26.02.1979
Efri deild: 59. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2762 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

109. mál, takmörkun loðnuveiða

Frsm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Sjútvn. sendi þáltill., sem hér um ræðir, um takmörkun loðnuveiða á sumar- og haustvertíð vegna öryggissjónarmiða, til umsagnar nokkurra aðila. Þeir aðilar, sem svöruðu, voru meðmæltir till. og þá sérstaklega og umfram aðra Slysavarnafélag Íslands. En vegna upplýsinga, sem fram komu í svarbréfi Siglingamálastofnunarinnar, ákvað sjútvn., raunar að tillögu flm. þáltill og hans frumkvæði, Ágústs Einarssonar, sem á sæti í n., að breyta till. á eftirfarandi hátt:

Tillgr. orðist þannig:

Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að hraðað verði útgáfu reglugerðar um hleðslu fiskiskipa, þar sem miðað verði að auknum öryggiskröfum og strangara eftirliti. Stefnt verði að því að reglugerðin taki gildi fyrir upphaf loðnuvertíðar á sumri — og eigi síðar en 1. ágúst 1979.“

2. liður brtt. sjútvn. er varðandi fyrirsögnina er orðist þannig:

„Tillaga til þingsályktunar um útgáfu reglugerðar um hleðslu fiskiskipa.“

Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru Karl Steinar Guðnason og Oddur Ólafsson.

Um þessa brtt. okkar í sjútvn. þarf ekki að orðlengja. Það kom fram í upplýsingum frá Siglingamálastofnun, að unnið hefur verið að því að semja reglugerð varðandi hleðslu fiskiskipa. Af hálfu Siglingamálastofnunar hafa komið fram öll þau meginsjónarmið, sem að var stefnt með till. hv. þm. Ágústs Einarssonar, þm., og einnig þau meginsjónarmið, sem fram komu í framsöguræðu hans með till. Aftur á móti telur sjútvn. fullkomna ástæðu til að stuðla að því, að setningu þessarar reglugerðar verði hraðað, og það er álit sjútvn., að ástæðulaust sé að veita lengri frest til að þessi reglugerð verði gefin út heldur en fram yfir mitt sumar, þannig að hún geti tekið gildi fyrir loðnuvertíðina í sumar. Að vísu reiknum við með að loðnuvertíðin hefjist ekki fyrr en um miðjan ágúst, en við teljum nauðsynlegt, að þessi reglugerð verði komin út og í hendur útgerðarmanna og skipstjórnarmanna í tæka tíð áður en lagt verður til loðnuveiðanna.

Ég hygg að ástæðulaust sé að svo komnu máli að orðlengja þetta frekar, en legg á það áherslu, að af hálfu n. var algert samkomulag um að leggja til að farið yrði með málið eins og við gerum grein fyrir í brtt. og eins og ég hef drepið á.