28.02.1979
Neðri deild: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2844 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hinn 1. febr. 1979 var fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. samþykkt á ríkisstjórnarfundi. Áætlunin var síðan lögð fram á Alþingi í síðustu viku í ítarlegri skýrslu.

Ástæðan fyrir því, að fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin var ekki lögð fram fyrr en eftir áramót, var fyrst og fremst sú, að ekki vannst tími til þess vegna anna við fjárlagagerðina og tekjuöflunarfrumvörp ríkisstj. í tengslum við fjárlögin, sem nauðsynlegt var að afgreiða fyrir jólin. Ég vil geta þess, að veruleg samráð voru höfð við aðila vinnumarkaðarins meðan unnið var að undirbúningi áætlunarinnar og við undirbúning frv. til l. um heimild til lántöku o. fl. sem hér er til umr.

Jafnhliða þessari skýrslu er nú flutt frv. til l. um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979. Tilgangur þessa frv. er að gefa lánsfjáráætluninni og fjárfestingaráformunum, sem hún lýsir, meiri festu. Efni frv. er tvíþætt. Annars vegar fjallar það um ráðstafanir á innlenda lánamarkaðnum til þess að tryggja fjáröflun fjárfestingarlánasjóða. Hins vegar felur frumvarpið í sér heildaráætlun um lántökur erlendis til allra opinherra framkvæmda, hvort sem þær eru á vegum ríkisins eða sveitarfélaga, og til fjárfestingarlánasjóða. Fram úr þessari áætlun má helst ekki fara á þessu ári, ef takast á að lækka skuldir þjóðarinnar út á við á næstu árum. Ég mun hér á eftir gera nánari grein fyrir þessu frv., sem kalla mætti frumvarp til lánsfjárlaga, fyrir árið 1979, þar sem það ákveður hvernig afla skuli lánsfjár til opinberra þarfa á þessu ári. Hér er um að ræða mikilvæga fjárráðstöfun sem rík ástæða er til að löggjafinn fjalli um.

Í hinu fræga frv. til l. um stjórn efnahagsmála og ráðstafanir til þess að draga úr verðbólgu og stuðla að framförum í þjóðarbúskapnum, sem forsrh. hefur samið, eru sérstök ákvæði um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. Þar er t. d. lagt til að ríkisstj. leggi fyrir Alþingi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir eitt ár í senn og að hún skuli fylgja fjárlagafrv. Markmið slíkrar áætlunar á skv. frv. að vera að tryggja að heildarumsvif í fjárfestingu og þróun peningamála og lánamála samrýmist þjóðhagslegum markmiðum og að fjármagni sé beint til þeirra framkvæmda, sem skila mestum arði í þjóðarbúið. Að sjálfsögðu ber ætíð að taka ríkt tillit til félagslegra sjónarmiða. Síðan eru mörg ákvæði um áætlunina, bæði undirbúning hennar og meðferð svo og hvað í henni skuli felast. Ég álít að það verði til mikilla hóta í hagstjórn ef þetta frv. forsrh. verður samþykkt, en ég vík hér sérstaklega að ákvæðum um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun þar sem ég er nú að ræða þau mál.

Áður en gerð er grein fyrir frv. í einstökum atriðum mun ég fara nokkrum almennum orðum um skýrsluna um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1979 og stefnu ríkisstj. í fjárfestingarmálum. Um einstök atriði vísa ég á skýrsluna sjálfa, sem er mjög ítarleg, en þm. hafa haft góðan tíma til að kynna sér hana.

Eins og fram kemur í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er það meðal brýnustu verkefna á sviði efnahagsmála að tryggja hæfileg fjárfestingarumsvif í landinu og greiðsluafgang á fjárlögum ríkisins, en hvort tveggja er nauðsynlegt til þess að draga úr verðbólgu og koma í veg fyrir viðskiptahalla. Í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni er mörkuð sú umgjörð fjárfestingar og útlána á þessu ári sem ríkisstj. telur hæfilega til þess að ná þessum markmiðum. Áætlun þessi er fjórða árlega heildaráætlunin um lánastarfsemi í landinu sem lögð er fram á Alþingi. Fyrri áætlanir hafa í senn falið í sér stefnuyfirlýsingu ríkisstj. í lána- og fjárfestingarmálum og beina áætlun um framkvæmdir og lántökur á vegum hins opinbera í tengslum við fjárlagafrv. Í áætluninni fyrir árið 1979 er þessari venju fylgt, en í henni er lögð ríkari áhersla en áður á fjárfestingarstjórn, og er það í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Hér er því ekki síður um fjárfestingaráætlun en lánsfjáráætlun að ræða.

Í heild gefur skýrslan yfirlit yfir uppruna og ráðstöfun lánsfjár á árinu 1979 og skiptingu þess eftir lánveitendum og lánþegum. Áætlunin er samin á vegum fjmrn. í samvinnu fjárlaga- og hagsýslustofnunar, Framkvæmdastofnunar ríkisins, Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsstofnunar. Áætlanir og spár um fjárfestinguna í heild eru gerðar af Þjóðhagsstofnun. Undirbúningsvinna að því er tekur til lánamála er að mestu unnin í hagfræðideild Seðlabankans. Efni um ríkisframkvæmdir og fjáröflun til þeirra er unnið í fjárlaga- og hagsýslustofnun í samvinnu við hin einstöku ráðuneyti. Útlánaáætlanir fjárfestingarlánasjóða eru reistar á efni frá Framkvæmdastofnun ríkisins og Húsnæðismálastofnun ríkisins. Lánsfjáráætlunin er reist á þjóðhagsspá Þjóðhagsstofnunar og spá Seðlabanka um þróun greiðslujafnaðar 1979, sem settar voru fram í desember 1978, en nokkur endurskoðun þessara áætlana hefur verið gerð samhliða lokafrágangi áætlunarinnar.

