07.03.1979
Sameinað þing: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3077 í B-deild Alþingistíðinda. (2392)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég var að velta því fyrir mér meðan stóð á flutningi ræðu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, hver væri tilgangurinn með þessum málflutningi öllum saman. Satt að segja var ræða hennar lítt til þess fallin að styðja þá till. sem Sjálfstfl. hefur flutt hér. Þm. var svo elskulegur í lok ræðu sinnar að upplýsa að þetta málþóf, sem hún hafði uppi, var eingöngu gert í þágu hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, svo að hann gæti kannað hvort einhvers staðar væri að finna 32 þm. Ég verð að segja að lágt er orðið risið á þessari miklu till. Sjálfstfl. ef eini tilgangur þriggja stundarfjórðunga ræðu hér er að þjónusta hv. þm. Vilmund Gylfason.

Hins vegar má segja að það er athyglisvert við þessar umr. hér í kvöld, að þingflokkur Alþfl. er nánast víðs fjarri. Lengi fram eftir kvöldi mátti hv. þm. Vilmundur Gylfason eiga það, að hann var sá eini sem enn hafði þol til þess og þor að vera hér í salnum. Lengi kvölds var það einnig athyglisvert, að forusta Sjálfstfl., þess flokks sem flytur þessa blessuðu till., var líka víðs fjarri. En upp ár 10 birtist þó formaður Sjálfstfl. hér í salnum, en formaður þingflokksins, sem loksins hefur sameinast í þessum tillöguflutningi, er enn þá víðs fjarri. Ég vænti þess því, að þegar hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir fer að leita að ríkisstj., sem hún kvartaði mjög undan að væri ekki hér í salnum í kvöld, þá leiti hún einnig að vini sínum, formanni þingflokks Sjálfstfl., Gunnari Thoroddsen. (Gripið fram í: Getur ræðumaður upplýst hvar ríkisstj. er?)

Ríkisstj. er að stjórna landinu. (Gripið fram í: Mikið var. Er það myrkraverk?) Nei, það er ekki myrkraverk. Hins vegar er það mikið og stórt verk að koma þessu landi á réttan kjöl eftir fjögurra ára stjórn hv. þm. Geirs Hallgrímssonar og Matthíasar Á. Mathiessen. Menn geta varla ætlast til þess, að það takist á nokkrum mánuðum, en ég mun koma að því síðar.

Það var annars athyglisvert í ræðu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, að upprifjun á bréfaskriftum hennar og hv. þm. Alberts Guðmundssonar fyrr í vetur hefur greinilega komið mjög við hjartað á hv. þm. og hún hafði um það stór orð og mikil að þetta væri dæmi um hinn opna málflutningi í Sjálfstfl. Það er athyglisvert við þennan opna málflutning, að hann stóð bara í tvo daga. Eftir að hv. þm. Albert Guðmundsson hafði svarað Ragnhildi Helgadóttur upphófst þögnin á nýjan leik. Og hún hefur ekki verið rofin síðan. Það væri fróðlegt ef hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir vildi upplýsa hvers vegna þessi opinskáa og djarfa umræðu, — ég veit nú ekki hvaða lýsingarorð hún notaði yfir þessi orðaskipti hennar og Alberts, — hvers vegna hún hætti allt í einu þegar Albert hafði svarað og nefnt hv. þm. orði með upphafsstaf sem ég ætla ekki að hafa eftir hér í þingsölum, en kunnugir greinilega þekkja mjög vel.

Staðreyndin er sú, að það er einmitt þessi ótti, þessi aumingjaskapur og hugmyndafátækt, — kemur þá ekki formaður þingflokks Sjálfstfl. í salinn? — ég sé að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir er duglegri við smölunina en Vilmundur Gylfason, sem hefur greinilega týnt sjálfum sér í þeim leiðangri sem hann fór í úr þingsalnum fyrr í kvöld, — að þessi till. er það eina sem þingflokkur Sjálfstfl. hefur getað sameinast um til þessa. Við stjórnarsinnar höfðum þá kurteisi að hæla því nokkuð hér í dag og meira að segja í útvarpsumr. í áheyrn alþjóðar, að loksins hefði þó þessari voluðu stjórnarandstöðu tekist að koma sér saman um eitthvað, loksins hefði henni dottið eitthvað í hug sem bæði Gunnar og Geir og Albert, hv. þm. allir saman, að ógleymdri Ragnhildi Helgadóttur, gátu sameinast um. Það var vissulega lofsvert, að loksins skyldi hv. þm. Gunnar Thoroddsen, eftir þær ákúrur sem hann fékk frá þm. Ragnhildi Helgadóttur fyrir lélega stjórn á þingflokknum, takast að sameina þingflokkinn um eina merka tillögu.

En það var greinilegt að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir gat ekki setið undir þessu lofi okkar. (Gripið fram í: Nú er Vilmundur fundinn.) Hann hefur fundið sjálfan sig, en ekki hina. Það var greinilegt að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir gat ekki setið undir þessu lofi okkar um formann þingflokks Sjálfstfl. Hún þurfti endilega að koma hér upp í ræðustólinn og tína þessa einu rós sem hv. formaður þingflokks Sjálfstfl. hefur í hnappagati sínu eftir allan veturinn, tína hana úr hnappagatinu. Ragnhildur Helgadóttir upplýsti að Sjálfstfl. hefði alls ekki dottið þessi till. í hug, það væri hinn mesti misskilningur að Sjálfstfl. væri höfundur að þessari till. Hugmyndin hefði alls ekki fæðst í Sjálfstfl. Hún hefði fæðst hjá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni. (VG: Vestur á Aragötu.) Já, vestur á Aragötu. Það upplýsist margt í þessum umr., það má nú segja. Ragnhildur Helgadóttir hafði um það mörg orð og sór það greinilega af Sjálfstfl., að hann ætti hugmyndina að þessari till., meira að segja útlistaði það sérstaklega, að það eina, sem Sjálfstfl. hefði gert, væri að orða hugmyndir Vilmundar Gylfasonar. Ja, hvílík reisn, hvílík örlög fyrir stærsta stjórnmálaflokk þjóðarinnar, þetta sameiningartákn, þetta ábyrga afl, sem þm. Ragnhildur Helgadóttir talaði um áðan í lok ræðu sinnar, að það eina, sem hann hefur afrekað í sameiningu í vetur, er að orða hugsanir Vilmundar Gylfasonar.

