06.03.1979
Sameinað þing: 62. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3010 í B-deild Alþingistíðinda. (2374)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Umr. um efnahagsmál her á landi síðustu missiri eru engu síður verðbólgin en efnahagslífið sjálft. Stjórnarmálamenn leggja sig í framkróka um að vekja á sér athygli með ómerkilegri auglýsingamennsku, og raunverulegt starf kemst ekki á dagskrá Alþingis fyrir látlausum málfundum. Gengisfelling íslensku krónunnar undanfarin ár hefur vissulega verið mikil, en gengisfall orðsins engu minna. Af umr. mætti ætla stundum að þjóðin byggi við önnur móðuharðindi, að annar hver maður væri kominn á vonarvöl og byggi við sult og seyru.

Umræður um verðbólguna er orðin eins og verðbólgan sjálf. Hún bregður sér í allra kvikinda líki, afmyndar umhverfi sitt og villir mönnum sýn. Þó að það liggi t. d. fyrir að núv. ríkisstj. hafi á aðeins 6 mánuðum komið verðbólgunni niður fyrir 25% á ári miðað við 50% á ári þegar ríkisstj. tók við er haldið áfram í sífellu að klifa á 40–50% verðbólgu. Jafnvel einstakir ráðh. láta eins og ekkert hafi gerst, þegar þó liggur fyrir samkv. óvefengjanlegum tölum Hagstofu Íslands, að vísitala framfærslukostnaðar bætti við sig aðeins 4.7% á síðustu þremur mánuðum eða sem samsvarar liðlega 20% á ári.

Alþb. hefur vissulega haft forustu um þær efnahagsaðgerðir sem gripið hefur verið til, og árangurinn liggur nú fyrir. Alþb. leggur hins vegar áherslu á að launafólkið í landinu eigi ekki að kosta stríðið gegn verðbólgunni, heldur þeir sem hafa nærst á henni undanfarna áratugi. Umfram allt leggjum við áherslu á að baráttan gegn verðbólgu má undir engum kringumstæðum hafa í för með sér atvinnuleysi.

Alþb. hafði ásamt verkalýðshreyfingunni forustu um þá stefnu sem fylgt hefur verið, — þá stefnu sem hefur skilað þeim árangri í glímunni við verðbólguna sem ég hef nú getið um. Forsendur þessarar stefnu eru tvær: Í fyrsta lagi skal kaupmætti launa haldið í samræmi við kjarasamningana 1977. Í öðru lagi verður að tryggja fulla atvinnu í landinu. Á þessum forsendum viljum við heyja baráttuna gegn verðbólgu. Við neitum að fallast á það, að því aðeins sé unnt að draga úr verðbólgu að ráðist sé á almenn launakjör. Við neitum að fallast á till. um skipulagt atvinnuleysi til þess að koma verðbólgunni niður.

Í þeim deilum, sem að undanförnu hafa átt sér stað um frv. forsrh. um efnahagsmál o. fl., hefur einmitt verið tekist á um þessi meginatriði. Í frv. er t. d. gert ráð fyrir því, að verðhækkanir, sem fara fram yfir 5%, megi ekki bæta í kaupi, og þar eru einnig fjölmörg ákvæði um samdrátt og niðurskurð sem gætu leitt af sér stórfellda atvinnuleysishættu. Þessum atriðum hafnar Alþb. alfarið, og þessum atriðum hafnar verkalýðshreyfingin einnig, eins og fram hefur komið í umsögnum Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Alþb. stóð með verkalýðshreyfingunni í baráttunni gegn fráfarandi ríkisstj., og flokkur okkar mun fyrr yfirgefa þessa ríkisstj. en að fallast á kauplækkunar- og atvinnuleysiskröfur.

