07.03.1979
Sameinað þing: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3054 í B-deild Alþingistíðinda. (2387)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Einn er reginmunur á Sjálfstfl. annars vegar og Alþfl. hins vegar. Hann er sá, að Alþfl. er stjórnmálaflokkur sem Sjálfstfl. hins vegar er ekki. Það, sem stjórnmálaflokkur gerir m. a. er það, að hann fer í kosningar. Þar kynnir hann kosningastefnuskrá. Hann hefur grundvallarstefnuskrá að auki. Í kosningum vinnur stjórnmálaflokkur eða tapar, og venja í vestrænum þingræðisríkjum er sú, að þeir stjórnmálaflokkar, sem mestu hafa bætt við sig, leggja í stjórnarsamvinnu. Það verður að vera mat á hverjum tíma, hvort nægilega mikið af kosningastefnuskrá náist fram, sé um samsteypustjórnir að ræða, til þess að réttlæta stjórnarþátttöku. Og auðvitað er það alltaf svo, að þegar um samsteypustjórnir er að ræða, getur stjórnarandstaða leikið sér að því að bera saman kosningastefnuskrár, þar sem auðvitað er ekki nema hluta náð fram, annars vegar og verk þeirra ríkisstj., sem um ræðir, hins vegar. Allt um það, svona hagar stjórnmálaflokkur sér. En ég fæ ekki séð að Sjálfstfl. hafi hagað sér svona á s. l. 4 árum eða það standi til að hann ætli að fara að haga sér svona. Ég sé hvergi skýra stefnu. Ég sé engar till. Ég sé ekkert skýrt neins staðar í þessum hópi eða flokki. Það, sem ég sé fyrir framan mig, eru tveir tugir af atvinnupólitíkusum, og ég hef á tilfinningunni að utan á þeim hangi örfáir embættismenn sem gefi þeim línuna. Þetta samkrull örfárra atvinnupólitíkusa og embættismanna er það sem við köllum Sjálfstfl. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé rétt út af fyrir sig, að þessari ríkisstj. gengur illa og fyrir vikið blæs byrlega fyrir stjórnarandstöðu að sinni. Ég hef tilhneigingu til að taka bókstaflega slíkar skoðanakannanir sem hér var lýst af síðasta hv. ræðumanni. Engu að síður held ég að til þess komi, að þegar þjóðin stendur frammi fyrir tveimur eða fleiri valkostum og þegar verkin liggja ljóst fyrir, þá verði valið ekki svo auðvelt sem hv. síðari ræðumaður gaf í skyn.

Hv. síðasti ræðumaður, þm. Friðrik Sophusson, hefur raunar lýst þessu fyrirbrigði, Sjálfstfl., ágætlega í blaðagrein nýverið. Og hv. þm. Friðrik Sophusson sagði um Sjálfstfl., að hann væri flokkur sem væri of hræddur til þess að berjast og feitur til þess að flýja. Ég ætla ekki að mótmæla hv. þm. Friðrik Sophussyni og ekki ætla ég að rífast við hann um þetta. Ég verð að segja alveg eins og er, að ég er honum hjartanlega sammála, þessu ásigkomulagi sem hann þarna er að lýsa, mér finnst hann hitta glettilega ágætlega í mark. En allt um það, mér sýnist að raunveruleg stjórnmál fari fram innan þessarar ríkisstj. Sjálfstfl. hefur ekki verið þátttakandi í stjórnmálum þennan vetur. Líkið virðist að vísu vera að lifna við nú um nokkurt sinn. Þeir hafa komið sér saman um eina till. og sú till. er um þingrof og nýjar kosningar. Mér sýnist þetta vera um það bil eina till. sem þeir hafa komið sér saman um hér í vetur, og ég efast um að samstaðan dugi til mikils annars en flutnings þessarar till.

