01.03.1979
Neðri deild: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2895 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

202. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þessu frv., sem hæstv. sjútvrh. var að mæla fyrir, fylgir annað frv. sem verður til umr. á eftir. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að ræða bæði frv. í sömu ræðu, þó að sjútvrh. hafi ekki enn þá mælt fyrir hinu frv.

Í þessu frv. um tímabundið olíugjald til fiskiskipa er um að ræða að lögbinda ákveðið verð ofan á fiskverð Verðlagsráðs sjávarútvegsins fram hjá hlutaskiptum og aflaverðlaunum. Sjálfstfl. fékk þessi frv. ekki fyrr en seinni part mánudags og þá með þeim skilaboðum að ríkisstj. ætlaðist til þess og vonaðist eftir því að reynt yrði að afgreiða þessi mál með miklum flýti. Þó að hér sé um stórt mál að ræða, sem gefur tilefni til þess að ræða almennt um málefni útvegsins, um fiskverðið, finnst mér að ríkisstj. ætli stjórnarandstöðunni skamman tíma með því að fara þannig að í þessum málum, þegar Alþ. hélt alveg sérstaklega upp á næsta dag — sprengidaginn — með eftirminnilegum hætti og þessi mikilvægu mál komust ekki að vegna þeirra umr. sem þá áttu sér stað í Sþ.

Ég og minn flokkur fögnum því, að það skuli vera tekin ákvörðun um að mæta hækkun á olíuverði með þeim hætti að útgerðin fái þessa hækkun að nokkru leyti uppi borna, eða ca. 1600 millj. á móti þeim 2000 millj. sem áætlað er að þessi hækkun muni nema. Ég tel sömuleiðis að eðlilegt sé að þetta gjald komi ekki til hlutaskipta eða aflaverðlauna. Mér finnst mjög athyglisvert og í raun og veru eftirminnilegt, að sjútvrh., sem telur sig til Alþfl., verkalýðsflokks, skuli leggja til að þetta viðbótarfiskverð fari fram hjá hlutaskiptum og aflaverðlaunum. Ég tel ekki síður frásagnarvert, að frv. rann í gegnum Ed. alveg eins og heitar lummur með atkv. fulltrúa Alþfl. og fulltrúa Alþb., sem hafa talið allt til þess í gær að löggjafinn ætti aldrei að lögbinda og breyta kjarasamningum. Þetta finnst mér vera stórfelld breyting sem sé ástæða til að vekja sérstaka athygli á. Hafa þessir flokkar sýnt með þessu, að þegar slík nauðsyn á sér stað sem nú viðurkenna þeir, þó seint sé, þá stefnu Sjálfstfl. að þetta hafi oft þurft að gera og þurfi oft að gera. Þetta hefur Framsfl. margoft viðurkennt. Mér finnst vera ekki síður tilefni til að halda upp á þennan dag en að halda upp á 6 mánaða afmæli ríkisstj. og 66 ára afmæli forsrh. Þar með eru þessi tvö öfl orðin 66 ára og 6 mánaða í dag.

Mér finnst af þessu tilefni gefast tækifæri til og sé nauðsynlegt að nefna það, að þegar farið var út í endurskoðun á sjóðakerfi sjávarútvegsins á árinu 1975, sem lögfest var fyrri hluta febrúarmánaðar á árinu 1976, var gerður stórfelldur uppskurður á sjóðakerfi sjávarútvegsins, þar sem það var þá, miðað við reglurnar sem voru á undan, komið í 5965 millj. kr. Eftir endurskoðun sjóðakerfisins var það lækkað niður í 2271 millj. kr. samkv. þáverandi lögum um útflutningsgjald. Þessi niðurskurður á sjóðakerfinu gerði það að verkum, að 16. febr. 1976 varð meðaltalshækkun á fiskverði samkv. ákvörðun Verðlagsráðs sjávarútvegsins 32.7%. Þar af voru um 24% vegna breytingar á sjóðakerfi sjávarútvegsins. Sú breyting á niðurfærslu sjóðakerfisins færði m. ö, o, á þeim tíma næstum því 4 milljarða sem áður voru í sjóðakerfinu, til skipta á milli sjómanna og útgerðar.

