28.02.1979
Neðri deild: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2866 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Hér er til umr. frv. til l. um heimild til lántöku vegna lánsfjáráætlunar ársins 1979. Jafnhliða þessu frv. er til umr. sú skýrsla sem með frv. fylgir, skýrsla ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ársins 1979.

Þegar frv. hliðstæð þessu hafa verið hér til umr. á undanförnum árum hef ég tekið þátt í nokkuð almennum umr. um málið. En það verð ég þó að segja, að þær umr. hafa orðið miklu minni en efni stóðu til, og hef ég gjarnan kvartað undan því að svo hefur til tekist. Í sambandi við það, sem upp var tekið fyrir nokkrum árum, að láta fylgja hliðstæðu frv. þessu, um heimildir í sambandi við lánsfjáráætlun, allítarlega skýrslu um fjárfestingar- og lánsfjármál hef ég talið og tel enn að það hafi verið mjög til hóta í okkar efnahagsmálum að fá skýrslu af þessu tagi og þá grg. sem felst í henni. Hins vegar hef ég og reyndar fleiri bent á að það hafi verið galli á þessu að ekki skuli hafa verið unnt að leggja fram þessa skýrslu samhliða fjárlagafrv., svo að hægt væri að ræða um fjármálastefnuna ekki aðeins í því formi, sem fjárlagafrv. gefur tilefni til, heldur einnig á þeim breiðari grundvelli sem slík grg. sem hér liggur einnig fyrir sem fskj. með þessu frv. gefur tilefni til.

En það er ekki aðeins að svo hafi til tekist áður eins og nú, að þessi skýrsla er nokkuð seint á ferðinni, heldur er hitt, og það er kannske enn þá verra, að þannig hefur verið staðið að málum nú nokkrum sinnum að það hefur í rauninni orðið lítil aðstaða hér á hv. Alþ. að taka þetta mál í heild fyrir til umr. Því miður hefur jafnvel borið á því, að það væri ekki aðeins að þeir, sem farið hafa með ríkisstj. á hverjum tíma, hafi dregið fremur úr því að slíkar umr. gætu farið fram, heldur virðist ekki hafa verið mjög mikill áhugi á hv. Alþ. fyrir því að hafa þessar umr. á því stigi sem ég tel að eðlilegt væri.

Hér er um það að ræða að gefin er skýrsla um hvernig til hefur tekist á liðnu ári um ýmsa meginþætti í efnahagsmálum landsins. Og það liggur fyrir nokkur samanburður á því, hvernig til hefur tekist í sambandi við það sem áætlað hafði verið. Síðan liggur fyrir ný spá um hvað væntanlega muni gerast og ný áætlun sem fara á eftir varðandi þessi mál í heild. Þá er ekki verið að ræða einvörðungu um fjárlög ríkisins í þrengri merkingu, heldur um ríkisbúskapinn allan. Ég tel að það hefði vissulega verið þörf á því hér á Alþ. að fá ítarlega umr. um þessi mál, og þá stæðu menn kannske svolítið öðruvísi að ýmsu því sem er verið að taka ákvarðanir um í efnahagsmálum þjóðarinnar, ef slík umr. færi hér fram á eðlilegan hátt.

Mér sýnist að að þessu sinni fari eins og farið hefur í a. m. k. 2–3 undangengin ár, ósköp svipað um þessa umr. og þá hefur farið, að umr. ætli í sjálfu sér að verða lítil um þetta höfuðmál sem fyrir þinginu er. Ég verð að segja það, að mér þykir næsta einkennilegt að ekki skuli takast að fá fram almenna umr. um jafnmikilvægt mál og hér er á ferðinni. Þegar menn eru að öðru leyti að springa af áhuga út af vissum þáttum efnahagsmála, t. d. hvaða prósentur skuli skrifa fyrir árið 1980, þá virðast menn ekki hafa getu til að taka þátt í almennum umr. um þróun efnahagslífs okkar bæði á liðnu ári og varðandi þær spár sem fyrir liggja.

