27.02.1979
Sameinað þing: 58. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2796 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Gils Guðmundsson):

Ég vil, áður en lengra er haldið, skýra frá því, að ég tel rétt með hliðsjón af 44. gr. þingskapalaga að Alþ. skeri úr því, hvort þessa till. til þál., sem hv. 7. þm. Reykv. hefur flutt, eigi að taka á dagskrá. Ég tel jafnframt rétt að þingflokkum gefist kostur á því að koma saman og mun því gefa fundarhlé áður en að því kemur. Í 44. gr. þingskapalaga segir: „Mál, sem eigi er á dagskrá, verður því aðeins tekið fyrir, að til þess fáist samþykki 3/4 þeirra, sem á fundi eru.“ Ég vildi geta þess, að ég tel rétt að Alþ. skeri úr þessu, en ekki forseti, samkv. þessari grein, ef það gæti stytt eitthvað þessar umr. utan dagskrár.