Þessi uppskurður kostaði mikla fyrirhöfn. Meðal annars, sem um var samið í sambandi við það, undirrituðu fulltrúar sjómanna og fulltrúar útgerðarmanna samkomulag þar sem segir, að þar sem ríkisstj. hafi lýst því yfir að hún muni beita sér fyrir setningu laga og reglugerða í samræmi við till. og ábendingar tillögunefndar um sjóði sjávarútvegs og hlutaskipti, þá lýsi aðilar yfir að þeir muni gera samninga sín á milli, sem nú séu lausir, um kjör sjómanna á grundvelli tillagna og ábendinga sem fram koma í skýrslu nefndarinnar dagsettri 19. jan. 1976. Í öðru lagi lýstu aðilar yfir að þeir mundu beita sér fyrir því, að heimildir yrðu veittar til þess að taka þegar upp samninga á grundvelli breytinga á þeim kjarasamningum aðila, sem ekki hefði verið sagt upp, með sama hætti og væru þeir lausir. Aðilar þessa samkomulags gerðu ráð fyrir að ríkisstj. léti fara fram sérstaka athugun á kjörum áhafna og afkomu útgerðar á stærri togurum, þ. e, togurum yfir 500 brúttólestir, við þessar breytingar, og athugun þessi yrði gerð í samráði við samtök sjómanna og útvegsmanna og fulltrúa þeirra byggðarlaga sem sérstakra hagsmuna ættu að gæta, með það fyrir augum að tryggja atvinnu sjómanna og rekstur sjávarútvegsfyrirtækja á þessum stöðum, sbr. bréf rn. til Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda. Undir þessa yfirlýsingu eða þetta samkomulag rituðu fulltrúar Sjómannasambands Íslands, Alþýðusambands Austurlands, Alþýðusambands Vesturlands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Landssambands ísl. útvegsmanna og Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda.

12. febr. 1976 voru svo tvö lagafrv., sem ríkisstj. hafði flutt samkv. till. þessarar nefndar um sjóði sjávarútvegs og hlutaskipti, afgreidd sem lög frá Alþ., og ákvæði þessara laga tóku gildi 16. febr. 1976. Fyrri lögin fólu í sér lækkun greiðslna í Stofnfjársjóð fiskiskipa úr 15% í 10% af verðmæti alls heimalandaðs afla og úr 21% í 16% af afla sem landað er erlendis. Síðari lögin kveða á um afnám Olíusjóðs fiskiskipa og sem næst helmingslækkun á útflutningsgjöldum til Tryggingasjóðs fiskiskipa. Samkv. lögunum lækkuðu útflutningsgjöld af sjávarafurðum úr 16% að meðaltali í 6% af fob.-verðmæti útflutnings. Í grg. fyrir þessum frv., við umr. á þingi og í skýrslu tillögunefndar, sem fylgdi þskj. í máli þessu, kom fram að forsenda þessarar lagasetningar var allsherjarendurskoðun á hlutaskipta- og aflaverðlaunaákvæðum kjarasamninga vegna þess aukna kostnaðar sem útgerðinni væri nú ætlað að rísa beinlínis undir með bátshlutnum í aflaverðmætinu. Og að kvöldi 28. febr. þetta sama ár lágu fyrir samningsdrög sem samninganefndir sjómanna og útvegsmanna höfðu náð samkomulagi um með fyrirvara um fiskverðsákvörðun.

Fiskverðsákvörðunin var tekin 16. febr. og þá hækkaði fiskur, eins og ég sagði áðan, að meðaltali um 32.7%. En upp úr þessu fór að kárna gamanið. Þegar búið var að pæla í þessari miklu breytingu á sjóðakerfinu og færa yfir til sjómanna verulegan hlut, þá hófst mikill áróður í mörgum sjómannafélögum og þessir samningar voru ýmist samþykktir eða felldir, en flotinn hélt áfram. Þeir, sem voru á fundi og felldu samningana á einum stað, fóru í bíl til næstu verstöðvar og réðu sig þar á skip, en skildu hina eftir í verkfalli. Og það var reynt að kynda undir þessari óánægju af vissum öflum, sem eru ekki óskyld þeim tveimur stjórnarflokkum sem nú hafa kúvent í þessum málum.

