01.03.1979
Neðri deild: 56. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2917 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

203. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 411, þar sem er nál. meiri hl. sjútvn., er ég fylgjandi því frv. sem hér liggur fyrir. Mér er þó ljóst að það eru ýmsir annmarkar á því að þurfa að gripa til þeirra ráða sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og þann annmarka tel ég mestan, að gert er ráð fyrir því að skerða enn tekjur Fiskveiðasjóðs. En hér er úr vöndu að ráða, því það þarf óhjákvæmilega að útvega fjármagn til að standa undir þeim greiðslum sem gert er ráð fyrir í þessu frv. og frv. sem því fylgir og hefur verið til umr. fyrr á fundinum. Ég viðurkenni að hér er um svo mikið vandamál að ræða, að það verður að reyna að leysa þennan vanda, og fellst því á að gera það á þann hátt sem lagt er til í þessu frv.

En þó að illt sé að þurfa að skerða tekjur Fiskveiðasjóðs á þann hátt sem lagt er til, er þó hægt að bæta úr því að nokkru leyti með því að tryggja Fiskveiðasjóði á þessu ári jafnmikið fjármagn að láni og lagt er til að taka af honum með þessu frv., þannig að umsvif hans og lánveitingar geti orðið jafnmiklar og gert var ráð fyrir í lánsfjáráætlun. Ég tel fyrir mitt leyti alveg fráleitt að semja lánsfjáráætlun fyrir fáum mánuðum og koma síðan með till. um að ætla að raska þeirri lánsfjáráætlun varðandi jafnþýðingarmikinn stofnlánasjóð og hét er um að ræða, þar sem Fiskveiðasjóður er. Ég vil því að staðið verði við það, sem gert er ráð fyrir í lánsfjáráætluninni, og Fiskveiðasjóður hafi fjármagn að því magni til, sem gert var ráð fyrir í lánsfjáráætlun, til starfsemi sinnar. Ég mun því beita mér fyrir því, þegar kemur að afgreiðslu lánsfjáráætlunar, að gert verði ráð fyrir því, að Fiskveiðasjóði verði útvegað lán sem þessari fjárhæð nemur og þannig verði staðið við lánsfjáráætlunina. Mér er ljóst að Fiskveiðasjóður stendur auðvitað ekki jafnréttur eftir sem áður þó að það verði gert. Hann hefur misst samkv. þessu frv. eigin tekjur, en fengið í staðinn lánsfé til að geta staðið undir verkefnum sínum. En ég tel það svo mikilvægt, að Fiskveiðasjóður hafi a. m. k. það fjármagn til starfsemi sinnar, sem gert var ráð fyrir í lánsfjáráætlun, að ég mun beita mér fyrir því, þegar kemur að afgreiðslu lánsfjáráætlunar, að úr þessu verði bætt á þann hátt að Fiskveiðasjóður fái lánsfé sem þessu fjármagni nemur sem nú á að taka af.