Í skýrslunni er fyrst fjallað um meginatriði efnahagsstefnu ríkisstj. og almennar efnahagshorfur. Síðan er fjallað um áætlun ríkisstj. um opinberar framkvæmdir sem fjár er aflað til með lánum. Þessu næst er vikið að málefnum banka, fjárfestingarlánasjóða og lífeyrissjóða svo og áformaðri erlendri lántöku. Þá er í sérstökum köflum heildaryfirlit yfir lánsfjármarkaðinn, fjárfestinguna og fjármögnun hennar, en í töfluviðauka er að finna yfirlit yfir niðurstöður áætlunarinnar. Í skýrslunni er einnig birt sérstakt yfirlit yfir opinbera öflun lánsfjár og ráðstöfun þess á lánsfjáráætlun 1979. Þetta yfirlit fylgir einnig því frv., sem hér er til umræðu, og mun ég gera nánari grein fyrir því hér á eftir.

Markmið áætlunarinnar eru að:

Stefnt verði að jöfnuði í viðskiptum við útlönd á árinu 1979 og dregið úr erlendum lántökum.

Mörkuð verði gjörbreytt fjárfestingarstefna. Með samræmdum aðgerðum verði fjárfestingu beint í tæknibúnað, endurskipulagningu og hagræðingu í þjóðfélagslega arðbærum atvinnurekstri. Fjárfesting í landinu verði sett undir stjórn sem marki heildarstefnu í fjárfestingu og setji samræmdar lánareglur fyrir fjárfestingarsjóðina í samráði við ríkisstj. Dregið verði úr fjárfestingu á árinu 1979 og heildarfjármunamyndun verði ákveðin takmörk sett.

Aðhald í ríkisbúskap verði stóraukið og áhersla lögð á jafnvægi í ríkisfjármálum.

Dregið verði úr verðþenslu með því að takmarka útlán og peningamagn í umferð.

Jafnhliða þessum markmiðum þarf að gæta þess, að atvinnuöryggi sé tryggt. Í samræmi við þessa stefnu er nauðsynlegt að halda aukningu þjóðarútgjalda í skefjum og er áhersla lögð á að draga úr fjárfestingarútgjöldum, en það verður að hafa í huga að fjárfesting úr hófi fram er ein af ástæðum verðbólguþróunar undanfarinna ára.

Til þess að sinna því tvíþætta verkefni að tryggja hæfileg heildarumsvif í fjárfestingarstarfsemi og beina fjármagninu í þau verkefni, sem skila mestu í þjóðarbúið, beita stjórnvöld ýmsum aðferðum:

Í fyrsta lagi beinum ákvörðunum um fjárfestingu hins opinbera með framkvæmda- og fjármagnsframlögum, hvort sem framkvæmdaféð er fengið með skattheimtu eða lántökum.

Í öðru lagi ákvörðunum um lánskjör bæði hjá bönkum og sparisjóðum og á lánum til fjárfestingar. Raunhæf vaxtakjör stuðla að auknum innlendum sparnaði og eru þannig forsenda þess, að lánsfjárþörf til framkvæmda verði í ríkari mæli en ella mætt með innlendu fé. Lánskjörin þarf einnig að samræma milli lánastofnana.

Í þriðja lagi ráða fjárfestingarstyrkir, framlög ríkisins til fjárfestingarlánasjóða og skattmeðferð fjárfestingarfjár fyrirtækja miklu um fjárfestinguna.

Í fjórða lagi er mikilvægt að gerðar séu strangar og samræmdar kröfur til þjóðhagslegrar arðsemi þeirra framkvæmda sem framlög eða lán eru veitt til, hvort sem þær eru á vegum hins opinbera eða einkaaðila. Einnig er brýnt, að erlendar lántökur verði ákveðnar innan ramma heildaráætlunarinnar, sem markast af framleiðslugetu þjóðarbúsins og endurgreiðslugetu á komandi árum.

Fjárlögin og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun í sameiningu lýsa stefnu ríkisstj. í þessum efnum.

Afskipti stjórnvalda mótast að talsverðu leyti af þeim markmiðum sem menn koma sér saman um, þótt auðvitað sé um það ágreiningur hvort þeim verði betur náð með heinum aðgerðum stjórnvalda eða óbeinum aðgerðum eða jafnvel afskiptaleysi. Fyrir mína parta mundi ég svara spurningunni um almenn afskipti hins opinbera gagnvart atvinnurekstri þannig, að ég tel að afskipti hins opinbera eigi einkum að beinast að umgjörð starfseminnar fremur en að starfseminni sjálfri.

Með markmiðinu um jöfnuð í viðskiptum við útlönd á árinu 1979 er vexti þjóðarútgjalda þröngur stakkur skorinn. Hallalaus utanríkisviðskipti eru hins vegar nauðsynleg forsenda þess, að unnt verði að draga úr skuldasöfnun erlendis á næstu árum. Þar sem horfur eru á að viðskiptakjör þjóðarinnar verði lakari á þessu ári en í fyrra felur það markmið í sér að halda verður vexti þjóðarútgjalda — og þar með innflutningi — innan þeirra marka sem möguleg útflutningsaukning setur. Í ljósi þess að áframhaldandi aðhald að þorskveiðum er nauðsynlegt, auk þess sem hyggja þarf að loðnuveiðunum, er ekki við því að búast að útflutningsframleiðslan í heild geti aukist um meira en 2–3% á þessu ári.