Það er von að það hafi smátt og smátt farið að minnka risið á talsmönnum Sjálfstfl. í þessum umr., en að sama skapi geti Vilmundur Gylfason hrósað happi yfir því, að þegar þingflokkur Alþfl. er hættur að taka við hugmyndum frá honum, þá skuli þingflokkur Sjálfstfl. vera tekinn við.

Nei, staðreyndin er sú, að málflutningur Sjálfstfl. í þessum umr. hefði ekki gefið tilefni til svara. Satt að segja hata röksemdir Sjálfstfl. fyrir þessari till. verið afar ómerkilegar, og mér fannst ræða hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur fara með það litla sem var eftir af þessum málatilbúnaði, þegar hún upplýsti okkur um hvernig þessi till. fæddist: Þegar þeir settust saman, hv. þm. Gunnar Thoroddsen, Geir Hallgrímsson og Albert Guðmundsson og fóru að ritstýra hugsunum Vilmundar Gylfasonar.

Ég hefði ekki staðið hér upp í kvöld vegna málflutnings Sjálfstfl. Það var ekki nokkur þörf á því. Ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hér hljóðs, var sú sama og almennt hefur verið fyrir því, að við þm. stjórnarliðsins höfum kvatt okkur hljóðs hér í vetur. Það hafa verið ræður annarra stjórnarstuðningsmanna. það merkilegasta í þessum umr., eins og oft áður, var ræða hv. þm. Vilmundar Gylfasonar. Hann má vissulega eiga það, að hann var ekki aðeins einn þm. Alþfl. þar til hv. þm. Eiður Guðnason birtist hér í salnum síðla kvölds, heldur er hann sá eini sem hefur í raun og veru megnað að draga okkur óbreytta þm. Alþb. hér upp í ræðustólinn.

Áður en ég kem að þessari merku ræðu Vilmundar Gylfasónar vil ég aðeins fara nokkrum orðum um þær þrjár röksemdir sem Sjálfstfl. hefur haft uppi fyrir þessum tillöguflutningi, því þær hafa í raun og veru ekki verið nema þrjár.

Fyrsta röksemdin hefur verið gamla skattpíningarplatan sem Sjálfstfl. spilaði hér fyrir jól og upp úr áramótum með þeim ósköpum að hv. fyrrv. fjmrh., Matthías Á. Mathiesen, hefur ekki enn tekist að sannfæra þjóðina um þessa miklu herferð okkar til aukinnar skattpíningar, en stendur nú í bullandi vörn fyrir eigin skattalög vegna málflutnings fyrrv. samherja síns, hæstv. forsrh. Við Alþb.-menn og Alþfl.-menn getum tekið okkur frí frá þessari skattaumr. meðan þeir halda áfram á næstu vikum, Matthías Á. Mathiesen og Ólafur Jóhannesson, að bítast um eigin skattalög.

Sú aukning skatta, sem þessi ríkisstj. hefur lagt fyrst og fremst á fyrirtæki, á ýmsa gróðaaðila í þjóðfélaginu og hátekjuhópa, er stríðskostnaður okkar til þess að vinna upp það skaðræði á efnahagskerfinu sem hv. fyrrv. fjmrh. skildi eftir sig, skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann og þá miklu verðbólgu sem hann skildi hér við. Það er satt að segja ótrúlega lítill stríðskostnaður sem við höfum þurft að leggja á þjóðina, vegna þess að við höfum beitt öðrum ráðum í þessu efni. Ef við hefðum ekki beitt öðrum ráðum, þá mundi okkur ekki hafa enst allt kjörtímabilið til þess að láta þjóðina standa straum af þeim skuldum sem þessir herrar skildu eftir sig. Og það er mjög sláandi dæmi sem hæstv. viðskrh. tók hér í dag, fyrr í umr., að sá greiðsluhalli, sem hv. þm. Matthías Á. Mathiesen skildi eftir sig á sínu fyrsta heila ári, mundi jafngilda í dag 30 milljarða halla á fjárl. Menn geta rétt umreiknað það yfir í nýjar skattaálögur, ef ætti að borga það allt upp á fáeinum árum.

Nei, staðreyndin er sú, að þetta tal Sjálfstfl. um skatta er annaðhvort frekar ómerkilegur áróður eða ábending um það, að þegar komið er við budduna hjá hinum efnuðu fyrirtækjum í landinu; þegar komið er við budduna hjá auðstéttinni og þegar komið er við budduna hjá eignamönnunum, þá rennur Sjálfstfl. blóðið til skyldunnar og hann hrópar hátt um að slíkt megi ekki gera. Ég nenni satt að segja ekki að elta ólar við þetta skattatal allt saman, vegna þess að það er meira og minna marklaust. En ef hv. þm. Sjálfstfl. vilja endilega halda þeirri umr. uppi, þá er ég reiðubúinn til að tala um það hér í alla nótt og rökstyðja og ræða fram og aftur þá skattastefnu sem þessi ríkisstj. hefur beitt, tilgang hennar, orsakir og eðli. (Gripið fram í. ) Nei, ég ætta ekki að gera það, vegna þess að það er alger óþarfi. Það þarf ekki að eyða orðum á þann málflutning.

