26.02.1979
Efri deild: 59. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2756 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

Umræður utan dagskrár

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Hv. þm., sem hér hafa talað, hafa sumir lýst ánægju yfir því, að þetta mál skuli nú vera til umr. í d. Ég er nú alltaf á báðum áttum út af umr. utan dagskrár, en svo mikið er víst a.m.k., að það hefur einhvern tíma verið talað um þýðingarminni mál en það sem hér hefur verið til umr.

Þegar hv. þm. Stefán Jónsson talar um þann möguleika að nota auknar tekjur ríkissjóðs vegna hækkandi gjalda af bensíni og olíum til þess að greiða niður fargjöld með strætisvögnum, þá kemur mér fyrst í hug að menn verði að átta sig vel á því, hvað gerist hjá ríkissjóði varðandi tekjuöflun almennt út af þessum hnykkjum, áður en farið er að borga niður. Ég kem kannske aðeins nánar að því síðar.

En fyrst ég stóð upp vil ég láta það koma hér fram, að ég er algerlega andvígur því — og áskil mér þó rétt til að breyta um skoðun náttúrlega eftir að búið er að fara nánar ofan í saumana á þessu öllu saman — en á þessari “stundu er ég alls ekki tilbúinn að fallast á lækkun á skattheimtu til Vegasjóðs. Ég hef verið meðmæltur því að taka lán til vegagerðar og sérstaklega til þeirra þátta sem reyndust arðbærastir við athugun. En það breytir ekki því, að mér er annt um að aflað sé tekna til að vinna að vegaframkvæmdum og ég álít að það borgi sig fyrir alla.

Það er ekki vafi á því, eins og hér hefur komið fram, að hækkanir á olíum og bensíni koma ákaflega hart niður á bæði einstaklingum og atvinnuvegum þjóðarinnar. En sú hugsun, sem mér er efst í huga, þegar þessi mál ber á góma, og greip mig fyrst þegar ég sá framan í það sem í aðsigi var, er þessi fyrst og fremst: Hvað er hægt að gera til þess að auka notkun innlendra orkugjafa, hvort sem það er jarðvarmi eða raforka? Er ástæða til þess að fara ofan í saumana á okkar áætlunum og gera sér grein fyrir því, hvort eitthvað væri hægt að gera á þeim sviðum umfram það, sem nú er áformað, til þess að auka notkun okkar innlendu orkugjafa og flýta því að menn geti notfært sér þá? Hins vegar er það sem hér hefur borið á góma, hvað hægt sé að gera til orkusparnaðar.

Við höfum heyrt umr. um þessi mál, það hefur verið drepið á marga þætti sem til greina koma þar. Og án þess að ég ætli að fara að ræða það í einstökum atriðum, þá get ég nefnt suma af þessum þáttum, eins og almenna herferð til þess að stilla kynditækin hjá fólki sem býr við olíuupphitun og olíunotkun á fleiri sviðum, að taka upp í ríkari mæli en áður svartolíu í stað gasolíu. Einnig hefur verið bent á það, að við eigum töluvert mikla möguleika, sem er nokkuð einfalt að nýta, í aukinni notkun innlendu orkunnar, t.d. með því að gera skipum í höfnum kleift að nota sér innlendu orkuna á meðan þau liggja í höfnum, í staðinn fyrir að keyra dísilvélar sínar til rafmagnsframleiðslu um borð. Þetta er eitt af því sem nefnt hefur verið.

Svo er það notkun almenningsvagna sem hér hefur verið komið inn á. Það er áreiðanlega mjög mikið atriði að stuðla að því, að menn nýti þá meir en gert er. Það er e.t.v. ekki hægt að gera það með snöggu átaki, en þetta sé tekið fyrir og leitað leiða til að örva notkun manna á þessum vögnum. Sú mikla notkun einkabíla, sem hér er, er áreiðanlega að verulegu leyti óhóf. Menn aka eigin bíl í tíma og ótíma — ég eins og aðrir auðvitað — og oft bílum sem nota mjög mikið eldsneyti. Hefur lítið verið a.m.k. af margra hálfu í því gert að spara það.

Það er líka e.t.v. ástæða til þess að gera skipulegt átak í því að meta það, þó að fyrst og fremst verði hver og einn að meta það fyrir sig, hversu mikið skuli keyra og hversu mikið skuli leggja á gangvélar skipa. Það munar ákaflega mikið um það, þegar bætt er við ganghraðann, kostar margföld olíunot að fá mesta hraða. Ég varpa þessu fram. Það má vel vera að það sé ástæða til að taka einmitt þetta skipulega til meðferðar.

