06.03.1979
Sameinað þing: 62. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3000 í B-deild Alþingistíðinda. (2371)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fyrir mörgum árum — á blómaskeiði stjórnar Sjálfstfl. í Reykjavík — sagði þekktur embættismaður borgarinnar að þegar þeir væru allir sammála í borgarstjórn væri það um mál sem annaðhvort væri helber vitleysa eða kostaði stórfé.

Á þessu þingi hafa ýmsir haft á orði að Sjálfstfl. hlyti að vera í felum, svo litlir hafa tilburðir hans í stjórnarandstöðu verið. En nú hafa þm. hans allir sem einn komið fram í dagsljósið og flutt í einingu andans næsta óvenjulega till. um þingrof og nýjar kosningar. Það má segja um þetta mál eins og þau sem þeir voru allir sammála um í borgarstjórninni forðum, að það er bæði fráleitt og mundi verða rándýrt fyrir þjóðina.

Sjálfstfl. er enn þá sundurtættur eftir síðustu kosningar og þar eru linnulaus innri átök um forustu og stefnu, en hvort tveggja vanhagar flokkinn um. Sem stjórnarandstaða hefur flokkurinn brugðist því hlutverki að leggja fyrir þingið aðra kosti, aðra stefnu en ríkisstj. hefur fylgt. Það á svo að heita að Sjálfstfl. hafi nýlega birt nýja efnahagsstefnu, en hún bráðnaði og gleymdist eins og snjókorn í sólskini, enda hafði hún engin ný úrræði fram að færa, ekkert nema almenn slagorð, eins og formaður Sjálfstfl. las, — slagorð sem ekki geta leyst vanda þjóðarinnar í dag eða næstu mánuði. Hið versta við till. sjálfstæðismanna um þingrof og kosningar er þó það ótrúlega ábyrgðarleysi að ætla sé að skilja efnahagslífið eftir stjórnlaust fram á sumar, hleypa verðbólgunni lausri í marga mánuði. Það mundi reynast dýrkeypt.

Áður en gengið var til kosninga í fyrravor gaf Alþfl. út samandregna stefnu sína í efnahagsmálum í aðgengilegu formi. Bar hún heitið „Gjörbreytt efnahagsstefna“ og undirheitið „Aðgerðir til frambúðar“. Stefnan var í bláum bæklingi dregin saman í 10 atriði og er þar að finna meginhugmyndir flokksins um baráttuna gegn verðbólgunni, fyrir fullri atvinnu, auknu félagslegu jafnrétti og öðru því sem jafnaðarmönnum er hjarta næst í þessum efnum.

Ekki veit ég hvort margir kjósendur hafa geymt þennan litla pésa, en hitt get ég sagt ykkur, að hann sést oft á fundarborði þingflokks Alþfl. um þessar mundir. Hinir nýkjörnu fulltrúar Alþfl. á Alþ. hafa ekki gleymt því sem þeir sögðu fyrir kosningar. Það hefur verið kjarninn í starfi þingflokksins í allan vetur að standa við orð sín og heit.

Enginn vafi er á að verðbólgan er við hlið fiskveiðistefnunnar langalvarlegasta vandamál sem íslenska þjóðin á við að stríða. Eyðilegging verðmætustu fiskstofna getur sett efnahag okkar í rúst. Það skilja allir. En þetta getur óðaverðbólgan ekki síður gert, og hún er að því leyti hættulegri að hún grefur undan siðferði þjóðarinnar og gerir íslenskt þjóðfélag spilltara með hverju ári sem líður.

Við höfum lengi búið við nokkra verðbólgu, og þjóðin hefur lært að laga sig að henni, jafnvel verjast henni af mikilli kænsku, en slíkar varnir einstaklinganna eru alltaf á kostnað heildarinnar. Það var því slæmt að þola 10% verðbólgu árum saman, en síðustu 4–5 ár hefur verðbólgan verið 40–50% — og það er annar handleggur.

Slík óðaverðbólga getur valdið því, að rekstur fyrirtækja siglir í strand og framleiðsla þeirra verður ekki samkeppnisfær, svo að afleiðingin verður stórfellt atvinnuleysi. Bráðabirgðaráðstafanir, sem ríkisstj. hefur gert öðru hverju síðustu 6 mánuði, hafa yfirleitt verið við það miðaðar að hindra slíka óheillaþróun, að halda fyrirtækjunum gangandi og tryggja atvinnu fólksins, enda þótt þetta hafi því miður oftast verið skamma stund í senn.

Óðaverðbólgan býður einnig heim stórfelldu verðbólgubraski, svo stórfelldu að eldri reynsla okkar bliknar við hlið þess, og hún leiðir til hrikalegra misréttis meðal þegnanna en við höfum þekkt um aldir.