Annað atriðið í málflutningi Sjálfstfl. var um mótun efnahagsstefnunnar. Hún hefur ekki tekið nema tvo mánuði. Það var ljóst þegar í upphafi, að ríkisstj. var mynduð um aðgerðir í fyrstu áföngum í baráttunni gegn verðbólgunni. Það var gert ljóst allri þjóðinni í þeirri starfslýsingu sem ríkisstj. kom sér saman um í upphafi, þannig að allir gátu búist við því, að í upphafi árs 1979 hæfust viðræður milli stjórnarflokkanna um efnahagsstefnuna til næstu tveggja ára. Ég verð að segja eins og er, að mér finnst þær umr. ekki hafa tekið neitt langan tíma. Það er bara óþolinmæði eða e. t. v. vísvitandi áróður að saka ríkisstj. um einhvern drátt í þeim efnum, vegna þess að það hefur ekki enn neitt komið að sök þó að þessi umr. standi innan ríkisstj. Það hefur ekkert enn farið úr skorðum, og sá mikli hávaði sem hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur haft um það, að hér hafi allt farið í rúst 1. mars, að þá hafi mikil holskefla skollið yfir þjóðina, er mesti misskilningur. Þess vegna er bókstaflega ekkert upp á þessa ríkisstj. að klaga þó hún hafi tekið sér þennan tíma. Það er fullkomlega eðlilegt, vegna þess að fyrst þurftu að eiga sér stað viðræður innan ríkisstjórnarflokkanna, og þær fóru fram á einum mánuði, og síðan hefur þessi mánuður verið notaður til samráðs við samtök launafólks í landinu, meira að segja samtök vinnuveitenda líka. Nauðsynlegt var að gefa þeim eðlilegan tíma til þess að móta sínar skoðanir. Ríkisstj. er nú að vinna úr þeim málum og mun í næstu viku, eftir því sem forsrh. hefur boðað, leggja frv. fram.

Það eru engar efnislegar röksemdir og síst af öllu frá þeim mönnum, sem fóru með stjórn landsins hér á s. l. fjórum árum, til þess að telja það tilefni til kosninga að það hafi liðið tveir mánuðir þar sem mótun þessarar efnahagsstefnu hefur haft fullkomlega eðlilegan gang. Ég hélt nú að hv. þm. Geir Hallgrímsson hefði ekki verið það hraðvirkur sem forsrh. í sinni stjórnartíð að hann þyrfti að hrista mjög höfuðið yfir þeim tíma sem í þetta hefur farið. Ég er reiðubúinn að telja hér upp miklu lengri tíma, sem hann hefur tekið sér í ýmiss konar minni háttar embættisverk í sinni tíð heldur en það sem ríkisstj. hefur nú verið að vinna að. Vinnubrögð ríkisstj. varðandi mótun efnahagsstefnunnar eru því ekki neitt tilefni til þess að leggja þessa till, fram.

Þriðja ástæða Sjálfstfl. fyrir því, að það þurfi að efna til kosninga, er að hv. þm. Matthías Bjarnason er orðinn leiður á því að þjóðin fær að vita hvaða skoðanir við þm. ríkisstjórnarliðsins höfum. Hann er orðinn þreyttur á því að Alþingi Íslendinga sé notað til þess að tilkynna þjóðinni hvaða skoðanir þm. ríkisstjórnarliðsins hafa. Hann er orðinn leiður á því, að hér eru komnar upp í landinu hreinskilnislegar og opnar umr. um þjóðmálin, þar sem hver og einn borgari þessa lands veit nánast samdægurs hvað er að gerast í stjórnmálunum og hefur jafngóð tækifæri til þess og forustan í Sjálfstfl. að mynda sér skoðanir um gang mála. M. ö. o.: hv. þm. Matthías Bjarnason er orðinn þreyttur á því lýðræði, á þeirri opnu og lýðræðislegu umr. sem hafist hefur með þessu nýja þingi s. l. haust. Hann er orðinn leiður á þessu. Hann þolir ekki þá nýju lýðræðislegu hætti sem hér hafa verið innleiddir, og hann vill endilega láta kjósa á nýjan leik, svo Sjálfstfl. geti lokað umr. aftur inni í þögn, — þeirri þögn sem tók við þegar Ragnhildur Helgadóttir og Albert Guðmundsson, hv. þm., hættu að skrifast á. (Gripið fram í.) Nei, ég er að reyna að leiða hv. þm. í skilning um það, í hverju opin og lýðræðisleg umr. er fólgin. Hún er ekki fólgin í þeim starfsháttum sem þingflokkur Sjálfstfl. hefur tamið sér á þessu þingi, þ. e. a. s. að loka allan ágreining inni í læstum herbergjum þar sem engin fær að vita um ágreining Gunnars og Geirs, Alberts og Ragnhildar eða annarra þeirra sem sitja í þingflokki Sjálfstfl. (Gripið fram í.) Kannske ekki. Hver veit? Það veit ekki nokkur maður, nema við fengum í kvöld yfirlýsingu frá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur um það, að þau bréfaskipti, sem hún og hv. þm. Albert Guðmundsson áttu hér s. l. haust, væru dæmi um þau nýju vinnubrögð sem hún vildi innleiða í þingflokki Sjálfstfl.

