08.03.1979
Efri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3116 í B-deild Alþingistíðinda. (2416)

198. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv. og alveg sérstaklega þá hugmynd sem að baki því felst að stytta vinnutíma. Ég tel að bæði yfirvinna og næturvinna sé eitt af því sem eigi að forðast eftir föngum, þó ég viti vel að hér séu atvinnuvegir að sumu leyti þannig að ekki sé alfarið hægt að leggja slíka vinnu niður. Í mínum huga eru það sjálfsögð mannréttindi, sem koma skulu, að engir þurfi að vinna fyrir sínu daglegu brauði lengur en um 8 stundir á dag og að kaup sé það hátt að slík vinna nægi fólki til framfæris.

Ég tel að þetta frv. stuðli að því að við förum inn á það kerfi sem mest, að hér sé vinnudagur stuttur, og vonandi komi á eftir því, að hér séu vinnulaun há, eins og ég tel að þau eigi að vera. Eins og hv. þingdeild er kannske kunnugt um flutti ég í vetur till. um það í Sþ., að breyting yrði á fyrirkomulagi vinnunnar í þá veru að það væri tekið mið af því að engir hefðu hærri laun hér á landi en eins og í hæsta lagi þreföld laun verkamanns sem vinnur 8 stundir. Þetta var hugsað í þá átt náttúrlega, að báðir aðilar drægju hvor annan upp, eða öllu heldur að hátekjumaðurinn drægi láglaunamanninn upp og að stefnt yrði að því með þessu kerfi að verkamannalaun, hin daglegu laun 8 stunda vinnudagsins, yrðu mun hærri en nú er, en að forðast yrði yfirvinnu í hvaða mynd sem væri, sem nú er ýmist kölluð eftirvinna eða næturvinna.

Ég endurtek það, að ég er eindreginn stuðningsmaður þessa frv. og ég efast um að það sé rétt hjá hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni, að við þurfum, þó að ýmsir gallar séu á verkalýðshreyfingunni hér á landi og stjórn hennar, að leita til Bandaríkjanna eftir sérstaklega mikilli forsjá eða skynsamlegri fyrirmynd þar. (EKJ: Það sagði ég ekki.)