28.02.1979
Efri deild: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2839 í B-deild Alþingistíðinda. (2255)

203. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. minni hl. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Við Steinþór Gestsson, fulltrúar Sjálfstfl. í sjútvn., gátum ekki orðið ásáttir um að fylgja meiri hl. í afgreiðslu þessa máls. Þótt við hins vegar gerum okkur ljóst að fjár verði að afla til þess að standa undir þeim útgjöldum sem við vorum að samþykkja rétt áðan, þ. e. a. s. 2.5% til viðbótar við fiskverð, þá finnst okkur, að hér sé á svo vafasaman hátt að farið, að við sjáum okkur ekki annað fært en að gefa úr sérálit um þetta og benda á þá vafasömu aðgerð sem hér er verið að framkvæma.

Það eru aðallega þrír sjóðir, sem verða fyrir barðinu á þessari aðgerð.

Í fyrsta lagi er það Vátryggingarsjóður fiskiskipa. Sá sjóður er nú óvenjuvel staddur og talið er að hann muni á hverju sem gengur jafnvel eða a. m. k. undir venjulegum kringumstæðum þola þennan tekjumissi.

En síðan kemur Aflatryggingasjóður og enda þótt Aflatryggingasjóður eigi nokkurt fjármagn laust núna, þá er það sjóður sem jafnan hefur barist í bökkum þangað til nú síðustu árin, að frá honum var svo vel gengið að hann hefur verið nokkuð tryggur. En þá er um það að segja, að ekki þarf mikið áfall til að koma að Aflatryggingasjóður geti lent í miklum örðugleikum. Við skulum segja að það áfall skeði, að frv. hæstv. forsrh. yrði nú samþ. á Alþ. eða í þjóðaratkvgr., þá mundi það þýða hvorki meira né minna en 1000–2000 millj. útgjöld fyrir Aflatryggingasjóð að öðru óbreyttu. Að sjálfsögðu er alveg óhugsandi að samþykkja slíkt.

Í þriðja lagi er svo það, að Fiskveiðasjóður er stærsti stofnfjársjóður útgerðarinnar og fiskvinnslunnar og sjóður sem á undanförnum árum hefur alls ekki getað sinnt hlutverki sínu svo sem skyldi, sjóður sem hefur vantað hundruð milljóna, stundum milljarða til þess að geta sinnt þeim lánsbeiðnum sem áttu fullan rétt á sér. Þessi sjóður mun verða fyrir tekjumissi að upphæð 416 millj. kr. Þar við bætist svo að framlag frá ríkinu, sem nemur 75% af þeim tekjum sem hann hefur af útflutningsbótunum, mun lækka um 310–312 millj. þannig að tekjutap Fiskveiðasjóðs mun verða á áttunda hundrað milljóna. Þetta er sjóður sem er stoð og stytta útgerðarinnar og fiskvinnslunnar, og það er mjög erfitt að sætta sig við að svo skuli vera með hann farið eftir allt sem á undan er gengið. Sannleikurinn er sá, að það eru margir sem halda því fram að fiskiskip okkar séu nú orðin of mörg fyrir það fiskmagn sem í sjónum er, en einmitt þetta mikla magn af fiskiskipum, sem keypt hafa verið til landsins á undanförnum árum, hefur komið svo hrottalega niður á Fiskveiðasjóði að hann hefur orðið að færa lán sín, t. d. til uppbyggingar í fiskiðju, úr 60% niður í 40% og jafnvel niður í 34%. Þetta veldur því, að þeir, sem ekki höfðu fengið lán fyrr á árum, eiga í miklum erfiðleikum núna með að byggja upp atvinnutæki sín.

Þetta eru meginástæðurnar til þess, að við urðum að kljúfa okkur út úr n. Hins vegar verðum við að gera okkur það ljóst, að tíminn, sem við höfum til stefnu, er mjög naumur. Við sáum þetta frv. fyrst nú fyrir stuttum tíma. Þess vegna sjáum við okkur ekki fært að koma með neinar till. um aðrar tekjuleiðir og látum þá, sem betur og lengur hafa fjallað um þetta mál, um það.

Ég vil líka vekja athygli á því, að stjórnarandstaðan fékk mjög seint að vita um hvað til stæði og löngu eftir að búið var að ákveða hvað gera skyldi. Það er ekki heldur gott, sérstaklega ef ætlast er til einhvers af henni.

Við getum þess vegna ekki fallist á að samþykkja frv. óbreytt, en munum sitja hjá við afgreiðslu þess.