Það er enn sá sami galli á nú og áður hefur verið í sambandi við þá skýrslu, sem hér er lögð fram, og þær áætlanir, sem hér er verið að ræða um, að ekki er nema að litlu leyti um að ræða skýrslur ríkisstj. sjálfrar. Hér koma til stofnanir, sem þegar hafa tekið til sín ærið mikið vald: annars vegar Þjóðhagsstofnun, sem semur heilu kaflana og er kannske ekki að semja þá eða láta hafa það eftir sér í fyrsta skipti í þessari áætlun og hliðstæðum áætlunum, eða þá það eru grg. frá Seðlabankanum um ýmsa þætti málsins. Það fer ekkert á milli mála, að það eru þessir aðilar sem semja þessa þætti. (LárJ: Hvað heitir skýrslan?) Jú, jú, hún heitir það sama og hún hefur heitið í langan tíma eða að mestu leyti sama nafni, en eigi að síður er svona að málinu staðið. Og hér er ekki eingöngu um það að ræða, að Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun séu að gera grein fyrir staðreyndum sem fram hafa komið í sambandi við efnahagsmál þjóðarinnar, heldur eru þessir aðilar í grg. sínum einnig að segja hvað skuli gera og hvað eigi að gera og hvernig eigi að standa að málum. Og því miður efast ég um að ríkisstjórnir, sem leggja fram skýrslu eins og þá sem hér liggur fyrir, hafi að öllu leyti gert sér grein fyrir hvað í skýrslunni segir, bæði nú og áður. Ég vil t. d. benda á að samkv. fastri venju, a. m. k. í seinni tíð, er þó alltaf einn kafli á algeru hrognamáli, sem flestir, sem hér eru inni, vita hver hefur búið til. Auðvitað vilja ríkisstjórnir alltaf segja: Þetta eru ekki mín orð og þetta er ekki frá mér, - af því að þetta er á þessu einstaka hrognamáli sem enginn maður skilur. En það sýnir aðeins hvernig að þessu er staðið, að menn hafa ekki einu sinni gefið sér tíma til að setja einhvern í að þýða hrognamálið á mælt mál. Þetta er eins nú og það hefur verið áður. En þetta er í rauninni aukaatriði málsins, þótt ég bendi aðeins á það sem greinilegt sönnunargagn um hvernig ýmsar þær aths., sem hér eru settar fram, eru raunverulega til komnar.

Með þessu vildi ég segja það, að mér þykir miður að ekki skuli takast fremur nú en áður að fá hér fram — nú langar mig til að nota frægt orð sem mjög er farið að ryðja sér til rúms í efnahagsmálum: heildstæðar umr. um það — sbr. heildstæðar till. — heildstæðar umr. um þetta mikilvæga mál sem hér liggur raunverulega fyrir. (Gripið fram í: Á ársgrundvelli?) Já, heildstæðar umr. á ársgrundvelli eða eitthvað líkt því. En mig langar til að víkja þrátt fyrir allt að ýmsum þáttum þessa máls, hafandi sagt þetta almennt um málið.

Frv., sem hér er raunverulega á dagskrá, það má segja að það sé í öllum meginatriðum í hefðbundnum búningi, því að þar er einkum verið að leita eftir heimildum til lántöku umfram þær heimildir sem liggja fyrir annars staðar til þess að hægt sé að framkvæma þau atriði sem tekin hefur verið ákvörðun um að skuli reyna að framkvæma. Raunverulega er því frv. um það sem heitir lánsfjáráætlun hjá okkur. En að þessu sinni er búið að setja dæmið þannig upp, að hér er farið að kalla þetta fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Um það vil ég segja nokkur orð.

Raunverulega er það svo að mínum dómi, að hér er um tvær alveg aðgreindar áætlanir að ræða. Það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því, að hér er um tvær alveg aðgreindar áætlanir að gera.

Fjárfestingaráætlun, sem mikið hefur verið rætt um í mörg ár, hefur hingað til verið samin þannig að hún hefur verið mjög ófullkomin, og það hefur verið viðurkennt af öllum, að sá hluti áætlunarinnar, sem ætti að heita fjárfestingaráætlun, hefur alltaf verið mjög ófullkominn. Segja má þó að nokkur hluti fjárfestingaráætlunarinnar, sá sem snýr beint að ríkinu og ríkisstofnunum, hafi verið í sæmilegum búningi, af því að inn í þessa fjárfestingaráætlun hefur verið tekið það sem búið er að ákveða varðandi fjárfestingar í fjárl., og einnig er tekið inn í fjárfestingaráætlunina það sem ákveðið hefur verið í öllum meginatriðum og snertir hið opinbera eða fyrst og fremst ríkið.

Að nokkru leyti hefur verið tekið inn í þessa áætlun spá um það, hver muni verða fjárfesting á vegum annarra opinberra aðila, þ. e. a. s. sveitarfélaga. Þó verður að segja það eins og er, að í fjárfestingaráætluninni hefur sá þáttur verið tekinn afar lauslegum tökum, þ. e. a. s. að setja upp raunverulega áætlun um hver fjárfestingin muni verða á árinu á vegum sveitarfélaga. Þó er í áætluninni alltaf að finna nokkra spá um það.

En þegar komið hefur svo að hinum hluta þessarar fjárfestingaráætlunar, sem snertir fjárfestingu annarra aðila, sem ekki flokkast undir opinbera aðila, þá hafa menn talað um fjárfestingu atvinnuveganna og fjárfestingu einstaklinga og þá hefur það verið gert með þeim hætti, þó að tölur hafi verið settar inn í fjárfestingaráætlun, að það hefur í rauninni verið ýmist um framreikning að ræða frá árinu á undan eða mjög lauslega spá. Við skulum taka sem dæmi að í þessari fjárfestingaráætlun hefur verið gert ráð fyrir að til framkvæmda í sambandi við byggingar á verslunarhúsnæði, skrifstofuhúsnæði og hótelum yrði varið tiltekinni fjárhæð. En hvernig hefur hún verið fundin? Hún hefur yfirleitt verið tekin þannig, að fjárfestingin, sem metin hafði verið í þessari grein árið á undan, hefur verið framreiknuð sem nemur verðhækkun á milli ára. Þeir, sem þessa áætlun hafa gert, þ. e. sérfræðingar í Þjóðhagsstofnun, hafa viðurkennt að hér væri um algera spá af sinni hálfu að ræða, ekki venjulega áætlun um hvað menn ætli sér fyrir fram að verja miklu af þjóðartekjunum í þessu skyni og hvaða ráðstafanir menn ætli að gera til þess að farið verði eftir slíkri áætlun. Að þessu leyti til hefur hin raunverulega fjárfestingaráætlun okkar alltaf verið mjög ónákvæm og ófullkomin, og satt að segja geri ég ekki neinn teljandi mun á þeirri fjárfestingaráætlun, sem hér liggur fyrir nú, varðandi þetta og öðrum þeim áætlunum sem áður hafa verið lagðar hér fram. Það byggist á því, hvernig að því hefur verið staðið að gera þessa áætlun, og svo á hinu, að það eru ekki gerðar neinar teljandi ráðstafanir til að fylgja því eftir, að við þessa áætlun sé staðið, ekki nema þá helst í sambandi við opinbera aðila.

