05.03.1979
Neðri deild: 59. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2969 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að taka þátt í þessum miklu almennu umr. um efnahagsmál sem fram hafa farið, þó að kannske væri freistandi að fara út í það. Ég er ekkert að lá mönnum það, þó þeir fari út í slíkar almennar umr. þegar þetta mál er til umr., því að vissulega er þetta mál eitt af hinum meiri háttar atriðum í sambandi við efnahagsmálastefnu ríkisstj. En ég mun samt sem áður ekki fara út í neinar almennar umr. um þetta. Ég vil aðeins geta þess, að ég er í flestum meginatriðum sammála þeirri stefnu sem fram kemur í því frv., sem hér liggur fyrir og eins og hæstv, fjmrh. hefur túlkað það, og ætla þess vegna ekki að fara út í almennar umr. um það.

Hitt er annað mál, að í þessu frv. eru auðvitað mörg einstök atriði sem bæði ég og margir aðrir sjálfsagt mundu vilja gera aths. við. Ég hef sérstaklega hugsað mér að ræða eitt atriði sem ég finn í skýrslunni sem fylgir þessu frv., skýrslu ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1979, en þetta atriði, sem ég ætla að tala um, er í sambandi við Kröfluvirkjun.

Það kemur fram á bls. 10 í þessari skýrslu um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, að ekki er fyrirhugað af ríkisstj. hálfu að láta bora frekari vinnsluholur fyrir Kröfluvirkjun. Segir beinlínis í skýrslunni, að frekari framkvæmdum við Kröfluvirkjun verði slegið á frest og eingöngu fylgst með þróun svæðisins næstu tvö árin. Nú er það svo með þetta mál og borunina við Kröflu, að það er svo sannarlega búið að vera mikið og erfitt mál og það er mikið búið að ræða um þessi mál og menn hafa sannarlega ekki verið á eitt sáttir um hverjar ástæður liggi til þess, að svo erfiðlega gekk með borun vinnsluholanna við Kröflu. Ég skal ekki fara mikið út í þetta, en vil þó aðeins í fáum almennum orðum segja að ástæðan til þess, að svo hefur farið, er fyrst og fremst sú, að þeir, sem stóðu að borunarframkvæmdunum, voru naumast nógu vel að sér í þeim verkefnum sem þeir höfðu tekið að sér. Nú eru þeir reynslunni ríkari og það er búið að fara mikið ofan í þessi mál. Ég hygg að segja megi að það sé þegar búið að ná þeim tökum á borunartækninni við Kröflu sem nauðsynlegt er til þess að árangur náist. Þess vegna finnst mér satt að segja að það sé dálítið vafasamt og einkennilegt við þessar aðstæður, þegar menn eru loksins búnir að átta sig á hvernig á að bora við Kröflu, þegar þeir menn, sem við treystum til þeirra hluta í upphafi, en því miður kunnu illa verk sitt, eru loksins búnir að átta sig á því, hvernig þetta eigi að gerast, — þá finnst mér mjög vafasamt að það sé verið að slá á frest frekari borun við Kröflu. Þetta er sú aths. sem ég vildi gera við þessa skýrslu og við þessa lánsfjáráætlun. Ég hef því í hyggju að flytja brtt. við þetta frv, um þetta mál. Brtt. verður efnislega um það, að tekið verði lán að upphæð 660 millj. kr. til þess að bora tvær vinnsluholur á Kröflusvæðinu. Ég skal fara um þetta nokkrum orðum.

Það hafa, eins og menn vita, verið boraðar alls 10 vinnsluholur á Kröflusvæðinu og 5 af þessum holum eru virkar og tengdar við gufuveituna. Það má auðvitað segja að þessar 5 vinnsluholur hafi ekki skilað þeim árangri sem vænst var í upphafi, en þær eru eigi að síður virkar og tengdar við gufuveituna. Heildarmagn háþrýstigufunnar, sem kemur frá þessum holum, er 91.6 tonn á klst., en það er um 45.4% þess gufumagns sem þarf til þess að framleiða 30 mw. af orku eins og nú er stefnt að og vélakostur virkjunarinnar annar.