Í þjóðhagsspá Þjóðhagsstofnunar, sem sett var fram í byrjun desembermánaðar s. l., var gert ráð fyrir 9–10% samdrætti fjármunamyndunar á árinu 1979. Fjárfestingaráætlunin felur í sér nokkru minni samdrátt, eða um 7%. Gætir hér einkum atvinnuöryggissjónarmiða, auk þess sem nú er meira vitað um fjárfestingaráformin. Með tilkomu hinnar geigvænlegu olíukreppu, sem nú ríður yfir hagkerfið, fer áhugi manna á orkuframleiðslu og vaxandi. Í áætluninni er gert ráð fyrir samdrætti í fjárfestingarframkvæmdum atvinnuveganna. Annars vegar dregur úr skipakaupum frá fyrra ári og hins vegar verða framkvæmdir við járnblendiverksmiðjuna mun minni á þessu ári en í fyrra. Bygging íbúðarhúsa er talin munu verða svipuð á yfirstandandi ári og var í fyrra.

Áætlun þessi gerir ráð fyrir samdrætti í framkvæmdum hins opinbera um 5% frá fyrra ári að raungildi. Hitaveituframkvæmdir eru í heild taldar munu dragast saman um 13–14%, enda er ýmsum stórum áföngum þar ýmist lokið eða um það bil að ljúka. Í þessari áætlun er þó gert ráð fyrir verulegum lánveitingum til hitaveituframkvæmda sveitarfélaga við ýmsar nýjar framkvæmdir. Stærsta verkefnið á þessu sviði er áframhaldandi framkvæmdir við Hitaveitu Akureyrar, eða alls 1800 millj. kr. Sennilega þarf eitthvað meira fé ef ákveðið verður að ljúka þessari framkvæmd að fullu á þessu ári, sem væri auðvitað mjög æskilegt, sérstaklega miðað við þau nýju viðhorf sem hafa skapast með tilkomu olíukreppunnar. En til annarra hitaveituframkvæmda á vegum sveitarfélaga verður aflað alls 1345 millj. kr., m. a. til Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, Hitaveitu Vestmannaeyja og Hitaveitu Egilsstaða. Auk þess nær lánsfjárútvegun til fjarvarmaveitu á Höfn í Hornafirði og á Ísafirði. Enn fremur er gert ráð fyrir áframhaldandi framkvæmdum við Hitaveitu Reykjavíkur og Suðurnesja. Um nánari skýringar á þessum atriðum vísa ég til töfluyfirlita í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, þar sem öllum þessum atriðum eru gerð glögg skil.

Það má segja, að brýnt sé að þessum framkvæmdum verði hraðað eftir föngum þannig að þær komi sem fyrst að gagni, og veldur hér um, eins og ég tók fram áður, ekki síst hin geigvænlega olíuverðshækkun á síðustu vikum og mánuðum. Þessar framkvæmdir eru því tvímælalaust mikil þjóðþrifafyrirtæki vegna þess orkusparnaðar sem þær hafa í för með sér, bæði fyrir þjóðina í heild og eins fyrir þá sem þjónustunnar njóta. Til greina kemur að sveitarfélög fresti einhverjum framkvæmdum og gefi hitaveitum forgang. Innlend fjármögnun þessarar framkvæmda kemur úr Lánasjóði sveitarfélaga, Orkusjóði og einnig sjóðum sveitarfélaga og fyrirtækjanna. Í áætlun þessari er enn fremur sýnd erlend lántaka vegna framkvæmda sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra, og vík ég nánar að því síðar.

Í öðrum greinum opinherra framkvæmda verður einnig nokkur samdráttur, en þó minni. Þannig felast í þessari áætlun veruleg umsvif á ýmsum sviðum framkvæmda sem til framfara horfa, t. d. á sviði orkumála og samgangna. Til vegamála verður t. d. varið 13 098 millj. kr. Lántökur til vegamála eru ráðgerðar samtals 3130 millj. kr. samkv. áætluninni.

Samkvæmt þessari áætlun verður heildarfjárfestingin í landinu innan við fjórðung af þjóðarframleiðslu 1979, samanborið við 26–27% árið 1978, 281/2% árið 1977 og um 30% árið 1976. Nákvæmlega talið nemur heildarfjárfesting áætlunarinnar um 24.5% af þjóðarframleiðslu ársins, ef erlendi þátturinn í framkvæmdum við álverið er undanskilinn, enda eykur hann ekki erlendar skuldir Íslendinga.

Áætluð fjárfesting á árinu 1979 nemur 182 milljörðum króna, sem skiptist þannig, að fjárfesting atvinnuveganna nemur 79 milljörðum, íbúðabyggingar 44 milljörðum og opinberar framkvæmdir 59 milljörðum króna.

