07.03.1979
Sameinað þing: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3035 í B-deild Alþingistíðinda. (2382)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er almennt viðurkennt, að stjórnarandstaða gegnir veigamiklu hlutverki í lýðræðislandi, en til þess að hún valdi því hlutverki þurfi hún að vera jákvæð. Nú hefur því oftlega verið haldið fram, að stjórnarandstaða Sjálfstfl. við núverandi þríflokkastjórn sé næsta máttlaus og veigalítil. Því er til að svara, að eðlilegt er að nýrri ríkisstj. sé gefið nokkurt tóm og tími til að átta sig á og ná tökum á stjórnartaumunum. En þegar vikur og mánuðir líða svo að líti ð er gert af viti og fátt eitt fréttist af stjórnarathöfnum utan hávaða og heimiliserjur, er ofureðlilegt að stjórnarandstaða og raunar allur almenningur vilji vita hvað er á seyði. Varla verður því neitað, að alþjóð eigi heimtingu á að fá nokkra vitneskju um hvernig stjórnarherrarnir haga leikjum sínum við taflborð ríkisvaldsins, svo mikið sem er í húfi.

Núv. ríkisstj. er orðin missirisgömul, að tilhugalífi frátöldu sem stóð í fulla tvo mánuði. Hinn mikli viðmiðunardagur, 1. mars, sem ekki tókst að fresta, er liðinn. Og enn ágerist hávaðinn á stjórnarheimilinu, svo að heyra má um gervalla landsbyggðina. Hvað er þá eðlilegra en ábyrg stjórnarandstaða banki upp á dyr í slíku stjórnarráðshúsi og leiti fregna af því sem er að gerast? Eftir 6 mánaða þóf er full þörf á að gera stuttan stans, smáúttekt á því sem gert hefur verið, áður en lagt er upp í næsta áfanga. Þess vegna hafa nú allir þm. Sjálfstfl. flutt þáltill. um þingrof og nýjar kosningar.

Talsmenn stjórnarsinna hafa við þessa umr. látið svo sem till. þessi væri ákaflega furðuleg, einkennileg, fátíð, einber sýndarmennska, frumhlaup, ótímabær og illa rökstudd, svo að nokkur af málblómum þeirra séu tínd til. Þeir fjargviðrast yfir formi till. eins og þeir hafi aldrei augum lítið slíka till. En mikið mega þeir vera fáfróðir í þingsögunni ef þeir sjá ekki og skilja að slík till. um þingrof og nýjar kosningar felur í sér hið fyllsta vantraust á núv. valdhafa, — vantraust sem þeir verða að þola og reyna að bregðast mannlega við vegna þess að þeir hafa ekki staðið við þau fyrirheit sem þeir gáfu þjóðinni í síðustu alþingiskosningum. Svona einfalt er það.

Í því flóði upplýsinga og áróðurs, sem yfir þjóðina gengur úr öllum áttum, er haldbest fyrir hvern og einn að reyna að bera saman orð og efndir þeirra alþm., sem viðkomandi hefur trúað og treyst fyrir atkv. sínu, en láta innantóm kosningaloforð og glamuryrði eins og vind um eyru þjóta.

Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna frá liðnu sumri er auðvitað sitthvað nýtilegt að finna, svo sem þá stefnumörkun í upphafi að ríkisstj. telji það höfuðverkefni sitt á næstunni að ráða fram úr þeim mikla vanda sem við blasir í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar. Í því höfuðmáli sem og reyndar flestum öðrum gerir ríkisstj. greinarmun á svonefndum „fyrstu aðgerðum“ annars vegar og „frambúðarlausn“ hins vegar eða „breyttri efnahagsstefnu“, eins og þeir kalla svo. Ef lítið er til liðins missiris er aðeins unnt að greina bráðabirgðaúrræði í starfi stjórnarinnar frá degi til dags. En markmiðið er að taka upp gjörbreytta stefnu í efnahagsmálum, stendur þar. Um þessa stefnu hafa stjórnarflokkarnir ekki enn getað náð samstöðu og spurningin er: Treystir almenningur núv. ríkisstj. til að taka upp og framkvæma gerbreytta stefnu í efnahagsmálum í landinu, jafnvel þótt hægt yrði um síðir að hengja upp slíka samstöðu í stjórnarherbúðunum? Eftir öllum sólarmerkjum að dæma mundi slík heildarstefna fela í sér aukna skattheimtu, ríkisíhlutun, eignakönnun, sviptingu bankaleyndar og fleira af þeim toga, svo að nokkuð sé nefnt, en inni á milli línanna sæist glitta í aðgerða- og úrræðaleysi í öllum meginmálum. Þetta er sennilega hin samræmda efnahagsstefna sem stjórnarflokkarnir leita að um þessar mundir.

Það kom fram í máli eins stjórnarsinna, það mun hafa verið hv. 1. þm. Norðurl. e., við umr. í gærkvöld, að ríkisstj. ætti almennu fylgi að fagna í landinu. Sá hávaði, sem kæmi frá stjórnarheimilinu, væri aðeins hegðunarvandamál, eins og hér hefur verið minnst á. En nær samtímis gat hann þess, að þeir Alþb.-menn væru stundum nokkuð harðir undir tönn. Erant arma pugnus et dentes, stendur þar. Einn af ráðh., það mun hafa verið hæstv. iðnrh., gat þess af sama tilefni að aðeins væri um að ræða hnútur frá óstýrilátum þm. Já, hnútur fljúga um borð. Hv. 9. þm. Reykv. vitnaði áðan í Grím Thomsen og þá má spyrja hæstv. iðnrh. af þessu tilefni: Ætlar hann, sá hinn sami ráðh., aðeins að brosa lítið eitt þegar brotna hausar og blóðið litar storð?

Hæstv. utanrrh. varð að viðurkenna að stundum hefur skapast hálfgert ófriðarástand innan stjórnarflokkanna. Varla er það ofmælt, þegar á það er lítið að flokksbróðir hans og náinn samherji segir í blaðagrein í gær um núv. hæstv. ríkisstj.: „Blessuð sé minning hennar.“

Hæstv. iðnrh. ræddi í gærkvöld um frumhlaup stjórnarandstöðunnar með flutningi þessarar till. Því fer fjarri að hann hafi rétt lög að mæla. Þvert á móti er stjórnarandstaðan að gegna þeirri frumskyldu sinni að gera landsmönnum grein fyrir stöðu þjóðmála og stjórnmálaviðhorfi eftir 6 mánaða feril vinstri stjórnar. Ef svo heldur fram sem horfir, hvort sem æviskeið þessarar vinstri stjórnar verður langt eða skammt, má ekki minna vera að mínum dómi en að staldrað sé við á 6 mánaða fresti, horft til veðurs, reynt að ná áttum og athuga gaumgæfilega hvert stefnir. Slík áning á að geta orðið þörf og hörð áminning til ríkisstj., en jafnframt getur stjórnarandstaðan notað tækifærið til að draga lærdóma af liðnum tíma. Stjórnarandstaðan, Sjálfstfl., verður að muna að hún er stærsta stjórnmálaafl þjóðarinnar, sá flokkur sem þjóðin hefur treyst mest á á 50 ára ferli. Hann má ekki bregðast því trausti þegar mest á reynir. Hann verður að gera þjóðinni glögga grein fyrir því, hvernig málin standa, og vera viðbúinn því að leggja hönd að lausn þjóðarvandans á hverri tíð.