26.02.1979
Neðri deild: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2767 í B-deild Alþingistíðinda. (2188)

104. mál, alþjóðasamningar um varnir gegn mengun sjávar af völdum olíu

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. þetta um heimild fyrir ríkisstj. til að staðfesta þrjá alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar af völdum olíu hefur þegar verið afgreitt í hv. Ed. Hlaut frv. þar skjóta og góða afgreiðslu einróma.

Með frv. þessu er leitað heimildar til að staðfesta fyrir Íslands hönd þrjá alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar af völdum olíu. Alþjóðasamningur um íhlutun á úthafinu, þegar óhöpp koma fyrir sem valda eða geta valdið olíumengun, og alþjóðasamningur um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar voru báðir gerðir í Brüssel 29. nóv. 1969. Þessir samningar voru árangur af alþjóðlegri ráðstefnu, sem haldin var í nóv. það ár. Þriðji samningurinn er alþjóðasamningur um stofnun alþjóðlegs sjóðs til að bæta tjón af völdum olíumengunar, og var hann gerður í framhaldi af samningnum um einkaréttarlega ábyrgð í Brussel í des. 1971, en hafði verið áður undirbúinn af sérstakri ráðstefnu. Þessir samningar hafa allir verið undirbúnir fyrir forgöngu Alþjóðasiglingamálaráðstefnunnar, IMCO, en aðalfulltrúi Íslands hjá þeirri stofnun og við gerð þessara samninga hefur verið Hjálmar R. Bárðarson og hefur hann notið margvíslegs trausts innan stofnunarinnar.

Alþjóðasamningurinn um íhlutun á úthafinu fjallar um aðgerðir strandríkis vegna skipskaða á úthafinu til varnar gegn olíumengun, ef talið er að skipskaðinn geti valdið tjóni á umhverfi og nytjum innan lögsögu strandríkisins sé ekkert að gert. Samningurinn nær til olíumengunar af völdum hráolíu, brennsluolíu, dísilolíu og smurningsolíu. Strandríki, sem grípur til aðgerða samkv. samningi þessum, skal að jafnaði hafa samráð um aðgerðir við önnur viðkomandi ríki, sérstaklega þó það ríki sem skipið er frá. Strandríkinu er þó heimilt, þegar um brýna nauðsyn er að ræða, að gera nauðsynlegar ráðstafanir þegar í stað án undanfarandi ráðfærslu við aðra aðila. Þá eru í samningunum ákvæði um að öll aðildarríki tilnefni sérfræðinga með ákveðna þekkingu, og getur strandríki leitað ráða hjá þeim ef þörf krefur.

Til að tryggja rétt annarra aðila fyrir óþörfum aðgerðum strandríkis ber strandríki, sem hefur gert ráðstafanir er brjóta í bága við ákvæði samningsins, skylda til að greiða skaðabætur. Ef strandríki og viðkomandi aðili koma sér ekki saman um bætur geta aðilar skotið málinu til sáttanefndar eða, ef það dugir ekki til málalykta, þá til gerðardóms.

Alþjóðasamningurinn um einkaréttarlega ábyrgð fjallar um ábyrgð skipeiganda ef skip hans veldur olíumengun í umhverfi sjávar. Samningurinn gildir fyrir á launum við gjaldþrot. 2768 tankskip, sem flytja hráolíu, brennsluolíu, þykka dísilolíu, smurningsolíu eða hvallýsi. Fjárhagsleg ábyrgð skipeiganda er bundin við 2000 franka fyrir hverja rúmlest skipsins, en þó á skipeigandi ekki rétt á að notfæra sér þessa takmörkun ef mengunin er honum sjálfum að kenna. Ábyrgð skipeiganda er hins vegar engin ef olíumengun verður vegna hernaðaraðgerða, ófriðar, borgarastyrjaldar, uppreisnar eða náttúruhamfara sem eigi verða umflúnar eða ráðið við. Einnig. fellur ábyrgð skipeiganda niður, ef um er að ræða áfall sem þriðji aðili orsakar vísvitandi eða ef áfallið má rekja til kæruleysis eða vanrækslu yfirvalda í viðhaldi siglingaljósa og tækja.

Skipum, sem flytja meira en 2000 tonn af olíu í farmi, skal vera skylt að hafa vátryggingu eða aðra fjárhagslega tryggingu er svari til þeirrar hámarksábyrgðar er samningurinn kveður á um. Vottorð um að slík trygging sé í gildi skal gefið út fyrir hvert skip og skal vottorðið haft um borð í skipinu. Samningsríki skulu sjá svo um að slík trygging sé í gildi fyrir skip sem koma eða fara úr höfnum þeirra.

Alþjóðasamningurinn um stofnun alþjóðasjóðs var gerður í fyrsta lagi með því markmiði, að sjóðurinn yrði eins konar baktrygging fyrir t jónþola olíumengunar þegar þær hámarksbætur, sem skipeigendum er gert að greiða samkv. samningnum um einkaréttarlega ábyrgð, duga ekki til að bæta tjónþola upp það tjón sem hann hefur orðið fyrir. Í öðru lagi er sjóðnum ætlað að draga að nokkru leyti úr þeirri fjárhagslegu ábyrgð sem skipeigendum er sett með ákvæðum samningsins um einkaréttarlega ábyrgð.

Fjárframlög í sjóðinn greiðast árlega af þeim sem flytja inn meira en 150 þús. lestir á ári af gjaldskyldri olíu, eins og það er skilgreint í samningunum. Svartolía, sem flutt er hingað til lands frá Sovétríkjunum, mundi t.d. samkv. þessum samningum verða gjaldskyld.

Þetta er meginefni frv. Vænti ég þess, að hv. þm. sé ljóst hvað samningar þessir þrír fjalla um. Geri ég ráð fyrir að það sé með öllu óþarft að fjölyrða um þá miklu þýðingu sem slíkir samningar geta haft fyrir þjóð eins og Íslendinga, þar sem t.d. mengun á fiskimiðum gæti valdið okkur óhemjulegu tjóni. Tel ég því sjálfsagt að Íslendingar gerist aðilar að því samstarfi sem felst í þessum þremur samningum, sem Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur haft forgöngu um að gerðir hafa verið. Samningarnir munu allir hafa tekið gildi sökum þess að nógu margar þjóðir hafa þegar staðfest þá.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.