30.10.1978
Neðri deild: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

39. mál, kjaramál

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil í örfáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þeirra greina frv. um kjaramál á þskj. 42 sem fjalla um tekju- og eignarskattsaukann.

Eitt stærsta dæmið um óréttlæti og misrétti í þjóðfélaginu er það meingallaða skattkerfi sem við búum við. Þar hafa margir aðstöðu til að spila á kerfið og eru það oftast þeir, sem breiðust hafa bökin og hagnast hafa óeðlilega á verðbólgunni, sem geta notfært sér ýmsar smugur í skattkerfinu og sleppa ótrúlega vel frá því að leggja sinn skerf til samfélagsins. Bitna því skattar oft með miklum þunga á þeim sem síst skyldi. Þess vegna hlýtur það að vera eitt af brýnustu verkefnum þessarar ríkisstj. að lagfæra ýmsa augljósa galla á skattkerfinu, sem beinlínis stuðla að skattsvikum, auk þess sem stórlega þarf að herða allt skatteftirlit.

Þær auknu skattaálögur, sem ríkisstj. varð að grípa til við gerð brbl., má vissulega gagnrýna að mörgu leyti. En um leið og við gagnrýnum verðum við að hafa í huga þær aðstæður sem voru þegar ríkisstj. var mynduð og brbl. voru sett. Þá blasti við stöðvun undirstöðuatvinnuveganna, stórfellt atvinnuleysi og ófriður var á vinnumarkaðinum. Voru þetta afleiðingar efnahagslegrar óstjórnar fráfarandi ríkisstj. Hornsteinn núverandi stjórnarsamstarfs er samvinna og samráð við aðila vinnumarkaðarins. Því var nauðsynlegur liður í því samstarfi að skila launþegum því aftur, sem fráfarandi ríkisstj. hafði af þeim tekið með kjaraskerðingarlögunum frá febr. s.l., og taka samningana í gildi með réttlátu og sanngjörnu vísitöluþaki. Fyrstu aðgerðir ríkisstj. voru því mikil niðurfærsla vöruverðs til þess að hamla gegn verðbólguáhrifum gengisfellingar og víxlhækkunar kaupgjalds og verðlags, auk þess sem henni var mætt með aukinni skattheimtu og niðurskurði á útgjöldum ríkisins. Vissulega skal viðurkennt að sú skattheimtuleið sem valin var, nær alls ekki til allra þeirra sem ná hefði þurft til og sloppið hafa vegna hripleks skattkerfis undan að greiða það sem þeim ber til samfélagsins. En á það verður að líta, að stuttur tími var til stefnu og öllum ljóst að sú gagngera breyting, sem þarf að gera á skattkerfinu og skatteftirlitinu, tekur mun lengri tíma en þá var til stefnu.

Alþfl. hefur verið gagnrýndur fyrir þær auknu tekjuskattsálögur sem brbl. fela í sér, þar sem hann á mörgum undanförnum þingum hefur borið fram till. um að afnema beri tekjuskattinn af launatekjum, þar sem meginþungi beinu skattanna hvíli á herðum launamanna. Með tilliti til þeirra aðstæðna, sem fyrir hendi voru, og að stuttur tími var til stefnu, auk þess sem tekjuskattsaukinn kemur aðeins á þá sem hæstar hafa tekjurnar, má e.t.v. réttlæta þessar aðgerðir. En ég tel að Alþfl. geti undir engum kringumstæðum í áframhaldandi efnahagsaðgerðum staðið að auknum tekjuskatti á launatekjur, heldur eigi hann hiklaust á þessu þingi að stefna að afnámi hans, nema ef vera skyldi á allra hæstu tekjur.

