28.02.1979
Neðri deild: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2861 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Þar sem ég á sæti í fjvn. vil ég við 1. umr. þessa máls gera nokkrar aths. bæði við málatilbúnað þann, sem hér hefur verið í frammi hafður, og nokkur efnisatriði þessa máls.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 1979, sem kom óvenjuseint fram á þessu þingi, eins og hv. þm. er kunnugt, var fjallað um lánsfjáráætlun í aths. frv. og þar var sagt: „Lánsfjáráætlunin 1979 verður væntanlega lögð fyrir Alþingi í nóvember.“ Í samræmi við þetta var settur á laggir sérstakur starfshópur fjvn.-manna í haust til þess að fjalla um lánsfjáráætlun ríkisstj. Undanfarin ár var sá háttur hafður á. Því miður reyndist það oft svo að lánsfjáráætlun kom seint fram, en þó aldrei svo seint síðari árin að hún væri ekki til milli 2. og 3. umr.

Það liggur í augum uppi, að frv. sem þetta fjallar um veigamikla þætti fjárl. í raun, og eins og hæstv. ráðh. sagði skýrt og skorinort, þá er hér í raun um lánsfjárlög að ræða. Ég tek undir það með honum. En þeim mun andkannalegra verður hvernig vinnubrögðum í þessu efni er háttað. Þegar fjárlög eru ákveðin liggja ekki fyrir ákvarðanir um til hvers konar opinberra framkvæmda og ýmissa þarfa hins opinbera skuli taka lán og til hvers ekki. Það hlýtur að liggja í augum uppi, að slík vinnubrögð eru ótæk og eitt rekst á annars horn í ákvarðanatöku um þessi efni, eins og glöggt kemur fram í þessari skýrslu o frv. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir 1979. Ég vil taka undir þá hugmynd sem hæstv. ráðh. vitnaði til úr frv. hæstv. forsrh. sem hefur verið mikið rætt á Alþ., en ekki séð dagsins ljós, og eru það út af fyrir sig nýstárleg vinnubrögð. Kannske væri hægt að afgreiða það á einum eða tveimur dögum vegna þeirra umr. sem orðið hafa um þetta ágæta frv. hér á Alþ. án þess að það hafi verið lagt fram. En þar er vikið að því, að áætlun um lánsfé og fjárfestingu hins opinbera skuli gerð og lögð fram jafnframt fjárlagafrv. Það er mikill munur á þeim hugmyndum og þeim vinnubrögðum sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur í þessu efni.

Ég vil aðeins undirstrika það, að að sjálfsögðu skiptir meginmáli að þessar ákvarðanir séu teknar samtímis, ákvarðanir um lánsfjáráætlun og fjárfestingaráætlun og fjárlög, vegna þess að með þeim hætti einum er hægt að koma við heildarstjórn á ríkisfjármálunum og með þeim hætti einum vita menn hvað menn eru að gera þegar verið er að samþykkja fjárlög og lánsfjáráætlun. Ég veit að hæstv. ráðh. er mér sammála um þetta. En af því að ég tel hann vera glöggan mann á ríkisfjármálin vil ég mjög gagnrýna það, að ekki skyldi vera gerð tilraun til þess frá 1. febr., þegar mér skilst að lánsfjáráætlunarskýrslan hafi legið fyrir og verið samþ. í ríkisstj., til þess að skýra þessa skýrslu eða sýna hana fjvn. Á hinn bóginn var hún eins og önnur gögn hæstv. ríkisstj. sýnd öðrum samtökum utan Alþ. Hún var sýnd aðilum vinnumarkaðarins, að mér skilst, og við þá voru höfð samráð um gerð áætlunarinnar, en að sjálfsögðu var litið fram hjá þeirri stofnun í Alþ. sem þó fram til þessa hefur verið stuðst við sem þá stofnun sem gæti gefið Alþ. upplýsingar um hvernig líta beri á afgreiðslu fjárl. og lánsfjáráætlunar.

Það er út af fyrir sig athyglisvert, að í þessari skýrslu um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og frv., sem henni fylgir, er mikið talað um fjárfestingarstjórn, eins og hv. þm. Matthías Á. Mathiesen kom hér inn á. Í raun er hér þó fyrst og fremst um að ræða ákvæði nokkurra greina frv. sem fjalla fyrst og fremst um að skerða framlög til einstakra fjárfestingarsjóða og um leið framlög sem ganga til fjárfestingarsjóðanna vegna markaðra tekjustofna. Þar er t. d. um að ræða launaskatt, sem á að ganga til húsnæðismálakerfisins. Það er því kannske fyrst og fremst markmið þessara ákvæða frv. um fjárfestingarstjórn, sem núv. hæstv. ríkisstj. gumar mikið af að hafi verið tekin upp, að seilast í nýjar tekjur fyrir ríkissjóð. Þetta er sem sagt hluti af skattastefnu núv. hæstv. ríkisstj. miklu fremur en stefnu í fjárfestingarmálum.

