01.03.1979
Neðri deild: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2902 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

203. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til 1. umr., gerir ráð fyrir því, eins og ég gat um í framsögu fyrir hinu fyrra frv., að útflutningsgjald verði lækkað úr 6% í 5% af útflutningsverðmæti sjávarafla, og miðar þannig að því að auðvelda fiskvinnslunni að greiða hið tímabundna olíugjald, sem nemur 2.5% af skiptaverðmæti og frv. er flutt um jafnhliða þessu og fjallað var um áðan. Lætur nærri að sú lækkun útflutningsgjaldsins, sem hér er ráðgerð, svari til 2–2.5% af skiptaverðmæti. Þannig er hér lagt til að hluti af því fé, sem að óbreyttum lögum rynni til sjóða sjávarútvegsins, fari til að létta útgerðinni róðurinn eftir þá miklu hækkun olíuverðs sem orðið hefur að undanförnu.

Eins og fram kom í framsöguræðu minni fyrir frv. um tímabundið olíugjald nægir það ekki eitt sér til þess að greiða kostnaðaraukann af hækkun olíuverðs til fiskiskipa úr 57.50 kr. í 68.90 á lítra af gasolíu og úr 39 þús. kr. í 40 500 kr. á lítra af svartolíu, sem ákveðin var 21. febr. s. l. Því verður einnig að mæta með öðrum hætti, bæði með olíusparnaði og hækkun fiskverðs, eins og ég gat um.

Það er talið fært að lækka útflutningsgjaldið úr 6% í 5%, a. m. k. að svo stöddu, vegna þess að fjárhagur mikilvægustu sjóðanna, sem útflutningsgjaldsins njóta, er traustur. Þannig átti almenna deild Aflatryggingasjóðs um 2600 millj. kr. í sjóði um áramót, áhafnadeild Aflatryggingasjóðs átti á sama tíma um 450 millj. í sjóði og Tryggingasjóður fiskiskipa um 1000 millj. kr. á reikningi sínum í Seðlabankanum. Að stórum hluta er það fé þó bundið til árs í senn. Að óbreyttum reglum og miðað við núverandi gengi og verðlag gætu heildartekjur þessara sjóða af útflutningsgjöldum numið 7.2 milljörðum árið 1979 og greiðslur úr þeim 5.2 milljörðum kr.

Af þessum lauslegu áætlunum má ráða, að þessir sjóðir þoli nokkra lækkun útflutningsgjaldsins án þess að það þurfi að koma niður á starfsemi þeirra. Áhafnadeildin þolir þó síður lækkun en hinir sjóðirnir og er því nauðsynlegt að breyta nokkuð skiptingu tekna af gjaldinu um leið og heildarhlutfall útflutningsgjaldsins er lækkað.

Frv. gerir ráð fyrir, að hlutfall almennu deildar Aflatryggingasjóðs lækki úr 22% í 19.5% af heildartekjum af útflutningsgjaldi, eða sem nemur um 550 millj. til lækkunar á heilu ári. Á móti kemur hlutfallsleg hækkun áhafnadeildar úr 26% í 31% og skerðast tekjur hennar því óverulega. Hlutfall Tryggingasjóðs er lækkað úr 27 í 25%, eða sem nemur um 600 millj. kr. á heilu ári, og hlutur Fiskveiðasjóðs er lækkaður úr 21 í 20%, eða sem nemur um 400 millj. kr. á ári. Samtals hefur þetta í för með sér 1600 millj. kr. lækkun tekna af útflutningsgjaldinu og er þá miðað við 160 milljarða útflutningsverðmæti gjaldskyldra afurða.

Ég held að það, sem menn hafa rætt um varðandi Landssamband ísl. útvegsmanna og samtök sjómanna, sé að þar standi á hálfum tug, þegar ákveðið er að breyta úr 0.4 í 0.5%. Það er heldur tilviljun en að hlutfallið verði miklu hærra. A. m. k. lít ég engum öfundaraugum á það þótt þar verði 2 millj. kr. hækkun, eða úr 38 í 40 millj. kr. í hvoru tilviki.

Að því er varðar stöðu sjóðanna er á það að líta, að gert var ráð fyrir því samkv. afar lauslegum áætlunum að því er varðar jöfnunardeild Aflatryggingasjóðs að tekjur af útflutningsgjöldum væru um 900 millj. kr. að óbreyttu um greiðslur samkv. gildandi reglum. Þar er sem sagt verið að taka rúmlega helminginn af þeirri fjárhæð, þannig að það er ekki gengið nær sjóðnum en þetta, auk þeirrar sjóðseignar sem fyrir hendi er og ég gat um áðan. Hitt er auðvitað rétt að til greina kemur að þessi sjóður sinni margvíslegum verkefnum. Það er þó ekki nær honum sneitt en þetta.