Haldið var áfram að reyna að ná samkomulagi og sáttatillögur voru bornar fram fleiri en ein, fleiri en tvær, þær voru þrjár, sem komu fram, og fram eftir öllu sumri. Að lokum var ástandið orðið þannig í sumum verstöðvum að eftir þær atkvgr., sem áttu sér stað, og samningarnir voru jafnvel felldir með nokkrum atkvæðamun, en þó ekki mjög miklum, sá ríkisstj., sem þá var, ekki annan kost vænni en að grípa inn í með setningu laga um kaup og kjör sjómanna á grundvelli síðustu sáttatillögu, þar sem réttindi sjómanna umfram það sem um var samið voru lögfest, eins og hækkun sjómannatryggingar o. fl., sem ég ætla ekki að fara út í. En þegar þessi lög komu út, þá riðu hetjur um héruð, m. a. s. menn sem skrifuðu undir þetta samkomulag og áttu samkv. sinni undirskrift og því, sem þeir höfðu heitið, að hlíta samningum. Þá fóru þeir um til þess að mótmæla slíkum lögum, slíku gerræði sem þáv. ríkisstj. hefði gripið til, og það endaði á því að safnað var undirskriftum og menn gengu hús úr húsi og fengu fólk til þess að skrifa undir mótmæli við setningu þessara laga, fólk sem ekki gerði sér nokkra grein fyrir hvað það var að skrifa undir, og það komu fulltrúar hingað í þinghúsið með kassa sem voru fullir af þessum mótmælum, — ég held að þeir hafi verið 6 eða 8. Þá reis upp einn af þm. Alþfl., sem lýsti því yfir af miklum fjálgleik, eins og hans er von og vísa, að hér væri um svívirðilegt athæfi að ræða gagnvart sjómannastéttinni sem næði ekki nokkurri átt, hér væri verið að grípa inn í kjarasamninga af löggjafanum, þar sem sjómenn og útvegsmenn ættu sjálfir að semja um þessi atriði. Og það stóð ekki á fulltrúum Alþb., þess mikla verkalýðsflokks, sem aldrei lætur sitt eftir liggja í baráttunni fyrir kjörum verkalýðsins, að taka mjög sterklega undir þetta.

Þetta frv. sýnir þá miklu breytingu sem hefur orðið á þessum sósíalistísku flokkum. Nú eru þeir komnir svo langt til hægri að lengra komast þeir ekki. Þeir eru báðir alveg klesstir úti í hægra horninu. Og það er vel. Þetta er það sem við sjálfstæðismenn höfum beðið eftir, að karlar kúventu. En hverjir ætla svo að trúa þessum mönnum þegar þeir fara aftur að söðla um og segja að það megi aldrei grípa inn í kaup og kjör launþeganna í landinu? Það trúir þeim ekki einn einasti maður. Og það er mjög gott, því að nauðsynlegt er að enginn maður trúi þessum flokkum. Þeir hafa svikið allt sem þeir lofuðu. Það er ekkert eftir. Þeir töluðu ekki svona fyrir kosningarnar. Það var annað hljóð í kratadrengjunum þá, þegar þeir gengu á vinnustaðina, — eða kommunum. En nú er allt breytt, nú er þetta allt í lagi. Og ég fagna því, eins og ég sagði áðan, og ég óska hæstv. sjútvrh. til hamingju með að bera fram stefnubreytingu Alþfl. í þessu formi, því að hún er alveg að skapi okkar sjálfstæðismanna.

M. ö. o.: við erum sammála því að frv. um tímabundið olíugjald verði samþykkt, sem kveður á um að útgerðinni verði greidd 2.5% miðað við fiskverð eins og það er ákveðið af Verðlagsráði sjávarútvegsins, og sama gildi, þegar fiskiskip selur afla sinn öðru skipi til löndunar í innlendri höfn, og jafnframt af þessari ástæðu komi þetta viðbótarfiskverð ekki til hlutaskipta eða aflaverðlauna.

En ég ætla ekki eingöngu að snúa mér að Alþfl. og Alþb. í þessum efnum. Ég ætla einnig að senda nokkra kveðju til fulltrúa sjómannasamtakanna fyrir þá breytingu sem þeir hafa sumir hverjir gert á afstöðu sinni. Ég tel þessa breytingu þeirra mjög skynsamlega og fagna því, að þeir hafa tekið málinu með þessum hætti.

