01.03.1979
Neðri deild: 56. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2906 í B-deild Alþingistíðinda. (2295)

202. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Við tveir, ég og hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, undirritum þetta nál. með fyrirvara og ég vil gera grein fyrir fyrirvara okkar, hann er sama eðlis. Hann á við 2, gr. þessa frv., sem hér er til umr., og gæti ég, svo merkilegt sem það nú er, reyndar látið við það sitja að vísa til þess rökstuðnings sem hv. 1. þm. Austurl. fór með, en ég ætla að bæta aðeins um betur, því að áherslurnar eru ekki þær sömu.

Það vill svo til að ég er í grundvallaratriðum andstæður því að löggjafinn sé að hafa afskipti af kjarasamningum, nema í ítrustu neyð og rík rök hnígi að því. Ég játa að vísu að slíkt getur verið nauðsynlegt, enda hefur það margoft verið gert, en á hinn bóginn liggja engar ástæður fyrir nú til þess að hafa afskipti með þessum hætti af hlutaskiptasamningum sem í gildi eru. Auk þess er hér um hreint smáræði að tefla sem vegur lítið til þess að rétta hlut útgerðar og er ekki til annars gert en að ýfa upp óánægju. Þetta er aðalafstaða mín, og ég mæli þar fyrir munn hv. 1. þm. Vestf. einnig, og þess vegna er það að við mælum með því að brtt. á þskj. 409 verði samþykkt.

Það er svo aftur á móti annað mál, sem ég get vikið að við umr. um það frv. sem næst er á dagskrá, að hæstv. ríkisstj. ætti að leggja fyrir hér með hvaða hætti hún sjálf ætlar að gefa eftir af stórauknum tekjum sínum vegna stórhækkaðs olíuverðs. Það er eitt höfuðmálið og það snýr ekki eingöngu að útgerðinni í landinu, heldur öllum landslýð, ég tala nú ekki um þá sem verða að búa við olíukyndingu í húsum sínum. Þess vegna var það rangt, sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Austurl., að það væru allir útgerðarmenn að reyna að næla sér í smáræði af hlut háseta.