30.10.1978
Neðri deild: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

6. mál, stjórnarskipunarlög

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er nú svo, að ákveðið hefur verið að skipa stjórnarskrárnefnd, sem í eiga sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna, sem fulltrúa eiga á Alþ. Það var tekið fram þegar sú nefndarskipun var ákveðin, að þessi nefnd ætti að skila áliti innan tveggja ára, og með því undirstrikað, að þessi nefnd ætti að starfa öðruvísi en þær nefndir sem settar hafa verið á laggirnar fyrr. Þessari nefnd er ekki eingöngu ætlað að fjalla um stjórnarskrána, heldur jafnframt um starfshætti Alþingis. Það er kannske þess vegna dálítið undrunarefni, hvers vegna þær till. koma fram nú á þinginu um breytingu á stjórnarskipunarlögunum sem hér hafa verið lagðar fram, og reyndar er búið að ræða eina þeirra. Má þó vera, að tilgangurinn sé að koma þessu efni til skila, ef ske kynni að þessu þingi entist ekki aldur til þess að breyta stjórnarskipunarlögunum.

Ljóst er af þeim umræðum, sem orðið hafa um þetta mál, að það á ekki að fara út úr þeirri nefnd, sem málinu verður vísað til. Ég tel þó ástæðu til þess að taka þátt í þessum umr. Ég vil fyrst víkja örfáum orðum að þeirri till., sem hér var áður til umr, í Nd. og fjallaði um breytingu á kosningarréttarskilyrðunum, og benda á þann mun, sem er á till. þeirri, sem Gunnlaugur Stefánsson lagði fram í Nd., og þeirri um sama efni, sem var lögð fram í Ed. af hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. Ég held að það sé ástæða til að benda á að sá munur er ekki lítill: Hann er í því fólginn, að í frv. hv. þm, Ólafs Ragnars Grímssonar er gert ráð fyrir því, að fellt verði úr lögum að það sé kosningarréttarskilyrði að menn hafi óflekkað mannorð. Ég tek það fram, að ég er fylgjandi því, að þetta kosningarréttarskilyrði falli brott. Það er nú á valdi sveitarstjórna að ákveða þetta nánast, því að hætt er að birta þennan réttindamissi í dómum. Á sínum tíma, þegar hegningarlaganefnd starfaði og skilaði áliti, þá kom það fram hjá henni, að hún lagði eindregið til að þetta ákvæði félli út úr stjórnarskipunarlögum. Og í því sambandi er rétt að minna á ummæli, sem komu fram í grg. og eru birt í Alþingistíðindum, A-deild frá 1957, á bls. 565 og 566.

Það hefur verið deilt um það talsvert, hver hafi átt hugmyndina að því að færa kosningaaldur hér á landi niður í 18 ár. Ég skal ekki taka þátt í þeim umr., en mér dettur þó í hug að þessar hugmyndir séu fæddar annars staðar en hér á landi. Hafi það hins vegar kannske eitthvert gildi út af fyrir sig að geta staðfest það, hverjir koma fyrstir fram með slíkar hugmyndir, vil ég ekki láta minn hlut eftir liggja og nefna hér, að það getur vel verið að svo fari í framtíðinni að kosningarréttur verði færður niður í 16 ár. Reyndar stal Dagblaðið frá mér þeim glæp að minnast í þessu sambandi á 16 ár, en ég segi það hér til þess að um það verði ekki rifist þegar þar að kemur, hver hafi fyrst hreyft þessari hugmynd, og get þá tekið þátt í þessum slag, sem hefur farið fram milli Alþfl.-manna og Alþb.-manna hér á þingi í haust.