Þótt þeirri stefnu sé fylgt í þessari áætlun, að dregið verði úr fjárfestingu í heild, felur hún jafnframt í sér að fé er beint til framkvæmda í fiskvinnslu og iðnaði, fyrst og fremst til þess að bæta tæknibúnað og framleiðni. Þannig aukast útlán fjárfestingarlánasjóða til þessara greina að raunverulegu verðgildi verulega á þessu ári, einkum til fiskvinnslu, og er útlánaáætlun Framkvæmdasjóðs, sem ríkisstj. hefur staðfest og hér er byggt á, við þetta miðuð. Í þessu skyni hefur einnig verið ákveðið að beina innlendu lánsfé, bæði frá lífeyrissjóðum og skyldusparnaðarfé ungmenna, til atvinnuveganna.

Nú er útlit fyrir að aukning þjóðarframleiðslunnar verði um 1.5% á árinu 1979. Viðskiptakjarahorfur eru hins vegar mjög óvissar, einkum vegna ástandsins í olíuviðskiptum í heiminum. Ef svo fer sem nú horfir, að viðskiptakjörin rýrni verulega á árinu, yrði aukning þjóðartekna minni eða jafnvel engin.

Framan af árinu 1978 fór verðbólga vaxandi. Í febrúar 1978 var vísitala framfærslukostnaðar 37% hærri en á sama tíma árið áður, en í ágúst var árshækkunin komin upp í nær 52%, eða nær jafnmikil og hún varð mest á árinu 1975. Með niðurfærsluráðstöfununum í september var mjög dregið úr hækkun framfærsluvísitölunnar frá ágúst til nóvember, en þrátt fyrir þessar aðgerðir var hækkunin milli nóvember 1977 og nóvember 1978 um 47%. Verðbreytingar í nóvember og desember voru hins vegar heldur minni 1978 en 1977, m. a. vegna aukinna niðurgreiðslna í desember, og var árshækkun vísitölu framfærslukostnaðar komin niður í 38% í lok ársins. Meðalhækkun milli áranna 1977 og 1978 var um 44%, en 30% milli áranna 1976 og 1977. Áætlað er að við lok síðasta árs hafi vísitala framfærslukostnaðar verið um 15% hærri en að meðaltali á árinu öllu. Í þessari tölu gætir verulegra áhrifa niðurfærslu verðlags í september og desember, að þeim frátöldum hefði vísitalan um áramót orðið rúmlega 20% hærri en ársmeðaltalið.

Í forsendum þjóðhagsspár fyrir árið 1979 er miðað við, að neysluvöruverð hækki um 33% að meðaltali á árinu og um 30% frá upphafi til loka ársins. Þetta fæli í sér umtalsverða verðbólguhjöðnun á þessu ári. Sá árangur næst þó ekki nema fylgt verði þeirri stefnu í kauplags- og verðlagsmálum, að hækkun peningalauna verði minni en fylgir óbreyttu kerfi vísitölubindingar launa. Þessu yrði einnig að fylgja strangt aðhald í verðlagsmálum. Á sömu forsendum er fjárfestingar- og lánsfjáráætlun þessa árs miðuð við 34% hækkun byggingarvísitölu.

Til þess að ná því markmiði að draga verulega úr verðbólgu á þessu ári er ekki aðeins nauðsynlegt að móta markvissa stefnu í tekju- og verðlagsmálum. Aðgerðir í ríkisfjármálum, peninga- og lánsfjármálum og fjárfestingarmálum eru ekki síður nauðsynlegar. Aðhaldi í ríkisfjármálum er markaður rammi í fjárlögum fyrir árið 1979 og lánsfjáráætlunin mótast af þeirri nauðsyn, að útlán og peningamagn í umferð breytist ívið minna en verðhækkun samkvæmt þessari spá. Er þá einkum nauðsynlegt að hafa hemil á peningaútstreymi úr Seðlabankanum og lántökum erlendis.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að erlendar lántökur verði takmarkaðar við 39 milljarða króna á þessu ári og miðist við að mæta afborgunum erlendra lána og nauðsyn þess að bæta gjaldeyrisstöðuna. Almennar erlendar lánsfjárþarfir ríkisins, þegar tekið hefur verið tillit til þeirrar fjármögnunar sem tryggð verður með sérstökum hætti, nema samtals nálægt 11 677 millj. kr. eða 34.3 millj. Bandaríkjadala, miðað við 340 kr. gengi dalsins. Auk þess bætast svo við þarfir Framkvæmdasjóðs Íslands og Byggðasjóðs, samtals að upphæð 5430 millj. kr., eða um 16 millj. Bandaríkjadala.

Heildarfjárþarfirnar virðast því vera nálægt 17 107 millj. kr., eða um 50.3 millj. dala.

Á þessu ári og næstu árum er nauðsynlegt að greiða niður að verulegu leyti gjaldeyrislán sem Ísland fékk hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á erfiðleikaárunum 1974 og 1975. Brýnt er að þessi lán verði greidd nú þegar bærilega árar, til þess að eiga á ný aðgang að þeim þegar á móti kann að blása. Lántökur á næstu árum verður að miða við að greiðslubyrði erlendra lána fari ekki upp fyrir 14–15% af gjaldeyristekjum og verði þó helst lægri til jafnaðar.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. er lögð á það áhersla, að stefnt verði að jöfnuði í viðskiptum við útlönd og dregið verði úr erlendum lántökum. S. l. 4 ár hefur greiðslubyrði afborgana og vaxta af löngum erlendum lánum verið þessi í hlutfalli við útflutningstekjurnar: Árið 1978 nálægt 13.7%, árið 1977 13.7%, árið 1976 13.8% og árið 1975 14.2%. Árið 1979 er greiðslubyrðin áætluð innan við 14%.

