01.03.1979
Neðri deild: 56. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2907 í B-deild Alþingistíðinda. (2297)

202. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð af minni hálfu. Það hefur verið gerð grein fyrir brtt., sem ég stend hér að, áður í umr. Það má vera öllum ljóst, sem lesa þessa till., hverjir eru flm. — það þarf ekkert að spyrja að því. Það erum við tveir, ég og hv. þm. Lúðvík Jósepsson. (Gripið fram í: Er Lúðvík hættur að vera formaður þingflokksins?) Það kom fram í ræðu hv. 4. landsk. þm., að þetta séu óábyrg vinnubrögð að hans dómi. Ég neita því algerlega, a. m. k. hvað minn þátt varðar í þessari till., vegna þess einfaldlega að með 2. gr. í frv, er verið að brjóta samninga á sjómönnum og ég lít á mig sem fulltrúa sjómanna á Alþ. og ég kalla það ábyrg vinnubrögð, en ekki óábyrg, þegar ég legg til að slík samningsbrot séu felld niður úr frv. Þetta ætti þessi ungi þm. að reyna að skilja.

Í 1. gr. þessa frv. er getið um hækkun fiskverðs til útgerðar og það hefur verið, eða var mjög lengi, reglan að sjómenn áttu að fá og fengu sinn hluta, umsaminn hluta, af því verði sem fyrir aflann fékkst. Svo var þessu breytt á viðreisnarárunum og prósentan, sem tekin var af brúttóafla, var orðin býsna há. Hún hefur nú sem betur fer verið lækkuð. En þarna er verið að hækka fiskverð til útgerðar og sjómenn hafa fallist á að fara ekki fram á sinn hluta úr þeirri hækkun. Þeir hafa samþykkt það með tilliti til olíuhækkana sem nú hafa dunið yfir. Þarna hafa þeir í raun og veru gefið talsvert eftir af sínum rétti og að mínum dómi er það nægilegt. En í 2. gr. er ekki um þetta að ræða. Þar er hreinlega verið að leggja til að skerða umsaminn hlut sjómanna og brjóta á þeim samninga með lögum: Á það get ég ekki fallist.

Þegar fiskiskip selur í erlendri höfn fer mikill hluti af brúttóaflaverðmæti í burtu. Það má upplýsa þennan hv. þm. um það, að 16% af brúttóverðmæti þess afla, sem landað er í erlendri höfn, eru tekin til þess að standa undir greiðslum af skipinu. Þarna er í raun og veru tekinn stór hluti af því, sem sjómenn ættu að fá, til þess að borga skipið niður. Það fer mikill hluti af þessum peningum í kostnað erlendis, eins og menn vita. Ég sé síst ástæðu til þess að bæta við þann hluta, rýra hlut sjómanna enn meir en þá er orðið. Þess vegna legg ég til að þessi brtt. verði samþykkt.