Í annan stað er athyglisvert, þegar gluggað er í hver stefna þessa frv. er og skýrslu um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, að gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting opinberra framkvæmda minnki að magni til um 5% á árinu 1979. Á hinn bóginn er þess getið í þessari skýrslu, að magnminnkun opinberra framkvæmda 1978 hafi verið 14%. Frá þessu framkvæmdastigi er sem sagt skorið niður um 5%. Það er athyglisvert að gera sér þetta ljóst. Nú kann þetta að vera nauðsynlegt, á það ætla ég ekki að leggja neinn dóm. Ég lít svo á að að meginstefnu til sé æskilegt að draga saman opinberar framkvæmdir eins og sakir standa í þjóðarbúskapnum. En það er athyglisvert, þegar þessi staðreynd er ljós, hvað hv. þm., sem að þessari ákvörðun standa, þeir Alþb.-menn og Alþfl. menn, hafa sagt um slíka stefnu á árum áður.

Ég minnist þess, að í fjárlagaumr. sagði fulltrúi Alþb. um svipaða stefnu 1978: „Af hálfu áköfustu hægri manna í Sjálfstfl. hafa kröfurnar verið þær í ræðu og riti, að það eigi að vera markmið stjórnarstefnunnar að skera niður þátt ríkisins í verklegum framkvæmdum og þjónustu.“ Og hann bætti við: „Þetta er hin alkunna stefna hægri flokka.“ — Ég býð hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, velkominn í þennan hóp.

Fulltrúi Alþfl. sagði í þessum sömu umr.: „M. ö. o.: niðurskurðarstefnan, sem talað er um að fólgin sé í þessu frv.,“ — og þá er verið að fjalla um frv. til fjárl., — „er fyrst og fremst á þessum sviðum, að skornar eru niður framkvæmdir og sú þjónusta þar sem fólkið fær áþreifanlegasta sönnun fyrir því, að þeir fjármunir, sem það leggur til sameiginlegra þarfa, komi að gagni.“ Þá var hann að tala um skóla, hafnir, sjúkrahús o. s. frv.

Í þessu frv. er sem sagt gert ráð fyrir heildarniðurskurði um 5% frá því framkvæmdastigi, sem áður var ákveðið, en ekki er gert ráð fyrir niðurskurði til skóla, hafna og sjúkrahúsa um 5%, heldur var okkur sagt að það væru 12% þegar fjárlög voru afgreidd. Það er meiri niðurskurður til þessara áþreifanlegu þarfa fólksins, þar sem sveitarfélög og ríki standa sameiginlega að framkvæmdum úti um landið við skóla, sjúkrahús og hafnir, en á öðrum sviðum opinberra framkvæmda. Þetta er mjög athyglisverð stefna í ljósi þeirrar gagnrýni og þess sem þessir hv. þm. hafa haldið fram á undanförnum árum. Ég álít að sú stefna að draga meira úr þessum framkvæmdum en öðrum á vegum hins opinbera sé mjög óraunhæf og ekki eðlileg. Ég álít að það eigi að ráðast frekar á garðinn þar sem hann er hærri en í þessum efnum.

