að minnkandi notkun bensíns, jafnvel með því á einhvern hátt að gera fólki auðveldara að kaupa bíla sem nota lítið bensín frekar en þá sem nota mikið bensín. Þetta munar svo miklu, að nú er auðvelt að fá bíla sem brenna 7–8 lítrum á 100 km, en það eru líka til hundruð bíla í þessu landi eða jafnvel þúsundir sem brenna frá 15–25 lítrum á 100 km. Þessir aðilar búa við nokkurn veginn sömu aðstöðu bæði í innkaupum og í rekstri en þarna mætti án efa koma fram einhverjum lagfæringum.