Það er auðvitað gefið mál, að þegar búið er að gera fjárfestingaráætlun um þjóðarbúið í heild, þá þarf að gera aðra áætlun, sem er í rauninni ákveðinn útdráttur úr fjárfestingaráætlun, en það er lánsfjáráætlun, því að það þarf að gera sérstakar ráðstafanir til að sjá um varðandi þann hlutann, sem opinberir aðilar hafa með að gera fyrst og fremst, að útvegað verði fjármagn til að framkvæma áætlunina. Af þessum ástæðum er lánsfjáráætlunin aðeins undiráætlun til þess að reyna að tryggja að vissum hluta að hægt verði að standa við fjárfestingaráætlun.

Ég tel það síður en svo til bóta nú frá því sem verið hefur að gera ráð fyrir að hræra þessu tvennu saman í eitt og búa til eina áætlun sem heitir fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, því að í eðli sínu er hér um tvær aðgreindar áætlanir að ræða, ef menn hugsa sér að gera heilsteypta áætlun fyrir fjárfestingarnar í þjóðarbúinu í heild, ekki aðeins á vegum opinberra aðila, heldur einnig á vegum annarra. En sá háttur hefur verið tekinn upp nú að reyna að hræra þessu saman og kalla þetta fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. En það skiptir ekki höfuðmáli að mínum dómi þó að þetta sé gert svona, á meðan við búum enn við það að gera okkar fjárfestingaráætlun með þeim hætti sem við gerum hana nú, því að ég tel að það sé í rauninni alveg óhjákvæmilegt, ef menn ætla að taka fjárfestingaráætlun alvarlega, að vinna hana á allt annan hátt en nú er gert.

Í þessu efni vil ég minnast á það, að snemma á þessu þingtímabili, eða í októbermánuði, var ég tilnefndur í sérstaka n. á vegum ríkisstj. ásamt með fulltrúum frá Alþfl. og Framsfl. til þess að fjalla um það, hvernig ætti að koma fyrir því ákvæði í stjórnarsáttmálanum að hér yrði tekin upp ný fjárfestingarstjórn, stjórn á fjárfestingunni. Þessi n. varð að lokum sammála um það, eftir að búið var að halda marga fundi með þeim aðilum sem þarna áttu hlut að máli, hvernig ætti að vinna að því að semja fjárfestingaráætlun og hvernig ætti við núverandi aðstæður að standa að því að reyna að fylgja henni eftir og sjá um að hér væri um að ræða meira en spá, heldur væri þetta alvöruáætlun sem ætlað væri að fylgja fram og hafa þannig stjórn á fjárfestingunni. En svo undarlega hefur tekist til, þó að hæstv. ríkisstj. hafi sett þessa n. og skipað fulltrúa frá öllum stjórnarflokkunum til að fjalla um málið og sú n. hafi orðið sammála, þá vill hæstv. ríkisstj. ekki fara eftir þessum till., en heldur sig alveg við gamla kerfið, þ. e. a. s. að láta hagsýslustofnun, Þjóðhagsstofnun og Seðlabankann búa til spádómsplagg, sem kallað er fjárfestingaráætlun, í alveg hliðstæðu formi og verið hefur, þó að allir hafi viðurkennt að við höfum hingað til ekki búið við eiginlega fjárfestingaráætlun, heldur að verulegu leyti aðeins spádóm um hvernig fjárfestingin muni ganga fyrir sig.

Ég vil því undirstrika það, að það er skoðun mín, að eigi raunverulega að taka hér upp skipulega fjárfestingarstjórn þurfi að verða breyting á því, hvernig fjárfestingaráætlun er samin, og eins á því, hvernig eigi að standa að því að reyna að fara eftir henni. Á meðan ekki er gerð breyting á þessu frá því skipulagi sem verið hefur, þá verður ekki nema um lauslega áætlun að ræða sem vikið verður frá í mjög ríkum mæli í framkvæmd. Því vil ég þó ekki neita, að áætlun í þessum efnum í þeim búningi, sem verið hefur, sé með öllu gagnslaus. Hún hefur haft gildi, hún hefur verkað sem aðhald á vissum sviðum. Menn hafa verið að gera sér að einhverju leyti betur grein fyrir því, í hvaða átt væri stefnt og hvaða markmiðum menn ætluðu að ná, en það hefur ekki verið gert á skipulegan hátt.