Þannig er, eins og oft hefur verið um rætt og margir þekkja orðið, eðli jarðhitasvæðisins við Kröflu háttað, að innstreymið í horholurnar kemur frá tveimur aðskildum og ólíkum innstreymiskerfum. Efra innstreymiskerfið nær frá um það bil 300 m dýpi niður á 1200 m dýpi. En þetta innstreymiskerfi er hins vegar aðeins 220° heitt. Þess vegna hefur efra kerfið reynst óhagkvæmt til orkuvinnslu. Þetta kom í ljós þegar farið var að vinna á Kröflusvæðinu, en þetta var jarðfræðingunum ekki ljóst áður en farið væri út í þessa virkjun, nema síður væri, heldur töldu þeir að efra innstreymiskerfið væri nýtanlegt og það jafnvel til bóta að hafa þessi tvö kerfi. Neðra innstreymiskerfið er aftur á móti miklu neðar, en er miklu heitara og er það kerfið sem er fyrst og fremst nýtanlegt.

Ég hef talað um vandamál gufuöflunar við Kröfluvirkjun og bent á að fyrst og fremst ollu því bortæknilegar ástæður og ýmis vanþekking á eðli svæðisins, sem þar kom í ljós. En nú eru menn sannarlega reynslunni ríkari, og þess vegna held ég að ekki sé rétt að hörfa frá því að halda áfram borunum á Kröflusvæðinu.

Ég ætla að víkja svolítið að því sem varðar rannsóknir á virkjunarþörf næstu ára. Það hefur komið fram í ýmsum rannsóknum um virkjunarþörf næstu árin, að árin 1979–1982 og aftur 1985–1987 verða mjög erfið hvað snertir fullnægingu orkuþarfar landsmanna. Svo að úr þessu geti ræst þarf að koma til afl af svipaðri stærð og vélakostur Kröfluvirkjunar getur framleitt, eða 30 mw. Þetta afl þarf að vera óháð árstíma og veðurfarsbundnum áhrifum til þess að nýtast að fullnustu. Sá innlendi orkugjafi, sem best fullnægir þessu skilyrði, er jarðvarminn.

Eins og mál standa nú er orkuvinnslugeta Norðurlands og Austfirðingafjórðungs langt undir orku- og aflþörf þeirra. Byggðalínan er því líflína þessara landshluta hvað raforku snertir. En slitni byggðalínan í einhverjum illviðriskaflanum, t. d. á Holtavörðuheiði eða á Öxnadalsheiði, er hvorki nægjanleg raforka fyrir hendi á Norður- né Austurlandi, þótt allar tiltækar dísilstöðvar væru keyrðar. Háspennulínan frá Laxárvirkjun er orðin mjög gömul og ótrygg og gerir öryggi Norðurlands í bilanatilfellum mjög ábótavant. Hagkvæmasta trygging fyrir öryggi í rafmagnsmálum Norður- og Austurlands er áframhaldandi borun við Kröflu.

Borun tveggja borhola fyrir Kröfluvirkjun á því sumri, sem er að koma, og tenging þeirra næsta haust er nauðsynleg til þess að tryggja nægjanlegt viðbótarafl í tæka tíð. Kostnaður við framkvæmd þessa er nú áætlaður um 660 millj. kr. og mundi gefa aflaukningu, sem er allt að því 10 mw., sem þýðir að virkjunin færi þá að skila a. m. k. 18–19 mw.

Ég vil benda á að það er mikil áhætta tekin með rekstri byggðalínunnar til Austurlands með aðalinnkeyrslu aflsins á Suðurlandi eins og nú er. Miklar spennusveiflur eru þessu samfara og í bilunartilfellum, sérstaklega á miklum álagstímum, er mjög hætt við að spennusveiflur verði illviðráðanlegar og valdi skemmdum á rafbúnaði. Þannig er Kröfluvirkjun nauðsynleg til tryggingar nauðsynlegum rekstri á Austurlínu og það hefur þegar sýnt sig. Keyrsla umtalsverðs afls frá virkjuninni og inn á línuna gerir allar spennustillingar mun auðveldari, auk þess að rekstur byggðalína verður bæði öruggari og fjárhagslega hagkvæmari.