Það er alveg víst, eins og hér hefur komið fram, að þetta er mjög alvarlegt mál. Aukinn olíukostnaður snertir auðvitað meira og minna allar framleiðslugreinar. Menn tala mest um útgerðina af því að hún er stærsti olíukaupandinn. En einnig í ýmsum greinum iðnaðar eru notaðir erlendir orkugjafar í miklum mæli og svo við landbúnaðarframleiðsluna. Það er stundum talað um að bændur hafi hrúgað að sér án a.m.k. mikillar aðgæslu margvíslegum tækjum til þess að vinna að öflun heyja o.s.frv. Þau þurfa brennsluefni. Það er því mikið og margþætt vandamál hvernig við verði brugðist á vettvangi atvinnulífsins nú þegar þessi ósköp dynja yfir. Þar koma mjög mörg atriði til greina. Við ýmiss konar verðlagningu hljóta menn að velta þessu fyrir sér, við ákvörðun fiskverðs o.s.frv., að ógleymdri vísitölunni margnefndu. Þessir atburðir hvetja til þess að menn geri sér grein fyrir því, hvort og á hvern hátt viðskiptakjörin eigi að verka inn á okkar vísitölugrundvöll.

Í sambandi við kyndingu íbúðarhúsnæðis vex enn gífurlega sá mikli mismunur sem er á kyndikostnaði þar sem menn njóta jarðvarma og svo aftur þar sem menn þurfa að kynda með hinum innflutta orkugjafa. Menn hljóta að velta því fyrir sér hvernig brugðist verði við til þess að jafna að einhverju leyti þennan viðbótarhalla og þá auðvitað um leið með hverjum hætti eigi að afla tekna til að standa undir slíkum kostnaði.

Ég hef viljandi nefnt eldsneyti í bifreiðar síðast, því að hitt eru gífurlega stórir þættir í mínum augum. En það er þó ekki af því að ég líti smáum augum það atriði, sem hv. þm. Oddur Ólafsson sem fyrst vakti þessar umr., tók sérstaklega fyrir, því að þar er einnig um gífurlega mikið og alvarlegt mál að ræða. Hér eins og á fleiri sviðum er aðstaða manna ákaflega misjöfn. Sumir þurfa lítið á bifreiðinni að halda, en aðrir meira. En auðvitað notum við öll meira og minna flutningakerfið, þó að ekki allir keyri einkabíla, og þetta hlýtur að verða til þess að hækka bæði flutningsgjöld og allan ferðakostnað almennt.

Það hefur verið upplýst hér og raunar hefur það áður komið fram opinberlega, að hæstv. ríkisstj. vinnur að þessum málum á breiðum grundvelli og ríkisstj. hefur tekið þetta sem alveg sérstakt viðfangsefni sem þurfi að snúast við af myndarskap. Ég held að það velti ákaflega mikið á því, að tekið sé raunhæft á þessum málum núna.

Það er vissulega rétt, sem hér hefur komið fram um gjaldtöku ríkissjóðs og Vegasjóðs af olíu og bensíni, og auðvitað kemur það til skoðunar ásamt fjölmörgum öðrum þáttum. En eins og ég sagði tel ég höfuðatriði að menn taki raunhæft á þessu, stingi ekki höfðinu í sandinn, t.d. með því að ætla að leysa þessi vandamál að meira eða minna leyti á kostnað ríkissjóðs. Þá á ég við, ef við nánari athugun kemur í ljós að það, sem gert yrði, yrði til þess að skekkja þá mynd sem stillt er upp í fjárl. af útkomu ríkissjóðs. Ég held að það væri alveg fráleitt og væri að bæta gráu ofan á svart í okkar efnahagslega basli ef ætti að leysa þetta mál með því að auka við skuldina í Seðlabankanum. Það þarf að varast alveg sérstaklega. Ég lít svo á, að sú mikla hækkun á olíuverði, sem þegar er byrjuð að segja til sín og á eftir að gera það í ríkara mæli, sé byrði sem á okkur leggst og við verðum að bera. Spurningin er hins vegar hvernig sé hægt að létta þessa byrði, t.d. með aukinni nýtingu innlendra orkugjafa eða með sérstökum aðgerðum til orkusparnaðar, og svo jafnframt hitt, hversu unnt sé að jafna byrðarnar þannig að einstakar atvinnugreinar og einstaklingar geti ráðið við þær. Hitt er hverju orði sannara, sem fram kom hjá hv. 5. þm. Vestf., forseta þessarar d., að þessir atburðir gefa tilefni til að afhuga ýmis vandasöm viðfangsefni, eins og t.d. tvöfaldan söluskatt, sem hér hefur verið minnst á, og gífurlegan aðstöðumun annan sem enn þá er á milli byggðarlaga, milli þegnanna í þessu landi eftir því hvar þeir eru búsettir.