Allt um það, það er auðvitað rétt að það eru vandræði á ríkisstjórnarheimilinu af þeirri einföldu ástæðu að ríkisstj. hefur ekki enn komið sér saman um heildstæða stefnu til þess að vinna bug á verðbólguvanda með fyrirsjáanlegum hætti. Þetta er staðreynd, og ég veit ekki til þess að nokkur talsmaður þessarar hæstv. ríkisstj. hafi gert hina minnstu tilraun til að afneita þessari staðreynd. Og með því nú að 1. mars er kominn og enn stefnir í sama farveg, þessi ríkisstj. verður með hverjum deginum líkari og líkari embættismannastjórninni sem sat hér s. l. 4 ár, frá 1974–1978, þá segir sig auðvitað sjálft að forsendur þessarar ríkisstj. eru brostnar. Og þar sem efnahagslegar forsendur þessarar ríkisstj. eru brostnar, þá lít ég svo á að það sé einn leikur eftir enn áður en við förum í að rjúfa þing og efna til nýrra kosninga. Það er að reyna til þrautar hér á Alþ., hvort einhvers staðar sé 32 manna þingmeirihl. sem er tilbúinn til að taka þátt í stag sem hafi það að marki og miði að ná verðbólgu varanlega, áþreifanlega og í áföngum niður. Ég tel það skyldu okkar og að til þess séum við hingað kosin að þrautreyna þetta hér á Alþ. áður en kemur til þingrofs og nýrra kosninga. Það þarf ekki að taka langan tíma. Ef það er vitavonlaust að finna út slíkan 32 manna meiri hl. eða stærri hér á Alþ., þá er ekki um annað að gera en fara eins að og Sjálfstfl., hv. stjórnarandstaða, leggur til í sinni tillögu.

Af einni ástæðu hef ég ríka ástæðu til að bera hlýjar taugar til Sjálfstfl. Af sögulegum ástæðum er ég aðdáandi viðreisnarstjórnarinnar, sem hér sat 1959 og áfram, og þeirra aðgerða, sem hún greip til þá og á næstu árum á eftir. Ég er þeirrar skoðunar, að þá hafi verið framkvæmdur uppskurður á efnahagskerfinu. Það var verið að útrýma spillingu sem fólst í höftum og leyfum, og það var gerður aðdáunarverður uppskurður á efnahagskerfinu. Ég held að samfélagið allt hafi haft mikinn hagnað af þeim aðgerðum, sem þá var lagt út í, þegar til lengri tíma er lítið. Af þessum sökum m. a. hefði ég getað haldið að í a. m. k. hliðstæðum málum og þessum væri hægt að eiga samvinnu við Sjálfstfl. Upp á slíka samvinnu var boðið, t. d. með því að í upphafi þings var flutt frv. um raunvexti, þar sem verið er að útrýma annars konar, en þó sams konar spillingu, þ. e. a. s. skömmtun á lánsfé sem hér hefur varað í efnahagskerfinu. Og viti menn, það hafði ekki fyrr verið talað fyrir þessu frv. og hv. þm. Lúðvík Jósepsson talað gegn því, sem er nánast kækur hans þegar ég hef mælt fyrir einhverju máli, þá kom Geir Hallgrímsson og flutti ágætan menntaskólafyrirlestur um vexti og lýsti yfir samstöðu með þessu frv. Hann hafði ekki fyrr sleppt orðinu en ríkiskapítalistinn Sverrir Hermannsson, hv. þm., kom upp til að lýsa gagnstæðri skoðun. Það reyndist vera í þessum málum sem fleiri slíkum, að formaður Sjálfstfl. virðist ekki hafa nema lágmarkstök á sínum þingflokki og þingflokkurinn er rótklofinn. Og þegar betur er að gáð, þá er ekkert skrýtið að þingflokkur Sjálfstfl. skuli vera rótklofinn. Þar sýnist manni vaða uppi — ekki einkaframtaksmenn í einum eða neinum skilningi, heldur menn sem hafa það eitt að pólitísku marki og miði að koma sér fyrir í ríkisjötunni, úthluta þaðan atvinnuleyfum, fjármagni og öðrum slíkum fyrirgreiðslum sem hægt er að ráða yfir í nafni ríkisvalds. Það er alveg sama þó að stofnunin heiti Framkvæmdastofnun og hv. þm. heiti Sverrir Hermannsson, eða hvort stofnunin heiti Krafla og hv. þm. heiti Jón G. Sólnes, eða hvort um er að ræða skuttogara og hv. þm. heiti Matthías Bjarnason. Ég gæti nefnt þann fjórða af þessum skóla, sem er hv. þm. Lúðvík Jósepsson. Hann er nákvæmlega eins þenkjandi. Og þeir koma hér stundum upp og kvaka og þykjast vera á öndverðum meiði um einhver mál og annar þykist vera félagshyggjumaður og hinn þykist vera einkaframtaksmaður. Raunverulega eru þessir menn nákvæmlega sömu skoðunar. Og sem gamall væntumþykjumaður um Sjálfstfl., vegna þess að hann var okkur þolanlegur í byrjun viðreisnar meðan við í Alþfl. höfðum betri tök á honum, þá finnst mér að sjálfstæðismenn ættu að hafa nokkrar áhyggjur af þessari þróun í sínu liði. Manni sýnist að liðið sé algerlega sundurlaust, eins og hefur verið þráfaldlega undirstrikað í umr. um vaxtamál, sem þeir svo hafa leyst með því að flytja slíka dellutillögu að engu tali tekur, eins og þinginu mun vera um kunnugt. Það er ekki ágreiningur um þetta. Ágreiningurinn er um það, að að hluta til eru þetta gamlir huggulegir viðreisnarsjálfstæðismenn sem um margt duga ágætlega, en hin manntegundin er bara orðin atkvæðameiri í þingflokknum. (FrS: Hverjir eru í þessum huggulega flokki? Geturðu ekki nefnt þá líka?) Þeir eru nokkrir sem hægt væri að nefna. En þeir ráða hins vegar engu. Og ef ætti að tugta íhaldið svolítið betur til, þá getur vel verið að sú stund komi að þeir fari að duga til betri verka heldur en þeir dugðu á árunum 1974–1978 og hafa dugað og sýnt nú um nokkurt skeið.