Af öllu þessu, sem ætti að vera alkunna, er ljóst að ríkisstj. verður að setja það markmið ofar öllu öðru að draga verulega úr verðbólgunni án þess að til atvinnuleysis komi. Þeir stjórnendur, sem ekki viðurkenna þetta höfuðmarkmið, leiða þjóðina út í ógöngur.

Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna, sem þeir gáfu út við myndun ríkisstj., eru tveir meginkaflarnir að sjálfsögðu um efnahagsmálin. Hinn fyrri fjallar um bráðabirgðaráðstafanir sem voru að mestu gerðar 1. sept. Síðari kaflinn heitir „Breytt efnahagsstefna“ og er þar horft lengra fram um veg. Í þeim kafla eru með öðru langflest þeirra atriða sem sett voru fram í þeirri yfirlýsingu Alþfl. sem ég áðan nefndi.

Höfuðerfiðleikar núv. stjórnarsamstarfs hafa verið að stjórnin hefur viljað festast í endurteknum bráðabirgðaráðstöfunum eða átt erfitt með að ná sér á braut hinnar breyttu efnahagsstefnu sem lofað var við myndun ríkisstj. Þarna hefur Alþfl. komið til sögunnar og spyrnt fast á móti. Flokkurinn hefur reynt að gera það lýðum ljóst, að hann muni ekki standa að sífelldum bráðabirgðaúrræðum á þriggja mánaða fresti, eins og þau vilja koma hér á landi, með þeirri afleiðingu að óðaverðbólgan haldist að öllum líkindum óbreytt og þjóðin hjakki þegar til lengdar lætur í sömu förunum.

Um þetta hafa vissulega staðið átök síðustu þrjá mánuði, þó margvíslegur árangur hafi náðst í starfi stjórnarinnar á ýmsum sviðum. Smám saman hefur Alþfl. tekist að ná árangri og knýja fram mótun heilsteyptrar efnahagsstefnu sem mundi að bestu manna yfirsýn færa verðbólgu ársins 1979, sem nú er að líða, niður í 30% og síðan lengra niður. Þessi barátta Alþfl. hefur verið háð með öllum ráðum, því skal ég ekki neita, upphlaupum á Alþ., stórum orðum í ræðum og fjölmiðlum og stundum hefur skapast hálfgert ófriðarástand milli stjórnarflokkanna þegar hinir flokkarnir eða a. m. k. annar þeirra hefur svarað í sömu mynt. En baráttan hefur líka verið háð með málefnalegri vinnu, samningu veigamikils efnahagsfrv., samningu fjölda tillagna, með löngum viðræðum og sáttfýsi þegar aðrir hafa lagt fram skynsamlegar hugmyndir. Ágreiningur þessi innan stjórnarflokkanna hefur málefnalega verið langmestur milli Alþfl. og Alþb., eins og ljóst er af umr. Hins vegar virðast leiðir Alþfl. og Framsfl. í þessum efnum geta legið saman í mjög veigamiklum atriðum.

Það hefur verið samhengi í atburðarás þeirri sem leitt hefur til atburða undanfarinna daga. Þegar hinn 1. des. knúði Alþfl. fram veigamikla stefnuyfirlýsingu af hálfu ríkisstj. og hefði eftirleikurinn verið léttur ef allir hefðu fengist til að standa hiklaust við þá yfirlýsingu. Þá lagði Alþfl. fram heilsteypt frv, sem þingflokkurinn hafði lagt í mikla vinnu, og markaði það verk tímamót í málinu. Slík heildaráætlun um hagstjórn í landinu, um yfirstjórn efnahagsmálanna hefur ekki sést hér á landi síðan í upphafi viðreisnarinnar 1960.

Forsrh. sýndi skilning á þessu máli, og við afgreiðslu fjárl. gaf hann yfirlýsingu um að hann mundi láta semja slíkt heildarfrv. þegar eftir áramót. Ráðherranefnd undirbjó málið, en forsrh. setti saman frv. sem deilur hafa nú snúist um í tæplega mánuð.

Alþfl. hefur frá öndverðu stutt þetta frv. forsrh. Við teljum það vera gott og skynsamlegt frv. miðað við allar aðstæður og þau verkefni sem verður að leysa. Það er sett til höfuðs verðbólgunni og óbreytt hefði það getað náð því marki að koma henni niður í 30% á árinu sem er að líða.

Alþb. hefur hins vegar snúist ótrúlega önugt gegn frv., og mætti á stundum ætla af málflutningi forustumanna þess, að sá flokkur hefði hvorki alvarlegan áhuga á baráttu við verðbólgu né skynsamlegum áætlunarbúskap, sem ætlunin er að heita, og setti e. t. v. önnur markmið ofar.