Á yfirstandandi ári munu áætlaðar nettólántökur nema 4% af útflutningstekjum og 1.8% af vergri þjóðarframleiðslu, en samsvarandi tölur fyrir árið 1978 eru 4.2% og 2.2%.

Þrátt fyrir að nokkuð hafi hægt á skuldaaukningunni erlendis á árinu 1978 er engu að síður ljóst að greiðslubyrðin kann að þyngjast á næstu árum, jafnvel þótt útflutningstekjur aukist jafnt og þétt, hvað þá ef afturkippur kemur af einhverjum sökum í útflutningstekjur. Þessi áætlun felur þó í sér að nettólántaka Íslendinga erlendis verði lægra hlutfall af þjóðarframleiðslu en á undanförnum árum. Frekari framkvæmdir en gert er ráð fyrir í þessari áætlun hljóta að kalla á aukna erlenda skuldasöfnun og eru því ekki ráðlegar.

Það er rétt að vekja á því athygli, að smátt og smátt sverfur að svigrúmi til að fjármagna framkvæmdir með innlendu lánsfé. Verðbólgan brennir innlenda fjármagnsmyndun á báli sínu meira og meira eftir því sem hún geisar lengur. Fyrir þessu mega menn ekki loka augunum.

Meðan Íslendingar geta fengið erlent lánsfé til framkvæmda er hægt að byggja upp og halda uppi atvinnu með þeim hætti. En hvað gerist svo þegar erlenda lánstraustið er þorrið?

Á öllu veltur að efla og treysta heilbrigt atvinnulíf í landinu. Á þann hátt einan getum við tryggt næga atvinnu. Um sinn kann mikil verðbólga og mikil atvinna að fara saman. En að því kemur e. t. v. fyrr en margan grunar, að svona gífurleg verðbólga kippir fótum undan mikilli atvinnu og háu kaupgjaldi. Við þurfum því einnig að treysta efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.

En víkjum nú nánar að frv. því sem hér er til umræðu. Eins og ég gat um áður, felur frv. þetta í sér nauðsynlegar ráðstafanir til þess að markmiðum stjórnvalda í fjárfestingar- og lánamálum verði náð. Í sérstöku yfirliti, sem fylgir athugasemdum við frv., er sýnd opinber öflun lánsfjár og ráðstöfun þess á lánsfjáráætlun 1979.

Heildarlánsfjáröflun er áætluð rösklega 51 milljarður króna, þar af nemur innlend fjáröflun 23 milljörðum og erlendar lántökur 28 milljörðum. Á síðasta ári nam heildarlánsfjáröflun tæplega 41 milljarði og er hér því um að ræða fjórðungsaukningu að krónutölu, en 6–7% samdrátt að raunvirði. Innlend fjáröflun nam í fyrra 21 milljarði, en erlendar lántökur 20 milljörðum. Innlend fjáröflun til opinberra framkvæmda er talin nema 5.2 milljörðum króna, þar af 4.2 milljarðar með sölu ríkisskuldabréfa og tæplega 1 milljarður af innheimtufé af endurlánuðu spariskírteinafé ríkissjóðs. Innlend fjáröflun til fjárfestingarlánasjóða nemur 17.8 milljörðum. Erlend lán vegna opinberra framkvæmda nema 22.6 milljörðum og vegna fjárfestingarlánasjóða 5.4 milljörðum, þar af nemur erlend lánsfjáröflun vegna Framkvæmdasjóðs alls 3950 millj. kr. og til Byggðasjóðs er áformað að afla erlendra lána alls 1480 millj. kr. til greiðslu á fjármagnsútgjöldum við byggðalínur.

Ráðstöfun þessa lánsfjár skiptist þannig, að til opinberra framkvæmda renna 27.8 milljarðar, en til fjárfestingarlánasjóða um 23.3 milljarðar. Má þar nefna að frv. felur m. a. í sér ákvæði um kaup lífeyrissjóða á verðtryggðum skuldabréfum, m. a. af Framkvæmdasjóði og Byggingarsjóði ríkisins, og að húsnæðismálastjórn veiti Framkvæmdasjóði Íslands lán af skyldusparnaði ungmenna.

Ég mun nú fara nokkrum orðum um einstakar frumvarpsgreinar, en þó aðeins stikla á stóru og vísa í athugasemdir frv. um nánari skýringar.

1. og 2. gr.: Erlendar lántökur til framkvæmda vegna A- og B-hluta ríkissjóðs nema alls 9295 millj. kr., en námu 4866 millj. kr, í lögum um heimild til erlendrar lántöku fyrir árið 1978 sem afgreidd voru með lánsfjáráætlun þess árs. Í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. fyrir árið 1979 nemur erlend lánsfjáröflun til A- og B-hluta fjárlaga alls 10 555 millj. kr. Nauðsynleg lántökuheimild er 1260 millj. kr. lægri þar sem erlendrar lántökuheimildar vegna byggingar jarðstöðvar var aflað í lögum nr. 120/1978, um ábyrgðarheimildir og heimild til lántöku vegna endurskoðaðrar lánsfjáráætlunar 1978. Innlendar lántökur vegna A- og B-hluta fjárlaga nema hins vegar 5175 millj. kr., þar af verðbréfaútgáfa 4200 millj. kr. og innheimta af endurlánuðu spariskírteinafé 975 millj. kr.

Ástæða er til að geta þess, að við höfum nokkrar áhyggjur af sölu verðbréfa á innlenda markaðnum. Verðbólgan er hér að verki sem viðar og vegur jafnt og þétt að sparnaðarviðleitni almennings. Um ráðstöfun lánsfjárins vísast til fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar og nánari skýringar yfirlitsins sem fylgir frv.