Það er út af fyrir sig rétt, sem fram kom áðan hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni að það var birt skoðanakönnun í Dagblaðinu í dag. Ég hef tilhneigingu til að taka slíkar skoðanakannanir nokkuð bókstaflega. Þær hafa reynst vera allnákvæmar, og það er út af fyrir sig rétt að það er áhyggjuefni fyrir okkur í Alþfl., sem vissulega gáfum mikil fyrirheit, að við þau fyrirheit hefur enn ekki verið staðið, að það sé nokkur sjáanlegur árangur í verðbólgumálunum. Fyrir okkur, sem höfum tekið þessi mál mjög alvarlega, þessi verðbólgumál, er þetta auðvitað allmikið áfall, og því verður ekki neitað og það segir sig líka sjálft, að einhver hluti kjósenda okkar er orðinn langþreyttur eftir árangri, en árangur virðist enn ekki vera í sjónmáli.

Nú er talað um það og mér skilst að hæstv. forsrh. hafi sagt það í hádegisútvarpi, að frv. yrði lagt fram í næstu viku. Úr því sem komið er er auðvitað ekki spurning um það að leggja fram eitthvert frv. Aðalatriðið er hvers konar frv. hér verður um að ræða. Það er ljóst frá okkar bæjardyrum séð, til hvers við ætlumst í verðbólgumálum. Jafnljóst er hitt, að á allra næstu dögum verður þessi umr. samkv. yfirlýsingum hæstv. forsrh. flutt inn á hið háa Alþ. og þar tel ég það vera skyldu þm., hvar í flokki sem þeir standa, tilheyrandi núv. ríkisstj. eða stjórnarandstöðu, að þrautkanna hvort einhver meiri hluti sé til á Alþ. sem hefur til þess möguleika að ná árangri í þessum efnum.

Það er eftirtektarvert, hve margir af sjálfstæðismönnum leggja mikið upp úr því að okkur í Alþfl. hafi mistekist. Ég veit að það er eðli málsins samkv., að til okkar eru gerðar meiri kröfur en annarra. Ég get út af fyrir sig vel tekið þeirri stöðu. En ég vil minna á það, að 1971–1974 sat hér önnur vinstri stjórn, svokölluð, undir forustu sama hæstv. og ágæta manns, Ólafs Jóhannessonar. Þannig var að þá hafði viðreisnin skilað af sér, en tapað í kosningum. Hún skildi hins vegar þokkalega við efnahagsmál. Stjórnmálabaráttan á næstu árum á eftir snerist þess vegna ekki um efnahagsmálin, heldur annan málaflokk, um utanríkismál. Stjórnarsáttmáli þessarar ríkisstj. var afskaplega skorinort orðaður, en þar sagði að að því skyldi stefnt að herinn skyldi fara burt í áföngum, eins og allir þekkja. Síðan upphófst stöðugt skæklatog um það, hvað þessi orð ættu að þýða, og það var stöðugt árásarefni Sjálfstfl. og Morgunblaðsins á þessa ríkisstj. hvernig með utanríkismálin skyldi farið. Í þessari ríkisstj. hins vegar eru utanríkismálin naglföst með þeim hætti sem Alþfl. hefur boðað. En það fer minna nú fyrir ánægjuhrópum Sjálfstfl. um utanríkismál heldur en harmhrópum þeirra um efnahagsmál. Það er auðvitað út af fyrir sig allverulegur árangur. Stefna okkar og Framsfl. raunar einnig fer saman um þessi utanríkismál. Menn geta, ef þeir vilja og hafa nennu til, velt Alþb. upp úr því að hafa látið undan í þessu máli. Það er það sem við gerum í stjórnarsamvinnu. Þó tel ég rétt að minna á það, að fleira er pólitík heldur en efnahagsmál.

