28.02.1979
Efri deild: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2841 í B-deild Alþingistíðinda. (2257)

203. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það kom fram í framsöguræðu minni að aðgerðir af þessu tagi kostuðu auðvitað sitt. Engu að síður virðist ljóst af þeim áætlunum, sem fyrir liggja, að ekki sé gengið svo mjög á hlut Aflatryggingasjóðs að ástæða sé til sérstakrar svartsýni í þeim efnum. Eins og fram kemur í aths. með frv., er gert ráð fyrir að jöfnunardeildin muni hafa um 2100 millj. í tekjur, en um 1200 millj. í útgjöld, þannig að þarna er mismunur upp á 900 millj. auk þess sjóðs sem er fyrir hendi um s. l. áramót, þannig að þarna verður eftir sem áður verulegt svigrúm.

Um Fiskveiðasjóð er það að segja, eins og komið hefur fram í máli manna hér, að auðvitað er mikið átak fram undan í fiskvinnslunni. En menn virðast vera á því máli, og ég tel að það sé rétt, að varla sé svigrúm til þess að ætla mikið fé til fiskiskipakaupa. Í þeirri lánsfjáráætlun, sem liggur fyrir, hefur þessari stefnumörkun einmitt verið fylgt. Í þeirri lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir að útlán fjárfestingarlánasjóða, þ. e. a. s. Fiskveiðasjóðs og Byggðasjóðs, til fiskvinnslu á þessu ári muni verða meira en tvöfalt hærri að krónutölu heldur en á árinu 1978, og það er náttúrlega af þessu svigrúmi sem verið er að taka. Það mun rétt, að sjóðsstjórnin hafi óskað eftir meiri framlögum en hér er gert ráð fyrir sem nemur 700–800 millj. kr., en á móti kemur sérstakt framlag í Byggðasjóð upp á 900 millj. sem verður til að mæta þessu sama verkefni.

Ég vænti þess, að þetta svari að hluta til þeim efa sem er í hugum þingmanna varðandi þetta efni. Í þeirri lánsfjáráætlun, sem lögð hefur verið fram hér á þinginu, hefur einmitt verið gert ráð fyrir þaki á mótframlag ríkissjóðs, sbr. þá stefnumörkun sem hefur komið fram í því frv. og í sambandi við afgreiðslu fjárl. og er þegar samþykkt. Það á því ekki að koma mönnum á óvart. Þar er um að ræða mótframlag upp á 1275 millj. kr. sem gert er ráð fyrir í þeirri lánsfjáráætlun og þeim útlánum sem hér eru lögð til grundvallar. Það er ekki verið að skerða þá tölu, þannig að skerðingin sem slík nemur þeim 400 millj. sem um ræðir í þessu frv.