Um 2. gr. frv. má hins vegar deila frekar. Hún er um frádráttartölu kjarasamninga og stofnfjársjóðsgjald, að það megi draga 1% olíugjald til útgerðar frá heildarsöluverðmæti við ákvörðun aflaverðlauna. Sennilega verður það rætt nánar í n. Með þessu frv. um tímabundið olíugjald á að bæta fiskvinnslunni upp þessa útgjaldaaukningu með því að breyta lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum, nr. 5 frá 13. febr. 1976, á þann veg, að útflutningsgjald af sjávarafurðum skuli vera 5% af fob. verðmæti útflutnings í staðinn fyrir 6% eins og það var ákveðið með lögum 13. febr. 1976. Er áætlað að útflutningsgjaldið lækki um 1600 millj., eða um 400 millj. minna en olíuhækkunin er talin kosta fiskiskipaflotann. Og þessi breyting á útflutningsgjaldinu á að nást með þeim hætti að lækka framlag til þeirra sjóða, sem nú njóta útflutningsgjaldsins, og þá er það fyrst og fremst Aflatryggingasjóður og þá hin almenna deild Aflatryggingasjóðs, en talið er að tekjur hennar muni við þessa breytingu minnka um 552 millj. kr. Talið er að tekjur áhafnadeildar muni minnka með þessu frv. um 16 millj. kr. Fé, sem fer til greiðslu á vátryggingarkostnaði fiskiskipa samkv. reglum sem sjútvrn. setur á hverjum tíma, tekjur vátryggingarsjóðs, er talið að muni skerðast um 592 millj. kr., tekjur Fiskveiðasjóðs um 416 millj., tekjur Fiskimálasjóðs um 6 millj. og til ýmissa smærri liða, eins og sjávarrannsókna og Framleiðslueftirlits sjávarafurða um 21 millj. En það er einn liður, sem að upphæðinni til skiptir ekki höfuðmáli, sem hækkar þegar verið er að rýra útflutningsgjaldið úr 6% í 5%, eða um 1600 millj. kr. þá er hækkað frá gildandi lögum framlag til Landssambands ísl. útvegsmanna og framlag til samtaka sjómanna samkv. reglum, sem sjútvrn. setur, úr 0.4% til hvors aðila um sig í 0.5%. Þessir tveir aðilar eiga, þegar skorin eru niður framlög til sjóðanna um 1600 millj., að fá 2 millj. í umbun hvor fyrir sig. Mönnum verður hugsað: Er þessi uppsetning til þess að hafa þá góða sem eru þarna á skrifstofunum? Þetta lítur engan veginn nógu vel út.

Því er nú fyrir að þakka, að sumir þessir sjóðir geta tekið á sig lækkun tekna, að fyrir þeim var vel séð á tímabili fyrrv. stjórnar. Það er annað en hægt var að segja þegar sú stjórn tók við. Þá tók hún við gjaldþrota sjóðakerfi, algerlega. Þá vantaði hundruð milljóna í suma þessa sjóði. Olíusjóðurinn var algerlega gjaldþrota þegar ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar tók við 28. ágúst 1974. Tryggingasjóðurinn var á vonarvöl, hann stóð ekki við greiðslur. Tryggingafélögin fengu alls ekki skilvíslegar greiðslur, sem gerði að verkum að þau gátu engan veginn staðið í skilum með greiðslu bóta á tjónum. Það fyrsta, sem núv. ríkisstj. gerir, er að gefa ávísun á það sem fyrrv. ríkisstj. skildi eftir. Hér er ríkisstj. ekki að leggja til að koma útgerðinni til hjálpar. Hér er aðeins um að ræða að færa til innan sjávarútvegsins sjálfs.

En við skulum aðeins líta á hina hliðina. Aflatryggingasjóðinn, almennu deildina. Hér er sagt að hún eigi mikið fjármagn. Það er alveg rétt. Aflatryggingasjóðurinn á mikið fjármagn — eða átti um áramót og á það enn. Það er auðvitað blekking að tala um að áhafnadeildin eigi mikið. Hún átti inni um áramótin af því að eftir var að greiða sjómönnum fæðiskostnaðinn frá hausti til áramóta. En hitt er svo annað mál, að Aflatryggingasjóð hefur stundum líka skort tekjur þegar bætur hafa verið óvenjumiklar, eins og var á árunum 1967 og 1968 og mig minnir 1971 og 1972. Þá skorti Aflatryggingasjóð fé til þess að standa undir bótagreiðslum. Það er því auðvitað hygginna manna háttur að ganga ekki svo nærri sjóðum sem þessum að þeir standi uppi alveg berskjaldaðir og standi ekki við hlutverk sitt. En ég fyrir mitt leyti og við sjálfstæðismenn getum vel fallist á að Aflatryggingasjóður verði eitthvað skertur á þessu ári vegna þess og það þó nokkuð.