Vissulega getum við deilt um þær skoðanir sem þm. stjórnarliðsins hafa látið frá sér fara hér í vetur. Ég ætla ekki að segja að það hafi allt verið skynsamlegt. Ég ætla ekki að segja, að það hafi allt verið rétt. En það er ekki það sem skiptir höfuðmáli. Það, sem skiptir höfuðmáli, er að menn hafa haft djörfung, hreinskilni og einurð og það traust á þjóðinni til að bera að tilkynna jafnóðum á opinberum vettvangi hvaða skoðanir og hvaða tillögur væru uppi í ríkisstjórnarflokkunum, þannig að nánast öll þjóðin veit um hvað er verið að tala hverju sinni. (Gripið fram í.) Við erum ekki hræddir við eitt eða neitt. Við höfum einmitt haft kraft í okkur til þess að leggja allar okkar tillögur, allar okkar röksemdir fyrir þjóðina jafnóðum. En hvaða skýringar hefur þjóðin fengið á því, hvers vegna hér hefur orðið hvað eftir annað í vetur að fresta umr. og fundum í Alþ. vegna þess að þingflokkur Sjálfstfl. hefur ekki getað komið sér saman? Hvaða fréttir hefur þjóðin fengið af þeirri hatrömmu valdabaráttu sem nú fer fram í Sjálfstfl. vegna hins væntanlega landsfundar? Hún hefur ekki fengið neinar fréttir af því, vegna þess að málflutningur Sjálfstfl. í þessum umr. og fyrr á þessu þingi er fyrst og fremst staðfesting á því, að Sjálfstfl. vill lokað stjórnkerfi. Hann þolir ekki opnar og lýðræðislegar umr. Hann kveinkar sér undan hreinskilnislegum skoðanaskiptum. Hann vill flýja. Hann er orðinn leiður á þeim, eins og hv. þm. Matthías Bjarnason lýsti í þessum umr. (Gripið fram í: Af hverju lokar Alþb. flokksherberginu þegar þar eru flokksfundir? Af hverju er nýjasta frv. trúnaðarmál?) Nýjasta frv. er ekkert trúnaðarmál. Alþb. birti sínar till. jafnóðum og það lagði þær fram (Gripið fram í.) Já, og ég hélt satt að segja að ýmsir yngri þm. Sjálfstfl., eins og hv. þm. Ellert B. Schram og Friðrik Sophusson og aðrir slíkir, hefðu frekar gerst liðsmenn í því að opna þjóðmálaumr. í þessu landi, eins og gert hefur verið í vetur, en að ganga með ýmsum eldri leiðtogum Sjálfstfl. í því að reyna að loka henni á nýjan leik.

Hins vegar er það alveg rétt, að sú harða og grimma orðræða, sem hér hefur verið höfð uppi af stjórnarliðinu í vetur, hefur að ýmsu leyti skapað ýmsa erfiðleika í stjórnarháttum, m. a. vegna þess að menn hafa ekki enn þá fyllilega áttað sig á því, hvernig beri að taka slíku, hvernig beri að laga starfshætti þings og ríkisstj. að þessum nýju umræðuháttum. Ég held að það sé varla tilefni til þess að lasta og gagnrýna það, þegar liðsmenn ríkisstj. lýsa jafnóðum fyrir þjóðinni hvaða skoðanir eru þar uppi.

Í raun og veru finnst mér engin einasta gild röksemd hafa komið fram hjá Sjálfstfl. fyrir því, að nú sé tilefni til nýrra kosninga, tilefni til að flytja þessa till. og greiða um hana atkv. hér á Alþ. Ég held satt að segja að tilgangur þessarar till. hjá Sjálfstfl. sé í raun og veru hinn sami og tilgangur hv. þm. Vilmundar Gylfasonar með till. um þjóðaratkv., þ. e. a. s. fyrst og fremst ákveðin fjölmiðlaæfing, fyrst og fremst ákveðin tilraun til þess að vekja athygli á því, að Sjálfstfl. geti þó loksins sameinast um eitthvað, sem þó hefur hér verið upplýst að er í raun og veru hugmynd Vilmundar Gylfasonar.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason flutti hér fyrr í kvöld að ýmsu leyti mjög athyglisverða ræðu. Þjóðin hefur verið að velta því fyrir sér, hvers vegna órói hefur í vetur verið í hv. þm. Vilmundi Gylfasyni og ýmsum öðrum þm. Alþfl. Nánast frá því að ríkisstj. var mynduð hefur hann og ýmsir félagar hans haft uppi margvíslegar tilraunir til þess að gagnrýna ríkisstj., til að setja henni stólinn fyrir dyrnar, til að hrópa hana út og suður og til að sverta samstarfsflokkana í augum þjóðarinnar. Í þessari ræðu, sem var flutt í kvöld, kom í raun og veru fram skýring á þessari andstöðu, þessum óróleika hv. þm. Vilmundar Gylfasonar gagnvart ríkisstj. Skýringin fólst í ýmsum atriðum sem hann kom með í ræðu sinni og ég ætla að víkja að nokkrum orðum.

Í fyrri hluta ræðu sinnar lýsti hv. þm. mikilli aðdáun á viðreisnarárunum, eins og hann orðaði það. Sú stjórnarstefna, sem þá var við lýði, var greinilega óskadraumur hv. þm. Það var nánast hugnæmt að hlýða á hvernig hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir tók síðan undir þennan lofsöng um viðreisnarárin. Kannske er hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir í þeim hópi Sjálfstfl.-manna sem þm. Vilmundur Gylfason kallaði hér fyrr í kvöld, „huggulega sjálfstæðismenn“, e. t. v. er hv. þm. Albert Guðmundsson einnig í þeim hópi og e. t. v. hv. þm. Gunnar Thoroddsen. Ég óska hv. þm. Vilmundi Gylfasyni góðs gengis ef hann á einhvern tíma eftir að hafa samfélag með þessum þremur ágætu og huggulegu þm. Sjálfstfl.

En hv. þm. Vilmundur Gylfason gleymdi að lýsa því, hvað gerðist á þessum viðreisnarárum, hvaða þróun átti sér þá stað í íslensku þjóðfélagi. Það hefur svo oft verið rifjað upp, að ég ætla ekki að fara um það mörgum orðum hér í kvöld. Ég ætla aðeins að drepa á nokkur meginatriði, vegna þess að það er ein af skýringunum á þeim ágreiningi sem uppi hefur verið milli Alþfl. annars vegar, sérstaklega ákveðinna þm. hans, og þm. Alþb.

