26.02.1979
Neðri deild: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2772 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

73. mál, samvinnufélög

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Hér er á ferðinni frv. til l. um breyt. á l. um samvinnufélög, sem felur það eitt í sér að sambandsstjórn skal kosin árlega beinni, leynilegri kosningu. Þetta frv. virtist ekki hljóða til svo ítarlegra og líflegra umr. sem raun varð á á fundi á miðvikudag, og væntanlega verða í dag aftur, en þær hafa gefið mér tilefni til þess að segja nokkur orð.

Það kemur í sjálfu sér fáum á óvart þótt fulltrúar pólitísku deildarinnar í Sambandi ísl. samvinnufélaga rísi upp og mótmæli þessu frv., vegna þess að aðrir aðilar dirfast að gera till. um breytingu á þeirri valdaaðstöðu sem þeir hafa innan þessa félagsskapar, og er út af fyrir sig skiljanlegt frá þeirra sjónarhóli að þeir vilji halda þeirri styrku aðstöðu sinni, sem þeir hafa nú í skjóli þeirra reglna og þeirra laga sem gilda um sambandið og framkvæmdina á þeim lögum. Hins vegar stóð einnig upp við þessa umr. formaður þingflokks Alþb., hv. þm. Lúðvík Jósepsson, og mælti algerlega gegn þessu frv. Fór svo, að hann lenti í karpi við fulltrúa Alþfl., flm. þessa frv., um hverjir væru meiri íhaldsmenn, þeir sem væru með þessari till. eða þeir sem væru á móti henni. Hann benti á það, að fyrir nokkrum áratugum — hygg ég — hefði verið flutt till. af nokkrum þm. Sjálfstfl. um svokallað atvinnulýðræði, þó ekki sams konar till. og hér er á ferðinni, en hv. þm. taldi dæmigert fyrir íhaldsmenn að flytja slíka till. Fulltrúar Alþfl. svöruðu því til, að einmitt með andstöðu sinni gegn þessu frv. væri hv. þm. Lúðvík Jósepsson að lýsa sinni sönnu íhaldssemi. Við, sem hingað til höfum verið uppnefndir með þessu heiti, getum vel unað við þessar umr. og þær skýringar og skilgreiningar sem gefnar eru á hugtakinu íhaldsmaður vegna þess að niðurstaðan af þessu er sú, að hægt er að túlka þær á báða vegu, hvort sem menn vilja halda í það, sem fyrir er, eða breyta einhverju frá því, sem staðið hefur mjög lengi.

Þessi tiltölulega litla og saklausa till. hefur enn þá einu sinni orðið tilefni til þess að þeir stjórnarþm. lenda í hári saman og er það orðinn daglegur viðburður. Ég mun ekki blanda mér mikið í þær hatrömmu deilur sem fram fara á milli þeirra stjórnarsinna. Ég skil þessa till. þannig, að hún sé flutt í þeim tilgangi að reyna að auka áhrif hins almenna félagsmanns í þessum samtökum og auka almennt áhrif launþega og félagsmanna í verkalýðshreyfingunni, þegar verið er að tala um breytingar á lögum sem fjalla um starfsemi verkalýðshreyfingarinnar almennt, eins og gert var að umtalsefni í umr. á miðvikudaginn. Mér finnst þessi hugsun vera góðra gjalda verð, enda þótt ég efist um að það frv., sem hér er flutt, nái endilega þessum tilgangi.

Ég hlýddi á þau rök, sem fram komu hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, þess efnis að hér væri hugsanlega um að ræða verulega skerðingu á félagafrelsi, hér væri um að ræða afskipti af innri málefnum félaga, og ég vil þess vegna hafa allan fyrirvara á um samþykki mitt við þetta frv. Ég vil virða mjög félagafrelsið og ég vil að Alþ. hafi sem allra minnst afskipti af innri málefnum frjálsra samtaka fólksins í landinu. Hins vegar hafa verið hér á undanförnum árum allmiklar umr. um það, hvort og hvernig hægt væri að koma á auknu atvinnulýðræði, eins og það er kallað, hvort hægt væri að auka áhrif starfsmanna á rekstur ýmissa fyrirtækja. Þá hefur spurningin fyrst og fremst verið um það, hvort auka ætti áhrifin með almennum samningum milli atvinnurekenda og starfsmanna eða hvort ætti að setja löggjöf. Ég hef ávallt verið þeirrar skoðunar að sjálfsagt væri að auka áhrif starfsmanna, leyfa þeim að fylgjast betur með starfsemi og rekstri fyrirtækjanna, þeir öðluðust þannig betri skilning á því, hvað fram væri að fara og hverjir væru hagsmunir viðkomandi fyrirtækja, en ég hef talið vafasamt að slíkt ætti að binda í lögum. Að þessu leyti er ég sammála hv. þm. Lúðvík Jósepssyni. En á sama tíma sem hann heldur þessum röksemdum fram hér og varar við of mikilli afskiptasemi af hálfu Alþ. af innri málefnum félaga og vill að t.d. verkalýðshreyfingin fái að starfa nokkuð frjálst og haga lögum sínum að eigin vild, þá vek ég athygli á því, að einmitt þessa dagana er verið að dreifa á Alþingi alls kyns stjfrv., sem einmitt fela í sér að ákveða með lögum ýmis félagsleg réttindi til handa verkalýðshreyfingunni, þar sem beinlínis er gripið inn í svokallaða frjálsa samninga, þar sem verið er að ákveða með lögum það sem hingað til hefur verið talað um að aðilar vinnumarkaðarins ættu að semja um sín á milli. Að þessu leyti stangast málflutningur hv. þm. verulega á. Ég endurtek, að ég tel eðlilegt að þegar um er að ræða t.d. styttingu vinnuviku og önnur hliðstæð mál sé um það samið milli aðila vinnumarkaðarins, en ekki sett einhliða löggjöf, sem gengur á hagsmuni annars aðilans, en er í þágu hins.

