26.02.1979
Efri deild: 59. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2754 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að umr. um þetta mikla vandamál skuli fara hér fram í þessari hv. d. Mig langar aðeins til þess að drepa hér á eitt mál í þessu sambandi, en það er frv. til laga um happdrættislán vegna Norðurvegar og Austurvegar sem nú liggur fyrir þessari hv. d. og var flutt með fyrstu málum hér í haust.

Það er alveg ljóst að mínu mati, að ríkissjóður getur ekki stórhækkað tekjur sínar af olíum og bensíni vegna þess að þær hækka í verði erlendis. Þvert á móti mætti segja, að krónutala sú, sem ríkið innheimtir af olíum og bensíni, ætti miklu fremur að lækka en að hún ætti að hækka. Það er ekki hægt að ofbjóða — hvorki þeim, sem húsin hita með olíu, né heldur þeim sem verða að ferðast með einkabifreiðum eða langferðabifreiðum með þeim hætti að ofan á stórfellda erlenda hækkun komi gífurleg hækkun gjalda til ríkissjóðs og Vegasjóðs.

Hæstv. ráðh. minntist á það áðan, að það þyrfti samstöðu stjórnar og stjórnarandstöðu til að glíma við vandamál sem þessi. Ég er honum sammála um það, að vissulega er ánægjulegt þegar slík samstaða getur orðið. Nú vill svo til að stjórnarandstöðuþm. flytur frv. um að sjá Vegasjóði fyrir a.m.k. 2 milljörðum kr. árlega með þeim hætti að hvorki á að auka spennu í þjóðfélaginu né heldur að íþyngja ríkissjóði, því að peningarnir eru innlent fé sem ella mundi fara til annarra framkvæmda. En vegamálin eru þau mál sem brýnt er að snúa sér að af festu, djörfung og stórhug.

Ég vil vænta þess, ekki síst með hliðsjón af því að hæstv. fjmrh. var einn aðalhvatamaður að setningu þessara laga á sínum tíma, að einhugur náist hér um afgreiðslu þessa frv. og þá helst hér í d. nú alveg næstu daga, þannig að það geti gengið til hv. Nd. Ég hefði gjarnan viljað hækka þessa upphæð til þess að létta á með ríkissjóði og Vegasjóði, þannig að ekki þyrfti að koma til enn aukin skattlagning á brennsluefni.

En eins og ég sagði, þá á ég fulla von á að hæstv. fjmrh. styðji það einmitt og fagni því ef samstaða getur náðst um slíka fjárútvegun, því að hann stóð að heildarsamkomulagi um það á sínum tíma, að Alþ. afgreiddi slík lög. Ég minnist þess og segi það til gamans, að hann sagði við mig þegar ákveðið var að ég flytti framsögu fyrir n. sem einhuga var í þessu máli, að hann öfundaði mig mjög af því að fá að flytja þessa framsögu því hér væri um eitt stærsta og merkasta mál í sögu samgöngumála að ræða. Að vísu skulum við ekkert vera að dylja okkur þess, að síðasta ríkisstj. framfylgdi þessum lögum ekki sem skyldi, og við studdum báðir þá ríkisstj., við hæstv. fjmrh. Hún brást að vissu marki í því efni og Alþ. þar með. En nú er komið að því að uppfylla þau fyrirheit sem þjóðinni voru þá gefin um stórfellt átak í vegamálum. Vænti ég þess vegna að einmitt þetta tilefni, þessi mikla hækkun á olíum og brennsluefni nú, verði til þess, að Alþ. hraði afgreiðslu þessa máls.