Mig langar þá til að víkja nokkuð að þeirri merkilegu skýrslu, sem hér liggur fyrir, þar sem um er að ræða verulega grg. um það, hvernig til hefur tekist á ýmsum sviðum og hvað menn hafa í huga í sambandi við ýmsa mikilvægustu þætti efnahagsmála á komandi ári.

Fyrst vil ég benda á það, að í þessari grg. er skýrt nokkuð frá því, hvernig sá mikilvægi þáttur hefur orðið í framkvæmdinni sem snertir erlendar lántökur í sambandi við framkvæmdir. Í skýrslunni er sagt frá því, að árið 1977 hafi farið þannig, að þá hafi verið farið fram úr ráðgerðri lántökuáætlun upp á tæpa 10 milljarða kr., 9800 millj. kr., sem sagt, reynslan hafi orðið sú, að þó að menn hafi gert áætlun um erlendar lántökur fyrir árið 1977 tókst það þannig í reynd, að áætlunin bilaði og menn fóru fram úr því, sem áætlað hafði verið, sem nam tæplega 10 milljörðum kr. En hvernig tókst þetta til á nýliðnu ári, árinu 1978? Þá tókst þetta enn lakar til, því að þá fóru menn fram úr áætlun í þessum efnum upp á 12 milljarða kr. á sambærilegum grundvelli. M. ö. o.: þó að menn hefðu sett þarna upp áætlun, gert ráð fyrir að ekki yrðu tekin meiri erlend lán en tiltekinni upphæð nam, þá brast áætlunin í framkvæmd og það varð að víkja frá henni. Ég deili ekki á þá sem stóðu að þessum framkvæmdum. Ástæðurnar til þess að áætlunin hélt ekki er hvort tveggja þetta sem ég hef minnst á: Áætlunin hefur ekki verið nægilega vel gerð og einnig skorti verulega á um það að ganga þannig frá hnútum að það væri farið eftir áætlun. Ég tel fyrir mitt leyti, eins og þessi mál ber að nú, um þá áætlun, sem nú er upp sett t. d. varðandi þennan mikilvæga þátt, varðandi erlendar lántökur, að mestar líkur eru til þess að það fari svipað með þá áætlun og farið hefur með hliðstæðar áætlanir á liðnum árum. Hér er aðeins um lauslega áætlun að ræða sem menn í upphafi ársins ætla sér að reyna að fara eftir, en þar bilar einn þátturinn af öðrum vegna þess að ekki hefur verið tekið upp nægilegt heildarskipulag um þessa hluti eða þá menn hafa byrjað með því að setja slíkar reglur að þær voru öldungis óframkvæmanlegar. Ég skal t. d. segja það nú þegar, að það er skoðun mín að sú upphæð, sem nú er sett inn í áætlun varðandi einn þátt sem ég minntist á, þ. e. a. s. erlendar lántökur í sambandi við kaup á nýjum fiskiskipum, — ég er sannfærður um það fyrir mitt leyti, að sú áætlunartala, sem hér liggur fyrir, fær ekki staðist, ekki nema þá ríkisstj. ætli svo að segja að skrúfa fyrir það með öllu að ný fiskiskip verði keypt til landsins með þeim venjulegu lánskjörum sem hafa fylgt slíkum kaupum. Ég tel algerlega óraunhæft að búast við því, að hægt verði að mestu leyti að loka fyrir slíkar lántökur, jafnvel þó að menn gengju út frá því, sem ég fellst ekki á, að fiskiskipafloti okkar sé nægilega stór, og þá venjulega mælt í rúmlestum, hversu stór hann sé að rúmlestatölu til.

Jafnvel þó menn féllust á að svo væri ástatt og af þeim ástæðum gætu menn svo að segja lokað fyrir kaup á fleiri skipum, þá er með öllu útilokað að taka tillit til sérstæðna varðandi þennan málaflokk eftir því, hvernig málin ber að. Það hefur farið þannig og mun fara þannig áfram, að það koma upp mörg atvik sem gera í rauninni alveg óhjákvæmilegt að heimilaðar verði lántökur í þessum efnum, og ég reikna með því, að sú tala, sem sett hefur verið inn í dæmið að þessu leyti til, reynist óraunhæf, jafnvel þó að einnig hafi verið sett inn í heildardæmið fjárveiting til innlendrar skipasmíði sem er nokkru betri en sú sem áður var.