En annað veldur okkur stórum áhyggjum. Það er Ólafs doðranturinn Jóhannessonar, sem Alþfl. hefur gert að sinni biblíu. Þar á að breyta hlutverki Aflatryggingasjóðs. Hann hefur það hlutverk að bæta aflahluti skips og áhafnar þegar almennan aflabrest ber að höndum eða þegar brýna nauðsyn ber til að draga úr sókn til verndar mikilvægum nytjafiskstofnum á Íslandsmiðum. Líka segir í sama frv.: „Við ákvörðun meðalveiðimagns, sem bætur miðast við, er heimilt að taka sérstakt tillit til sóknartakmarkana, sem stjórnvöld ákveða, og til langvarandi aflaleysis á einstökum svæðum vegna breytinga á fiskgengd og veiðisókn við landið, þannig að meðalveiðimagn miðist við aflabrögð þegar sókn og ástand fiskstofna er með eðlilegum hætti. Leita skal álits Hafrannsóknastofnunar um þetta atriði.“ — Það er dálítið skrýtið, því að Aflatryggingasjóður og Fiskifélagið safna skýrslunum. En látum það nú vera.

Hvað mundi þetta kosta ef það væri orðið að lögum og takmarkanir væru gerðar? Þessar bætur mundu skipta milljörðum. Hvar á Aflatryggingasjóður þá að leita fanga? Hefur hæstv. sjútvrh. gert sér grein fyrir þessu, þegar hann heldur dauðahaldi — og Alþfl. — í þetta orðalag? Þetta orðalag nær auðvitað ekki nokkurri átt. Það er verið að fara út á svo hála braut í þessum efnum, að mér dettur ekki í hug að ætla að nokkur sjómaður eða útgerðarmaður ætlist til svo geigvænlegra fórna af samfélaginu sem hér á að gera. Á sama tíma og þeir eru með þetta í bígerð á að stífa framlögin til Aflatryggingasjóðs. Þetta er ekki gott samspil, hæstv. sjútvrh., þetta er ekki hægt. Þegar annar fóturinn fer áfram, þá fer hinn aftur á bak. Það er þó auðvitað ekki í fyrsta skipti sem göngulagið er með þeim hætti hjá þessari hæstv. ríkisstj.

Um greiðslu á vátryggingarkostnaði fiskiskipa get ég verið sammála því að lækka tekjur hans um þetta, því að vátryggingarsjóður þolir þessa lækkun, mér er það alveg ljóst. Það er fyrir það, að síðan gjaldið var ákveðið á sínum tíma hefur verðmæti útflutnings okkar aukist meira en vátryggingariðgjöldin hafa hækkað. Þar með hefur þessi sjóður fengið meiri tekjur en við mátti búast þegar lögin voru sett í febr. 1976.

En þriðji liðurinn, sem er þriðja aðalupphæðin, lækkun á tekjum Fiskveiðasjóðs um 416 millj., er auðvitað algerlega út í hött. Ég er undrandi á hæstv. sjútvrh. og ríkisstj. að leggja fram frv., sem gerir ráð fyrir því að lækka tekjur Fiskveiðasjóðs sem nemur þessari upphæð. Við vitum að Fiskveiðasjóður getur engan veginn afgreitt nema hluta af þeim lánsumsóknum sem fyrir honum liggja. Það er sjálfvirkt kerfi í sambandi við skipakaupin. Það er búið að binda stórkostlegt fé fram í tímann eftir þeim erlendu lánum sem eru. Innlenda skipasmíðin tekur sitt og þarf sitt, þar verðum við að halda áfram, því að við hljótum þó öll að vera sammála um að við getum ekki stöðvað innlenda skipasmíði og gert atvinnulaust allt það fólk sem vinnur við þær iðngreinar. En það er annað sem kemur líka inn í. Með því að skerða framlag Fiskveiðasjóðs með þessum hætti erum við að draga úr eigin fjármagni Fiskveiðasjóðs, við erum um leið að hækka vextina af öllum stofnlánum í öllum greinum Fiskveiðasjóðs, ef hann á eingöngu að byggja á lántökum eða svo að segja, sem mér virðist vera stefna þessarar hæstv. ríkisstj., bæði með framlagningu þessa frv. og eins því frv. um lánamál — ég man nú ekki nafnið á því — sem fjmrh. flutti framsögu fyrir í gær, að setja ákveðið hámark því sem ríkissjóður greiðir, bæði til Fiskveiðasjóðs og annarra stofnlánasjóða. Mér finnst eiginlega vera allur vindur úr sumum stjórnarþm., sem hafa hvað harðast barist fyrir því að skerða ekki framlög sérstaklega til atvinnumálasjóða. Það á kannske eftir að heyrast eitthvað í þeim síðar, en lítið hefur farið fyrir þeim að undanförnu í sambandi við þennan niðurskurð allan.