Um fjárfestingarlánasjóði og þau áform, sem koma fram í þessu frv. og skýrslu um lánsfjáráætlun, hef ég á þessu stigi ekki mikið að segja. Ég vil þó aðeins benda á að að sumu leyti er þarna stefnt langt út fyrir það sem manni hefur skilist á hv. stjórnarsinnum í umr. hér að þeir stefndu að. Það er t. d. svo um Framkvæmdasjóðskerfið, að mér sýnist það bólgna um meira en 100% frá því sem það var í fyrra. Ég vil þó vekja fyrst og fremst athygli á einu. Það er hugmynd um það í skýrslu ríkisstj. að taka erlend lán til skipasmíða á byggingartímanum hér innanlands. Hér er um eðlilega hugmynd að ræða. Ég vil taka undir það að þetta sé kannað. Það er óeðlilegt að á einn eða annan hátt sé auðveldara fyrir menn að fá skip sín smíðuð erlendis heldur en innanlands, og þarna er um að ræða hluta af úrbótum í þeim efnum. En ég vil í þessu sambandi benda á að hér er verið að fara enn lengra út á þá braut að taka erlend lán til þess að reka íslenska atvinnuvegi. Þetta var gert með þeirri nýju tilhögun sem Seðlabankinn tók upp nú ekki alls fyrir löngu um það að taka erlend lán til að lána íslenskum atvinnuvegum vegna útflutningsbirgða. Ég skil mætavel að það skuli vera farið út á þessa braut eins og komið er núna með lánsfjármagn í landinu. En mér er fyrirmunað að skilja það, að mönnum, sem stefna í þessa átt, skuli ekki detta í hug að veita íslenskum sparifjáreigendum sömu kjör til þess að lána íslenskum atvinnuvegum og þeir vilja að útlendir sparifjáreigendur fái, því að að sjálfsögðu eiga einhverjir útlendir menn það sparifé sem tekið er að láni til íslenskra atvinnuvega, fyrst til fiskiðnaðarins og útgerðarinnar og til afurðalána í afurðalánakerfinu og síðan nú með þessari hugmynd um að taka erlend lán til skipasmíðastöðva til skipasmíða á þeim tíma sem skipin eru í smíðum. Væri æskilegt að menn hygðu að því, hvort ekki væri rétt að gera íslenskum sparifjáreigendum sömu kjör, veita þeim sama rétt til að lána innlendum atvinnuvegum með sömu kjörum og útlendingar fá nú að gera, þ. e. a. s. með gengistryggingu. Ég hefði gjarnan viljað sjá hugmyndir um þetta koma fram jafnframt því að fara meira út á þessa braut. Ég styð þessa hugmynd um að erlend lán séu tekin í þessu skyni, miðað við aðstæður eins og sakir standa, en ég vil aðeins benda á að þarna er verið að ganga lengra út á þá braut að veita erlendum sparifjáreigendum fríðindi hér til að lána íslenskum atvinnuvegum fé sitt, miðað við það sem íslenskir sparifjáreigendur hafa.

Í þessu frv. og skýrslu um lánsfjáráætlun er mjög vikið frá því sem ákveðið var í fjárl. að yrði tekið að láni til opinherra framkvæmda. Í fjárlagafrv. var t, d. gert ráð fyrir að tekið yrði 200 millj. kr. lán til þess að reisa þjóðarbókhlöðu. Þetta var skorið niður í meðförum Alþingis, niður í 75 millj. Síðan á samkv. þessu frv. að hækka þetta aftur í 200 millj. Það er sem sagt: upp með bókhlöðuna, niður með bókhlöðuna og upp með bókhlöðuna. Þetta er til merkis um stefnufestu ríkisstj. á þessu sviði. En þetta er líka dæmi um hvað það er fráleitt að vinna þetta svona, að vinna að lánsfjáráætlun og fjárlögum sitt í hvoru lagi.

Hér eru liðir eins og hækkað lán til vegagerðar frá fjárl. um 430 millj., til Lánasjóðs námsmanna um 700 millj., til flugmálastjórnar um 160 millj. Mér skilst að ætlunin sé að Alþ. leggi blessun sína á það, að flugmálastjórn hafi þegar keypt flugvél til umráða fyrir sig, en það mál hefur aldrei verið lagt fyrir fjvn. Ætlunin er sem sagt að nú taki önnur n. ákvörðun um það og leggi til við Alþ. að þetta verði heimilað samkv. þessu frv. — enn nýtt dæmi um hvað hér er um óhæf vinnubrögð að ræða.

Ég gæti talið svona lengi, en samtals er áformað að taka 5 milljörðum kr. meira að láni til framkvæmda vegna A- og B-hluta fjárl. heldur en gert var fyrir rúmum tveimur mánuðum þegar fjárlög voru afgreidd.