Það hefur verið bent á það í þessum umr., og ég get tekið undir það, að auðvitað þýðir afskaplega lítið í þessum efnum, þegar menn eru að reyna að setja sér nokkurn ramma um framkvæmd á efnahagsmálum, að skrifa annaðhvort á loforðalista eða jafnvel að setja það í lög, eins og nú hefur verið barist fyrir, að fjárfestingin skuli vera einhver tiltekin prósentutala. Sumum, eins og t. d. þeim Alþfl.-mönnum, hefur ekki dugað minna en að það væri heilagt atriði, að fjárfestingin færi ekki yfir 24.5%, og hefur í þessu efni verið afskaplega skemmtilega á þessum málum haldið. Fulltrúar Framsfl. hafa komið fram og sagt: Við getum fallist á að þarna standi talan 25%. — Alþfl. svarar aftur og segir: Alls ekki nema 24.5%. — Auðvitað vitum við að þetta er hreinn skrípaleikur og í rauninni alveg sama, við þær aðstæður sem við búum við dag, hvort við skrifum í lagagrein eða annars staðar 24.5% eða 25%. Það eru önnur lögmál sem grípa hér inn í og breyta þessu í reynd, á meðan ekki er gengið öðruvísi frá grundvallaratriðum þessa máls. En það er auðvitað hið táknræna í sambandi við þessa umr. eins og aðrar efnahagsumr. hér, að menn geta blásið sig upp út af slíku aukaatriði sem þessu og þykjast vera þeir einu sem vilja negla það niður með lögum að verðbólgan skuli ekki vera meiri en eitthvað tiltekið, eins og það sé hægt að setja bara lög um verðbólguna. Þeir Alþfl.-menn þykjast vera þeir einu sem af alvöru berjist fyrir því og hafi jafnvel svo mikinn áhuga að þeir biðja um orðið utan dagskrár út af till. sem þeir hafa fundið upp til þess að undirstrika brennandi áhuga sinn á baráttunni við verðbólguna. En þeir virðast ekki hafa áhuga á því að ræða hér um grundvallaratriðin í stjórn efnahagsmála, hvernig til hefur tekist, hvernig áætlanir eru gerðar, hvernig á að standa að framkvæmd þeirra og til hvaða atriða menn verða að taka tillit í sambandi við efnahagsmál.

Eins og ég sagði í upphafi míns máls, hef ég gert tilraunir til þess á Alþ. ár eftir ár að reyna að fá hér fram almennar umr. um þessi þýðingarmiklu mál, en það hefur verið takmarkaður áhugi á því. Auðvitað hafa hinir vísu menn í Þjóðhagsstofnun eða í Seðlabankanum skrifað ritgerðir sínar eins og þeir gera nú og segja með alls konar fyrirvörum: Sé miðað við þetta og eftir líklegri spá, þá má telja o. s. frv. Og ætlunin er að starfa innan þessara marka, þ. e. a. s. miðað við 24.5% eða eitthvað þess háttar. En auðvitað gera þessir ágætu menn sér það ljóst, að hér er aðeins um tiltölulega óákveðin áform að ræða. Það eru ekki skilyrði enn fyrir því, hvorki í okkar löggjöf né í okkar framkvæmdakerfi, að hægt sé að líta á þetta öðruvísi en sem viljayfirlýsingu eða spá.

Þetta er auðvitað svipað og það, að menn geta líka haldið áfram að deila um slík aukaatriði eins og þau, að sumir vilja negla það niður í lögum að ákveðið sé að ríkisumsvifin svonefndu, þ. e. a. s. útgjöld á fjárl., skuli ekki fara yfir tiltekna prósentu af þjóðarframleiðslu. Og nú er klifað á því hér, að með því, sem þegar hafi verið ákveðið með fjárl. og öðrum fjármálalegum ákvörðunum hæstv. ríkisstj., séum við örugglega innan 30% markanna hvað þetta áhrærir varðandi yfirstandandi ár, árið 1979. En þetta er alveg augljóslega rangt. Ástæðurnar liggja í því, að fjárl. eru miðuð við tiltekin útgjöld á desemberverðlagi 1978, þ. e. a. s. útgjöld fjárl. eru um 209 milljarða kr. miðað við verðlagið í des. 1978. Varla er nokkur maður hér inni sem lætur sér til hugar koma að þessi áætluðu útgjöld á desemberverðlagi 1978 verði hin raunverulegu útgjöld í krónum talið á árinu 1979. Allir vita að útgjöldin verða hærri. Ef á að miða við þær forsendur, sem fjárlagafrv. var byggt á, þ. e. a. s. 30–34% verðbreytingu á milli ára, þarf vitanlega að bæta við útgjöldin, 209 milljarða kr., a. m. k. 15% til þess að fá meðaltalshækkunina á næsta ári og þá yrðu, ef fjárl. stæðust þetta, útgjöldin á fjárl. kringum 240 milljarða. (Gripið frem í: Þm. verður að reikna með þjóðarframleiðslunni á sama verði.) Það er það sem ég ætlaði að koma að. Þjóðarframleiðslan, sem menn hafa verið að spá er á verðlagi ársins 1979 áætluð 733 milljarðar kr. Hún er ekki verðlögð í þessari tölu á desemberverðlagi 1978. Ef menn taka þennan samanburð á sambærilegu verðlagi, hvort tveggja t. d. á verðlagi 1979, þá kemur auðvitað í ljós að ríkisútgjöldin eru í kringum 33% af áætlaðri þjóðarframleiðslu. Ef talan 30 er skrifuð einhvers staðar og einhverjir menn geta róast út af því að sjá töluna 30% einhvers staðar fyrir árið 1979, þá höfum við sagt, Alþb.-menn: Ef hægt er að lækna einhvern sjúkdóm með því að menn fái að reikna þetta með þessum hætti, þá látum það standa. Það er búið að ákveða fjárlög fyrir árið 1979. Við eigum eftir að sjá hver þjóðarframleiðslan árið 1979 verður, við höfum aðeins áætlun um hana. Þessi tala getur því í rauninni ekki breytt neinu um það. Reynslan ein verður að sýna hvort við verðum innan 30% markanna eða ekki varðandi 1979. Hins vegar höfum við sagt: Það fær okkur enginn til að fara að setja í lög ákvörðun um það, að við skulum einnig vera innan 30% marka á árinu 1980. Þá vitum við ekki nema menn komi sér saman um að reikna dæmið rétt þá, og þá yrði auðvitað um stórkostlegan samdrátt að ræða, ef menn færu þá að reikna dæmið rétt.