Það hefur komið fram í sambandi við orkuþörfina, og einkum orkuþörf Austurlands, að það eru þrír valkostir nú fyrir hendi til þess að tryggja viðbótarorkuþörf fyrir Austurland innan þeirra tímamarka sem nauðsynlegt er. Í fyrsta lagi er það að ljúka hringlínu frá Hryggstekk í Skriðdal að Sigöldu. Stofnkostnaður er um það bil 10 milljarðar kr. Annað er að hækka stíflu Laxárvirkjunar og lagning háspennulínu frá Laxárvirkjun í Kröflu. Stofnkostnaður þar er um 3000 millj. kr. En við vitum að þetta mál er reyndar úr sögunni og kemur ekki til greina. Slík hækkun á stíflu Laxárvirkjunar er ekki til umræðu og því held ég að flestir alþm. geri sér grein fyrir. En þá kemur til gufuöflun til að koma fyrri samstæðu Kröfluvirkjunar í full afköst, en stofnkostnaður þar er 3.2 milljarðar kr. Þannig er síðasti kosturinn, sem ég er að tala um, greinilega hagkvæmastur þegar litið er á allar hliðar málsins, þ. e. að halda áfram borun við Kröflu og koma virkjunarsamstæðunni þannig fyrir, að hún geti farið að framleiða a. m. k. 30 mw. Þess vegna, eins og ég hef sagt, mun ég leggja til að tekið verði lán á þessu ári til borunarframkvæmda við Kröflu, 660 millj. kr., og mun flytja formlega brtt. um það efni.

Í sambandi við þessi borunarmál þykir mér rétt að minnast á verkefni stóru boranna, sem eru Dofri og Jötunn, en samkv. ummælum orkumálastjóra virðist vera mjög lítið um verkefni fyrir hina stóru bora, Dofra og Jötunn, á þessu ári og e. t. v. á næsta ári líka. Verkefnin, sem virðast vera fram undan, eru að bora eina holu í Bjarnarflagi í Mývatnssveit og eina holu í Svartsengi. Orkumálaráðh. hefur lýst yfir því, og það kemur einmitt fram í þeirri skýrslu sem ég var að vitna til áðan og fylgir þessu frv., að það verði ekki borað við Kröflu, en þetta þýðir að stóru borarnir verða afhafnalausir eða athafnalitlir næstu tvö ár e. t. v. Áhrifin á rekstrarafkomu boranna verða mjög neikvæð fyrir þetta. Það verður að segja upp hluta af starfsliði Jarðborananna, sem hefur áreiðanlega mjög slæm áhrif á tæknilega stöðu þess fyrirtækis, og kostnaður við stóru borana tvo minnkar ekki nema að litlu leyti þegar þeir eru ekki í notkun, vegna þess — ég hef um það upplýsingar — að fastakostnaður Jötuns er um það bil 200 millj, kr. á ári að viðbættum launakostnaði. Það þarf að hafa a. m. k. 5 fasta menn við borinn og auk þess kemur til geymslukostnaður, þannig að allur fastakostnaður Jötuns er álitinn vera um það bil 250 millj. kr.