Fyrsta megineinkenni viðreisnaráranna var að atvinnuvegir landsmanna sjálfra, sjávarútvegur, fiskiðnaður og almennur iðnaður, voru settir til hliðar. Þróunarstefna atvinnulífsins á Íslandi fólst ekki í þeim atvinnuvegum sem landsmenn höfðu sjálfir forræði yfir og byggðu á innlendum auðlindum. Togaraflotinn var látinn grotna niður. Fiskiðnaðurinn var látinn grotna niður. Og almennum iðnaði í landinu var teflt í þá tvísýnu, sem hann hefur verið í síðan, með inngöngunni í EFTA. Í staðinn hófst hér innreið erlendrar stóriðju, sem talin var framtíðarstefna íslensks efnahagslífs í krafti þeirra röksemda sem þá voru hafðar uppi af viðreisnarráðh., að innan 10 ára væri kjarnorkan orðin svo ódýr að ef við ætluðum að hagnast á vatnsorkunni, þá yrðum við á þeim tíma að hagnýta hana alla í þágu erlendra álverksmiðja.

Grundvallarágreiningur var annars vegar krafa um erlenda stóriðju, erlent fjármagn og erlenda rekstrarhagsmuni sem drifkraft í íslensku efnahagslífi og hins vegar krafan um uppbyggingu atvinnuvega landsmanna sjálfra, uppbyggingu fiskiskipaflotans, uppbyggingu fiskiðnaðar og almenns iðnaðar. Þetta voru grundvallarátökin sem áttu sér stað á viðreisnarárunum.

Annað megineinkenni þessara ára var að þegar þessi atvinnustefna viðreisnarstjórnarinnar hafði fengið að bera ávöxt fram eftir áratugnum, þá hófst hér einhver mesti landflótti sem þekkst hefur í Íslandssögunni frá Ameríkuferðum. Þúsundum saman þurfti íslenskt launafólk að leita sér vinnu á Norðurlöndum og jafnvel í öðrum heimsálfum. Landflótti launafólks og sífelld hnignun innlendra atvinnuvega var sá raunverulegi árangur sem viðreisnartímabilið skildi eftir sig. (Gripið fram í.) Ja, mikil er trú þín kona, liggur mér við að segja, að ætla að kenna blessaðri síldinni um rökrétta afleiðingu þeirrar efnahagsstefnu sem mótuð var af viðreisnarherrunum og rökstudd löngu áður en ljóst var hvað mundi verða um síldina. Það er nefnilega ekki söguleg fölsun, heldur er það bókfast, að meira að segja hæstv. viðskrh. þeirrar ríkisstj. vildi mörgum árum áður en síldarstofninn var í hættu tengja Ísland við Efnahagsbandalag Evrópu, vegna þess að örlög þjóðarinnar ættu ekki að vera önnur en að vera smákæna sem hengdi sig aftan í stóra skútu. Það er velkomið að rifja það allt saman upp.

Staðreyndin er nefnilega sú, að allan þennan áratug börðust Alþb. og Framsfl. gegn þessari stefnu. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, að hann skuli hér koma upp og lýsa aðdáun sinni á þessari stefnu, vegna þess að kjarninn í því efnahagsfrv., sem Alþfl. hefur lagt fram, er einmitt að endurvekja þessa stefnu, að stefna innlendum atvinnuvegum landsmanna í stórfellda hættu og skapa hér slík samdráttareinkenni á vinnumarkaðnum að landflótti launafólks blasir í raun og veru við. Ég vil hæla hv. þm. Vilmundi Gylfasyni fyrir að vera þó sjálfum sér samkvæmur hvað þetta snertir. Það er alveg rétt hjá honum, þó að enginn annar af þm. Alþfl. hafi haft kjark til að orða það, að þetta fræga frv., sem lagt var fram, er einmitt frv. um viðreisnarstefnu, enda hefur leiðarahöfundur Alþýðublaðsins verið svo hreinskilinn fyrir nokkrum dögum að bjóða Framsfl. velkominn í hóp viðreisnarflokkanna, eins og það var orðað, þótt mér finnist nú satt að segja dálítið kaldhæðnislegt fyrir suma þm. Framsfl. að sitja undir því að vera boðnir velkomnir í þennan viðreisnarhóp, enda er það greinilegt samkv. yfirlýsingum sama þm., Vilmundar Gylfasonar, að Framsfl. hefur kunnað illa við sig í þessari viðreisnarvist og þessari viðreisnartrúlofun var slitið eftir hálfan mánuð.

Það er líka alveg rétt skilið hjá hv. þm., að við Alþb. menn munum berjast áfram gegn því að viðreisnarstefnan verði innleidd hér á nýjan leik. Við munum berjast gegn því.

Það er athyglisvert að Alþfl., sem í síðustu kosningum hafði uppi mikil orð og stór um kerfisbreytingu, um nauðsyn þess að hreinsa til, hefur lagt fram efnahagsfrv. og lýst yfir stuðningi við frumvarpsútgáfu frá forsrh. sem felur ekki í sér neina hreinsun í efnahagskerfinu, sem felur ekki í sér neina atlögu við það mikla gróðabákn t. d. í innflutningsversluninni sem kostar þjóðina tugi milljarða í umframeyðslu á ári, felur ekki í sér neina tilraun til þess að takast á við hin öflugu og sterku braskaraöfl í þessu þjóðfélagi, felur ekki í sér neina tilraun til þess að útrýma í reynd þeirri margháttuðu spillingu í efnahagslífinu, sem hér hefur ríkt, með því að hreinsa til í ákveðnum stofnunum og ákveðnum valdastofnunum, þar sem sameiginlegir hagsmunir embættiskerfisins og gróðaaflanna hafa fengið að þróast.