Þetta nefni ég líka sem dæmi um það, hvað menn geta æst sig upp út af miklum aukaatriðum varðandi stjórn efnahagsmála. En þeir virðast ekki hafa nokkurn minnsta áhuga á því að ræða skýrslu eins og þá sem hér liggur fyrir um það, hvernig farið hefur á nýliðnu ári, árinu 1978, um þær áætlanir sem gerðar voru fyrir það ár, hvernig tókst til, hvað við fórum þar mikið fram úr áætlun á hinum ýmsu sviðum og hvernig þær áætlanir eru byggðar upp sem liggja fyrir varðandi árið 1979. Í þessari hvítu bók sem hér fylgir með, sem heitir Skýrsla ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1979 og er byggð á þeim grundvelli sem ég hef verið að lýsa og samin að verulegu leyti af þeim aðilum, sem ég hef greint hér frá, — í þessari skýrslu er margt fróðlegt að finna og býsna þýðingarmikið. En þar er líka um að ræða spár eða fullyrðingar sem ég fyrir mitt leyti tek ekki undir. Ég tel að þar sé ýmislegt skrifað alveg út í bláinn og hafi ekkert á bak við sig eða þá þar sé um skoðanir og óskir að ræða frá hálfu Seðlabankans eða Þjóðhagsstofnunar, en ekki að hér sé um eitthvað bindandi að ræða.

Í þessum efnum skal ég fyrst vitna í það að í þessari

skýrslu stendur neðst á bls. 5 og efst á bls. 6 orðrétt það sem hér skal nú lesið, með leyfi forseta:

„Í forsendum þjóðhagsspár fyrir árið 1979 er miðað við að neysluvöruverð hækki um 33% að meðaltali á þessu ári og um 30% frá upphafi til loka ársins. Þetta fæli í sér umtalsverða verðbólguhjöðnun á þessu ári.“ Svo segir áfram: „Sá árangur næst þó ekki nema fylgt verði þeirri stefnu í kauplags- og verðlagsmálum að hækkun peningalauna verði minni en fylgir óbreyttu kerfi vísitölubindingar launa.“

Þetta segir á mæltu máli, að spáin sé byggð á því, að það verði gert frávik til lækkunar frá samningum sem fyrir liggja um útreikning á launum. Þetta geta þeir auðvitað sagt sem búið hafa til tilteknar spár um þróunina 1979. En það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um þetta og verði hún ekki tekin er auðvitað spáin reist á röngum forsendum. Þetta er aðeins eitt dæmi um það, hvernig staðið er að gerð þeirrar spár, sem hér liggur fyrir, og síðan ýmsum útreikningum, sem miðað er við.

Ég veit ekki, vegna þess að langt er liðið á fundartímann, hvað ég á við 1. umr. að vekja afhygli á mörgum atriðum í þessari skýrslu, sem hér liggur fyrir, þar sem er verið að gera grein fyrir ýmiss konar atriðum. Ég vík þó sérstaklega að nokkrum atriðum, sem tími ætti að gefast til að minnast á.

Á 16 bls. í þessari skýrslu um fjárfestingu og lánsfjáröflun er gert ráð fyrir því, að sú breyting verði gerð á varðandi svonefndan skyldusparnað,að verulegur hluti af skyldusparnaði, sem innheimtur er samkv. lögum um Húsnæðismálastofnun, verði tekinn og varið í allt öðru skyni en ætlast er til samkv. þeim lögum. Ég vil taka það strax fram, að um þetta atriði hef ég algeran fyrirvara. Ég tel fyrir mitt leyti að það séu alveg fráleit vinnubrögð að standa þannig að málum að sérmerkja skattlagningu eða innheimtu, ákveða með lögum að leggja á tiltekið gjald í alveg ákveðnu og afmörkuðu skyni og svo þegar búið er að leggja gjaldið á, búið er að innheimta það, þá sé tekin ákvörðun um að nota fjármagnið í allt annað en ákveðið hafði verið með lögum að ætti að gera. Ég tel að þetta séu afleit vinnubrögð. Hitt viðurkenni ég fullkomlega, að eins og fjárfestingaráætlunin er byggð upp, þá er augljóst að það vantar fjármagn til þess að tryggja að hægt sé að standa við þá fjárútvegun sem gert ráð fyrir til ýmissa sjóða. Það er hreinlega gert ráð fyrir að þarna vanti fjárhæð .til starfsemi sjóðanna, einkum atvinnuvegasjóða, sem þessari fjárhæð nemur sem ætlað er að úr húsnæðismálakerfinu eða af þessum skyldusparnaði. Þarna er auðvitað vandi á ferðum og það þarf að leysa þennan vanda, vegna þess að það er skoðun mín, að teflt sé á tæpasta vað í þessari áætlun um fjáröflun til ýmissa stofnlánasjóða sem eru mjög þýðingarmiklir í atvinnulífinu. Ég vil því ekki skorast undan á neinn hátt að taka þátt í að tryggja að þessir sjóðir fái það fjármagn a. m. k. sem gert er ráð fyrir f þessari áætlun. En þá leið, sem þarna er valin, þ. e. a. s. að taka merktan tekjustofn og verja honum til allt annars en gert hafði verið ráð fyrir með lögum, tel ég alveg fráleita.