Ég vil vegna opinberra framkvæmda og lánsfjárþarfar almennt í þjóðfélaginu víkja hér að einu atriði sem hæstv. ráðh. kom raunar inn á, en það eru lántökur til hitaveituframkvæmda. Samkv. töflu í þessari skýrslu, á bls. 33, er gert ráð fyrir að þörfin fyrir útgjöld og fjárfestingu á þessu sviði séu 7.7 milljarðar kr. Gert er ráð fyrir að úr rekstri eða sjóðum sveitarfélaga geti komið 3.3 milljarðar kr. í þessu skyni. Þarna er yfirleitt um nýframkvæmdir að ræða, nýjar hitaveitur, mjög mikið a. m. k., og mér þykir afskaplega ósennilegt að þær sé hægt að fjármagna með þessum hætti. Mér sýnist þarna vera um óraunhæfa áætlun að ræða og ef það er út af fyrir sig ekki markmið stjórnvalda að skera þessar framkvæmdir sérstaklega niður þurfi að gera þarna á bragarbót í viðbót við það sem búið er að gera með þessari áætlun og ég kom inn á áðan. Á þessu sviði er stærsta framkvæmdin Hitaveita Akureyrar. Til hennar er áætlað að verja 1800 millj. samkv. þessari áætlun, en fjárþörfin er talin nema allmiklu hærri upphæð. Hæstv. ráðh. minntist á þetta á jákvæðan hátt í máli sínu, og ég vil taka mjög undir það, að þetta verði endurskoðað í ljósi þeirrar staðreyndar að illa horfir um hækkanir á olíu, eins og mönnum er kunnugt, og að sjálfsögðu eru þetta framkvæmdir sem síst má skera niður eins og sakir standa. (Forseti: Mig langar að mega fara fram á það við hv. ræðumann, að hann fresti nú máli sínu til kl. 6. Ætlunin er að halda þingflokksfundi kl. 4 og halda síðan fundinum áfram kl. 6.) Ég hefði ekki orðið nema nokkrar mínútur að ljúka henni, en ég skal verða við tilmælum forseta. — (Fundarhlé.]

Herra forseti. Við fundarhlé var ég kominn að því í ræðu minni að ræða um lánsfjáröflun til hitaveituframkvæmda og nauðsyn á endurskoðun á þeim hluta lánsfjáráætlunarinnar. Því til viðbótar vil ég nefna annað atriði í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni sem mér sýnist að mistök hafi orðið í og þurfi að leiðrétta. Það kemur fram í 20. gr. frv., að fyrirhugað er að skera niður framlög til ferðamála og Ferðamálasjóðs. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því, að við gerð fjárl. var rekstrarkostnaður Ferðamálaráðs strikaður út úr fjárl., en í frv. til fjárl. var gert ráð fyrir ákveðnum launakostnaði og öðrum rekstrarkostnaði til starfsemi Ferðamálaráðs. Þetta var strikað út við afgreiðslu fjárl. samkv. till. meiri hl. fjvn. Ég benti á það í fjvn., að hér væri mjög óeðlilega að fatið. Að sjálfsögðu væri það pólitískt atriði, hvort skera ætti niður framlög til ferðamála, en eðlilegt væri að gera ráð fyrir að rekstrarkostnaður Ferðamálaráðs væri útgjaldamegin í fjárl., en á móti yrði þá gert ráð fyrir tekjum. Ef það væri ætlun hæstv. ríkisstj. og meiri hl. n. að það kæmi fé úr 10% skatti sem lagður er á sölu Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli, til þess að standa undir rekstrarkostnaði Ferðamálaráðs, þá væri að sjálfsögðu eðlilegt að taka þarna tekjur inn á móti eðlilegum útgjöldum vegna rekstrar ráðsins. Ástæðan fyrir því, að þetta er skynsamleg og eðlileg aðferð við fjárlagagerð, er einfaldlega sú, að með þessum hætti er hægt að hafa eftirlit með útgjöldum, mannahaldi og rekstri Ferðamálaráðs. En með þeim hætti að fella þetta algerlega út úr fjárl. er þessi stofnun skilin eftir algerlega í lausu lofti og fyrir utan allt fjármálakerfi ríkisins. Hér er sem sagt um enn eitt dæmi að ræða. Ef þessi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hefði verið unnin jafnhliða og afgreidd jafnhliða fjárl., þá hefði komið enn þá gleggra í ljós að þarna er um fráleit vinnubrögð að ræða, hæði við fjárlagagerðina og eins varðandi þessa 20. gr., enda kom hæstv. ráðh. lauslega inn á það í ræðu sinni að þetta þyrfti að endurskoða.