Ég átti satt að segja von á því, að þegar þessi ríkisstj. tók til starfa mundum við fá stuðning frá hv. þm. Alþfl. í því að hreinsa til, í því að takast á við þetta gróðabákn, þessa gífurlegu yfirbyggingu spillingar og gróðasöfnunar sem hefur þróast í þessu þjóðfélagi. En það er greinilegt að áhuginn á þeirri kerfishreinsun virðist vera frekar lítill. Þegar lagt er fram frv., sem ekki snertir þetta vandamál, þá er bara hrópað húrra fyrir því á einum degi í þingflokki Alþfl. og talið að nú þurfi ekki frekar að gera neitt, nú sé komin efnahagsstefna til tveggja ára. Hreinsunina hefði kannske ekki átt að hefja fyrr en 1981?

Staðreyndin er sú, að eitt af því, sem gerir það erfitt að stjórna með Alþfl. í þessari ríkisstj., er sá hugmyndafræðilegi og hagsmunalegi tvískinnungur, sem greinilega þjáir flokkinn um þessar mundir. Í forustu flokksins í dag og í þingmannahópi hans eru áhrifaríkir menn sem í raun og veru aðhyllast ekki jafnaðarstefnu, ef dæma má af öllum þeirra málflutningi. Þeir aðhyllast frekar frjálslynda íhaldsstefnu í öllum efnahagsmálum og eru að nokkru leyti sjálfum sér samkvæmir hvað það snertir að reyna að hafa það sem meginmarkmið í sinni stjórnmálalegu starfsemi að heyja sér fylgi, slíkt frjálslynt íhaldsfylgi frá Sjálfstfl. Þessi afstaða birtist í þeim efnahagstillögum sem lagðar hafa verið fram. Hún birtist í lofsöngnum um viðreisnarárin. Hún birtist í þeim gífurlega fjandsamlegu yfirlýsingum gagnvart verkalýðshreyfingunni sem hér hafa komið fram í dag og komið hafa fram í skrifum frá sumum af þessum mönnum, eins og hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, og ekki nokkur sannur og einlægur sósíaldemókrat mundi láta frá sér fara á Norðurlöndum eða á meginlandi Evrópu. Ég held að það sé ein af tímaskekkjum ættarveldisins á Íslandi, að þessir ágætu menn hafa villst inn í Alþfl. Þeir eiga þar í raun og veru ekki heima, nema það sé tilgangur þeirra og ætlunarverk að breyta Alþfl. í frekar frjálslyndan íhaldsflokk og minnka Sjálfstfl. á þann hátt, taka í raun og veru við hlutverki Sjálfstfl. Kannske tekst þeim það, þótt nýjasta skoðanakönnun sýni að eitthvað miðar nú öfugt í því ætlunarverki.

Og þá er ég einmitt kominn að þessari skoðanakönnun sem hv. þm. Vilmundur Gylfason sagði að hann tæki mark á — og ég geri það líka. Þótt ég hafi ýmsar efasemdir um skoðanakannanir af þessu tagi, þá sýna þær í stórum dráttum meginstrauma. En ég ætla aðeins ef ég má, að biðja hv. þm. að hugsa málið með mér áfram. Hann velti því lítið fyrir sér, hvernig stendur á því að á þremur mánuðum, frá desemberbyrjun og til marsbyrjunar, skuli fylgi Alþfl. samkv. þessari skoðanakönnun hafa minnkað um þriðjung. Fram að desemberbyrjun hélt Alþfl. fylgi sínu frá kosningunum. En hvað gerðist í desember., hvað fór að gerast í desember sem orsakaði þetta mikla fylgishrun Alþfl.? Jú, það er eitt sem stendur upp úr umfram allt annað. Alþfl. lagði fram þetta margfræga frv. um efnahagsmál og síðan þá hefur málflutningur Alþfl. ekki snúist um neitt annað en þetta frv. um efnahagsmál. Frá desember og til marsbyrjunar hefur þetta frv., sem hv. þm. Vilmundur Gylfason ásamt nokkrum öðrum skoðanabræðrum sínum samdi og talaði fyrir á flokksstjórnarfundi Alþfl. og lagði þar fram fyrir sína hönd og annarra vandamanna, verið kjarninn í öllum málflutningi Alþfl. Ef maður ætlar að leita orsaka á því fylgishruni Alþfl. um þriðjung sem virðist birtast í þessari skoðanakönnun, ef maður telur hana marktæka, sem hv. þm. gerði, þá er alveg ljóst að það er fyrst og fremst þessi frumvarpsflutningur sem hefur breyst á þessu tímabili. Það eru hin stóru þáttaskil milli tímabilsins fram að desemberbyrjun og tímabilsins eftir desemberbyrjun, eða m. ö. o.: Það er þetta frv. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar sem hefur kostað Alþfl. tæplega þriðjung af því fylgi sem hann hafði í desember, vegna þess að það er í raun og veru engin önnur meginorsök sem maður getur leitað. Meðan Alþfl. fylgdi ráðleggingum okkar Alþb.-manna um áfangaaðgerðir í efnahagsmálum hélt hann fylgi sinu samkv. skoðanakönnuninni í stórum dráttum. En þegar Alþfl. fór að taka upp hina frjálsu íhaldsstefnu gömlu viðreisnaráranna og klæddi hana í frumvarpsbúning, þá fór hann að tapa fylgi, þá fór hann að hrapa niður á það stig sem hann var á viðreisnarárunum og tapaði, að því er virðist, allri þeirri viðbót sem kom með þessari endurnýjun. Af því að ég vil Alþfl. tiltölulega vel og af því að ég vil þetta ríkisstjórnarsamstarf áfram sem lengst, þá vil ég nú mælast til þess við hv. þm. og aðra þá, sem stóðu að þessu frv., að hugleiða í alvöru hvort það kynni ekki einmitt að vera að það sé þessi frumvarpsflutningur, sú stefna sem þar er boðuð um samdrátt, um atvinnuleysi, um kjaraskerðingu, sem hafi reynst Alþfl. svona dýr, öll þessi upphlaup, allar þessar dagsetningar, allar þessar tillögur, allir þessir svardagar í nafni þessa margfræga frv, hafi gert það að verkum, að þriðjungur af kjósendum Alþfl. segi nei og yfirgefi flokkinn. Og er það ekki eitthvað til að draga lærdóm af, ef hv. þm. vill taka mark á þessari könnun, að sá flokkur sem sagði skýrast og afdráttarlausast nei af stjórnarflokkunum við þessu frv., hann einn heldur sínu og bætir frekar við sig? Er það ekki yfirlýsing um það eða a. m. k. ábending um það, að stuðning við málflutning Alþb. sé frekar að finna meðal þjóðarinnar heldur en við það frv. sem Alþfl. hefur sett fram? Enn er ég nokkurn veginn viss um það, að þegar þjóðin hefur skilið, eins og hún hefur greinilega gert, hvað felst í þessu frv., þá hafnar hún þeim sem það flytja, vegna þess að þjóðin hefur lifað þetta, hún hefur reynt þetta. Hún er ekki skyni skroppin, hv. þm. getur varla ætlað henni það fyrst hann var reiðubúinn að leggja þetta frv. undir þjóðaratkv.