Um áhafnadeildina er það að segja, að þar er áætlað að tekjur umfram gjöld samkv. gildandi áætlun verði 400 millj. kr. og er þar ekki um lækkun að ræða sem neinu nemur, eða einungis 16 millj. kr.

Gert er ráð fyrir að tekjur Tryggingasjóðs umfram áætlaðar greiðslur verði um 700 millj. kr., en af þeim eru teknar 600. Þar er þá nákvæmlega skammtað samkv. þessu.

Varðandi Fiskveiðasjóð er rétt að benda á að í fyrirliggjandi lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir verulegri aukningu fjárframlaga til fiskvinnslu af hálfu fjárfestingarlánasjóða, þ. e. a. s. af hálfu Fiskveiðasjóðs og Byggðasjóðs. Þannig hefur lánsfé til Fiskveiðasjóðs verið aukið, sérstaklega í því skyni að hann geti staðið undir hagræðingu í fiskvinnslunni, um 2000 millj. kr. auk framlags upp á 1200 millj. kr. af gengismunarreikningi, eða alls um 3200 millj. kr. til fiskvinnslu á vegum Fiskveiðasjóðs. Auk þess er gert ráð fyrir að Byggðasjóði sé aflað sérstaks lánsfjár, 900 millj. kr., frá Framkvæmdasjóði til að bæta stöðu sjávarútvegsfyrirtækja. Jafnframt mun ríkisstj. beita sér fyrir því, að Byggðasjóður láni af öðru fé sínu a. m. k. 1000 millj. kr. til fiskvinnslu á árinu 1979. Úfhlutun þessa fjár, sem alls nemur þannig 5100 millj. kr., miðast við að greiða fyrir rekstri í fiskvinnslunni, einkum þar sem ástandið er erfiðast. Þessi lánsfjáráætlun felur því í sér að útlán fjárfestingarlánasjóða til fiskvinnslu á árinu 1979 muni verða meira en tvöfalt hærri að krónutölu en á árinu 1978. Auk þess er gert ráð fyrir því í lánsfjáráætluninni, að til skipasmíða innanlands verði aflað þess fjármagns sem talið er að muni nægja til þess að halda uppi allöflugri skipasmíði. Þessi lánsfjáráætlun gerir ráð fyrir 1275 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði, og það frv., sem hér er til umfjöllunar, mun ekki skerða það framlag úr ríkissjóði, þannig að það verður áfram 1275 millj. kr., eins og gert er ráð fyrir í lánsfjáráætluninni og í frv. um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna fjárfestingar- og lánsfjaráætlunar 1979. Fjmrh. hefur staðfest í samtali við mig, að sú upphæð muni ekki skerðast af völdum þess frv. sem hér er fjallað um. — Ég tek þetta fram til að koma í veg fyrir misskilning.

Sú skerðing, sem um er að ræða á lánum til fiskvinnslunnar, sem vissulega er skerðing, er því þær 400 millj. sem ég gat um hér áðan og er skerðing frá þeirri aukningu sem gert er ráð fyrir í heild til fiskvinnslunnar samkv. lánsfjáráætluninni og nemur um það bil tvöföldun að krónutölu milli ára.

Að því er varðar Aflatryggingasjóð mun ég að sjálfsögðu beita mér fyrir því, að sömu vinnubrögð verði viðhöfð af hálfu ríkisstj. og að þau frv.; sem hér eru til umfjöllunar, verði ekki til þess að skerða tekjur hans.

Ég tel rétt að lokum að leggja áherslu á að hér er um tímabundna ráðstöfun að ræða til þess að mæta bráðum vanda útgerðarinnar vegna olíuverðshækkunarinnar. Þessi tilhögun verður vitaskuld tekin til endurskoðunar þegar línurnar fara að skýrast um þróun olíuverðsins, væntanlega síðar á þessu ári. Ég vil enn fremur ítreka, að allgóð samstaða hefur náðst með aðilum í fiskveiðum og fiskvinnslu og sjómönnum um þessi frv.

Ég leyfi mér að leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn., en það er mikilvægt að frv. fái skjóta meðferð þannig að það geti orðið að lögum þegar í dag. Þess vegna vil ég ítreka ósk mína til hv. sjútvn. og d. um að þetta frv. verði afgreitt frá d. í dag.