Það er auðvitað líka mjög mikilvægt að vita það, sem ekki kemur fram í þessari skýrslu eða í sjálfu frv. sem hér liggur fyrir, hvort hér er aðeins um að ræða að þeir 2 milljarðar kr., sem ætlað er að taka af skyldusparnaði ungmenna og færa til annars verkefnis en þeir áttu að renna til samkv. lögum, séu aðeins lán til eins árs, aðeins til bráðabirgða, eða ætlunin sé að taka þessa fjárupphæð frá húsnæðismálakerfinu og færa hana yfir til stofnlánasjóðanna í formi venjulegra lána, sem er verið að afla handa þeim, og láta þá þessa sjóði fá þessa fjárhæð að láni til 10, 12 eða 15 ára. Ég nem staðar við þessa ráðagerð, sem þarna er á ferðinni. Ég tel að þarna sé farið inn á mjög varhugaverða braut.

Þetta er nokkuð skylt þeirri hugmynd sem fram hefur komið í annarri tillögugerð, að hægt sé að taka t. d. fjármagn, sem lagt hefur verið sem sérstakur launaskattur á öll greidd laun í landinu og ákveðið hefur verið að rynni í Byggingarsjóð ríkisins, til húsnæðismálakerfisins, — að ætla sér að taka þetta fé, sem svona verður til, og láta það renna í ríkissjóð eða því verði ráðstafað til að leysa einhver önnur vandamál en áætlað hafði verið þegar gjöldin voru lögð á. Það tel ég líka alveg fráleitt. (Gripið fram í: Þetta er ein af forsendum fjárl., 10% af launaskatti.) Ég verð að segja það, að sé það í sambandi við fjárl., þá hefur það farið fram hjá mér. Hitt er mér vel kunnugt um, að það var samkomulag um það á milli stjórnarflokkanna að ganga út frá því, að hinir eiginlegu stofnlánasjóðir atvinnuveganna skyldu ekki fá allt það framlag á árinu 1979 sem lög gerðu ráð fyrir, það yrði minnkað. En það hefur aldrei hvarflað að mér, að til þess gæti komið að tekinn yrði markaður tekjustofn eins og sá sem rennur til húsnæðismálakerfisins og er í formi launaskatts, — hann yrði tekinn til þess að standa undir allt öðru en áætlað var. Við þetta geri ég aths. líka fyrir mitt leyti.

Í þeim kafla þessarar skýrslu, sem nefndur er bankakerfið og fjallar um bankakerfið, koma fram ýmsar áætlanir sem þeir aðilar hafa sett upp sem skrifað hafa þennan kafla sem augljóslega kemur beint frá Seðlahankanum, en þessi kafli er reyndar á mæltu máli og ágætu máli og þannig auðskilinn. Þar segir t. d. á einum stað, á bls. 19, orðrétt á þessa leið:

„Stefnt er að því að takmarka aukningu almennra lána innlánsstofnana við tæp 33% og heildarútlán þeirra við rúm 30%. Náist jafnframt fyrrgreint markmið um greiðslujöfnuð ríkissjóðs verður útlánaaukning bankakerfisins í heild aðeins um 20% samanborið við 30 og 40% síðustu tvö ár.“

Jú, vissulega er hægt í grg. eins og þessari að tala á þessa lund, að miðað við tiltekin atriði geti þetta farið svona og svona, og auðvitað er ekkert við því að segja þó að menn hafi í svona skýrslu, að stefnt sé að þessu eða hinu. En ég fyrir mitt leyti geri við þetta aths. vegna þess, að ég tel að það verði að fara mjög gætilega í að beita slíkri pólitík við núverandi aðstæður í okkar efnahagslífi, að herða verulega á útlánum af hálfu bankakerfisins. Það er skoðun mín að þegar sé farið að bera á alvarlegum kreppingi í okkar atvinnulífi vegna þess að bankarnir beiti mjög hörðum reglum varðandi lán til atvinnurekstrarins. Ég er því ekki samþykkur þeirri pólitík að ætla að herða hér verulega á, þ. e. a. s. að draga verulega frá því sem nú er úr lánveitingum til atvinnurekstrarins að því leyti til sem um er að ræða eðlileg rekstrarlán. Hitt er hins vegar gefið mál um þær reglur sem hér er stuðst við varðandi stofnlán, að þar er búið að binda veitingu stofnlána býsna fast, þannig að stofnlánasjóðirnir eiga ekki að ráða yfir nema tilteknu fjármagni. Má því segja að búið sé að taka þar fyrir alla aukningu og í rauninni gera ráð fyrir ákveðnum samdrætti í sambandi við fjárfestingu. En að draga síðan af því þá ályktun, að rétt sé að stefna að enn frekari samdrætti í bankakerfinu varðandi lánveitingar til atvinnulífsins, undir það tek ég ekki.