Einn hlut til viðbótar má nefna. Hér er talað um samningana í gildi, og í grg. með þeirri till., sem hér er til umr., er sagt að það hafi verið stefna tveggja ríkisstjórnarflokka, þ. e. a. s. Alþfl. og Alþb., að samningarnir skyldu fara í gildi. Sannleikurinn er sá, að þetta er ekki rétt. Það var ekki stefna Alþfl. að samningar skyldu fara í gildi. Við gáfum út pésa sem við kölluðum: Gerbreytta efnahagsstefnu. Eitt af því, sem við þar lögðum til, var breytt vísitölukerfi eða svokölluð þjóðhagsvísitala, sem er annað nafn á því sem nú er kallað viðskiptakjaravísitala. Við höfum alltaf gert okkur ljóst og talsmenn flokksins hafa margsinnis um það fjallað, að vísitölukerfið er meingallað og það er verðbólgualandi á margan hátt og án þess að af því sé sá hagur fyrir launafólk sem til var stofnað.

Um slagorðið „samningana í gildi“ er rétt, að einstakir frambjóðendur Alþfl. og þá auðvitað fyrst og fremst maður, sem hér er fjarverandi af veikindaástæðum, Björn Jónsson, forseti Alþýðusambands Íslands, barðist auðvitað fyrir þessu máli. Ég vil samt segja fyrir mig, að viku fyrir kosningarnar sat ég fyrir svörum fyrir hönd Alþfl. í sjónvarpi, þar sem spurt var um þessi mál. Ég veit að einhverjir þm. muna eftir því. Þá var til umr. módel sem Reykjavíkurborg hafði þá sett á laggirnar. Morgunblaðið réðst á þetta kerfi af mikilli hörku. Ég lýsti því, að ég gerði mér sams konar hugmyndir um það, hvernig skyldi með launa- og vísitölumál farið. Þetta var viku fyrir kosningar. Og ég held ekki að nokkur maður hafi verið um þessa hluti blekktur, enda hefur Morgunblaðið verið að leita með logandi ljósi að því, hvað menn sögðu í fyrra og hvað menn segja nú, og það er satt að þeir hafa strítt nokkrum kommum allverulega um þessi mál. En ég hef ekki enn séð einn einasta krata sem þarna hefur verið dreginn fram á síðum Morgunblaðsins, og þó hygg ég að þeir hafi leitað að þeim nokkrum.

M. ö. o.: ég neita því, að þetta hafi verið kosningastefna Alþfl. Við lýstum almennri samstöðu með launþegahreyfingunni, en ekki í þeim smáatriðum að við skilyrðislaust mundum alltaf og um alla ævi hafa vísitölukerfið í fullum gangi, enda hef ég sjálfur margoft lýst því sem mér þykja vera ágallar á núverandi vísitölukerfi.

Formaður Alþfl., hæstv. utanrrh. Benedikt Gröndal, lýsti hér í gær hver afstaða okkar í Alþfl. er til þessara miklu efnahagsmála úr því sem komið er. Og ég vil bæta um betur. Ég er sammála formanni mínum um þessa hluti eins og flest annað og vil bæta um. Ég vil lýsa því aðeins, að vandi þessarar ríkisstj. er m. a. sá, að það virðist vera óvinnandi vegur að ná um það samstöðu með Alþb. að gera áætlun í efnahagsmálum sem taki til langs tíma. Þetta þekkja menn. Ríkisstj., sem Alþb. hefur átt aðild að, hafa aldrei varað lengur en í hálft þriðja ár til þessa, og núv. ríkisstj. virðist ætla að vara eitthvað styttra, eins og öllum er um kunnugt. Úr því sem komið er, held ég að ekki sé nema einn leikur eftir áður en verður farið f kosningar og þjóðin látin dæma, og það er að þrautreynt sé hér á Alþ. og í gegnum hinar venjulegu þingræðislegu leiðir hvort í fyrsta lagi núv. ríkisstj. er tilbúin. Ef hún er það ekki, er þá einhver annar möguleiki til? Ef þessi annar möguleiki er ekki til, hvort sem það yrði t. d, eins og hv. þm. Bragi Sigurjónsson hefur talað um, Alþb. og Sjálfstfl., eða einhverjir enn aðrir möguleikar, þá er auðvitað ekki um annað að ræða en að spyrja þjóðina.

