30.10.1978
Neðri deild: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

6. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Finnur Torfi Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. undirtektir við þetta frv. Mér hafa fundist þær yfirleitt mjög jákvæðar. Þó hafa komið fram, eins og eðlilegt er ákveðnar aths. og efasemdir og mig langar til þess að víkja aðeins nánar að þeim.

Það kom fram hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni við umr., að hann óttaðist að þessi skipun þingsins, að það yrði ein málstofa, gæti haft í för með sér að það þyrfti að takmarka umræðutíma, og hafði ákveðna- áhyggjur af því. Ég get tekið undir það, að mér þætti líka miður ef þessi breyting þyrfti að hafa slíkt í för með sér, því að það eru auðvitað mikilvæg réttindi alþm. að hafa ríflegan tíma til að tjá hugsanir sínar. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson rökstuddi þessi sjónarmið með tilvísun til þinga erlendis, þar sem það er víða regla að ræðutími er takmarkaður. En ég er ekki viss um að þessi rök eigi við hjá okkur. Flest þessi erlendu þing eru mjög fjölmenn. Fulltrúar þar skipta iðulega hundruðum. Hér eru þó alltjent ekki fleiri en 60, þannig að viðhorfin eru öll önnur hjá okkur. Þetta er miklu fámennara þing og vandinn þar af leiðandi allt öðruvísi og miklu minni. Mér hefur skilist, að sameinað þing sé notað öðrum þræði sem auglýsingastofnun fyrir þm. og þess vegna dragist umr. í Sþ. gjarnan á langinn. Menn nota það til að spjalla um heima og geima og láta á sér bera fyrir augum fjölmiðla. Og sennilega er þetta nauðsynlegur þáttur í þingstörfunum og sennilega losnum við aldrei við þetta, þó að auðvitað tefji þetta og sé svolítið þreytandi. En ég held að þessi vandi, þ.e.a.s. auglýsingaþörfin, sé alveg óbreyttur, hvort sem við erum með eina málstofu eða tvær, og menn vilji alltaf láta á sér bera eins og skiljanlegt er. Ég er ekki viss um að þessar röksemdir, þótt þær séu auðvitað gagnlegar ábendingar og ég tek þeim vel, séu á rökum reistar og við þurfum að hafa áhyggjur af þessu.

Í öðru lagi, ef einhver vandamál af þessu tagi kynnu að koma upp og of langdregnar almennar umr. yrðu í hinni nýju einu málstofu, þá er náttúrlega alltaf það úrræði fyrir hendi að lengja einfaldlega þingfundina. Þarna yrði um þá breytingu að ræða líka að sjálfsögðu, að við hefðum fjóra fundardaga. Sþ. hefur bara tvo fundardaga núna. Það væri hugsanlegt að hafa fimm daga, ef mönnum lítist á það. Líka væri hugsanlegt að byrja þingfundi fyrr að deginum. Ég tek alveg undir þessa skoðun hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, að það væri miður ef þessi breyting ætti að þýða að við þyrftum að takmarka umr. mikið. En ég held að við þurfum ekki að óttast slíkt. Og ef að kæmi upp þá eru tiltæk úrræði við því.

Ég ætla ekki að fara að rekja aftur röksemdir fyrir þessari till. sem ég gerði nokkra grein fyrir í framsöguræðu, en ég ætla þó að minna aftur á þetta með nefndastörfin. Einföldun í nefndaskipun mundi að mínu áliti gera mjög mikið gagn. Þm. gætu sérhæft sig betur í málum. Það eru færri nefndir, sem hver þarf að vera í, og ég hef þá trú, að með því yrði meðferð mála í n. miklu vandaðri, málin kæmu betur undirbúin inn á þingfundina og það mundi spara tíma.

Hv. þm. Svava Jakobsdóttir benti á, að þingið þyrfti að gæta þess að þjóðin, fólkið fylgdist vel með. Ég tek undir það sjónarmið. En ég held einmitt, að breyting í eina málstofu stuðli mjög að þessu. Ég er alveg sannfærður um að hinn venjulegi borgari, sem er kannske ekki vel lesinn í þingsköpum Alþ., hlýtur að eiga erfitt með að átta sig á þessu flókna fyrirkomulagi, deildaskiptingunni og þessu flókna nefndakerfi. Hann hlýtur að eiga í miklum erfiðleikum með að fylgjast með gangi tiltekins máls, sem hann hefur kannske áhuga á, í gegnum þingið. Þetta yrði allt miklu einfaldara og opnara ef það væri bara um eina málstofu að ræða. Þá gætu áhorfendur hér setið í einni stofu, þeir þyrftu ekki að vera að hlaupa milli tveggja herbergja o.s.frv. Ég er sannfærður um að þingstörfin yrðu aðgengilegri og skiljanlegri fyrir allan almenning.

Hv. þm. Svava Jakobsdóttir benti á að í grg. frv. er þeirri gömlu mótbáru gegn einni málstofu, að málatilbúnaður sé ekki nægilega vandaður, svarað með því að fjölga megi umr. Hins vegar er ekki gerð till. um það í frv. Þetta er alveg hárrétt ábending hjá þm. Það er einfaldlega vegna þess að ég er sjálfur þeirrar skoðunar — og við flm. — að þetta sé óþarfi. Ég held að óþarfi sé að vera neitt að fjölga umr., einfaldlega vegna þess að mótbáran er ekki á rökum reist. Málsmeðferðin verður a.m.k. jafnvönduð í einni málstofu og nú er, m.a. vegna þeirra breytinga sem verða á nefndaskipaninni. Ég held að það sé engin ástæða til þessa að óttast að við getum ekki vandað vinnubrögð okkar jafnvel þótt hér verði ein málstofa.

Að síðustu vil ég svara fsp. hv. þm. Svövu Jakobsdóttur um það, hvers konar afgreiðslu ég vilji að málið fái. Ég skal taka af öll tvímæli um það, að ég hef að sjálfsögðu ekkert á móti því að stjórnarskrárnefndin fjalli um þetta, síður en svo. Ég tel það mjög eðlilegt og skynsamlegt. Ummæli mín um þetta efni við framsögu málsins lutu einungis að því, að þó að það eigi að skipa þessa nefnd, þá tel ég að málið þurfi að fá mjög vandaða meðferð og vandaða umr. hér á þinginu líka, sem raunar hefur orðið. Hér hafa orðið þó nokkrar umr. þegar við 1. umr. um þetta mál, og það er einmitt það sem ég ætlaðist til, einungis að fá það fram, að menn væru ekkert að víkja þessu frá sér hér í þinginu, jafnvel þótt það stæði til að skipa nefndina.