Samstarfsflokkar okkar halda því stundum fram, að engin veruleg hætta sé á atvinnuleysi og færi svo illa að atvinnuleysi gerði vart við sig yrði vafalaust unnt að snúa við og rétta af atvinnuástandið. Þetta er því miður grundvallarmisskilningur. Eftir að atvinnuleysisvofan hefur einu sinni gert vart við sig er afar erfitt að kveða hana niður. Hvað segir ekki reynslan frá Vestur-Evrópu okkur í þessum efnum? Þar er alls staðar um að ræða atvinnuleysi, sums staðar mjög tilfinnanlegt, og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að snúa við hefur það mistekist. Við Íslendingar megum aldrei láta slíkt henda okkur.

Atvinna og framleiðsla eru undirstaða allra framfara, samneyslu og einkaneyslu. Atvinnuleysi grefur undan sjálfstæði þjóðar, hrekur fólk úr landi og ýtir undir óþjóðleg viðbrögð, eins og dæmin sanna frá viðreisnarárunum þegar atvinnuleysið náði hámarki, þegar okkar eigin framleiðslutæki, frystihús og fiskiskip, grotnuðu niður, en ráðamenn seldu raforkuna smánarverði til erlends auðhrings. Baráttan fyrir fullri atvinnu og batnandi lífskjörum er því um leið barátta fyrir sjálfstæði þessarar þjóðar.

Alþb. leggur ríka áherslu á að bregðast enn við vandanum — einnig verðbólguvandanum — með jákvæðum hætti, með uppbyggingu íslenskra atvinnuvega, aukinni framleiðslu og framleiðni, en ekki með neikvæðum niðurskurðar-, kauplækkunar- og samdráttaraðgerðum.

Í íslenska þjóðfélaginu takast nú á tvö meginöfl: annars vegar Alþb. og verkalýðshreyfingin, hins vegar Sjálfstfl. og auðstéttin í landinu. Milliflokkarnir hafa valsað þarna á milli eftir aðstæðum hverju sinni. Stundum halla þeir sér að íhaldinu um sinn, lengst allra Alþfl. frá 1960–1971, seinna Framsfl. s. l. 4 ár. Samlífið fór með líftóru þessara flokka, eins og um getur gleggst í kosningahandbókum, og því þarflaust að rifja það upp hér. Í samstarfi við Alþb. hefur hins vegar mörgu miðað vel áleiðis. Fer þó ekki hjá því að vanlíðan einstakra samstarfsmanna okkar birtist stundum eins og útbrot á síðum síðdegishlaðanna.

Þær höfuðandstæður íslenskra stjórnmála, flokkur sósíalista, Alþb., og Sjálfstfl., sem ég gat um, hafa tekist á í áratugi og þrátt fyrir nokkurn stærðarmun hefur hér ríkt svokallað jafnvægi stéttanna, þannig að þjóðfélagsleg valdaaðstaða hefur verið nokkuð ámóta á stundum. Nú brá hins vegar svo við á s. l. sumri, að Sjálfstfl. missti meirihlutaaðstöðu sína í Reykjavík eftir hálfa öld og um leið áhrifastöðu í ríkisstj. Íslands. Þessi niðurlæging Sjálfstfl. hefur orðið til þess, að hans getur vart á blöðum þessa vetrar nema í sambandi við innri átök flokksins. Nefndakjör veldur þar jafnan deilum og hann hefur enga stefnu, engar till. til lausnar þeim vandamálum sem við er að glíma í íslensku þjóðfélagi í dag.

Nýlega birtist að vísu plagg sem nefnist efnahagsstefna Sjálfstæðisflokksins og felur í sér átakanlega sönnun þess, að Sjálfstfl. hefur gefist upp við að reyna að finna lausn efnahagsvandans á íslenskum forsendum. Till. Sjálfstfl. jafngiltu í raun uppgjöf í baráttunni fyrir efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Þar er gert ráð fyrir að gengisskráning verði látin laus, verðlag gefið frjálst, eins og það er kallað, viðskiptabankar og aðrar fjármagnsstofnanir eigi að ákveða vexti af lánum og allar fjárskuldbindingar innanlands megi tengja erlendum gjaldmiðlum, sem þýddi í raun að leggja niður íslenska mynt. Kórónan á þessu sköpunarverki er svo sú, að gert er ráð fyrir að opna landið algerlega fyrir erlendum lánum af hvaða tagi sem er, eða eins og segir orðrétt í till. Sjálfstfl.: „Erlendur gjaldfrestur verði heimill í öllum vöruflokkum eftir sömu reglum. Frjálslegar reglur gildi um erlendar lántökur.“