Forsrh. hefur til þessa leikið hlutverk sáttasemjara og lagt fram allmikinn fjölda af brtt. við frv, sitt til að reyna að koma á samkomulagi. Alþfl. hefur enn sýnt sáttfýsi og gengið að mörgum till. ráðh., en nokkrar þeirra, sem snerta veigamikil atriði að okkar hyggju, samþykkjum við ekki. Afstaða þingflokks Alþfl. liggur þar algjörlega ljós fyrir.

Efnahagsfrv. er það sem kallað er „bandormur“, af því að það fjallar um margvíslega og mismunandi málaflokka, sem þó hafa það sameiginlegt að snerta allir baráttuna við verðbólguna á Íslandi. Í hinum venjulegu bráðabirgðalausnum á þriggja mánaða fresti, sem Íslendingar hafa kynnst mörg undanfarin ár og ekki eiga að neinu leyti sérstaklega við síðasta hálfa ár, hefur yfirleitt öll deila snúist um kaupið sem launþegarnir eiga að fá. Með því heildarfrv., sem nú liggur fyrir, kemur glöggt í ljós að ráðstafanir eru einnig gerðar á sviði peningamála, ríkisfjármála, vaxta, bankastarfsemi, fjárfestingar og raunar mörgum fleiri sviðum. Það eru settar skrúfur á fjölmarga aðra en launþega. Það er ætlunin að enginn sleppi við að taka einhvern þátt í þessari baráttu. Rétt er þó að segja — og segja það svo að enginn geti misskilið — að frv. gerir ráð fyrir að allir aðilar í þjóðfélaginu: einstaklingar, fyrirtæki, sjóðir, bankar og opinberar stofnanir — verði að færa verulegar fórnir ef við ætlum að ná þeim árangri, sem við höfum sett okkur, og koma verðbólgunni jafnlangt niður og við óskum á þessu ári og væntanlega hinum næstu.

Ríkisstj. hét í upphafi að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins, og það hefur hún gert. Fjölmargar álitsgerðir hafa borist og verður án efa mikið tillit tekið til þeirra við meðferð málsins. En það verður að segjast eins og er, að engin þessara samtaka bjóðast til að taka á sig fórnir eða veita samþykki fyrir þeim. Við því er e. t. v. ekki hægt að búast. En að höfðu samráði við aðila reynir því meira á stjórnmálamennina. Þeir verða að gera upp við sig, hvort þeir ætla að stjórna landinu og gera það, sem þeir sjálfir telja óhjákvæmilegt, í samráði við þá, sem þeir vilja ráðgast við til að ná settum markmiðum í baráttunni við verðbólguna, og þá e. t. v. treysta því, er þeir hafa tekið tillit til ýmissa till. frá samráðsaðilum, að þessi hagsmunasamtök vinnumarkaðsins umberi úrræðin þótt þau samþ. þau ekki formlega.

Alþingi Íslendinga stendur nú frammi fyrir slíkri prófraun, í rauninni bæði stjórnarflokkar og stjórnarandstaða, því báðir bera mikla ábyrgð. Eina svar stjórnarandstöðunnar er sú furðulega till. sem við ræðum í kvöld. Stjórnarsinnar hafa hins vegar á borðum sínum lausnina og skortir aðeins endahnútinn til að málið verði afgreitt, menn geti brett upp ermar og tekið til starfa í stað þess að deila innbyrðis vikum eða mánuðum saman. Það er meira en nóg af vandamálum sem bíða óleyst á meðan þessi deila hefur staðið.

Mikil þolinmæði hefur verið sýnd og miklum tíma eytt í þetta mál. En nú er tíminn þrotinn. Ríkisstj. verður að leiða málið til lykta fyrir lok þessarar viku, annaðhvort með samkomulagi eða samstarfsslitum ef annað er ekki hægt. Efnahagsfrv. verður að leggjast fyrir Alþ. eins fljótt og unnt er, helst í næstu viku, og ég vona að það fái sem minnst breytt skjóta afgreiðslu. Ef stjórnarflokkarnir bera ekki gæfu til að sameinast um þetta mál og leiðir þeirra skilur, þá ber skylda til að kanna hvort unnt sé að mynda aðra ríkisstj. á grundvelli núv. þings. Þá fyrst ef það tekst ekki er réttlætanlegt að tala í alvöru um þingrof og kosningar.

Þetta er að minni hyggju ábyrg stefna eins og staða mála er í dag, þegar talað er af fullri hreinskilni, hversu mjög sem sigraða flokka dreymir um að rétta hlut sinn og flokkar í sókn iða í skinninu eftir tækifæri til nýrrar sóknar.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.