27.02.1979
Sameinað þing: 58. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2811 í B-deild Alþingistíðinda. (2218)

Umræður utan dagskrár

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég held að ekki þurfi að kvarta yfir því að suðan sé ekki komin upp í stjórnarflokkunum. Ég held að síðasta ræða hafi ekki leynt því. Auðvitað er öllum ljóst að þar sýður og kraumar á öllum vígstöðvum, enda er sú ástæðan til þess að þessi till. er borin fram.

Þessi till. er borin fram um það, að frv., sem ríkisstj. hefur ekki vegna sundrungar treyst sér til að leggja fyrir Alþ., verði í staðinn lagt fyrir þjóðina. Ég held að það sé ekki ofmælt hjá hæstv. forsrh. að þessi till. — og óskir um málsmeðferð — sé ærið nýstárleg og mjög frumleg, eins og hæstv. ráðh. komst að orði.

Í till. er m. a. getið um það frv. sem forsrh. hafi kynnt ríkisstj. mánudaginn 12. febr. Ég held að þetta sé nokkuð óvenjulegt. Venja er að láta sér nægja dagsetninguna, en kannske sé verið að minna á, með því að nefna mánudaginn sérstaklega, orðtakið um að mánudagur sé til mæðu, því að vissulega hefur stjórnin haft í mörgu að mæðast að undanförnu og virðist ekkert lát á því eftir þessum umr. að dæma.

Það er ekki ástæða til á þessu stigi að fara ítarlega út í efni þessa máls. Ég geri ráð fyrir að till. komi á sínum tíma til efnislegrar umr. Ég vil þó aðeins taka fram í sambandi við hugmyndir um þjóðaratkvgr. að ég er almennt fylgjandi heimild um þjóðaratkvgr. um mikilvæg málefni. En því verða menn að gera sér grein fyrir, að til þess að þjóðaratkvgr. nái tilgangi sínum verður að leggja skýrar spurningar fyrir þjóðina. Þjóðaratkvgr. hafa sums staðar farið fram t. d. um kosningaraldur: vilja menn færa kosningaraldur niður í 18 ár? Það er einföld og skýr spurning: já eða nei. Slíka þjóðaratkvgr. gætum við haft hér. Áður fyrr hefur tvívegis verið spurt á Íslandi: Vilja menn áfengisbann eða ekki? Það væri t. d. líka vel hægt að leggja þá spurningu fyrir þjóðina, leggja fyrir hana tvo valkosti: Er þjóðin samþykk skattastefnu Alþfl. fyrir kosningar eða andstæðunni — er hún samþykk skattastefnu Alþfl. eftir kosningar? Þetta væri upplagt efni til þjóðaratkvgr. Það er hægt að svara því einfaldlega og skýrt: já eða nei. Að leggja hins vegar fyrir þjóðina frv. í 62 greinum, sem ásamt aths. og skýringum er fjölritaðar eða vélritaðar 60 síður, er fráleit málsmeðferð og stangast gersamlega á við þá grundvallarhugsun sem liggur að baki þjóðaratkvgr.

Ef ætti að leggja fyrir þjóðaratkvæði efnahagsmálin almennt er líka alveg fráleitt, eins og hv. þm. leggur til, að þetta frv. sé lagt fyrir þjóðina, þar sem ekkert er minnst á skattana. Ég hefði haldið að eitt af hinum stóru málum í sambandi við efnahagsmálin væru einmitt skattamálin. E. t. v. væri hugsanlegt að forma einhverjar einfaldar spurningar, sem væri hægt að leggja fyrir þjóðina, þannig: Vill þjóðin viðhalda eða vill hún afnema þá skatta sem núv. stjórnarflokkar hafa á lagt? — En fráleitt er að telja að það sé mál fyrir þjóðaratkvgr. að leggja fram frv. eins og þetta, þar sem m. a. er ekki minnst á sum stærstu málin, eins og t. d. skattamálin, ekki heldur er komið inn á það mikla vandamál hvort eigi og hvernig að takmarka þorskveiðar á næstunni, þar sem fyrir liggja till. sérfræðinga um 250 þús. tonna hámark og till. hæstv. forsrh. um 300 þús. og margir aðrir hafa aðrar till. Ofan á þetta bætist að frv. hæstv, forsrh., sem menn hafa ekki enn þá treyst sér til þess að leggja fyrir Alþ., virðist vera svo flókið og torskilið að sögn hæstv. forsrh. sjálfs, að samráðh. hans sumir hafa ekki skilið það eða misskilið sumt. En slíkt frv. þess eðlis, að æskilegt væri að leggja það fyrir þjóðaratkvgr., þar sem hver hv. kjósandi yrði væntanlega fyrst að pæla í gegnum þessar 60 vélrituðu síður og væntanlega að þeim lestri loknum óska eftir margvíslegum skýringum og svörum til viðbótar?

Ég tek það fram, að ég er hlynntur hugsuninni um þjóðaratkvgr. En menn verða að gera sér ljóst að það verða að vera skýrar spurningar, sem eru lagðar fyrir kjósendur, sem tiltölulega einfalt og augljóst er að svara með jái eða neii.

Ég skal, herra forseti, verða við óskum um að lengja ekki þessar umr. En með hliðsjón af því, hvernig þetta mál er allt saman til komið, það er komið til vegna ágreinings innan ríkisstj., sem hv. flm. þessarar till. vill þess vegna skjóta til þjóðarinnar, þá vil ég leggja til að till. Vilmundar Gylfasonar sé vísað til ríkisstj., og ég vænti þess, að hæstv. forseti muni bera upp þá till. á því stigi máls sem honum þykir henta.