08.03.1979
Efri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3116 í B-deild Alþingistíðinda. (2415)

198. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Eyjólfur K. Jónsson:

Það er aðeins örstutt aths. til þess að andmæla þeirri skoðun hæstv. félmrh., að verkalýðsfélög séu sterkust á Norðurlöndum. Ég held að þau séu ekki sterk þar. Ég held að þar sé nákvæmlega það að gerast sem hér er nú að gerast, að þar séu litlar klíkur jafnaðarmanna í samvinnu við ráðandi öfl í þjóðfélaginu venjulega, ef við tökum t. d. Svíþjóð. Það er líka náið samband á milli Wallenbergkapítalistanna og jafnaðarmannanna þar og svo fámennra hópa sem telja sig verkalýðsleiðtoga.

Ég held að verkalýðsfélög á Norðurlöndum séu ekki tiltakanlega sterk, enda bendir þróunin, sem þar hefur verið að gerast, til þess að vandræði þessara þjóða séu kannske að verða miklu meiri en menn höfðu búist við fyrir nokkrum árum, einmitt vegna ýmiss konar vitlausrar löggjafar. Verkalýðsfélög eru án efa langsterkust í ríkjum eins og t. d. Bandaríkjunum og Vestur-Þýskalandi. Þar eru þau gífurlega sterk. Sumum finnst nóg um. Þau eru líka það fjárhagslega sterk þar, að þau geta haldið úti verkföllum mánuðum saman ef þeim sýnist, án þess að það komi mikið við verklýðsforingja. Að vísu er mikið um verkföll í Vestur-Þýskalandi sérstaklega, en alvarleg verkföll hafa oft orðið í Bandaríkjunum. Þar eru verkalýðsfélög gífurlega sterk.

Að sumu leyti er það kannske ískyggilegt, hvort heldur eru vinnuveitendur eða verkalýðsfélög, að samtök hafi allt of mikið fjármagn undir höndum. Það verður auðvitað að vera þarna ákveðið jafnvægi á milli, og ég held að best færi á því, bæði fyrir launþega og þjóðarheildina, að nokkurt jafnræði væri á milli vinnuveitendasamtaka og launþegasamtaka. En það, sem ég aðeins vildi hér vara við, var að menn gengju of langt í því að grípa fram fyrir hendur þessara frjálsu samtaka, nema í þeim neyðartilfellum þegar þau ná ekki saman sjálf, ef t. d. vinnuveitendur neituðu alfarið styttingu vinnutíma í samningum. Nú hafa engar samningaumleitanir farið fram í háa herrans tíð, eins og menn vita. Segjum að vinnuveitendur neituðu alfarið að semja um vinnutíma og segðu: Við ætlum bara að láta verkalýðinn vinna, hann er ekkert of góður til að vinna 60–80 tíma, eins og hér var áður. — Auðvitað á þá löggjafinn að grípa inn í í slíkum tilfellum. En fyrst á að reyna á frjálsa samninga, ekki síst vegna mikilvægis verkalýðssamtakanna.

En ég skal ekki lengja þessar umr.