Ég stóð líka upp til að vekja athygli á því, að talsmaður Alb. mælir nú mjög gegn þessari till. og varar við þeim hugmyndum að tekin séu upp í lög ákvæði um að starfsmenn hafi aðild að stjórn fyrirtækja, Núv. hæstv. menntmrh. og að ég hygg þáv. formaður Alþb. flutti till. til þál. árið 1968 sem fjallaði um atvinnulýðræði, en þar kveður við annan tón. Í þeirri till. segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ellefu manna nefnd að undirbúa löggjöf um aukin áhrif verkamanna og annarra launþega á stjórn þeirra fyrirtækja, sem þeir starfa hjá.“

Í grg. með þessar till. segir m.a. um það málefni sem einmitt er hér á dagskrá, þ.e.a.s. um hugsanleg afskipti löggjafans af málefnum samvinnuhreyfingarinnar, með leyfi forseta:

„Þá má minna á, að samvinnuhreyfingin á Íslandi er óvenjulega öflug. Eins og fyrr segir, á atvinnulýðræði sérstakan rétt á sér í opinberum rekstri, en ekki á það síður við innan samvinnuhreyfingarinnar. Krafan um lýðræði er náskyld og raunar samofin hinni gömlu samvinnuhugsjón. Félög samvinnumanna byggðu upp starfsemi sína hér á landi með lýðræðislegu samstarfi neytenda í bæjum og framleiðenda í landbúnaði. Síðan hafa forustumenn samvinnumanna villst nokkuð af leið með því að blanda blóði við einkaframtakið og hverfa frá lýðræðislegum vinnubrögðum í atvinnurekstri. Iðnfyrirtæki á vegum samvinnufélaganna eru mörg í hlutafélagsformi, og hafa hvorki starfsmenn né neytendur þar nokkur áhrif. Því verður þó ekki neitað, að hin styrka staða samvinnuhreyfingarinnar bætir aðstöðuna til að koma á lýðræði í íslenskum atvinnurekstri.“

Þessi ummæli eru höfð í grg. til rökstuðnings því, að eðlilegt sé að gera sérstaka athugun á því, hvort ekki sé rétt að undirbúa löggjöf um aukin áhrif verkamanna, aukin áhrif starfsmanna sambandsins í stjórn þess fyrirtækis.

Ég held að það sé alveg rétt, sem komið hefur fram í þessum umr., að auka þarf hið virka lýðræði, hvort sem það er í frjálsum samtökum eða í landinu almennt, og ég vil fyrir mitt leyti stuðla að því, að lýðræðið sé öflugra og virkara. Hins vegar vek ég athygli á að þ. á m. skal það gert í verkalýðshreyfingunni. Það er enginn vafi á því, og það er alveg óþarfi að mótmæla því, að bæði í verkalýðshreyfingunni og þá t.d. í sambandinu er um að ræða fámennisstjórn. Auðvitað er misjafnt, eins og sagt var um daginn, í hversu miklu jarðsambandi forusta verkalýðshreyfingarinnar er hverju sinni. Þetta er almennt sagt af minni hálfu. Ég held að menn hljóti að fallast á það, og ég held að þeir, sem vilja verkalýðshreyfingunni vel, hljóti að vilja hlusta á þau sjónarmið sem hníga í þá átt að reyna að virkja hinn almenna launþega, hinn almenna félagsmann í verkalýðshreyfingunni til aukinnar þátttöku.

Hins vegar er það misskilningur hjá talsmönnum Alþfl. og flm. þessa frv., að það breyti í sjálfu sér einhverju um eflingu lýðræðis og sé einhver staðfesting á aukinni þátttöku hins almenna félagsmanns að stjórnarkosningar fari oftar fram, hvort heldur er um að ræða í SÍS eða verkalýðsfélögum. Það getur verið öflugt og virkt starf í verkalýðsfélagi þótt kosningar fari ekki fram til stjórnar á hverju einasta ári. Það skiptir ekki öllu máli.

Það má ýmislegt skoða einmitt á þessum vettvangi annað en það, hvort verið sé að kjósa á hverju einasta ári. Ég held t.d. að ef þessi till., sem hér er á dagskrá, yrði samþykkt og kosið yrði beinni leynilegri kosningu í stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga yrði það engin trygging fyrir því, að aukið yrði lýðræði í þeim félagsskap. Og ég veit reyndar ekki dæmi þess, að þegar um stór landssamtök er að ræða eins og SÍS eða önnur almenn hagsmunasamtök eða félagssamtök hér á landi, að þá sé slíkar leynilegar, beinar kosningar. Þær tíðkast einfaldlega ekki. Ég held þess vegna að rétt sé bæði fyrir flm. þessa frv. og fyrir samvinnumenn almennt að leita annarra leiða og annarra ráða til að efla almenna þátttöku félagsmanna á þessum vettvangi.

Herra forseti, ég hef allan fyrirvara á um að lýsa yfir stuðningi við þetta frv. Ég skil hugarfarið á bak við flutning frv. og tel það góðra gjalda vert. Ég held hins vegar að varðandi atvinnulýðræði beri að vinna að því að reyna að auka áhrif og þátttöku starfsmanna í rekstri fyrirtækjanna. Ég held að það sé báðum aðilum til góðs, bæði þeim, sem eiga fyrirtækin, og þeim sem vinna þar. En ég held að það eigi að gerast með frjálsum samningum frekar en með löggjöf.