Sá kafli í þessari skýrslu, sem ber nafnið lánsfjármarkaðurinn, er á þessu sérstaka máli sem ég hef minnst hér á. Það er mjög torskilið margt sem þar er sagt og í rauninni þannig sett fram, að það er með öllu óverjandi að halda því öllu lengur að leggja fyrir Alþ. þýðingarmiklar grg. sem eru settar fram á slíku máli sem þar er um að ræða. Það er full ástæða til þess að undan því sé kvartað enn einu sinni. Hér þarf að gera á breytingu og segja þetta á þann hátt að allir geti skilið það. Í þessum kafla er þó gerð grein fyrir því, að stefnt sé að því að draga mjög verulega úr heildarframboði á lánsfé til atvinnuveganna, gert sé ráð fyrir að draga mjög verulega úr því frá því sem var á s. l. ári. Um það atriði gildir hið sama og ég hef sagt áður um hliðstæð atriði.

Ég skal svo víkja örfáum orðum að nokkrum greinum frv. sjálfs sem eru um viðbótarheimildir handa ríkisstj. til að taka ný lán í samræmi við þá fjárfestingaráætlun sem hér er gerð grein fyrir. Mér sýnist að það sé full ástæða til að veita ríkisstj. allar þær heimildir sem hún fer hér fram á til þessara framkvæmda, ég er ekki á móti því á neinn hátt. Ég vil sérstaklega minnast á það, að gert er ráð fyrir í þeirri áætlun, sem hér er lögð fram, að ríkisstj. fái heimild til þess að taka lán til Bessastaðaárvirkjunar upp á 600 millj, kr. Við vitum að það er áður búið að eyða allmiklu fjármagni í undirbúning að þessari virkjun, og við á Austurlandi höfum lagt á það mjög ríka áherslu að tekin yrði ákvörðun um framkvæmdir í þessum efnum. Í þessari skýrslu er ekki aðeins gert ráð fyrir því, að áætlaðar séu til Bessastaðaárvirkjunar 600 millj. kr. til að ljúka við allan undirbúning og til framkvæmdarinnar, en í grg., sem fylgir með, segir um þetta atriði orðrétt á þessa leið:

„Hvenær ráðist verður í framkvæmdir ræðst af því hvenær virkjunin telst hagkvæm í heildarskipulagi orkumála landsins, þar með talin öryggissjónarmið.“

Hér er sagt: „hvenær ráðist verður í framkvæmdir“. Ég tel að með því orðalagi, sem hér liggur fyrir, og með þeirri ákvörðun, sem fram kemur í till. um beina fjárveitingu, hafi verið tekin ákvörðun um að ráðast í þessa virkjun. Aðeins er eftir að ákveða hvenær ráðist verður í framkvæmdina, því að hér er ekki lengur um það að ræða, hvort ráðist verði í framkvæmdina, heldur aðeins hvenær framkvæmdin á að hefjast. Leikur því að mínum dómi enginn vafi á því, að hér er um beina ákvörðun um það að ræða, að í þessa framkvæmd verði ráðist, og er sannarlega kominn tími til að taka þessa ákvörðun, miðað við allar aðstæður í okkar fjórðungi í rafmagnsmálum og miðað við allan þann drátt sem á því hefur orðið að taka þessa ákvörðun. Ég vænti að þeir, sem hafa framkvæmdavaldið, sjái nauðsynina á því, að í þessa virkjunarframkvæmd verði ráðist sem fyrst, en að sjálfsögðu verða þeir að meta það með hliðsjón af öðrum orkuframkvæmdum, hvenær réttast þyki að fá þá orku inn á kerfið sem gert er ráð fyrir að fáist úr þessari virkjun.

Herra forseti. Ég skal svo ljúka þessu máli mínu. Hér er um að ræða 1. umr. um það frv. sem fylgir þessari áætlun. Væntanlega verður einhver tími til þess að ræða nánar um skýrsluna í heild og þá stefnu sem felst raunverulega í því frv. sem hér liggur fyrir, ræða það nánar þegar málið kemur úr n. Er nú kominn tími til að fara að vinna að því, að það geti orðið sem fyrst, því að þó nokkuð er liðið á árið og er þá nauðsynlegt að þær heimildir liggi fyrir sem framkvæmdirnar verða að byggjast á. Ég sem sagt fæ aðstöðu til að ræða nánar um þetta mál síðar, þegar kannske stendur eitthvað betur á í þinginu en nú um þetta leyti dags.