05.03.1979
Neðri deild: 59. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2955 í B-deild Alþingistíðinda. (2349)

148. mál, orlof

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir d. frv. til l. um breyt. á l. um orlof. Eins og fram kom hjá hæstv. félmrh. hefur verið haft samband við bæði Seðlabankann og póst- og símamálastjórnina, en það er einmitt hún sem ávaxtar orlofsfé það sem þeir launþegar eiga rétt á sem ekki eru í fastri vinnu, eins og allir vita.

Ég vil ekki láta hjá líða þegar við 1. umr. málsins að gera grein fyrir skoðunum mínum á þessu máli, en þær eru, að það beri að leggja niður það orlofskerfi sem hér hefur gilt um nokkra áratugi. Ég held að það sé kominn tími til þess að orlof sé greitt út beint á laun þeirra manna sem ekki eru fastráðnir. Það er eina tryggingin fyrir því að réttlæti geti verið í þessu máli.

Mér er kunnugt um að það eru ýmis mótrök gegn þessum sjónarmiðum og þau eru þá helst að halda beri eftir af launum starfsmanna sem nemur orlofsfénu til þess að starfsmenn taki örugglega orlof á þeim tíma sem heppilegast þykir. Ég vil benda á að í nútímaþjóðfélagi, þar sem ýmislegt keppir um laun launamannanna, velja menn á milli þess, hvort þeir fara í orlof, kaupa sér litsjónvarpstæki, bifreið eða hvað annað sem menn geta fengið fyrir peninga sína. Ég bendi jafnframt á að varðandi vextina er það engin lausn þótt vextir af þessu fjármagni fari upp í 10% á meðan verðbólgan er á því stigi sem hún er hér á landi. Að sjálfsögðu eiga launþegarnir að fá þessa peninga til sín beint, síðan eiga þeir og geta ávaxtað sína peninga. Til mála kemur að það gerist þá með hjálp lífeyrissjóðakerfisins þannig, að allir eigi rétt á því að leggja þessa peninga sína til hliðar inn í lífeyrissjóðakerfið og fá þá síðan verðbætta. Það er öllum ljóst, að þegar fastir starfsmenn taka sér leyfi fá þeir leyfið útborgað í frídögum og það þýðir að þeir fá það útborgað í þeim launum sem eru í gildi þegar fríið er tekið. Lausráðnir starfsmenn, sem aftur á móti fá orlofsfé, verða kannske að una því að orlofsféð sé geymt mánuðum saman, 8–9–10 mánuði, á 5% vöxtum, en nú á það að hækka upp í 10% og samt sem áður kemur fram að það kostar Póst og síma tugi milljóna að halda úti þessari starfsemi. Ég spyr því: Er ekki kominn tími til þess að við breytum þessu kerfi, að við látum þá, sem eiga þessa peninga, launþegana sjálfa, um að ávaxta sitt fé, en reyna frekar að finna út hvar og hvernig þeim býðst best tækifæri til þess að svo geti orðið, t. d. í samvinnu við lífeyrissjóðina eða aðra aðila?

Ég vil þess vegna eindregið hvetja til þess að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, kanni rækilega hvort við eigum ekki kost á betra kerfi fyrir þann fjölda launþega sem þarf að una þeirri vitleysu sem nú viðgengst í þessu kerfi. Ég skora þess vegna á þá menn, sem fá þetta mál til meðferðar, að skoða það með opnum huga og spyrja um leið hvort við getum ekki sparað ríkinu útgjöld og aukið möguleika á því að þeir starfsmenn, það launafólk sem verst er sett, geti fengið meira út úr sínum fjármunum með því að treysta því sjálfu fyrir því að ávaxta sitt pund og með því að leita leiða sem gefa þessu fólki tækifæri til að fá orlofsféð verðbætt, eins og allt fast starfsfólk í landinu fær í raun.