28.02.1979
Efri deild: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2839 í B-deild Alþingistíðinda. (2251)

202. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Svo sem ég gat um við 1. umr. þessa máls, er Sjálfstfl. samþykkur þeirri stefnu sem kemur fram í þessu frv., þ. e. a. s. að svo skyndilegar og óvæntar verðhækkanir á rekstrarvörum útgerðar sem hér er um að ræða séu teknar sérstökum tökum, en verði ekki til breytinga á hinum almennu kjörum. Þess vegna getum við mjög vel fallist á 1. gr. þessa frv., að útgerðinni séu greidd 2.5% fyrir utan venjulegt fiskverð. Hins vegar erum við ekki ásáttir með þá leið sem farin er til að afla fjár til þessa en um það mun ég ræða við afgreiðslu næsta frv. En ég vil taka það fram, að sá fyrirvari, sem við höfum gert við nál. um þetta frv., er gerður með tilliti til fjáröflunar til að mæta þessum 2.5%.