Mikið hefur einnig verið deilt á eignarskattsaukann. Á það fyllilega rétt á sér hvað varðar t.d. ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega, sem hafa á langri starfsævi eignast skuldlausar eignir, en hafa aðeins ellilífeyri, örorkubætur eða aðrar litlar tekjur úr að spila til að standa undir þeim skatti sem lagður er á eignir þeirra. Ég tel að stjórnarflokkunum beri að leiðrétta það augljósa ranglæti sem felst í eignarskattsaukanum hvað varðar þessa hópa. Ég lít svo á, að hér sé um agnúa að ræða, sem mönnum hafi yfirsést á þeim stutta tíma, sem var til stefnu við gerð brbl., og sé því rétt að leiðrétta hann. Hér getur vart verið um stóran hóp að ræða og getur sú leiðrétting því varla haft mikil áhrif á tekjuhlið brbl.

Hv. þm. Matthías Bjarnason hefur lagt fram brtt. við a-lið 8. gr. frv., um afnám eignarskattsaukans hjá því fólki sem komið er á þann aldur að því beri ellilífeyrir. Ég tel þá till. ganga of langt að því leyti, að margir þeir, sem komnir eru á ellilífeyrisaldurinn, eru enn í fullri atvinnu og jafnvel með atvinnurekstur, og margir hverjir með mjög góðar tekjur auk ellilífeyrisins. Á hinn bóginn gengur sú till. of skammt að því leyti, að hún nær ekki til t.d. örorkulífeyrisþega né ekkna sem eiga einhverjar eignir, en hafa ekki nema úr almannatryggingabótunum og öðrum lítils háttar tekjum að spila, og gæti því eignarskattsaukinn ekki síður bitnað þungt á þeim en ellilífeyrisþegunum. Því vil ég leyfa mér, herra forseti, að bera fram brtt. við a-lið 8. gr. frv., sem er svo hljóðandi: „8. gr. a orðist svo:

50% af álögðum eignarskatti á menn, sbr 1, tölul. 26. gr. greindra laga, ef sérskattaðir einstaklingar höfðu hærri vergar tekjur til skatts á skattárinu 1977 en 1.4 millj. og samsköttuð hjón, eða sambúðarfólk, höfðu hærri vergar tekjur en 1.8 millj. til skatts á því skattári.

Eignarskattsauki þessi skal vera 10 prósentustigum lægri á hverju 100 þúsund kr. bili sem vergar tekjur eru lægri en fyrrgreindum tekjumörkum nemur, þannig að allir sérskattaðir einstaklingar eru undanþegnir eignarskattsauka, sem höfðu lægri vergar tekjur til skatts en 1 millj., og öll samsköttuð hjón eða sambúðarfólk, sem höfðu lægri vergar tekjur til skatts en 1.4 millj. á skattárinu 1977.“

Þannig mun þessi brtt., ef hún nær fram að ganga, tryggja að t.d. ellilífeyrisþegar, örorkulífeyrisþegar og ekkjur, sem litlar tekjur hafa aðrar en almannatryggingabæturnar, þurfi ekki að bera neinn eignarskattsauka. Þessu til skýringar má bæta við, að með tekjutryggingu og heimilisuppbót var ellilífeyrir einstaklinga á árinu 1977 tæpar 680 þús. kr. og ellilífeyrir hjóna tæpar 1100 þús. Ef taka lífeyris hefst aftur á móti ekki fyrr en við 72 ára aldur verður hann rúmlega 900 þús. fyrir einstaklinga og 1280 þús. fyrir hjón, þannig að ellilífeyrisþegar, sem ekki munu bera eignarskattsaukann samkv. þessari brtt., geta haft einhverjar tekjur á árinu 1977 fram yfir ellilífeyrislaunin. Einnig mun eignarskattsaukinn leggjast tiltölulega létt á þá, sem samkv. þessari till. hafa í tekjur 1–1.4 millj, fyrir einstaklinga á skattárinu 1977 og 1400–1800 þús. fyrir hjón. Ég ítreka, að hér getur ekki verið um mjög mikinn tekjumissi að ræða fyrir ríkissjóð, þar sem hér getur varla verið um stóran hóp að ræða, en á hinn bóginn getur þessi breyting verulega hlíft þeim sem eignarskattsaukinn leggst hvað þyngst á.