Ég flutti hér þáltill. fyrir ekki mörgum dögum þar sem lögð var til sú hugmynd, að það frv. forsrh., sem þá var þekkt og hafði legið frammi um langan tíma og verið til sýnis hjá helstu þrýstihópum samfélagsins, yrði borið undir þjóðaratkv. Ég er þakklátur hv. stjórnarandstöðu fyrir að hún vildi þó leyfa okkur að ræða málið og afgreiða það. En eitthvað kom það verr við Alþb., og það kom í veg fyrir að umr. og afgreiðsla færi fram um þetta mál, með því að neita því um afbrigði, svo sem þekkt er.

Kjarni þessa vanda er auðvitað sá, sem hv. þm. Ingvar Gíslason vék raunar að í gærkvöldi, að við verðum að fara að svara þeirri spurningu hreinskilnislega en við höfum gert nú um nokkurt skeið, hvar liggi valdmörk Alþingis annars vegar og þrýstihópanna hins vegar. Það, sem þarna var verið að leggja til, eftir að frv.-drög höfðu verið send milli foringja. þrýstihópa sem margir hverjir eru ekki annað en pólitískt máttlausar, en fjarstýrðar strengbrúður hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, og þessar sendingar höfðu tafið og þæft þetta mál, var að þjóðin sjálf væri spurð álits. Ég er og hef lengi verið þeirrar skoðunar, að hér sé orðinn svo alvarlegur þverbrestur og veikleiki í okkar lýðræði, að þegar ljóst er að stórmál hafa verið tafin og þæfð um langan tíma, kannske af litlum minni hl., þá eigum við í vaxandi mæli að grípa til þess að skjóta slíkum málum fram hjá þessu flókna foringjakerfi þrýstihópanna og til þjóðarinnar sjálfrar. Ef í ljós kemur með þeim hætti, að það er óravegur, eins og mig grunar reyndar oft, frá þessu þrýstihópsforingjakerfi og til þjóðarviljans, þá á samt sem áður þjóðarviljinn að fá að brjótast í gegn. En það er með þetta eins og annað, að kommarnir koma í veg fyrir umr. um þetta og afgreiðslu af alkunnri lýðræðishugsjón sinni, svo að þessi hugmynd náði ekki fram að ganga að sinni. En engu að síður, þessum spurningum verðum við að fara að svara hreinskilnislegar og skýrar en við höfum gert.

Það er einn af veikleikum núv. hæstv. ríkisstj., að þó að samráð sé auðvitað ágætt og þm. noti auðvitað allir samráð þegar þeir eru að semja frv. um hvaða efni sem um er að ræða, smá eða stór, þá getur þetta samráð snúist í hina fullkomnu andhverfu sína, nefnilega pólitíska misnotkun, þar sem pólitískir foringjar eru að nota strengbrúður, fjarstýra þeim og búa til einhvern þjóðarvilja sem þó reynist hvergi vera til staðar. Og ég hef staðfastlega grun um að nákvæmlega þetta hafi átt sér stað á tímabilinu frá 12. febr. og til 1. mars og hæstv. forsrh. illu heilli hafi beygt sig undir þennan falska blekkingavef og fyrir það eigi þjóðin eftir að gjalda.

Ég hef hér verið að reifa í almennu máli afstöðu mína til þessara mála sem þessi till. gengur auðvitað út á. Ég lít sem sagt svo á, að það sé rétt að nú þegar frv. — við vitum ekki nákvæmlega hvernig frv. — er að sjá dagsins ljós í Alþ., þá sé þrautkannað hvort meiri hl. sé til þess að ná árangri í verðbólgumálum. Eru kommarnir til þess mögulegir að eiga við þá samvinnu um slíkt eða eru þeir ómögulegir til slíkra hluta? Að þessu eigum við að vinna hér í þinginu. Það þarf ekki að taka langan tíma. Ef Alþ. er óstarfhæft, ef hvergi er að finna heildstæðan meiri hl. um neina slíka lausn, þá er ekki um annað að gera auðvitað en skjóta málinu til þjóðarinnar, rjúfa þing og efna til nýrra kosninga. Þrautreynum þetta fyrst. Ef það gengur ekki, þá verður auðvitað að spyrja þjóðina, og þar verður hver að treysta á verk sín að undanförnu.