27.02.1979
Sameinað þing: 58. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2792 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Gils Guðmundsson ):

Hv. 7. þm. Reykv. hefur beint þeim eindregnu tilmælum til mín sem forseta, að till. sú til þál. um þjóðaratkvgr. um efnahagsfrv. forsrh., sem nú hefur verið útbýtt fyrir skammri stundu, verði tekin á dagskrá Alþingis nú þegar, skilst mér. Hér er óneitanlega til nokkuð mikils mælst, þar sem venjan er sú, eins og hv. þm. veit, að fyrst er þáltill. útbýtt, síðan er hún tekin á dagskrá degi síðar og þá ákveðið, hvernig ræða skuli, en á næsta fundi þar eftir er hún svo gjarnan í fyrsta sinn til umr. á dagskrá þingsins. Nú má að sjálfsögðu segja að það séu fordæmi fyrir því, ekki síst með stjfrv., að mjög knýjandi ástæður hafi orðið til þess að þingmál hafi verið tekin fyrir með sérstökum afbrigðum og sérstökum hraða og þá tekin fram yfir fjölda mála sem lengi hafa mátt bíða, eins og er t.a.m.um þau mál öll sem eru á dagskrá tveggja auglýstra funda í dag.

Þessi þáltill. hv. 7. þm. Reykv., — ég fer að sjálfsögðu ekki að ræða hana efnislega hér úr forsetastól, — en það eru tvö atriði í henni sem ég tel rétt að vekja afhygli á. Það er í fyrsta lagi þjóðaratkvgr. um umrætt efnahagsfrv., og það er hv. þm. ljóst að tekur nokkuð langan tíma að undirbúa hana og koma henni í framkvæmd. Hitt atriðið er það, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að undirbúa og gera ráðstafanir til að fresta þeim breytingum á efnahagskerfinu, sem verða áttu í tengslum við 1. mars, uns niðurstöður úr þjóðaratkvgr. liggja fyrir.

Nú verð ég aðeins að segja það, að 1. mars kemur hvorki yfir mig né hv. 7. þm. Reykv. sem „þjófur úr heiðskíru lofti“ eða af sérstakri skyndingu, eins og eldgos eða jarðskjálfti. Febrúar er að vísu ákaflega stuttur mánuður og stysti mánuður ársins, en mér finnst að hv. þm. hefði getað verið aðeins fyrr á ferðinni með þessa till. sína og þá hefði kannske ekki þurft að reyna svo mjög á margföld afbrigði sem í rauninni þyrfti til að taka. Nú er það svo, að ef ríkisstj. og helst allir þingflokkar gætu náð samkomulagi um það að setja einhverja tiltekna löggjöf, þá er að sjálfsögðu hægt að gera það á þessum tæplega hálfum öðrum sólarhring sem er til stefnu þar til 1. mars rennur upp. En ég vek aðeins athygli á því, að þetta er því einungis hægt að slíkt mál mæti í rauninni engri andstöðu. Það þyrfti ekki nema einn eða tvo hv. þm. til þess að koma í veg fyrir að slíkt yrði gerlegt.

Ég tel rétt, — áður en ég svara endanlega þessum tilmælum hv. 7. þm. Reykv. af eða á, en þau virðast í því fólgin að taka út af dagskrá tveggja boðaðra funda öll þau mál, sem þar eru, og boða nýjan fund til þess að taka þáltill. hans til ákvörðunar og síðan umr. að fengnum afbrigðum á enn öðrum fundi, — þá þykir mér eðlilegt að heyra aðeins frá þeim talsmönnum hæstv. ríkisstj. og þeim talsmönnum þingflokka sem vilja tjá sig um þá málsmeðferð sem eðlilegt kynni að vera að hafa í þessu efni. Ég mun þess vegna bíða með það að segja af eða á um það, hvað ég telji rétt að afhuguðu máli að gera í sambandi við þessi tilmæli, þar til ég hef heyrt eitthvað fleira frá talsmönnum stjórnmálaflokkanna um það, hvort þeir telji eðlilegt að þessi þáltill. fái þann algera forgang sem um er beðið.