Ég vil þá víkja næst að 3. gr. frv. Nýmæli þessarar greinar er að inn í lög nr. 82/1977 eru nú sett ákvæði um að lífeyrissjóðir á samningssviði ASÍ kaupi skuldabréf Byggingarsjóðs ríkisins fyrir 20% af ráðstöfunarfé, innan þess ramma er lögin að öðru leyti setja. Jafnframt er ákveðið að fjmrn. setji með reglugerð ákvæði um framkvæmd og tímasetningu þessara skuldabréfakaupa innan ársins og hafi heimild til ákvörðunar um af hvaða aðilum lífeyrissjóðirnir kaupa skuldabréf, enda séu ávöxtunarkjör sambærileg. Gert er ráð fyrir að sett verði nánari ákvæði um framkvæmd greinarinnar í reglugerð. Talið er að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna í landinu nemi um 27 milljörðum króna á þessu ári. Gert er ráð fyrir að um þriðji hluti þess fjár verði lánaður til íbúðarlánasjóða og atvinnuvegasjóða. Það er ákaflega þýðingarmikið að samstaða náist um skipulega ráðstöfun verulegs hluta af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna. Má raunar segja að það sé ein af veigameiri forsendum fyrir áætlunarvinnubrögðum og allri viðleitni til að beina lausu fjármagni þjóðarinnar að þjóðhagslega hagnýtum verkefnum.

4. gr.: Framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar eru áformaðar alls 7320 millj. kr. á árinu 1979. Framkvæmdir við Hrauneyjafoss nema alls 4860 millj. kr., en þá hafa stjórnvöld ákveðið að dregið verði úr framkvæmdaáætlun ársins 1979 um sem svarar 2600 millj. kr. Þrátt fyrir minni verkhraða 1979 en áður var áformað er að því stefnt, að virkjuninni megi ljúka haustið 1981. Til lokaframkvæmda við Sigöldu er fyrirhugað að verja 674 millj. kr. og 397 millj. kr. til annarra verkefna á vegum fyrirtækisins. Þá nema vaxtagreiðslur 1299 millj. kr. Erlendar lántökur nema alls 6500 millj. kr., en eigið fé fyrirtækisins og framlag ríkissjóðs nemur 730 millj. kr.

Framkvæmdir Hitaveitu Akureyrar hófust 1977 og standa enn. Til þessara framkvæmda var veitt ábyrgðarheimild að fjárhæð 4800 millj. kr. 1978. Í frv. þessu er leitað heimildar til ábyrgðar á erlendu láni, alls 1800 millj. kr., vegna ársins 1979.

Einnig ei leitað heimildar um ábyrgð vegna lántöku alls 1345 millj. kr., en fjármagn þetta er ætlað til hitaveituframkvæmda víðs vegar um landið. Lánsfjáröflun þessi miðast við eftirtaldar framkvæmdir: Hitaveita Egilsstaða 170 millj. kr. Hitaveita Vestmannaeyja 300 millj. kr. Fjarvarmaveita á Höfn í Hornafirði 65 millj. kr. Hitaveita Borgarfjarðar og Akraness 750 millj. kr. Hitaveita Sauðárkróks 60 millj. kr. Fjármögnun þessara framkvæmda verður einnig innlend, bæði úr Lánasjóði sveitarfélaga, Orkusjóði og einnig sjóðum sveitarfélaga og fyrirtækjanna. Lánveitingar eða ábyrgðir af ríkisins hálfu verða ekki veittar til einstakra hitaveitna fyrr en iðnrh. hefur veitt einkaleyfi til rekstrar og skilyrðum orkulaga um einkaleyfisveitingu er fullnægt. Í orkulögum segir að einkaleyfisumsókn skuli fylgja fullnægjandi uppdrættir af fyrirhugaðri hitaveitu, kostnaðaráætlun og rekstraráætlun. Einkaleyfi skal því aðeins veitt að ráðherra telji, að fengnu áliti Orkustofnunar, að uppdrættir og áætlanir séu tæknilega réttar, hitaveitan verði þjóðhagslega hagkvæmt fyrirtæki og fullnægi hitaþörf svæðisins og að tryggður sé eðlilegur og truflunarlaus rekstur, eftir því sem aðstæður leyfa.

Mun ég þá víkja að 6. gr. frv. — Í fyrri lögum um lántökur hefur ekki verið gerð sérstök grein fyrir lánsfjáröflun Reykjavíkurborgar eða borgarfyrirtækja. Þetta er nú gert enda þótt Reykjavíkurborg ábyrgist sjálf eigin skuldbindingar. Lántökuheimild til annarra sveitarfélaga nemur alls 900 millj. kr. Af þessari fjárhæð eru 245 millj. kr. vegna fjárhagsvanda Vestmannaeyjakaupstaðar í samræmi við tillögur úttektarnefndar þeirrar er um málið fjallaði, 340 millj. kr. vegna sorpeyðingarstöðvar á Suðurnesjum og 315 millj. kr, vegna annarra verkefna.

Framkvæmdir Orkubús Vestfjarða á sviði raforkumála eru fyrirhugaðar alls 450 millj, kr., þar af nemur lánsfjáröflun 400 millj. kr. Einnig er heimild til lántöku alls 65 millj. kr. vegna fjarvarmaveitu Ísafjarðar.

