28.02.1979
Efri deild: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2839 í B-deild Alþingistíðinda. (2254)

203. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. meiri hl. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Enn síður er ástæða til þess að orðlengja umfjöllun n. um þetta frv. en hið fyrra, þar sem hér er um að ræða frv. til 1. sem er nátengt hinu fyrra máli, sem við höfum nú þegar afgreitt til 3. umr. Þó vil ég geta þess, að það sem lýtur að sjóðunum, sem hér er sótt í fé vegna aðsteðjandi vanda í sambandi við olíuverðshækkun, þarf að koma til miklu ítarlegri álita en okkur gafst tóm til í dag, og ég vænti þess, að ekki fari með þessa gjaldtöku, sem hér er ráðgerð, svo sem farið hefur um aðra gjaldtöku til bráðabirgða löngum, að þær hafa verið framlengdar í óbreyttu formi ár frá ári og orðið sífellt bitbein, þótt forsendurnar, tímaþröng til úrbóta aðsteðjandi vanda, væru löngu horfnar. Með þessu fororði vil ég aðeins greina frá því, að n. klofnaði í málinu. Meiri hl., Stefán Jónsson, Ágúst Einarsson, Alexander Stefánsson, Ólafur Björnsson og Geir Gunnarsson, mælir með samþykkt þess óbreytts, en minni hl., Oddur Ólafsson og Steinþór Gestsson, skilar séráliti.