Ég vil vekja athygli á því, að ef þessi 20. gr. stendur óbreytt, þá verður ekki einungis um það að ræða að þetta fjármagn, sem átti að renna til ferðamála, komi ekki, heldur verður ekki samkv. rauntölum ársins í fyrra, 1978, um að ræða möguleika á að standa undir eðlilegum rekstri Ferðamálaráðs, hvað þá að það kæmi eitthvert fé til landkynningar og ferðamála eins og gert er ráð fyrir samkv. lögum þar um. Í þessu sambandi er rétt að minna á það, að tekjur af ferðamönnum á Íslandi eru þriðju hæstu einstakra útflutningsgreina eða aðrar þær hæstu og koma á eftir sjávarútvegi. Þær voru um 11 milljarðar kr. á s. l. ári. Hér er því ekki um neinn smáræðisatvinnuveg að ræða, og ef þetta mál fer svo fram sem gert er ráð fyrir í þessu frv. er það ljóst dæmi um hvernig óhentug og óeðlileg vinnubrögð geta hreinlega orðið til þess að menn skeri niður framlög sem eru jafnnauðsynleg og raun ber vitni til þess að stuðla að framgangi þessarar atvinnugreinar.

Að lokum, herra forseti, vil ég aðeins koma inn á eitt aðalmarkmið með þessari fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem um er getið í skýrslu ríkisstj. Þar segir, að með henni sé stefnt að aðhaldi í ríkisbúskapnum, hann verði stóraukinn og áhersla lögð á jafnvægi á þessu sviði, á jafnvægi í ríkisfjármálunum. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að við fjárlagaafgreiðslu voru nokkrir endar lausir. Greiðsluafgangur á fjárl. er tæpir 2.5 milljarðar kr. reikningslega séð, eins og fjárl. voru afgreidd. En ég vil aðeins mega spyrja hæstv. fjmrh. varðandi fjárlagadæmið, vegna þess að það hefur ekki komið fram, hvort hæstv. ríkisstj. hyggst standa við ýmsar ákvarðanir sem þessi fjárlagaafgreiðsla byggðist á, þ. e. a. s. þegar greiðsluafgangur var fundinn, tæpir 2.5 milljarðar kr.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja hann: Hefur ríkisstj. hugsað sér að lækka niðurgreiðslur um 2.8 milljarða? Er hún staðráðin í því að lækka niðurgreiðslur um 2.8 milljarða, en á því byggðist fjárlagaafgreiðslan? Hvenær er þá hugsað að þessar lækkuðu niðurgreiðslur komi til framkvæmda, og ef hann hefur upplýsingar um það, hvað mundi þetta þá hafa mikil áhrif á verðlag?

Ekki var gert ráð fyrir að laun opinberra starfsmanna hækkuðu 1. apríl, svo sem þau eiga að gera samkv. samningum. Þau eiga þá að hækka um 3%. Þetta mundi kosta ríkissjóð um 1300 millj. kr., að ég hygg, á árinu í ár. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Eru enn þá horfur á því, að ríkissjóður muni ekki þurfa að reiða fram þetta fé, 3% kauphækkun til opinberra starfsmanna 1. apríl.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því í fjárlagadæminu, að í tryggingakerfinu verði sparaðar 940 millj. kr. með því að hækka gjöld á lyf og vegna sérfræðilæknishjálpar, hækka gjöld á sjúklingum um allverulegar fjárhæðir, og heildarsparnaðurinn átti að vera 940 millj. kr. á árinu. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvað líður þessum áformum? Eru enn þá horfur á því, að hægt sé að spara á þennan hátt í tryggingakerfinu 940 millj. kr.?

Þá vil ég gjarnan fá upplýsingar um það, hvort ráðstafanir hafi verið gerðar til að afla fjár vegna ýmissa opinberra þjónustustofnana, en eins og fram hefur komið hér á hinu háa Alþ. mun þær skorta margar hverjar verulegar fjárhæðir til þess að endar nái saman í rekstri þeirra. T. d. mun vera svo um Póst og síma, að hann skorti um 2000 millj. kr. til þess að endar nái saman.

Og í síðasta lagi spyr ég, hvenær sé að vænta till. ríkisstj. eða meiri hl. hv. fjvn. um niðurskurð útgjalda, en heimild er í fjárl. til 1000 millj. kr. niðurskurðar á ríkisútgjöldum.

Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um þetta. Ég hygg að hv. dm. vanti slíkar upplýsingar til þess að hafa einhverja mynd af því, hvernig staða ríkisbúskaparins er, og það hlýtur að þurfa að gera sér grein fyrir því að einhverju leyti þegar verið er að taka afstöðu til raunar nýrra fjárl., eins og hæstv. ráðh. benti á, þ. e. a. s. lánsfjárlaga fyrir árið 1979.