26.02.1979
Efri deild: 59. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2759 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. frekar, en vil þó í tilefni af því, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. minntist á í ræðu sinni, segja örfá orð.

Það er rétt hjá hv. þm., að ég, eins og margir fleiri þm., er áhugamaður um framgang vegaframkvæmda og vegamála, — ekki síst við þm. sem erum fulltrúar landssvæða sem eiga erfitt í þessum efnum, vegna snjóa og af ýmsum fleiri ástæðum. Það frv., sem hann minntist á um happdrættislán ríkissjóðs í sambandi við Vegasjóð, er gott mál og ég álít að það ætti að verða í heimildarformi. Án þess að fara langt út í það efni nú vil ég aðeins geta þess, að það mun koma fram nánar í umr. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj., en þær umr. munu væntanlega byrja í Nd. á miðvikudag, þar sem þær eru, eins og hv. þm. et kunnugt, tengdar við frv. til l. um lánsheimildir o.fl. Það er nú þegar komið fram í framlagðri fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, að fyrirhugað er að verja til vegamála rúmum 13 milljörðum kr. á yfirstandandi ári. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður selji verðtryggð skuldabréf fyrir 4200 millj. kr. Seðlabankinn lagði til um áramótin, að það yrðu 3500 millj., en var hækkað við meðferð fjárl. um jólin upp í 4200 millj. Ástæðan fyrir því, að ég minni sérstaklega á þetta, er að menn hafa áhyggjur af því, hvernig muni ganga að selja verðtryggð skuldabréf ríkissjóðs á þessu ári, og þær áhyggjur vaxa eftir því sem mikil verðbólga geisar lengur í þjóðfélaginu og eftir því sem hún brennir upp fjármagnið innanlands og gerir erfiðara um vik að fjármagna æskilegar framkvæmdir, eins og t.d. vegaframkvæmdir. Það væri í raun og veru æskilegt að viðbótarskuldir, sem bættust á ríkissjóð á síðasta ári, yrðu að hluta til fjármagnaðar t.d. með skuldabréfaútgáfu innanlands, eins og sumar þjóðir gera í talsvert stórum stíl, t.d. Svíar og fleiri þjóðir sem búa við halla á fjárlögum. En verðbólgan sér fyrir því, að það er í raun og veru enginn markaður til þess eða svigrúm eins og nú háttar hjá okkur. Ég vildi aðeins taka þetta fram án þess að fara að vekja upp frekari umr.

Hv. þm. Ágúst Einarsson minntist á áhrif olíuhækkunarinnar á rafmagnsverð. Það er alveg augljóst mál, að kostnaður við framleiðslu rafmagns vex vegna olíuhækkunarinnar af skiljanlegum ástæðum. Það er í raun og veru einn af ákaflega mörgum þáttum þessa máls sem þarf að kanna og verið er að athuga.

Þessi umr. utan dagskrár, sem er ekki undirbúin umr., sýnir þegar hversu margslungið þetta mál er og hversu mikið áhrif gífurlegar verðhækkanir á olíuvörum hafa á hagkerfi okkar í ýmsum myndum. Þess vegna held ég, að umr. sé þörf og hér hafi komið margt fram, eins og heyra má. En fyrstu viðbrögð manna varðandi olíuverðhækkunina eru jákvæð að mínum dómi. Eins og kom fram hjá hv. þm. Ágúst Einarssyni, hefur tekist samkomulag milli útgerðarmanna og sjómanna um lausn á máli þeirra í fyrstu atrennu vegna þeirra hækkana sem þegar hafa orðið. Þetta samkomulag lofar góðu um framhaldið, og ég hef ekki orðið var við annað en ríkan skilning á að það þurfi að taka þetta mál nokkuð sérstökum tökum. Skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða atvinnurekendur, launþega, stjórn eða stjórnarandstöðu, mér sýnist að fram komi skilningur á því, að þetta mál sé svo stórt að það verði að taka sérstökum tökum.