Styrkveitingar Fiskimálasjóðs eru lækkaðar um 6 millj. Ekki er hægt að segja að það sé há upphæð, en sá sjóður hefur hlaupið oft undir bagga í sambandi við ýmsar fiskirannsóknir sem ekki hafa verið innan ramma fjárlaga.

Sömuleiðis á að lækka upphæð til sjávarrannsókna og Framleiðslueftirlits sjávarafurða um 21 millj. Það er sennilega ekki í samræmi við þær umr, sem fóru fram fyrir nokkrum dögum utan dagskrár um Framleiðslueftirlit sjávarafurða í sambandi við galla á gaffalbitum seldum til Sovétríkjanna. En það er eins og áður: eitt skref áfram og annað aftur á bak.

Eitt finnst mér mjög undarlegt í sambandi við þá tilburði alla sem uppi eru til að draga úr veiði í ofnýtta fiskstofna og auka aftur veiðina í stofna sem eru ekki fullnýttir, eins og karfa og grálúðu sem menn eru hvattir til þess að auka veiðar á í ríkari mæli. Nú gerir þetta frv. ráð fyrir að fiskverð til útgerðarinnar hækki um 2.5%. Verðlagsráðið hefur samþykkt að hækka fiskverð að meðaltali um 1.9%, og það var samþykkt þar með 4:1 atkv. Þorskur, ýsa og steinbítur hækka um 2.2%, en karfinn, ufsinn og grálúðan, sem sagt er að eigi að stefna að því að auka veiðar á, hækka ekki neitt. Er þetta hvatning fyrir útgerðarmenn og sjómenn til að stunda þessar veiðar? Ég held ekki. Ég ætla í fullri vinsemd að benda hæstv. sjútvrh. á það, að á tímabili fyrri ríkisstj. beitti ég mér fyrir því og var samþ. af þáv. ríkisstj., sem sýndi öll, allir ráðh. þar, fullan vilja að gera umtalsverða hækkun á karfa. Það var gert með þeim árangri að veiðarnar jukust. Það var auðvitað teflt í töluverða óvissu, en þessi ákvörðun heppnaðist vel vegna þess að það fór saman við hækkandi markaðsverð erlendis, einkum í Bandaríkjunum. Þetta hefði þurft að gera að mínum dómi. Sama er með grálúðuna og ufsann.

Það er talið að hækkun gasolíulítra um 13.60 kr., eða úr 69 kr. í 82.60, muni færa ríkisvaldinu 200–220 millj. kr. í opinberum gjöldum miðað við að ársnotkunin verði 80–90 millj. lítra. Þessar 13.60 kr. á gasolíulítra skiptast þannig, að 6.23 kr. eru hækkun á cif-verði, en opinber gjöld nema 2.53 kr., 1.50 er álagning, 3.09 kr. er innlegg til innkaupajöfnunarreiknings og 25 aurar mæta gengissigi, svo að eitthvað er nú ætlað að það eigi að síga á næstunni. Mér finnst ástæðulaust að ríkisvaldið og ríkisstj. séu að gera sér þetta óeðlilega ástand á olíumörkuðunum núna að féþúfu, að ríkisvaldið — ríkisstj. og ríkissjóður — eigi eitt að græða, það eigi að færa til innan sjóða sjávarútvegsins, en ríkið eigi aftur að hafa af þessu tekjur. Það er alveg einstakt happ fyrir ríkissjóð að olían hækkar núna á heimsmarkaðinum, og hann ætlar til fullnustu að notfæra sér þessa ógæfu alls almennings í landinu með því að kroppa fleiri krónur í ríkissjóð.

