30.10.1978
Neðri deild: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

6. mál, stjórnarskipunarlög

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Þetta mál hefur verið til umr. nokkuð lengi í þessari hv. d., en aðalástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var sú, að mér fannst ekki koma nægilega skýrt fram hjá hv. 1. flm. til hvers konar afgreiðslu á þessu frv. hann ætlaðist. Það liggur í augum uppi, virðist mér, að ef knúið er á um samþykkt þess á þessu þingi, þá hljóti þing að verða rofið og efnt til kosninga. Ég hef ekki heyrt hv. 1. flm. lýsa því yfir, að þetta sé tilgangur hans. Hins vegar viðhafði hann heldur niðrandi orð um þá stjórnarskrárnefnd, sem verður væntanlega skipuð á næstunni, og vildi sem minnst af henni vita, að mér skildist. Þetta hefur nokkuð bögglast fyrir brjóstinu á mér. En nú lýsti hæstv. utanrrh. yfir því, að þetta mál væri aðeins sýnt og flutt til þess að minna á það, og ég vil því spyrja hv. 1. flm. að því, vegna þess að ég á sæti í allshn. þessarar d., hvort hann sé sammála þessum skilningi.

Ég er þeirrar skoðunar, að jafnvel þó sú afgreiðsla yrði nú ofan á í n. að vísa málinu til stjórnarskrárnefndar, þá sé allshn. engan veginn að firra sig ábyrgð eða koma sér undan skyldum. Auðvitað verður hún að fjalla um málið og helst að gefa einhvers konar umsögn, ef það verður ofan á að senda það áfram til væntanlegrar stjórnarskrárnefndar. Ég vil líka minna á að það hafa fleiri mál verið til umr. á undanförnum þingum sem kalla á stjórnarskrárbreytingu. Eitt mál þykir mér veigamest, en frv. eða till. um það hefur ekki komið enn fram á þessu þingi, jöfnun kosningarréttar milli kjördæma. Það er svo kunnugt að ekki þarf að fjölyrða um það, að atkv. Reyknesinga og Reykvíkinga vega þrefalt til fimmfalt minna en atkv. fólks í öðrum kjördæmum. Ég held að það sé alger nauðsyn fyrir Alþ. að taka þetta mál til rækilegrar umr. Enda þótt ég viti að það eru skiptar skoðanir í öllum stjórnmálaflokkum um þetta mál, þá hefur mér þó virst skilningur aukast á því, að lagfæringar er þörf. Hins vegar eru menn ekki á eitt sáttir um, hvernig skuli lagfæra það eða í hve ríkum mæli. Ég minni á það, að fyrir tveim árum fluttu allir þm. Reykn. og allir þm. Reykv. nema einn till. um að vísa þessu máli til stjskrn. til lagfæringar. Ég vil á þetta minna af því að Ég tel þetta eitt brýnasta hagsmunamál Reykvíkinga og Reyknesinga, að þeir njóti sams konar mannréttinda og annað fólk á landinu.

Varðandi það frv., sem hér er til umr., um að Alþ. verði ein málstofa, þá get ég fyrir mitt leyti tekið undir mál hv. 1. þm. Austurl., skoðanir okkar í þessu fara saman. Ég held að það sé ekkert sérstakt keppikefli að gera Alþ. að einni málstofu nema jafnframt sé tekin afstaða til þess, hvaða breytingar verða gerðar um leið til þess að tryggja lýðræði bæði inn á við í starfsháttum Alþ. sjálfs og ekki síður lýðræði út á við, þ.e.a.s. að tryggja að samskipti þings og þjóðar bíði ekki hnekki. Ég held að ein grundvallarreglan í þessu eigi að vera sú, að deildaskiptingu eigi ekki að leggja niður nema fundnar séu jafngóðar eða betri leiðir til þess að almenningi gefist tóm til að fylgjast með málum á Alþ. og hafa áhrif á þau. Þess vegna eru mér ákaflega ógeðfelld rök sem miða að því að hraða beri öllu í gegnum Alþ. Allt tal um hvað starfshættir Alþingis séu tímafrekir og kostnaðarsamir finnst mér — ja, ég gæti sagt stórhættulegt. Það tekur sinn tíma fyrir almenning að fylgjast með málum. Það er viðurkennt með ákvæði í stjskr. að fundi Alþingis eigi að halda í heyranda hljóði. Þetta er grundvallarregla, sem verður að hafa í heiðri. Alþingi er ekki lokuð stofnun. Alþingi er ekki heldur framkvæmdastofnun þar sem á að gæta fyllstu hagræðingar án skilyrða. Alþingi er vinnustaður sem hefur algera sérstöðu.

Mér finnst í þeirri grg., sem fylgir þessu frv., ekki tekið nægilega mikið tillit til þess, hvers eðlis Alþingi er sem stofnun. Þess er getið, að mótbárur hafi heyrst gegn flausturslegri afgreiðslu mála í einni málstofu, og bent á, að hafa megi t.d. fjórar umr. um lagafrv. Hins vegar gerir frv. sjálft ekki ráð fyrir neinum breytingum í þessa átt. Samkv. 8. gr. frv. er eingöngu gert ráð fyrir þrem umr. um lagafrv. Þetta er, held ég, atriði sem allshn. þessarar d. verður að taka til rækilegrar umræðu.

Þetta vildi ég láta koma fram við 1. umr. þessa máls, en áskil mér allan rétt til þess að flytja brtt. og íhuga betur álit mitt á þessu máli í allshn.