Ég vil vona að þessi könnun, sem hv. þm. lýsti að hann tæki mark á, verði Alþfl. tilefni til þess að hugsa alvarlega sitt ráð. Enn er tími til að breyta um skoðun, enn er tími til að hætta blindum átrúnaði á hagstýringartölur, sem eru ávísun á samdrátt, atvinnuleysi og kjaraskerðingu, og taka upp aftur fyrri þráð samstarfs við okkur Alþb. menn um aðra tillögugerð, um virkt samstarf við samtök launafólks, í stað þessara hörðu orða í garð verkalýðshreyfingarinnar og forustu hennar sem hv. þm. hafði hér uppi.

Ég sagði það áðan, að varla trúi ég að nokkur jafnaðarmaður í löndunum hér í kringum okkur hefði haft uppi þau orð um verkalýðshreyfinguna og um stefnu forseta Alþýðusambands Íslands, hv. þm. Alþfl., Björns Jónssonar, sem hv. þm. Vilmundur Gylfason gerði að umræðuefni hér í þingsölum fyrr í dag, þótt Björn Jónsson hafi ekki getað setið hér á þingi í vetur vegna veikinda. En þetta er ekkert nýtt. Þessi grundvallarágreiningur milli verkalýðsarmsins í Alþfl. og þess sem ég hef kallað Aragötuarmsins í Alþfl. er ekki nýr.

Fyrir nokkrum árum, ég held að það séu tvö ár síðan eða kannske þrjú næsta vor, flutti Björn Jónsson, forseti ASÍ, stefnuræðu 1. maí á Lækjartorgi. Þessi ræða varð hv. þm. Vilmundi Gylfasyni tilefni til þess að skrifa kjallaragrein þar sem hann hafnaði algjörlega þeim boðskap Alþýðusambandsins sem þáv. forseti þess, Björn Jónsson, flutti. Neitunarorðið var: „Alþýðuvöld, nei takk, þá viljum við á Aragötunni fá að halda okkar“. Einmitt þessi neitun á alþýðuvöldum, þessi neitun á hlutverki verkalýðshreyfingarinnar, þessi hatramma árás á verkalýðshreyfinguna í heild sinni, bæði skipulega og stefnulega séð, sem hv. þm. hefur haldið uppi, ekki bara nú í vetur, heldur líka fyrir nokkrum árum þegar hann tók upp þessa baráttu, er í raun og veru staðfesting á því, að sú stefna, sem hann aðhyllist, er íhaldsstefna af evrópskum skóla, en alls ekki sósíaldemókratisk jafnaðarstefna, eins og hún hefur verið framkvæmd í löndunum í kringum okkur. Það er gífurleg gjá, það er ótrúlega stórt bil á milli þess málflutnings, sem forustumenn Alþýðusambandsins ásamt Birni Jónssyni höfðu uppi, og þeirrar ræðu, sem flutt var hér fyrr í kvöld af hv. þm. Vilmundi Gylfasyni. Hann lýsti því stoltur yfir, að það hefði ekki verið málflutningur hans: „samningana í gildi“, nei takk. Hann tók ekki undir með kröfu Alþýðusambands Íslands. Hann tók ekki undir mótmælaverkfall ASÍ og BSRB 1. og 2. mars. Hann gekk til vinnu. Þannig mætti fleira nefna.

Ég held þess vegna að það sé mjög mikilvægt, að þeir menn í Alþfl., sem eru raunverulegir alþýðusinnar, sem vilja alþýðuvöld í góðum og gegnum anda jafnaðarstefnu eins og hún hefur tíðkast best, átti sig á því, að það er verið að gera tilraun af ákveðnum forustumönnum Alþfl. til að breyta Alþfl. úr jafnaðarmannaflokki í frekar frjálslyndan íhaldsflokk, sem heyr sér fylgi í nafni þess að berjast gegn verkalýðshreyfingunni, berjast gegn samvinnuhreyfingunni og berjast yfirleitt gegn þeim meginsamtökum fólksins sem jafnaðarmannaflokkar á Norðurlöndum og í Bretlandi hafa yfirleitt stutt. Ég held — það er a. m. k. mín skoðun — að hv. þm. Vilmundur Gylfason sé að gera þetta vitandi vits. Hann veit ósköp vel hvað hann er að gera. Í hans huga er Alþfl. bara tæki. Hann er bara tæki sem á að nota til þess að knýja fram þessa breytingu, til að draga millistéttarfylgið, sem Sjálfstfl. hefur haft áður, inn í þessar nýju herbúðir og ætla sér svo að nota leifarnar af verkalýðsfylgi Alþfl., leifarnar af verkalýðsforustu Alþfl. til að koma þessu í kring. Um þetta snýst þessi pólitík að mínum dómi. Um þetta snúast öll þessi upphlaup í vetur. Um þetta snýst andstaðan við þessa ríkisstj:, vegna þess að þessi ríkisstj. mun aldrei taka upp þá viðreisnarstefnu sem þessir heiðursmenn vilja fá fram, hún mun aldrei taka upp þá baráttu gegn verkalýðshreyfingunni sem hann hefur nú þegar krafist að ríkisstj. taki upp, og þannig mætti fleiri dæmi nefna. Þess vegna er það ósköp eðlilegt, að það sé dálítið óróasamt í stjórnarherbúðunum. Inni í þeim miðjum eru menn sem eru vitandi vits að afneita þeirri grundvallarstefnu sem vinstri stjórn á Íslandi hlýtur að byggjast á.

