28.02.1979
Efri deild: 60. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2831 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

202. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Sjálfstfl. getur í sjálfu sér mjög vel sætt sig við þá lausn sem hér er lögð fram. Þetta er rétt og eðlileg aðferð, að þegar svo stendur á sem nú sé tekið úr sameiginlegum sjóði og svo mikil hækkun á olíu sem orðin er hækki ekki sjálfkrafa kaup sjómanna. Hitt er svo annað mál, að einhver verður að greiða þetta. Loksins heyrist að einhver sjóður í landinu sé vel staddur. Nú kemur það allt í einu í ljós, að vel hefur verið talið skilið við þessa sjóði sjávarútvegsins, þeir eru allt í einu færir um að greiða þær geysiháu upphæðir sem hér er um að ræða.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því, að enda þótt hæstv. ráðh. haldi því fram að svo sé, þá leyfi ég mér fyllilega að efast um að t. d. sé gerlegt að taka af Aflatryggingasjóði svo mikið fé sem hér er um að ræða, vegna þess að þessi sjóður á fyrir sér mikil og vaxandi verkefni, ég tala nú ekki um ef frv. hæstv. forsrh. um efnahagsráðstafanir yrði samþ. Þá liggja fyrir Aflatryggingasjóði vaxandi verkefni og mikil útgjöld og sé ég þá ekki að hann gæti orðið fær um að reiða þessar greiðslur af hendi.

Sama vil ég segja um Fiskveiðasjóðinn. Það er óhæfa að ætla sér að taka af honum þennan tekjustofn að þessu leyti, vegna þess að sá sjóður hefur alls ekki verið fær um að sinna verkefnum sínum á undanförnum árum og við höfum í mínu kjördæmi sérstaklega fengið að finna fyrir því. Þar er þannig ástatt, að vegna skorts hans á fjármunum hefur hlutfallið t. d. á lánum til véla verið lækkað úr 50% niður í milli 30 og 40%. Þetta hefur komið mjög illa við og mundi að sjálfsögðu verða tilfinnanlegt ef ætti enn að rýra tekjur hans. Ég sé því ekki annað en finna verði aðrar leiðir til að mæta þessari tekjurýrnun.

Aftur á móti er það líklega öruggt, sem hæstv. sjútvrh. sagði, að a. m. k. Tryggingasjóðurinn muni vera fær um að taka á sig að tekjur hans minnki eitthvað að ráði.

Svo er eitt í þessu máli sem kemur svolítið spánskt fyrir sjónir. Af því að verið er að rýra tekjur þessara sjóða og ýmissa aðila af þessum óviðráðanlegu ástæðum, þá koma allt í einu aukin útgjöld til félaganna, bæði sjómannafélaga og útgerðarmanna og þeirra félaga. Þeir fá hækkun um 0.1%, 2 millj. hvor í sinn hlut, þegar verið er að rýra hluti annarra. Þetta finnst mér einhvern veginn að sé ekki viðkunnanlegt í þessu mikla og vandasama máli.

Ég er í n. sem þetta mál kemur til. Ég verð að segja það, að markmiðið er gott, en ég get ekki fallist á að það sé gerlegt að rýra svo mikið tekjur þessara tveggja sjóða sem ég gat um.