Þetta er það sem ég vildi segja einkum í sambandi við þann tillöguflutning, sem ég hef boðað, um að leggja til að 660 millj. verði varið til borana við Kröflu. Ég hef líka í höndum bréf frá Orkustofnun — það er til iðnrn. — dags. 7. 2. M. a. segir, með leyfi hæstv. forseta, orðrétt í þessu bréfi:

„Með hliðsjón af þeirri stöðu, sem Kröfluvirkjun er nú komin í vegna þess að lítið sem ekkert hefur verið horað þar undanfarin ár, hefur Orkustofnun tekið til gagngerðrar athugunar vænlegustu leiðir til að sjá fyrir raforkuöflun landsmanna fram til aldamóta og þátt Kröfluvirkjunar í þeim, svo og hvaða hlutverki Bessastaðaárvirkjun, báðir áfangar, gæti þar gegnt á hagkvæman hátt. Og niðurstöður þessarar athugunar má draga saman þannig„.“ Það er gert hér í dálitlu máli og ég les meginniðurstöðuna úr því. Þar segir í fyrsta lagi, að .,miðað við orkuspá A frá orkuspárnefnd ber að halda áfram borunum í suðurhlíðum Kröflu af fullum krafti fram til 1980, þ. e. 4 holur á ári.“ Og einnig segir: „Miðað við sömu orkuspá eru ekki kostnaðarleg eða rekstrarleg rök fyrir því að reisa Bessastaðaárvirkjun fyrir 1990 og líklega ekki fyrir aldamót.“

Í þessu bréfi kemur því fram hjá Orkustofnun, að það er vænlegur kostur að halda áfram borun hjá Kröflu, bora tvær holur a. m. k, á þessu ári og hinu næsta. Aftur á móti telja þeir að Bessastaðaárvirkjun sé mjög óvænlegur virkjunarkostur og langt í það að hagkvæmt verði að virkja í þeirri á.

Í þessu bréfi Orkustofnunar segir enn fremur orðrétt í kafla sem heitir: „Athugun á stöðu Kröfluvirkjunar í röð virkjunarframkvæmda til aldamóta“ — með leyfi hæstv. forseta:

„Sem fyrr segir hefur Orkustofnun tekið til gagngerðrar athugunar á hvern hátt heppilegt væri að fella framhald Kröfluvirkjunar inn í væntanlega virkjanaröð allt fram til aldamóta. Í því skyni hefur hún í fyrsta lagi látið gera áætlun um kostnað við lúkningu Kröfluvirkjunar og um rekstrarkostnað hennar miðað við mismunandi forsendur um borunarárangur og endingartíma horhola. Upplýsingar um stöðvarhúshlutann í þessum kostnaði eru fengnar frá ráðgjafarverkfræðingum Kröflunefndar með munnlegu leyfi framkvæmdastjóra hennar.“

Þá hefur Orkustofnun látið gera samanburð á heildarkostnaði fram til aldamóta við að sjá fyrir raforkuþörf landsmanna samkv. orkuspá um það frá orkuspárnefnd eftir mismunandi leiðum, og síðan er vísað í fskj. Að því er Kröflu varðar eru tekin þrjú tilvik til athugunar: Að frekari borunum við Kröflu sé alveg hætt eftir árslok 1978, en virkjunin rekin áfram til 1980, er Hrauneyjafossvirkjun tekur til starfa, en rekstri hennar þá hætt. Að borun verði haldið áfram af krafti í suðurhlíðum Kröflu sumarið 1980, en síðan hætt alveg. Að orkuverið verði rekið fram til 1986, en rekstri þess þá hætt. Og í þriðja lagi verði borunum haldið áfram af krafti þar til stöðin skilar 70 mw. afli og vinnsluholur verði boraðar eftir þörfum til þess að halda þeim afköstum og stöðin rekin til frambúðar.

Þannig mætti vísa í mörg atriði fleiri í þessu bréfi frá orkumálastjóra. En það er sem sagt meginniðurstaðan í þessu sambandi, sem ég vil vitna til, að orkumálastjóri telur eðlilegt og hagkvæmt að borunum verði haldið áfram við Kröflu í sumar. Með vísan til þessa vil ég gera aths. við það sem segir í skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun. Ég tel að það eigi að halda vinnu áfram með þeim hætti sem lagt hefur verið til, reyndar bæði af iðnrn., Orkustofnun og af Rafmagnsveitum ríkisins nú, sem hafa tekið við rekstri og framkvæmdum við Kröflu. Ég mun því flytja formlega brtt. í þessa átt.