Um þetta mætti í sjálfu sér hafa mörg fleiri orð, en ég ætla ekki að gera það hér í kvöld. Ég gat ekki látið það hjá líða þegar Vilmundur Gylfason, hv. 7. þm. Reykv., hafði til þess hreinskilni og djörfung að koma hér og lýsa í einni ræðu í raun og veru kjarnanum í þeirri pólitík sem hann hefur verið að reyna að reka hér í allt haust og er greinilega enn að reyna að reka. Það er hins vegar mikill misskilningur hjá honum, að þessi pólitík sé eitthvað ný. Af því að hann var að tala hér um ýmsa gamla karla, sem sætu hér á þingi, og nefndi til þess menn úr ýmsum flokkum, þá get ég sagt honum það, að þessi pólitík er miklu eldri en þessir menn. Þetta er í raun og veru pólitík íhaldsflokkanna í Evrópu á seinni hluta 19. aldar og ekkert annað. Það er engin ný hugsun í þessum málflutningi sem ekki má finna í málflutningi íhaldsflokkanna í Evrópu á seinni hluta 19. aldar. Þetta er í raun og veru svo stórt spor aftur á bak, að ég held að þjóðin mundi ekki trúa því ef henni væri sagt hve stór spor afturá bak þessi pólitík í raun og veru þýðir. Hins vegar hefur hún verið klædd í tískulegan búning. Hún hefur verið „poppuð upp“, eins og ég sagði hér fyrr í vetur. Hún hefur notað ýmis sniðug tæki, eins og prófkjörin og ýmislegt annað, fjölmiðlana síðast, en ekki síst til að koma þessu áfram.

Það er kannske mælikvarði á það, hve snjall pólitíkus hv. 7. þm. Reykv. í raun og veru er, að hann skuli þó hafa komist þetta langt áleiðis með þessa tilraun sína. En það skal hann vita, að við í Alþb. munum standa traust og fast gegn því, að þessari stjórn verði breytt í „viðreisnarstjórn“. Við munum standa traust og fast gegn því, að fjandskapur við verkalýðshreyfinguna verði grundvallarregla í starfsháttum þessarar ríkisstj. Við munum standa fast og traust gegn því, að þessi ríkisstj. verði tæki til þess að koma í veg fyrir alþýðuvöld, vegna þess að við höfum ætlað þessari ríkisstj. að þoka þjóðinni eitthvað áleiðis að þeim alþýðuvöldum sem forseti Alþýðusambandsins, Björn Jónsson, talaði um 1. maí fyrir nokkrum árum og hv, núv. þm. Vilmundur Gylfason afneitaði síðan í blaðagrein nokkrum dögum síðar.

Það er hins vegar von mín, að ýmsir aðrir þm. Alþfl., sem ég veit að eru ekki fylgjandi þessari stefnu, taki á næstu dögum höndum saman með okkur öðrum þm. ríkisstjórnarflokkanna og komi í höfn efnahagsfrv. því sem ríkisstj. hefur unnið að, — komi í höfn frv. sem felur í sér kjarastefnu sem er í samræmi við hagsmuni launafólks, — frv. sem felur í sér atvinnustefnu sem í senn heldur áfram endurreisn íslensks atvinnulífs og skapar grundvöllinn fyrir raunverulegar lífskjarabætur og felur í sér stefnu sem þokar okkur áfram í því verki að rífa niður þá yfirbyggingu gróðaafla og spillingar, þau braskbákn sem þróast hefur í þessu landi. Um þetta snúast till. okkar Alþb.-manna. Um þetta snúast umr. innan ríkisstj. Ég vona, að þm. Alþfl. beri gæfu til þess að skilja það, þó ekki væri nema vegna þeirrar skoðanakönnunar sem ég og hv. þm. Vilmundur Gylfason höfum gert að umræðuefni hér í kvöld, að á meðan Alþfl. stóð með okkur hinum í ríkisstjórnarliðinu að þessu verki og hafði í heiðri þessarar grundvallarreglur, þá hélt Alþfl. sínu trausta fylgi, en við að „viðreisnarfáninn“ var dreginn að hún, eftir að hv. þm. Vilmundur Gylfason hafði náð fram þeirri ætlun sinni að fá „viðreisnarfrv.“ samþ. á flokksstjórnarfundi Alþfl. fór Alþfl. að tapa. Þjóðin hefur þegar kveðið upp sinn dóm, ef marka má þessa könnun, dóm yfir þessu frumvarpsævintýri. Nú vona ég að hv. þm. Alþfl. dragi á næstu dögum lærdóm af þessum dómi og hugleiði að sú stefna, sem er farsælust fyrir raunverulegan Alþfl., er ekki gamaldags frjálslynd íhaldsstefna frá 19. öld, heldur sú stefna alþýðuvalda sem forseti Alþýðusambandsins, Björn Jónsson, mælti fyrir 1. maí fyrir tveim árum.