30.10.1978
Neðri deild: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

39. mál, kjaramál

Finnur Torfi Stefánsson:

Herra forseti. Það sem mest áhersla var lögð á af hálfu okkar jafnaðarmanna í umræðum fyrir síðustu kosningar, var hugmynd okkar um kjarasáttmála. Á þessu máli hömruðum við, og ég er þeirrar skoðunar og þeirrar trúar sjálfur, að þessi hugmynd og þessi stefna hafi átt ríkastan þátt í þeim sigri, sem við unnum í kosningunum, og því fylgi, sem við fengum hjá þjóðinni. Þarna var um að tefla nýja hugmynd, nýja aðferð við stjórn efnahagsmála á Íslandi.

Við höfðum horft upp á það undanfarin ár hvernig hin svokallaða valdbeitingarstefna hafði reynst, þ.e.a.s. sú stefna ríkisvaldsins að fara sínu fram án þess að hugleiða hverjar viðtökur aðgerðir í efnahagsmálum fengju hjá fólkinu. Þetta hafði mistekist með hrapallegum afleiðingum, og okkur var ljóst, jafnaðarmönnum, að það þurfti að taka eitthvað nýtt upp, það þurfti að breyta til. Þetta voru ástæðumar sem lágu að baki þessarar stefnu okkar sem við mörkuðum og kölluðum kjarasáttmála, og þær hugmyndir fengu augljóslega hljómgrunn.

Í stjórnarmyndunarviðræðunum kom fljótlega í ljós, að samstarfsflokkar okkar í ríkisstj. höfðu svipaðan skilning. Þeir höfðu líka áttað sig á því, að ef átti að vera nokkur von til þess að geta ráðið við efnahagsvandann, þá varð að gera það í anda kjarasáttmálans, þá varð að gera það í samstarfi við launþegasamtökin. Nú er það auðvitað ekki nýtt í sjálfu sér að taka upp samstarf við launþegasamtökin. Það hefur verið reynt áður. Það, sem er nýtt í þessu, er hversu víðtækt þetta nýja samstarf er og hversu skipulagt því er ætlað að vera. Það er algerlega nýtt. Þetta er ný tilraun og auðvitað er ekki hægt að fullyrða um það á þessu stigi hvernig hún gengur, en hún lofar góðu, finnst mér, til að byrja með. Þannig voru allar þessar efnahagsráðstafanir, sem voru gerðar í haust. Þær voru mótaðar í anda kjarasáttmálans. Þessar aðgerðir voru ræddar við forustumenn launþega í landinu, þaðan komu hugmyndir líka í „púkkið“. Þetta var rætt og síðan framkvæmt.

Nú deila menn auðvitað alltaf um svona ráðstafanir. Róttækar ráðstafanir í efnahagsmálum hafa alltaf kosti og ókosti. Þær koma illa við suma, og það er eðlilegt að um þær verði deilt. En ég held að enginn maður geti deilt um það — enda hef ég ekki heyrt neinar raddir í þá átt — að aðgerðirnar hafa náð markmiðum sínum, tilganginum hefur verið náð. Tilgangurinn var auðvitað sá fyrst og fremst að halda atvinnulífi gangandi í landinu, en það var stöðvað eða við það að stöðvast. Í öðru lagi var tilgangurinn að semja frið á vinnumarkaðinum. Það gerðist líka. Nú ríkir friður milli launþega og ríkisvalds. í þriðja lagi var tilgangurinn að reyna að halda niðri verðbólgunni. Hann hefur náðst líka svo langt sem það nær. Hvað sem menn segja um einstök framkvæmdaatriði og hvort sem menn eru ánægðir með aðferðir eða ekki, þá getur enginn mótmælt því og enginn neitað því, að þessum grundvallarmarkmiðum aðgerðanna hefur verið náð.

Við jafnaðarmenn höfum verið gagnrýndir þó nokkuð fyrir okkar þátt í þessum aðgerðum. M.a. hefur því verið haldið fram, að við höfum svikið stefnu okkar í skattamálum. Ég held að þetta sé rangt. Það er að vísu alveg rétt, að við höfum haldið því fram að tekjuskattur sé í raun og veru frekar óheppileg skattheimtuaðferð, og við höfum haldið því fram, að stefna ætti að því að leggja niður tekjuskatt af öllum almennum launatekjum. En við höfum aldrei haldið því fram, að það ætti að hætta að skattleggja hátekjur. Þvert á móti hefur það alltaf verið grundvallaratriði í tillögugerð okkar, að við viljum viðhalda tekjuskatti á hátekjunum, teljum það eðlilegt og þjóðfélagslega réttlátt. Ég vísa því á bug allri gagnrýni á okkur jafnaðarmenn fyrir að hafa svikið stefnu okkar í þessum málum. — Auðvitað ber að játa, að við höfum ekki enn þá náð því marki að fella niður tekjuskattinn á almennu launatekjunum — það er markmið sem við vinnum að áfram — enda höfum við ekki haft langt ráðrúm eða mikinn tíma til að vinna að þessu enn þá.