Hvað á svo að gera í framhaldi af þessu gagnvart öllum almenningi í landinu, sem verður að nota olíu til upphitunar, gagnvart þeim hluta atvinnulífsins, sem verður að taka á sig þessar fórnir? Ætlar ríkisvaldið á þennan hátt að skattleggja það fólk líka? Fjmrh. segir og setur upp sinn góðlátlega, eðlilega svip: Þetta er allt saman til athugunar. — Og svo gengur bara allt í gildi og allt á að taka af almenningi í landinu. Þarna finnst mér skjóta skökku við það sem hefur verið látið uppi í þessum efnum.

Samkv. því, sem ég hef hér sagt, ætlar ríkissjóður ekki að leggja neitt í púkkið. Það liggur ekki fyrir að hann ætli að leggja fram neitt af tekjum sínum til að koma á móti útgerðinni, heldur aðeins að færa til í sjóðum sjávarútvegsins og þrengja verulega kosti stærsta stofnlánasjóðs hans. En það er annað, sem hefur ekki komið fram og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. sjútvrh. um: Getur það verið ætlun sjútvrh. og hæstv. ríkisstj., þegar tekjur Fiskveiðasjóðs af útflutningsgjaldinu eiga að lækka um 416 millj. kr., að ríkissjóður ætli þá að nota sér það að samkv. gildandi lögum um Fiskveiðasjóð Íslands lækkar hluti ríkissjóðs sjálfkrafa um 75% af þeirri upphæð sem niður er skorin? Er það ætlun ríkisstj. að nota sér ákvæði c-liðar 3. gr. laga um Fiskveiðasjóð Íslands til þess að lækka framlag ríkissjóðs um 75% af þessari upphæð eða um nákvæmlega 312 millj. kr.? Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að ætlunin sé að firra ríkissjóð um 312 millj. kr. greiðslu til Fiskveiðasjóðs, sem hann á að inna af hendi lögum samkv. og gert hefur verið ráð fyrir í fjárl. Í 3. gr. laga um Fiskveiðasjóð, b-lið, segir um tekjur sjóðsins: „Útflutningsgjöld af sjávarafurðum, sem renna til sjóðsins lögum samkv.“ Í c-lið segir: „Til viðbótar tekjum sjóðsins samkv. b-lið greiðir ríkissjóður honum árlega fjárhæð er nemi 3/4 hlutum af tekjum samkv. b-lið.“ — Ef tekjurnar samkv. b-lið lækka um 416 millj. og ekki er gerð nokkur breyting á lögum um Fiskveiðasjóð hlýtur framlag ríkissjóðs að lækka um 312 millj. kr.

Sama er að segja um Aflatryggingasjóðinn. 25% af tekjum hans koma af útflutningsgjaldi, sem ríkissjóður verður að greiða á móti, og við það að lækka tekjur Aflatryggingasjóðs um 558 millj. kr. kæmi framlag ríkissjóðs til með að lækka um nálega 140 millj. kr. til Aflatryggingasjóðs frá gildandi lögum. Ég trúi ekki að þetta sé gert viljandi, og ég vænti þess, að hæstv. sjútvrh. upplýsi hvort það er ætlunin með þessum frv., ef þau verða lögfest, að spara með þessum hætti eða lækka framlög ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs og Aflatryggingasjóðs um samtals 442 millj. kr. Þá finnst mér skörin vera farin að færast upp í bekkinn. Hvernig á að mæta allri þeirri þörf, sem Fiskveiðasjóður hefur fyrir peninga, ef farið er að með þessum hætti?

Þeir, sem semja frv. eins og þetta, stilla því sérstaklega vel upp í frv., hvað sjóðirnir standi vel að vígi, og telja að bæði Aflatryggingasjóður og Tryggingasjóður fiskiskipa standi undir þessum tilfærslum, en þeir hlaupa alveg yfir að segja eitt einasta orð um Fiskveiðasjóð. Mér finnst þetta ekki heiðarleg framsetning í aths. með frv. Ég held að það væri full þörf á því fyrir þá menn, sem þetta verk vinna, að láta það koma fram. A. m. k. auka slík vinnubrögð ekki traust þm.

Ég vænti þess, að hæstv. sjútvrh. svari þessum fsp. mínum nú við 1. umr., svo að við höfum alveg á hreinu hvort sú er ætlun ríkisstj. að nota sér óhagstæða stöðu í olíuverðinu til þess að komast undan því að greiða lögboðin framlög til þessara tveggja sjóða með þeim hætti sem ég hef greint frá.