08.03.1979
Efri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3108 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

194. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Flm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í hefðbundið dragnótaþras, nóg er um málalengingar á hv. Alþ. samt. Reynsla mín er nefnilega sú, að þeir, sem á annað borð eru bólusettir fyrir þessu veiðarfæri, segja hlutina lygi, jafnvel þó að þeir séu ljósmyndaðir.

Kunnugir viðurkenna að með engu móti er hægt að beita dragnót á nema innan við 10% af Faxaflóa vegna botnlags. 90% eru því af sjálfu sér friðuð frá náttúrunnar hendi hvað þetta veiðarfæri varðar. Ef af opnun verður tel ég eðlilegt og sjálfsagt að farið yrði eftir þeim till. sem fiskveiðilaganefnd gerði á sínum tíma varðandi svæði í bugtinni, þ. e. að dragnótaveiðar yrðu bannaðar frá línu sem hugsast dregin úr Hólmbergsvita í bauju nr. 6 — hún er fram undan Akranesi eða út við hraunkantinn þar — og þaðan í Kirkjubólsvita. Enn fremur væri dregin lína úr Þormóðsskeri í Göltinn. Þar með yrði lokað fyrir öll þau svæði sem smáýsa heldur sig alljafna á, Strandaleir og Innbugtina, enn fremur fyrir Hafursfjörðinn, þar sem yfirleitt er eingöngu smákoli.

Ég er sammála hv. þm. Geir Gunnarssyni um að sjálfsagt er að setja hámark fyrir alla dragnótabáta um hvað mætti vera af öðrum fiski en kola, og þau mörk gætu verið um 20–25%. Ég vil einnig ítreka að hér er verið að tala um dragnót með 170 mm möskva, sem er allt annað en sú nót sem áður tíðkaðist, sem yfirleitt var með 110–120 mm möskva. Þá tel ég að skipuleggja ætti veiðarnar miðað við nýtingu á tveimur kolaflökunarvélum. Hæfilegt fyrir hvora vél er um 45–50 tonn á viku. Aðalsteinn Sigurðsson forstöðumaður flatfiskadeildar Hafrannsóknastofnunarinnar telur hæfilegt að taka um 1900 tonn af skarkola á Faxaflóasvæðinu, þ. e. 1400–1500 tonn úr Faxaflóanum sjálfum og svona 400–500 tonn af Hafnaleir og því svæði. Með því móti að taka það sem þeir telja hæfilegt yrði þetta um 20 vikna úthald. Mér sýnist að þá væri hæfilegt að 6 bátar stunduðu veiðarnar í senn, og vel kæmi til mála að skipta tímanum í tvennt, þannig að 12 bátar nytu þessara veiða. Mér er kunnugt um að í vor verður komin kolaflökunarvél í Ísbjörninn í Reykjavík og ein er þegar í Njarðvíkunum í hraðfrystihúsi Sjöstjörnunnar.

Fyrr í þessum umr. hlakkaði hv. þm. Bragi Níelsson yfir því, að hafin væri undirskriftasöfnun móti dragnót á einhverri bensínstöð hér í Reykjavík. Þar þóttist hv. þm. hafa fengið bandamenn sem mark væri takandi á. En það er svona og svona með undirskriftir. Mér þykir trúlegt að vandalaust væri að fá undirskriftir á hverri bensínstöð hér í Reykjavík undir það, að hómopatar mættu opna lækningastofur rétt eins o þeir „kollegar“, hv. þm. Bragi Níelsson og Oddur Ólafsson.

En að lokum: Ef við hefðum hér sjúkling mundum við láta þá hv. þm. Braga Níelsson og Odd Ólafsson líta á sjúklinginn og meðhöndla hann samkv. þeirra ráðum. Ég legg til að það mál, sem við höfum hér til meðferðar, fiskveiðar, látum við í úrskurð fiskifræðinga og veiðarfærafræðinga.