28.02.1979
Efri deild: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2842 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

203. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Eyjólfur K, Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst ekki verða hjá því komist að vekja afhygli á því, að hæstv. sjútvrh. varð ekki við tilmælum hv. þm. Steinþórs Gestssonar um að gefa um það yfirlýsingu, að það væri ekki hugmyndin að ríkissjóður ætti þegjandi og hljóðalaust að losna við um það bil 312 millj. kr. framlög til Fiskveiðasjóðs. Ég skal játa að ég hef ekki gert mér grein fyrir þessu og ég hygg að svo muni vera um fleiri hv. þm., að þessu hefði átt að smeygja yfir okkur þegjandi og hljóðalaust. Það kom samt á daginn að þetta mundi vera hugmyndin, og hæstv. ráðh. smeygði sér algerlega undan því að svara þeim tilmælum og gefa þá yfirlýsingu að svona skyldi þetta ekki vera. Með hliðsjón af þessu og þó að við í stjórnarandstöðunni hefðum viljað greiða fyrir framgangi mála, þá leyfi ég mér nú að óska þess, að endanlegri afgreiðslu þessa máls og þessari umr. verði frestað til morguns, þannig að ekki sé verið að koma hér aftan að mönnum sem gjarnan vilja starfa að framgangi mála, menn fái að vita hvað um er að ræða, og 312 millj. eru líka peningar. Ég vonast til þess, að dm. allir séu sömu skoðunar og ég, að það hljóti að verða að athuga þetta mál til morguns.