26.02.1979
Efri deild: 59. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2757 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

Umræður utan dagskrár

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Í sambandi við þessa umr. eru einungis tvö atriði sem ég vildi vekja athygli á og komu fram í máli hæstv. fjmrh. í sambandi við olíuverðshækkunina.

Það hefur náðst samkomulag í sambandi við útgerðina um þessa olíuverðshækkun. Þetta samkomulag var gert nú um helgina og hæstv. ráðh. boðaði frv. um það efni og ber vissulega að fagna því. Ég vona að þetta frv. verði lagt fram mjög fljótlega, því að mér sýnist að þar hafi verið leystur á nokkuð skynsamlegan hátt bráðabirgðavandi. En þar sem það er einungis leystur hluti af þessu vandamáli, eða hækkunin úr 57 kr. á lítra upp í 70 kr., en óleystur er vandinn upp í 92 kr. sem er gert ráð fyrir að olíuverð verði komið upp í í lok apríl, vil ég hvetja fjmrh. og ríkisstj. til að reyna að koma þessari bráðabirgðalausn eins fljótt í gegn og hugsast getur. Ég hugsa að þingið hafi mikinn skilning á þessu og hæstv. ríkisstj. geti reitt sig á stuðning þm.

Strax þarf að fjalla um hvernig þetta vandamál verði leyst endanlega, því að það er ljóst varðandi lausn þá sem var gerð gagnvart útgerðinni með tilfærslum milli sjóða, að það verður ekki hægt að fara þá leið í næsta skipti, a.m.k. ekki nema að hluta til. Til þess er dæmið of stórt. En sjálfsagt eru til leiðir. Ég vil ekki vera að fara inn á það hér núna í sambandi við þetta mál, einungis hvetja til þess að umr. um þetta hefjist mjög fljótlega þegar frv. til lausnar þessari 16% hækkun verður lagt fram.

Annað atriði hefur komið hér fram í umr. Það er sá samanburður sem menn hafa réttilega bent á, aðstöðumunur manna, sem hita upp með olíu og þeirra, sem njóta jarðvarma. Ég vil í þessu sambandi benda á, að það er ekki einungis þessi gífurlegi aðstöðumunur, olía og hitaveita, heldur einnig aðstöðumunur hjá þeim, sem hita upp með olíu, og þeim, sem hita upp með rafmagni. Að vísu á þetta verð að vera nokkurn veginn jafnt. En ég hef undir höndum tölur úr mínu kjördæmi, nánar tiltekið frá Stokkseyri, þar sem gerður er samanburður í mörgum húsanna, sem hituð eru upp með olíu annars vegar og hins vegar með rafmagni, og þar er ótrúlega mikill munur hvað olíuhitunin er dýrari. Þessar tölur eru fyrir árið 1978, þannig að þetta á eftir að verða enn þá óhagstæðara fyrir yfirstandandi ár.

Það verður að gera kröfu til þess, bæði varðandi þetta mál, húshitunina, og varðandi útgerðina, að þessi mál séu afgreidd fljótt. Olían hefur þegar hækkað og menn eru að kaupa olíu á nýja verðinu. Sú aðstoð, sem væntanlega verður veitt, þarf að koma fljótt. Þessar hækkanir eru svo miklar, að menn geta ekki lengur beðið lengi.

Í sambandi við þennan mismun á olíu og rafmagni, sem ég þekki í mínu kjördæmi, er fróðlegt að fá að vita hvort ríkisstj. hafi nokkrar áætlanir eða hugmyndir um áhrif þessarar olíuverðshækkunar á rafmagnsverð. Reynt er að fylgja því grundvallarlögmáli, að hitun með rafmagni og olíu sé sem jöfnust, þó að í þessu tilfelli sé það ekki. Mun þá þessi olíuverðshækkun verða til þess að rafmagnstaxtar verði hækkaðir? Það má segja að það sé fráleitt að það verði. En þarna mun skapast gífurlegur aðstöðumunur, ekki einungis hjá þeim sem eru með hitaveitu, sá aðstöðumunur hefur alltaf verið fyrir hendi, heldur gagnvart þeim, sem eru jafnvel í sama kauptúni og hita upp annaðhvort með olíu eða með rafmagni.

Í sambandi við þetta mál vil ég endurtaka það, að till. um þennan vanda verða að liggja fljótlega fyrir, þar sem við höfum ekki nema tveggja mánaða tíma, eða fram til loka apríl, þar til þessi mikla hækkun mun skella á okkur af fullum þunga. Talað er um að gasolíulítrinn fari upp í 92 kr., en það eru víst til skráningar núna upp á síðkastið upp á yfir 120 kr. Höfuðmarkmið þessarar ríkisstj. er baráttan gegn verðbólgunni, en þetta vandamál er svo stórfenglegt, að það má sjálfsagt halda því fram að önnur markmið hverfi í skuggann fyrir því. Hins vegar er ánægjulegt að heyra í umr., að hér er engan veginn um pólitískt mál að ræða. Mér heyrist á umr. um þetta mál hér í þinginu, hvort sem eru stjórnarandstæðingar eða stjórnarsinnar, að menn séu allir af vilja gerðir til að leysa þetta mikla vandamál og ætli að standa saman að því. Það er vissulega hvati fyrir ríkisstj. að hraða till. sínum til lausnar þessum vanda.