06.03.1979
Sameinað þing: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2986 í B-deild Alþingistíðinda. (2365)

40. mál, bann við kjarnorkuvopnum á íslensku yfirráðasvæði

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Hér er till. til umr. sem felur í sér að sett verði löggjöf er banni veru kjarnorkuvopna í landinu og umferð kjarnorkuvopna um íslenskt yfirráðasvæði. Einnig hafa blandast inn í þessar umr. þær getgátur, hvort kjarnorkuvopn séu nú þegar í landinu eða ekki. Þetta er raunverulega kjarnaspurningin og meginmálið og þurfa að fást skýr svör um það, hvort kjarnorkuvopn séu í landinu eða ekki.

Það er dálítið furðulegt að eftir allar þær umr., sem hafa farið fram um það hvort kjarnorkuvopn séu í landinu eða ekki, hafi ekki verið gengið í það í eitt skipti fyrir öll, af fyrrv. hæstv. utanrrh. t. d., að ganga úr skugga um hvort kjarnorkuvopn séu í landinu eða ekki. Það er eins og þetta sé eitthvert feimnismál. Það verður að ganga hreint til verks, spyrja bandarísk yfirvöld að því, hvort hér séu kjarnorkuvopn, og láta fara fram sjálfstæða rannsókn. Þetta þarf að gera. Það er dálítið skrýtið að það skuli ekki hafa verið gert enn þá. En umr. um þessi mál stendur enn þá í sömu sporunum og þegar hún var hafin, ekkert nýtt hefur raunverulega komið fram, gömlu ræðurnar haldnar aftur og aftur og getgátum vex fylgi. Það er meginmálið.

Ég hefði nú óskað þess að núv. hæstv. utanrrh. gæfi um það yfirlýsingu hér og nú að ganga fram í því að fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hvort kjarnorkuvopn séu á Keflavíkurflugvelli eða ekki. Þess vegna spyr ég hæstv. utanrrh., hvort hann sé tilbúinn að gefa yfirlýsingu í þinginu í dag um að beita sér fyrir því af öllum mætti að ganga úr skugga um hvort þessi vopn séu á Keflavíkurflugvelli eða ekki. Það er löngu kominn tími til þess, að lagðar verði einhverjar sannanir á borðið um að kjarnorkuvopn séu ekki á Keflavíkurflugvelli. Það getur enginn ásakað okkur, sem höldum því fram að það geti e. t. v. verið kjarnorkuvopn á þessum stað, fyrir að halda fram þeirri skoðun á meðan ekki liggja fyrir sannindi um að ekki séu kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli.

Hæstv. utanrrh. o. fl. tóku undir þá skoðun, að menn væru yfirleitt sammála um að ekki ættu að vera kjarnorkuvopn í landinu. En kann nú ekki að vera að þeir fyrirfinnist, jafnvel hér á hv. Alþ., sem ákafastir eru um áframhaldandi hersetu, að varnirnar séu sem öflugastar hverju sinni og að fullkomnasta herútbúnaði sé beitt til varnar, til eftirlits og til árásar, vegna þess að í vörnum felst líka ákveðið árásargildi? Það kann að vera að þessir menn fyrirfinnist utan þings sem innan, og það er ekkert óeðlilegt að ætla sem svo, að þeir menn, sem vilja áframhaldandi hersetu, leggi áherslu á að hersetan þjóni þeim tilgangi að varnirnar séu sem fullkomnastar og að vopnin, sem til þess þarf, séu sem fullkomnust. Er óeðlilegt að ætla að það sé krafa þeirra sem vilja fylgja öflugri áframhaldandi hersetu? Þess vegna held ég að ekki þurfi endilega allir að vera sammála um að ekki sé nauðsyn á kjarnorkuvopnum á Keflavíkurflugvelli, svo framarlega sem herstöðin á að fullnægja óskum þeirra manna, sem vilja áframhaldandi hersetu, um að standa sig miðað við þróun vopnabúnaðar í heiminum á undanförnum árum.

Hæstv. utanrrh. ætlaði að reyna að sætta okkur hv. alþm. við þá skýringu, að kjarnorkuvopn væru svo erfið í meðförum, þyrftu á svo mikilli gæslu og eftirliti að halda, að það væri ekki hægt annað en verða kjarnorkuvopna vör á Keflavíkurflugvelli, miðað við hvað vallatsvæðið væri allt opið fyrir frjálsri umferð Íslendinga og annarra. Ekki skal ég segja um hversu mikillar gæslu kjarnorkuvopn krefjast. En eitt veit ég, að á Keflavíkurflugvelli eru svæði, sem er gætt mjög gaumgæfilega og engir Íslendingar fá tækifæri til að fara inn á. Og það vita menn einnig suður á velli, þeir sem þar vinna, að varningur, sem flugvélar hersins flytja, þarfnast mismunandi strangrar gæslu vegna meðferðar þess varnings sem flugvélarnar koma með hingað til landsins, og stundum er mjög strangrar gæslu krafist. Þessi rök um að almenn gæsla sé svo lítil á Keflavíkurflugvelli, en þurfi að vera ströng til þess að fullnægja reglum um eftirlit með kjarnorkuvopnum, þar sem þau eru, eru því léttvæg í eyrum okkar sem eitthvað þekkjum til suður á Keflavíkurflugvelli. Þannig held ég að sé ástæða til að ganga nú fram í því og upplýsa það í eitt skipti fyrir öll, hvort þessi vopn séu þarna eða ekki.

Að síðustu vil ég benda á það, að hræðsla stjórnvalda við að ganga fram í málinu gefur getgátunum byr undir báða vængi. Það hlýtur vissulega að vera krafa þjóðarinnar hverju sinni að fá í megindráttum upplýsingar um það, hvað herstöð felur í sér og hvaða hættur og hvaða öryggisleysi þeir verða að þola sem í nálægð herstöðvarinnar búa. Þetta er sjálfsagt lýðræðismál, réttlætismál, ef við ætlum okkur að geta veitt eðlilega lýðræðisþjónustu í þessu landi. Þess vegna vil ég skora á hæstv. utanrrh. að gefa nú yfirlýsingu um það, að hann vilji ganga fram í því að upplýsa þetta mál, þannig að ekki þurfi í framtíðinni að gagnrýna stjórnvöld á sama hátt og áður fyrir feimni og hræðslu við að afla þeirra upplýsinga sem Alþ. og þjóðin öll á kröfu á að fá.