Það hefur komið dálítið á óvart í umr. hér á hinu háa Alþ., hvað menn eru oft ónákvæmir í tali. Menn hafa t.d. kallað eignarskattinn eignaupptöku. Þetta orð — eignaupptaka — hefur ákaflega skýra og ljósa merkingu í íslenskri tungu. Eignaupptaka er ákveðin refsitegund, sem dómstólar geta dæmt menn í, ákaflega vel skilgreint hugtak. Það fer ekki á milli mála hvað það þýðir. Það er út í hött og verður til þess að rugla hugsun manna þegar menn fara að kalla eignarskatt eignaupptöku. Menn geta auðvitað alltaf deilt um hvað eignarskattur á að vera hár, eðlilegt að hafa mismunandi skoðanir á því. En við skulum samt hafa rétt orð um hlutina, svo að þjóðin skilji okkur þegar við erum að tala saman.

Eins er talið um afturvirkni skatta. Hún er dálítið einkennileg, þessi tilhneiging, sem stundum kemur upp, að kalla: úlfur, úlfur og reyna að fá fólk til þess að trúa því að aðgerðir stjórnvalda séu ólöglegar, brjóti jafnvel í bága við stjórnarskrá og slíkt. Ég veit ekki betur en allir skattar séu afturvirkir. Ég veit ekki betur en skattar séu alltaf lagðir á þær tekjur, sem menn hafa þegar unnið sé; inn þegar skatturinn er lagður á, eða þær eignir, sem menn eiga fyrir þegar skatturinn er lagður á. Ég sé ekki betur en þetta sé alltaf afturvirkt. Er þá ekki öll skattheimta ólögleg — eða hvað?

Ég ætla að ítreka það, sem ég sagði áðan, að efnahagsaðgerðirnar hingað til hafa óumdeilanlega náð markmiðum sínum og sinnt því hlutverki sem þær áttu að sinna. Hitt er auðvitað að játa, að það er miklu meiri óvissa um framhaldið. Nú stendur fyrir dyrum hjá hinu háa Alþ. að afgreiða fjárlög og það verður auðvitað erfitt og vandasamt verkefni. Það er alveg ljóst, að sýna þarf mikið aðhald í fjárlagagerð. Ég er alveg sannfærður um að hv. þm. Sjálfstfl., sem alltaf hafa verið, eins og við vitum, aðhaldsmenn og menn sparnaðar í ríkisrekstrinum, fá mjög mikil og góð tækifæri til þess að sýna þessi sjónarmíð sín í verki núna við fjárlagagerðina. Ég er t.d. þeirrar skoðunar, að nú þurfi að skera rækilega niður ríkisbáknið og spara þar í rekstrinum og koma fram hagræðingu, aukinni virkni og minni launakostnaði helst. Ég vænti þess sannarlega að vinir mínir, hv. þm. Sjálfstfl., muni hjálpa okkur í þessu, því að þetta er auðvitað þeirra mál, þeir hafa alltaf viljað spara þarna. Og eins er ég alveg viss um að hv. þm. Sjálfstfl. munu alls ekki vera með einhverja óábyrga tillögugerð um einhverjar framkvæmdir hér og þar. Þeir munu auðvitað verða aðhaldsmenn eins og þeir hafa alltaf verið.

Ég sagði áðan að kjarasáttmálinn, sem nú er verið að reyna að framkvæma og reyna að mynda um leið, vegna þess að við erum að búa hann til frá degi til dags, er tilraun til þess að reyna að nálgast vanda efnahagslífsins á nýjan hátt. Ég veit náttúrlega ekki hvernig það tekst. Enginn getur fullyrt um það enn þá. Næstu mánuðir munu skera úr um það. En það veltur auðvitað á verkalýðshreyfingunni, það veltur á hv. þm. öllum og það veltur á þjóðinni í heild.

Ég ætla að víkja í lokin að till. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flutti áðan. Ég held að hún sé ákaflega merkileg, jákvæð till. Þarna er um að ræða leiðréttingu. Þetta er sjálfsagt réttlætismál að mínu áliti, og ég hallast að því, að það hafi nánast verið handvömm að þetta ákvæði var ekki inni í upphaflega frv., sem var unnið á allskömmum tíma. Þarna er ekki um að ræða neinn teljandi tekjumissi sem þessu fylgir. Afarkostalaust er að samþykkja þetta, en sjálfsagt réttlætismál. Þess vegna mæli ég með samþykkt þeirrar tillögu.