01.03.1979
Neðri deild: 56. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2914 í B-deild Alþingistíðinda. (2303)

202. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs enn einu sinni í þessu litla máli til þess að undirstrika það enn frekar en ég hef gert áður, hvers konar hrapallegur misskilningur hér er á ferðinni sem ég held að geti verið nokkuð hættulegur upp á eftirleikinn, ef stuðningsmenn ríkisstj. eru á þeirri skoðun að þeir megi aldrei breyta neinu í stjfrv.

Það er alveg greinilegt, að þeir Alþfl.-menn vilja túlka málið þannig, að jafnvel þó að augljóst sé að það sé til bóta að hreyta stjfrv., þá megi þeir ekki gera það, því að þeir séu svo dyggir stuðningsmenn stjórnarinnar. En mætti ég þá t. d. minna á það, að hér hefur verið á ferðinni stjfrv, um verðjöfnunargjald af raforku. Þá sprakk Alþfl. heldur betur, hann stóð ekki allur með því. (Gripið fram í: Og Alþb.) Jú, jú, þar voru líka skiptar skoðanir. Það sannar bara mitt mál enn þá betur, að menn eru ekki bundnir af því að mega ekki flytja brtt. við mál sem koma frá ríkisstj. (Gripið fram í.) Nei, en sprungnir menn ættu sem minnst að tala.

Aðalatriðið er að sjálfsögðu að menn hafi það til að bera að treysta sér til þess að leggja mat á það sem um er rætt, hvort einhverjum tilgangi þjóni að hafa eitthvert tiltekið ákvæði í frv. eða ekki. Ég kannast svo sem við það, það hefur komið fram á Alþ. áður, að ekki mátti einu sinni leiðrétta málvillur sem voru augljósar og allir viðurkenndu. Það þótti rétt að halda málvillunum, því að menn voru svo dyggir stuðningsmenn. Það getur auðvitað verið að þeir Alþfl.-menn standi þannig að málum núna, að þeir hugsi sér að af því að þau séu frá stjórninni megi ekki breyta neinu.

En ég held að það sé hollast fyrir alla að átta sig á því, að það verður í tíð þessarar stjórnar eins og í tíð annarra ríkisstj, að hingað koma stjfrv. sem eðlilegt er að geti þolað einhverjar breytingar í meðförum Alþingis. Það var líklega á fundi í þinginu í gær frekar en í fyrradag, að við ræddum um Lánsfjáráætlun og tilheyrandi frv. Þá lýsti ég yfir að þar væri að finna ákvæði sem ég gæti ekki fellt mig við og vildi vinna að breytingum á. Þar var gert ráð fyrir að færa á milli um 2000 millj. kr. fjárhæð af skyldusparnaði ungmenna, sem innheimtur hefur verið í sambandi við húsnæðismálalöggjöf, og ráðstafa þessum fjármunum í allt öðru skyni. Ég tók fram í sambandi við þetta mál, að ég viðurkenndi að afla þyrfti fjár í því skyni, sem ríkisstj. væri að gera till. um, það þyrfti að leysa þann vanda, en ég féllist ekki á þá till. Þannig hefur þetta auðvitað verið í þinginu árum saman, að stjfrv. kann að vera breytt ef mönnum sýnist ástæða til þess. Spurningin í þessu máli er eingöngu sú: Er með því að fella niður 2. gr. frv. verið að trufla á nokkurn hátt þann tilgang sem vakir fyrir mönnum í sambandi við flutning á þessu máli? Ég er aðeins að ræða þá ætlun að klípa nokkuð af umsömdum launum sjómanna, þegar þeir sigla út, og færa það yfir til útgerðarmanna.

Það liggur fyrir samkv. grg. frv., og kom auðvitað greinilega fram á fundi sjútvn. um málið, að fulltrúar sjómanna mótmæla þessari grein. Og þegar þeir mótmæla þessari grein og það er engin þörf á því að hafa hana í frv. til að ná því markmiði sem að er stefnt, þá er ósköp eðlilegt að lagðar séu fram till. um að fella greinina niður. En þá kemur í ljós að í hópi Alþfl. eru þm. svo rétttrúaðir að þeir geta ekki hugsað sér að leiðrétta það sem skakkt er eða illa á haldið í frv., af því að það kemur frá ríkisstj. Ég held, að við séum að gera ríkisstj. gott með því að fella niður þessa grein, og held því fast við till. mína sem fullkomlega eðlileg vinnubrögð. Hitt ræðst að sjálfsögðu í atkvgr., hvort ráðh. Alþb. vilja hafa frv. óbreytt eins og þeir höfðu gert samkomulag um að flytja það eða ekki. En það hreytir ekki afstöðu minni. Og ég er sannfærður um að ég er að gera ríkisstj. meira gagn með því að vinna að því að fella þessa grein en hinir gera, sem ætla að standa að því að halda greininni inni með þeim afleiðingum sem það getur haft.