Erlend lántaka fjárfestingarsjóða mun aukast verulega frá fyrri árum, einkum af völdum aukinna hagræðingarlána og fyrirgreiðslu við skipasmíðastöðvar. Erlend lántaka Framkvæmdasjóðs er áætluð 3950 millj. kr. Auk þess mun Byggðasjóður hafa milligöngu um útvegun erlends láns vegna fjármagnsútgjalda byggðalína.

Þrátt fyrir nokkurt aðhald í útlánum verður svigrúm til þess að beina sérstaklega fjármagni til fiskvinnslu og iðnaðar. Lánsfé til Fiskveiðasjóðs hefur verið aukið að því marki, að sjóðurinn geti lánað 2000 millj. kr. til fiskvinnslu. Til viðbótar kemur svo lánafyrirgreiðsla til hagræðingarlána af gengismunarreikningi að fjárhæð 1200 millj. kr.

Fiskveiðasjóður mun því lána 3200 millj. kr. til fiskvinnslu. Auk þess verður Byggðasjóði aflað sérstaks lánsfjár, 900 millj. kr., frá Framkvæmdasjóði til að bæta stöðu fyrirtækja í sjávarútvegi. Ríkisstj. mun svo beita sér fyrir því, að Byggðasjóður láni af öðru fé sínu 1000 millj. kr. til fiskvinnslu á þessu ári. Fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin gerir því ráð fyrir að beina samtals 5100 millj. kr. til fiskvinnslufyrirtækja, jöfnum höndum til uppbyggingar, hagræðingar og til að bæta stöðu sjávarútvegsfyrirtækja.

Á árinu 1972 ákvað stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins að gera áætlun um uppbyggingu og hagræðingu í frystiiðnaðinum. Á árunum 1972–1978 munu heildarframkvæmdir í hraðfrystihúsunum hafa numið um 30 milljörðum kr. á verðlagi ársins 19~8 og eru þá framkvæmdir ársins 1978 áætlaðar. Lánveitingar Fiskveiðasjóðs til frystihúsa á sömu árum og sama verðlagi námu um 8.8 milljörðum kr. og Byggðasjóðs um 3.4 milljörðum kr., eða samtals um 12.2 milljörðum kr., sem er um 40% af heildarframkvæmdum. Auk þessara sjóða hafa aðrir smærri veitt nokkur lán til frystihúsa og umtalsverðar fjárhæðir erlendra lána hafa fylgt vélum og tækjum sem keypt hafa verið erlendis.

Landshlutaskipting framkvæmda á verðlagi ársins 1978 er svo hljóðandi: Suðurland 2505 millj. kr., Reykjanes 5009 millj. kr., Reykjavík 3296 millj. kr., Vesturland 3315 millj. kr., Vestfirðir 6044 millj. kr., Norðurl. vestra 1728 millj. kr., Norðurl. eystra 2799 millj. kr., Austurland 5494 millj. kr. Alls 30 193 millj. kr. sem varið hefur verið til uppbyggingar í hraðfrystiiðnaðinum á árunum 1972–1978.

Þá er einnig áformað að halda áfram uppbyggingu vinnslustöðva í landbúnaði, en til þess hefur verið varið 4 milljörðum kr. á árunum 1974–1978, ef miðað er við verðlag ársins 1978.

Á lánsfjáráætlun er áformað að Framkvæmdasjóður útvegi Byggðasjóði 200 millj. kr. til þess að breyta lausaskuldum bænda í löng lán.

Í því skyni að tryggja skipasmíðastöðvunum verkefni mun ríkisstj. heita sér fyrir erlendri lántöku Framkvæmdasjóðs og annarri fjárútvegun þannig að Framkvæmdasjóður geti lánað sérstaklega 1250 millj. kr. til skipasmíðaverkefna á árinu 1979. Þessu fé verður ráðstafað með samþykki iðnrh., sjútvrh. og fjmrh. Lánveiting þessi er háð samkomulagi við launþegasamtökin um kaup skuldabréfa af Framkvæmdasjóði og Byggingarsjóði ríkisins. Þetta fé renni til hagræðingar og til viðbótar venjulegri fyrirgreiðslu Fiskveiðasjóðs og annarra sjóða við fiskiskipasmíði innanlands, sem áætluð er 2700 millj. kr. á árinu, og venjulegu lánsfé til viðgerða á fiskiskipum innanlands úr Framkvæmdasjóði og Byggðasjóði.

Ráðgert er að innlendum skipasmíðastöðvum verði heimilað að taka erlend bráðabirgðalán á byggingartíma skips sem Fiskveiðasjóður yfirtaki og verði lánsupphæðin miðuð við sama hlutfall og Fiskveiðasjóður lánar hverju sinni. Heimildin taki bæði til nýsmíði og meiri háttar breytinga, en einungis til stærri skipa, þ. e. togara og nótaskipa. Tímalengd hins erlenda láns skal miðast við það sem almennt tíðkast um útflutningslán með skipum smíðuðum erlendis. Heildarlánveitingar Fiskveiðasjóðs til þessa verkefnis verða ákveðnar síðar, m. a. með tilliti til hagræðingarfjár vegna skipasmíða, og koma til frádráttar samsvarandi lánveitingum sem innifaldar hafa verið í áætlunum Fiskveiðasjóðs og Framkvæmdasjóðs innan marka lánsfjáráætlunar þessa árs.

Ríkisstj. getur auk þess, sem fram er sett hér, heimilað Framkvæmdasjóði að taka 1000 millj. kr. sérstaklega að láni á árinu til hagræðingar í undirstöðugreinum atvinnulífsins.

