08.03.1979
Sameinað þing: 64. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3106 í B-deild Alþingistíðinda. (2399)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Á fundi í þingflokki Alþfl., sem haldinn var núna áðan, var eftirfarandi samþykkt gerð:

„Með vísan til samþykktar þingflokksins þann 6. þ. m. og yfirlýsingar formanns Alþfl. í útvarpsumr. s. l. þriðjudagskvöld ítrekar þingflokkur Alþfl. það álit, að ríkisstj. verði í þessari viku að leiða til lykta umr. um flutning stjfrv. um aðgerðir í efnahagsmálum. Takist það ekki telur þingflokkurinn að frekara málþóf í ríkisstj. sé tilgangslaust. Þingflokkur Alþfl. mun þá færa umr. um málið af vettvangi ríkisstj. og inn á Alþ. með flutningi frv. um efnahagsmál.

Þingrof nú ásamt óhjákvæmilegum kosningaundirbúningi og e. t. v. löngum eftirleik kosninga án starfhæfrar meirihlutastjórnar gæti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir þróun efnahagsmála, og að knýja fram slíkt ástand án þess að hafa áður látið á það reyna, hvort samstaða er fáanleg á Alþ., væri ábyrgðarlaust athæfi. Þá fyrst þegar staðfest hefði verið, að engin slík samvinna um úrræði í efnahagsmálum væri fáanleg, og ljóst væri, að enginn starfhæfur meiri hl. væri til á Alþ., væri tímabært og rétt að rjúfa þing og kjósa upp á nýtt.

Því samþykkir þingflokkur Alþfl. að greiða nú atkv. gegn till. Sjálfstfl. um þingrof og nýjar kosningar, en lýsir því jafnframt yfir, að þingflokkurinn mun beita sér fyrir slíku úrræði fari allar samkomulagstilraunir út um þúfur, þannig að þjóðin geti á komandi vori kjörið sér nýja forustu.“

Með vísan til þessarar samþykktar þingflokks Alþfl. frá því í dag segi ég nei.