28.02.1979
Efri deild: 60. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2836 í B-deild Alþingistíðinda. (2247)

194. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða lengi um þetta mál sem lýtur að dragnótaveiði hér í Faxaflóa með takmörkuðum heimildum um skamman tíma og með sérstökum hætti. Hv. þm. Steinþór Gestsson minnti mig á það áðan, að í öllum þeim málum, sem lúta að snurvoð í Faxaflóa, hlýtur andi Jóns heitins Árnasonar að svífa yfir vötnunum hér í Ed. Þess er ég minnugur og gjarnan hefði ég nú viljað að hann hefði verið staddur hérna hjá okkur til að taka þátt í umr. um málið.

Ég er þeirrar skoðunar, að það liggi ekki í augum uppi að það mál, sem hér er flutt, brjóti algerlega í bága við þá afstöðu, sem sérstakir unnendur Faxaflóa hafa tekið hér í Ed. áður. Hér er um það að ræða að gera hér tilraun til þess að nytja kolann, með dragnót að vísu en gerbreyttu veiðarfæri frá því sem áður hefur verið, þar sem ekki verður aðeins stórstækkaður möskvinn í poka dragnótarinnar, heldur einnig í vængjunum og svo frá gengið að jafnvel hinir snjöllustu veiðimenn á Snæfellsnesi geti ekki hugsanlega séð nokkra leið til að hagræða dragnótinni þannig að smákolinn eða smáfiskurinn tolli í nótinni.

Ég skil undurvel þá afstöðu sem fram kom hjá hv. þm. Oddi Ólafssyni áðan í afstöðunni til Faxaflóa og eins í ræðu hv. þm. Braga Níelssonar. Ég minnist ákaflega vel þeirrar tíðar frá því fyrir stríð, þegar í töluhlaði af Ægi eftir tölublað birtust myndir af trolli og dragnót hérna úr flóanum sem sýndu þessi veiðarfæri loðin af seiðum og uggvænlegar tölur um það, hversu nærri væri gengið fiskstofnum her í flóanum, þessari aðaluppeldisstöð smáfisks á Íslandi. Þessar upplýsingar voru náttúrlega okkur vopn í baráttunni á móti ásókn útlendinga í veiði hér í flóanum.

Í frv., sem hér er til umr., er kveðið á um sérstakar ráðstafanir, sérstaka takmörkun á þessari veiði og sérstakar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að þessi tímabundna heimild verði misnotuð. Ég er þeirrar skoðunar, að enda þótt við eigum enn að taka fullkomið tillit til uppeldissjónarmiðanna, til þeirrar staðreyndar að Faxaflóinn er enn þá ein helsta, ef ekki helsta uppeldisstöð nytjafiska hér við land, þá þurfi ekki endilega að ákveða í eitt skipti fyrir öll að flóinn skuli verða jafnframt elliheimili fyrir gamla kola. Við vitum að flóinn er fullur af kola. Það er mjög mikið af kola í flóanum. Við náum honum ekki á línu. Við gætum hugsanlega náð honum að einhverju verulegu leyti í lagnet. En það eru ákaflega miklir annmarkar á lagnetaveiðum hér í Faxaflóa, svo sem þjóð veit, að sumrinu til og ýmiss konar annmarkar sem of langt mál væri að fara að rekja hér. Ég trúi því að möskvastækkunin hafi ákaflega mikla þýðingu í sambandi við t. d. verndun smáýsu og smáþorsks fyrir þessu veiðarfæri. Ég hef skoðað myndir og séð líka erlendar kvikmyndir teknar neðansjávar af þessu veiðarfæri í notkun og séð hvernig smáfiskurinn smýgur smærri möskva en þá sem ætlast er til að verði notaðir hérna.

1. flm. þessarar till. er sjómaður hér við Faxaflóa með mikla reynslu, að vísu einn af þessum dragnótargöntum sem var einna flinkastur við að nota þetta veiðarfæri — ég segi það ekki með lítilsvirðingu við hv. flm. Hann var frægur fyrir það á sínum tíma að vera snjall við að ná fiski í dragnót hérna og kann efalaust öll brögðin til þess. Að vísu var ég ekki sem unglingur nema tvö haust á dragnótaveiðum, — þá var hún ekki kölluð dragnót, heldur snurvoð upp á dönsku, — og sá dálítið til snillinganna líka. En ég fæ ekki séð með hvaða hætti jafnvel hinir útsjónarsömustu snurvoðarsnillingar gætu misnotað nótina, með þessum hætti eins og nú er, til þess að taka í hana nokkuð sem máli skiptir af smárri ýsu eða smáum þorski. Þeir geta náð ýsu og þorski í nótina enn þá. Ég tek undir með hv. þm. Braga Níelssyni og tel að n. eigi að fjalla mjög ítarlega um þetta mál og af varúð. Kæmi vel til greina að setja jafnvel inn ákvæði um það í sambandi við leyfisveitingar, hversu mikið mætti koma af ýsu og þorski með kolanum við þessar veiðar. Ég tel að það kæmi til greina. Enn fleiri atriði yrði að athuga í þessu sambandi.

Ég tek undir það með hv. flm., að ég hefði gjarnan viljað að Hafrannsóknastofnunin hefði sent menn niður með dragnót hér í Faxaflóa, eins og hefur verið gert erlendis. Sjálfur lifði ég það einu sinni að fara niður með dragnót fyrir löngu, en ég veit að við Skotland og eins við Jótland hafa hafrannsóknamenn sent niður kvikmyndatökumenn. Ég hef séð afleiðinguna af því. Það er mála sannast, að þegar áður hefur verið opnað hér í Faxaflóa voru ekki gerðar af hálfu hafrannsóknar neinar frumathuganir, það var plat. Það var fjárans plat og ekkert annað. Fiskifræðingar játuðu það í mín eyru, að frumforsendurnar voru athuganir á kolamagninu hérna í flóanum Þær frumathuganir voru aldrei gerðar. Það var vitnað í leiðangur sem Sæbjörg hafði átt að fara þá í þessu skyni. Hún fór í þennan leiðangur, en hún bleytti aldrei snurvoð í þessum leiðangri, því að vélin bilaði hérna fyrir utan Gróttu og hún var dregin inn til Hafnarfjarðar og þar lá hún allan þann tíma sem þessar athuganir höfðu átt að fara fram. Nú er hægt að standa allt öðruvísi að þessu máli.

Ég er því hlynntur, að þetta mál fái mjög nákvæma og ítarlega meðferð í sjútvn., en ég vil að þar verði fjallað um þetta mál með opnum huga og með tilliti til þess að nú getum við staðið öðruvísi að þessu máli en áður. Ég veit að dragnótin er eins og klakamoli við hjartarætur ýmissa manna, sem lengi hafa fiskað hér í flóanum. Ég veit líka að dragnótin er vel til þess fallin, ef rétt er með hana farið, þannig að hún skaði ekki, að sjá t. d. Reykjavíkursvæðinu fyrir góðum fiski að sumrinu — mjög góðum fiski. Og enda þótt ekki sé nú nema ein vél til þess að flaka kolann við Faxaflóa, þá er hann ákaflega ljúffengur splunkunýr og óflakaður á borðum fólks af þessu svæði og ekki tiltölulega dýr matur í þokkabót. Ég vil, að við athugum þetta mál vel í n., en vildi gjarnan að við ræddum þetta dálítið karlmannlega með fullu tillit til þeirra möguleika, sem við eigum nú á því að tryggja það, að dragnótin verði ekki misnotuð.