Verulegu fjármagni verður beint til uppbyggingar iðnaðar, auk þess sem áður er greint frá. Ráðgert er að Iðnlánasjóður láni 2613 millj. kr. og Iðnþróunarsjóður 1000 millj. kr. Þá munu Byggðasjóður, veðdeild Iðnaðarbankans og Iðnrekstrarsjóður einnig lána talsvert til iðnaðaruppbyggingar. Á árunum 1972–1978 hafa verið lánaðir 21.5 milljarðar kr. til iðnaðaruppbyggingar í landinu og er þá miðað við verðlag ársins 1978.

Í fjárfestingarspá er reiknað með svipuðu magni framkvæmda við íbúðabyggingar og árið 1978 og munu útlán íbúðarlánasjóða aukast sem svarar áætlaðri hækkun byggingarkostnaðar. Lánveitingar þessara sjóða munu því nema svo til sama hlutfalli af fjárfestingu í íbúðarhúsnæði, tæpum 30% hæði árin. Á móti nokkrum samdrætti almennra íhúðabygginga koma framkvæmdir á félagslegum grundvelli sem færst hafa í aukana og bera með sér hærra lánahlutfall en almenn íbúðarlán, svo og tilfærsla íbúðarlána í sveitum frá Stofnlánadeild landhúnaðarins til Byggingarsjóðs ríkisins.

Heimilt er að taka fjáröflun Byggingarsjóðs ríkisins til endurskoðunar á árinu ef: sjóðurinn getur ekki staðið við lögbundnar og venjubundnar skuldbindingar og hætta er á að til alvarlegs atvinnuleysis komi í byggingariðnaði.

Í 11. gr. er fjallað um skyldusparnaðarfé ungmenna, en það mun nú koma til skiptingar þannig, að til Byggingarsjóðs ríkisins renna 2500 millj. kr., til Framkvæmdasjóðs Íslands 2000 millj. kr. og Stofnlánadeildar landbúnaðarins 400 millj. kr. Skyldusparnaður ungmenna í sveitum, 400 millj. kr., mun enn á þessu ári ganga til Stofnlánadeildar landbúnaðarins til þess að mæta viðbótarlánum til íbúðarhúsa. Frá og með árslokum 1979 er sparnaði þessum ætlað að ganga til Byggingarsjóðs ríkisins eins og lánveitingar til íbúðarbygginga í sveitum. Lántaka Framkvæmdasjóðs Íslands hjá Byggingarsjóði ríkisins af skyldusparnaðarfé verður með hliðstæðum kjörum og Byggingarsjóður nýtur að jafnaði af þessu lánsfé. Ég vil þó taka fram að til greina kæmi að Byggingarsjóður lánaði Framkvæmdasjóði aðeins í milljarð af skyldusparnaðarfé, en Atvinnuleysistryggingarsjóður 1 milljarð í staðinn. Þetta má athuga nánar í meðferð þeirrar nefndar sem fær þetta mál til meðferðar.

Í samræmi við markaða stefnu í fjárlögum um skerðingu á framlögum til fjárfestingarsjóða er nauðsynlegt að lögum nokkurra sjóða verði breytt og fjalla 12.–19. gr. frv. um það. Sé ég ekki ástæðu til að fara um það sérstaklega fleiri orðum.

Lögbundnar fjárveitingar til Ferðamálasjóðs voru lækkaðar um 10% eins og framlög til annarra fjárfestingarsjóða og nemur framlagið því alls 36 millj. kr. Samkvæmt lögum nr. 60/1976, um skipulag ferðamála, skal tiltekinn hluti af veltu Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli renna til þessarar starfsemi. Tekjustofni þessum er nú breytt þannig að 10% af skilum Fríhafnarinnar til ríkissjóðs renna til ferðamála. Þetta mál er rétt að athuga nánar í n. sem fjallar um þessi mál. Það er nokkuð stórt stökk tekið í þessu sambandi og e. t. v. ástæða til að athuga það nokkru nánar.

Vegna ástands á erlendum fjármagnsmörkuðum hefur yfirleitt ekki verið völ á erlendum lánum til nægilega langs tíma, miðað við eðlilegan afskriftartíma þeirra framkvæmda sem með þeim hafa verið fjármagnaðar. Veldur þetta örum afborgunum og þungri greiðslubyrði á næstu árum. Rétt þykir að fjmrh. geti í samráði við fjvn. tekið lán til greiðslu annarra lána sé slíkt talið heppilegt. Sams konar heimild er nú veitt stjórn Landsvirkjunar til breytingar lána og af sömu ástæðum.

Ég hef nú gert grein fyrir skýrslu ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1979 og frv. til laga um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir og ráðstafanir vegna áætlunarinnar, sem ef til vill væri rétt að nefna einu nafni lánsfjárlög. Ég er sannfærður um að þennan þátt í fjármála- og fjárfestingarstjórninni þarf að bæta og skapa þannig meiri festu í undirbúningi og þinglegri meðferð fjárfestingaráætlana og lánsfjáröflunar. Hvort tveggja hefur nokkuð farið úr böndum á undanförnum árum, og mun ég fyrir mitt leyti vinna að því að koma þessum málum fyrir með ákveðnari hætti en verið hefur. Ég hef áður vikið að fyrirhugaðri lagasetningu í þessu sambandi.

Ég leyfi mér að leggja til að þessu máli verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.