Í uppgjafarstefnu Sjálfstfl. kemur að sjálfsögðu fram til hvers hann hyggst opna hér allar gáttir fyrir erlendu fjármagni og erlendu lánsfé. Það eru að sjálfsögðu fyrirtækin, en ekki fólkið, sem eiga að njóta góðs af till. hans, því fyrirtækjunum á að heimila að „leggja fé í verðtryggða og bundna varasjóði gegn skattfrelsi eða frestun skattlagningar“, eins og segir orðrétt í till. Sjálfstfl. En skattfrelsi fyrirtækjanna á ekki aðeins að birtast í þessari mynd. Skattana á að lækka á fyrirtækjunum. Eignarskatt á að lækka, nýbyggingargjald á að fella niður og að sjálfsögðu sérstakan skatt sem núv. ríkisstj. lagði á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Sömuleiðis á að heimila á ný stórauknar fyrningar til skattfrádráttar fyrirtækja. Samtals ætlar Sjálfstfl. að fella niður skatta af fyrirtækjum upp á nærri tug milljarða kr. Á móti á síðan að draga úr niðurgreiðslum. Ef miðað er við þær niðurgreiðslur einar sem núv. ríkisstj. hefur bætt við, nema þær um 8% í kaupi. Auðvitað ætlar Sjálfstfl. ekki að hækka kaup sem þessu nemur. Kauplækkun er æðsta boðorð hans, eins og einnig gengur fram af nefndum efnahagstillögum.

Góðir tilheyrendur. Ég hef varið hér nokkrum orðum til að lýsa till. Sjálfstfl. í efnahagsmálum til þess að sýna fram á að ránfuglarnir bíða eftir því tilbúnir að hremma ránsfenginn. Þeir eru reiðubúnir að hleypa erlendum hagsmunum inn á gafl. Þeir ætla að skerða lífskjörin. Þeir ætla að veikja forsendur efnahagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar, afnema íslenskan gjaldmiðil og að sjálfsögðu að afhenda auðstéttinni aftur þá milljarða sem núv. ríkisstj. hefur lagt á til þess að greiða niður landbúnaðarafurðir og til þess að fella niður söluskatt af öllum matvælum.

Gegn þessari úlfahjörð íhaldsins stendur verkalýðshreyfingin og Alþb. Lengst af hefur baráttan við þessi öfl verið háð í stjórnarandstöðu, í varnarbaráttu verkalýðsins með verkföllum og kröfugöngum. Nú í eitt missiri hafa málin horft öðruvísi við. Verkalýðshreyfingin hvatti til myndunar þessarar ríkisstj., og samkv. gefnum fyrirheitum á Alþ. nú að vera svo skipað að unnt sé að verja stjórnarstefnu eins og þá sem núv. ríkisstj. hefur fylgt og grundvallast á samráði við verkalýðshreyfinguna eins og margoft hefur verið lýst yfir. Á þeim forsendum munum við enn gera tilraun til að halda þessari ríkisstj. saman, enda þótt það sé enn ekki ljóst, hvort það tekst. Enn er ágreiningur um þýðingarmikil atriði í margnefndu frv. forsrh. Það mun þó nást samkomulag ef ríkisstj. tekur tillit til ábendinga sem horist hafa frá verkalýðshreyfingunni. Alþb. leggur ríka áherslu á að svo verði gert. Ef hinir stjórnarflokkarnir hins vegar neita að starfa á þeim grundvelli eru forsendur ríkisstjórnarsamstarfsins brostnar.

