07.03.1979
Sameinað þing: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3094 í B-deild Alþingistíðinda. (2394)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Mönnum hefur orðið nokkuð tíðrætt um skoðanakönnun sem birt var í dag, og það er rétt, að samkv. henni er hlutur Alþfl. nokkru minni en áður var. En það breytir ekki því, að við erum í engu hræddir við að leggja mál í dóm kjósenda. Við erum þar hvergi hræddir hjörs í þrá. Við stöndum á því sem við sögðum fyrir kosningar. Við stöndum á því að berjast gegn verðbólgunni, að ná verðbólgunni niður. En það hefur á stundum verið erfið staða í þessari þríhöfða ríkisstj.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson notaði mjög áðan orðin „traust og fast“. Það sem Alþb. hefur helst gert í þessari ríkisstj. er kannske að standa traust og fast gegn því að eitthvað af viti væri gert til að ráða niðurlögum verðbólgunnar. Þannig hefur Alþb. staðið. En hvar hefur Sjálfstfl. staðið? Hann hefur staðið utan við, hann hefur staðið fyrir sunnan sól og austan mána, eins og þeir, sem fylgjast með stjórnmálaumr., gera sér mætavel grein fyrir og málflutningur þeirra í kvöld ber raunar vitni um. Við erum ekki hræddir við að leggja mál í dóm kjósenda, þegar það er tímabært.

Þessi till., sem hér er til umr., segir auðvitað meira um þá, sem hana flytja, en þá, sem henni virðist helst beint gegn. Maður skyldi ætla að hjá flokki, sem áður fyrr var sterkur, hafði sterka forustu, fylgdi hugur máli þegar fjallað er um jafnalvarlegt mál og mikilsvert og till. um þingrof og nýjar kosningar hlýtur að vera. En það er nú aldeilis eitthvað annað. Það er til marks um málafylgjuna og af hve miklum þunga stjórnarandstaðan fylgir þessu máli eftir, að lengi kvölds í gærkvöld var það svo hér, að ekki einn einasti þm. Sjálfstfl. var á þessari hæð þinghússins og ræðumenn flokksins voru fljótir héðan úr salnum um leið og þeir höfðu lokið máli sínu. Og það leynir sér ekki, að það á að fylgja þessu eftir af þeirri hörku og þeirri markvissu einbeitni sem Sjálfstfl. hefur verið svo lagin í þessari stjórnarandstöðu, og væntanlega verða örlög þessarar till. líka í samræmi við það. Það fer auðvitað ekkert á milli mála, að hér er verið að berja í brestina og loksins er fundið eitt mál sem þingflokkur Sjálfstfl. gat sameinast um, till. um þingrof og nýjar kosningar til að hylja þverbrestina sem nú eru að líða þennan landsins stærsta flokk í sundur — flokkinn þar sem heimilisbölið er að verða þyngra en tárum taki að mati margra flokksmanna.

Ég get verið heldur fáorður um afstöðu mína til þessarar till. Ég mun greiða atkv. gegn henni, vegna þess að með því greiði ég atkv. gegn því að hér taki við tímabil stjórnleysis sem enginn veit hversu langt yrði, þar sem verðbólgan mundi æða áfram óheft. Líklega er það það sem Sjálfstfl. vill. Það má vel vera að komi til þess fljótlega að gengið verði til nýrra kosninga, en það verður þá líka að vera fullreynt að hér sé ekki meiri hl. fyrir aðgerðum til frambúðar í baráttunni við verðbólguna, fyrir efnahagsaðgerðum til lengri tíma en horft hefur verið að undanförnu. Það verður og hlýtur að verða að fullreyna áður en þing er rofið og efnt til nýrra kosninga. Þessi till. er þess vegna í senn bæði ótímabær, óhugsuð og hin ógæfulegasta í alla staði. En því er ekki að neita. að það hefur reynt á þolrifin hjá þeim sem styðja þessa stjórn, og þar er nú áreiðanlega að flestra dómi að verða fullreynt og skammt í það að til úrslita dragi á annan hvorn veginn, því auðvitað sjá allir að svona getur ekki gengið miklu lengur.

Það hefur skapast samstaða með Alþfl. og Framsfl. um ýmis veigamikil atriði efnahagsaðgerða til að draga úr verðbólgu og stuðla að framförum í þjóðarbúskapnum, eins og það hefur verið kallað. En Alþb. er samt við sig og við sama heygarðshornið og heykist á því að taka ákvarðanir sem gætu hugsanlega bakað einhverjar óvinsældir. Það virðist í eðli þess flokks að þora ekki að taka ákvarðanir, heldur á að halda áfram endalausu þvargi, endalausum samningum fram og til baka um þessi sömu mál aftur og aftur þangað til þeim kynni að þóknast að hætta.