Þá vík ég að því máli, sem hér er til umr. og birtist á þskj. 6, um breytingu á stjórnarskránni. Frv. fjallar um það, hvort sameina eigi deildir Alþingis og hér eigi að starfa einungis ein málstofa. Talsverðar umr. hafa farið fram um þetta hér í þd. og þ. á m. hafa komið fram rök fyrir því, að þessu mætti helst ekki breyta þar sem núverandi háttur nýti betur umræðutíma þingsins. Á þetta benti hv. 1. þm. Austurl. og ég kann honum bestu þakkir fyrir að koma fram með þessi sjónarmið, þótt þau séu andstæð mínum, því að það getur stundum verið að íhaldssemi sé dyggð. En ástæðan fyrir því, að ég kem hér upp, er sú, að vekja athygli á skýrslu um þetta mál, sem var kannað af fyrrverandi stjórnarskrárnefnd. Starfsmaður þeirrar nefndar, Gunnar G. Schram prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, birti um þetta ritgerð í Tímariti lögfræðinga, 2. hefti 27. árg., er var gefið út í okt. 1977. Ég held að það sé ástæða til þess, að hér í umr. komi fram viðhorf þessa aðila sem kannske hefur hvað best og mest kannað hvernig þessum málum er háttað hjá nágrannaþjóðunum og á hvað þær hafa lagt áherslu. Ég leyfi mér, herra forseti, að lesa hér upp úr þessu riti örfá orð. Gunnar G. Schram segir:

„Í þessu sambandi er fróðlegt að líta til reynslu nágrannaþjóðanna í þessu efni. Með hinni nýju stjórnarskrá, sem samþykkt var í Danmörku 1953, var deildaskipting danska þingsins afnumin. Hið sama átti sér stað í Svíþjóð 1971 og starfar þingið þar nú í einni málstofu. Fyrir liggur álit þingforseta beggja þinganna á því, hver sé reynslan af þessari breytingu. Er samdóma álit þeirra það, að kostir hins nýja fyrirkomulags séu ótvíræðir, sé þar fyrst og fremst um að ræða fljótari afgreiðslu þingmála og virkari þátttöku þm. í þingstörfum. Forseti sænska þingsins hefur greint frá því, að þm. viti nú að mál eru til lykta leidd í einni deild og verði þeir því að kynna sér þau vandlega strax í upphafi og fylgja þeim eftir til lokaafgreiðslu. Vinnusemi þm. og tengsl við þingið hafi gerbreyst og stórlega aukist eftir að þingið varð ein málstofa. Hafi þetta verið ein meginorsök þess, að laun þm. í Svíþjóð voru hækkuð skömmu eftir breytinguna.“

Ég leyfi mér sjálfur að koma hér með innskot, því að það vill svo til, að fyrir deildinni liggur einmitt hugmynd þess efnis, að þm. taki ekki laun fyrir önnur störf en þingmennskuna. Má vera að einhver skyldleiki sé á milli þeirra sjónarmiða, er hér gætir, og sjónarmiða hv. flm. þeirrar till. Þá tek ég aftur til við lesturinn.

„Hlutverk nefnda þingsins hefur aukist til muna frá því sem áður var, og starfa þn. nú í þinghléum og yfir sumarið að málum, sem ekki fengust afgreidd meðan þingið sat, og við undirbúning nýrra þingmála.

Svo sem sjá má af þessu er það samdóma álit sænska og danska þingsins, að breytingin í eina málstofu hafi verið mjög til bóta að því er varðar þingstörfin, þrátt fyrir ýmsar efasemdir um gildi breytingarinnar í upphafi.“

Þannig fórust Gunnari G. Schram orð í þessari tímaritsgrein. Hann minnist enn fremur á það, að hugsanlegt sé að þessi breyting hafi það í för með sér að mál verði tekin til fjórðu umr., ekki síst ef mál eru verulega mikilvæg og þurfa umhugsunar við umfram önnur. Enn fremur má benda á, að það kemur vel til greina að málum sé oftar vísað til n. Það er að vísu — að ég held — heimild fyrir hendi í þingskapalögum okkar en hún væri þá kannske nýtt með öðrum og virkari hætti en nú gerist.

Ég taldi rétt herra forseti, að láta þessi sjónarmið, sem hér hafa komið fram og eru til skráð, komast til skila í þessari þd., því að ég held að þau séu þess virði að hv. n. hafi þau til hliðsjónar, þegar hún fer yfir þetta mál. Við þurfum ávallt að hafa það í huga, að breytingar á starfsháttum þingsins séu fallnar til þess að gera störf þingsins skilvirkari og styrkja stöðu þess gegn framkvæmdavaldinu. Í trausti þess, að þetta mál sé til þess fallið, lýsi ég yfir stuðningi við fram komið frv.