Herra forseti. Einn þm. Alþfl. segir í grein í einkamálgagni sínu, Dagblaðinu, í dag, að ríkisstj. beri að segja af sér þar sem verkalýðshreyfingin vilji ekki fallast á till. forsrh. í efnahagsmálum. Þessi afstaða þm. byggist á þeim reginmisskilningi, að margnefnt frv. sé óumbreytanlegt. Forsrh. hefur þó sjálfur hvað eftir annað lýst því yfir að mörgum atriðum í frv. þessu megi breyta. Með þeim hætti gæti ríkisstj. áfram haldið samfylgd sinni með verkalýðshreyfingunni. Hins vegar eru orð þessa þm., sem reyndar er fremsti eða a. m, k. háværasti talsmaður Alþfl. á Alþ. um þessar mundir, til marks um það, að sá flokkur eða a. m. k. hluti hans virðist vera kominn ákaflega langt frá uppruna sínum. Sýnist þessum hluta Alþfl. líða afar illa í vinstri stjórn sem starfar með verkalýðshreyfingunni að framfaramálum. Innan Alþfl. virðast líka vera háværar raddir sem krefjast opinskátt stjórnarsamvinnu við Sjálfstfl. Til marks um það er till. frá einum þm. Alþfl. sem útbýtt var á borð þm. áðan. Till. er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að skora á forsrh. — náist ekki fyrir 17. þ. m. samkomulag milli núv. stjórnarflokka um stjórn efnahagsmála o. s. frv. — að leggja til við forseta Íslands, að kannaðar verði nýjar leiðir til stjórnarmyndunar. Leiði þær kannanir ekki til árangurs fyrir 20. apríl n. k. verði Alþ. rofið og efnt til nýrra almennra þingkosninga svo fljótt sem við verður komið.“

Þessi till. fjallar einfaldlega um það, að hluti Alþfl. virðist nú vilja skilyrðislaust í stjórn með íhaldinu gegn verkalýðshreyfingunni. Till. þessi er flutt sem brtt. við þá till. íhaldsins sem hér er til umr. um þingrof og nýjar kosningar. Þm. Alþfl. leggur einnig til, að fyrirsögn till. breytist og verði á þessa leið:

Till. til þál. um nýja stjórnarmyndun“ — ég endurtek: „um nýja stjórnarmyndun eða þingrof og kosningar.“

Þannig er það bert hverju auga, hvernig hluti eins stjórnarflokksins er á sig kominn. Hann strekkir yfir til íhaldsins eins og hestur með stroksótt. Af þessu skilja allir, sem virða fyrir sér stjórnmálasviðið um þessar mundir, af hverju það er bæði erfitt og flókið þolinmæðisverk að halda núv. ríkisstj. saman. Þess mun Alþb. enn freista og því að sjálfsögðu greiða atkv. gegn þeirri till. Sjálfstfl. sem hér liggur fyrir, en till. gerir í raun ráð fyrir því, að Alþ. lýsi vantrausti á núv. ríkisstj.

Nú þarf að leggja vinnu í að reyna að ná samkomulagi. Nú verða krataþm. að fara að vinna, en hætta verðbólguauglýsingaskrumi. Takist hins vegar ekki að leiða stjórnarflokkana til samstarfs á þeim grundvelli sem lagður var með samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna frá 1. sept. s. l. mun Alþb. sjálft taka sínar ákvarðanir, en ekki láta till. íhaldsins hafa áhrif á sig. Þeir, sem rjúfa þetta stjórnarsamstarf, munu verða dæmdir af verkum sínum. Alþb. er einnig reiðubúið til þess að leggja athafnir sínar fyrir dóm kjósenda. En Alþb. mun ekki láta Sjálfstfl. ákveða orrustuvöllinn. Það munum við sjálfir gera.

Góðir hlustendur, góðar stundir.