Það var talað áðan um hina frjálsu og opnu umr. Það gerði hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Hv. þm. Ellert B. Schram vék að því líka. Það er staðreynd að síðustu till. Alþb. í efnahagsmálum höfum t. d. við þm. Alþfl. ekki séð. Þær eru trúnaðarmál. Það getur vel verið að það liggi einhverjar ástæður því til grundvallar, en þá eiga menn líka að haga orðum sínum á annan veg en hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gerði áðan. Það er nefnilega svo, að það samrýmist ekki stefnuskrá Alþb. að takast á við erfiðleika. Þess vegna hefur ferill þessarar ríkisstj. verið eins og raun ber vitni. Þessu verða menn, held ég, að gera sér grein fyrir, að það samrýmist ekki stefnuskrá Alþb. að vera í stjórn þegar við erfiðleika er að etja.

En nú hlýtur að vera komið að lokaprófi þessarar ríkisstj., það er a. m. k. mín skoðun. Í því sambandi er kannske ástæða til þess að rifja upp ummæli hæstv. forsrh. frá því í umr. í Sþ. utan dagskrár 14. febr. Þá sagði hæstv. forsrh. orðrétt, með leyfi forseta, þegar hann ræddi um margnefnt frv. um stjórn efnahagsmála:

„Afstaðan til þess máls og frv. gæti orðið nokkur prófsteinn á það, hvað menn meina með þessu tali, og það er kannske kominn tími til að láta á það reyna, hver alvara býr að baki öllu talinu um skaðsemi verðbólgu og nauðsyn þess að draga úr henni.“

Og hæstv. forsrh. lét ekki þar við sitja. Hann ítrekaði þessi ummæli sín þegar næsta dag er hann sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Eins og ég held að ég hafi sagt í gær tel ég að viðbrögð þings og þjóðar við þessum till. verði nokkur prófsteinn á það, hvað menn meina og hafa meint að undanförnu þegar þeir hafa verið að tala um þá geigvænlegu hættu sem stafi af verðbólgu og hvílík nauðsyn væri að hamla gegn verðbólgu og gera það í áföngum. Vonandi á það ekki eftir að koma á daginn að slík ummæli hafi verið aðeins þægilegt efni í framboðsræður eða greinar, heldur hitt, að mönnum hafi verið alvara, að menn hafi skilið að áframhaldandi óðaverðbólga hlýtur að bjóða á sínum tíma heim atvinnuleysi hér á landi.“

Hv. þm. Ellert B. Schram sagði áðan: Við sjálfstæðismenn viljum stuðla að því að ráða niðurlögum verðbólgunnar. — Og hann sagði líka: Það er margt gott í frv. forsrh. — Nú hefur hæstv. forsrh. sagt að hann muni leggja fram frv. í næstu viku, og þá reynir á það hvort sjálfstæðismenn vilja standa við þessi orð eða hvort það fer eins og venjulega með sjálfstæðismenn, að flokkurinn tvístrast út og suður — og kannske norður og niður í þessu tilviki. (Gripið fram í: Ellert var að tala um frv. nr. 6, en ekki 9.) Hann var að tala um frv. forsrh. (Gripið fram í: Já, þetta er nr. 6, en ekki 9.) Já, já, þið getið deilt um númerin. Það er ykkar mál.

Við Alþfl.-menn höfum fyrir löngu sagt það, að við erum tilbúnir til að standa að aðgerðum til að ráða niðurlögum verðbólgunnar. Framsóknarmenn eru tilbúnir til þess líka, að því er virðist. Nú er bara spurningin, hvort hinir lausgyrtu Alþb.-menn ná upp um sig áður en það verður um seinan. Ef þetta frv. kemur fram í næstu viku og verður eins bitastætt og við vonum, þá verður úr því skorið hverjir meintu það sem þeir sögðu í vor og hverjir fóru þar með glamur eitt og hvort það sannast þá einu sinni enn, að það er ekkert gagn í Sjálfstfl. til slíkra hluta, og hvort það sannast þá líka, að í Alþb. er enginn bakfiskur. Um bakfiskinn í Sjálfstfl. þarf ekki að tala, það er fyrir löngu búið að bíta hann úr þeim flokki. Og þá fæst úr því skorið, hvort það er rétt, að með Alþb. sé ekki hægt að vinna þegar við erfiðleika er að glíma, vegna þess að það geti ekki, vilji ekki og þori ekki, hvort hinn pólitíski heigulsháttur verður þar ofan á enn einu sinni og tækifærismennskan heldur áfram að ríða þar húsum.

Menn vitnuðu óspart í Grím Thomsen í dag og ég beið nú eiginlega eftir því að einhver færi með síðustu línuna úr því kvæði um Glæsivallahirðina sem mest var vitnað til: „kalinn á hjarta þaðan slapp ég“, en það gerðist ekki. En Grímur Thomsen orti margt gott. Hann orti m. a. vísu sem hér ætti kannske ekki illa við og hljóðar svo:

Trúa þeir hvor öðrum illa,

enda trúðu fáir báðum.

Orðunum þeir ávallt stilla,

yfir köldum búa ráðum.

Tækifæris báðir bíða,

búnir ofan hinn að ríða.